Skipulag velferðarráðuneytisins

Skrifstofur velferðarráðuneytisins eru sex, auk skrifstofu ráðuneytisstjóra; skrifstofa félagsþjónustu, skrifstofa gæða- og forvarna, skrifstofa hagmála og fjárlaga, skrifstofa heilbrigðisþjónustu, skrifstofa lífskjara og vinnumála og skrifstofa rekstrar og innri þjónustu.

Fagsvið ráðuneytisins eiga að sjá til þess að ávallt sé unnið faglega að undirbúningi mála og að þekking starfsmanna sé nýtt og henni viðhaldið. Stoðsvið ráðuneytisins eiga að sjá til þess að ávallt séu til staðar stjórnunar- og fjárhagslegar upplýsingar til undirbúnings og stuðnings við ákvarðanatöku hjá ráðuneytinu og stofnunum þess eftir því sem við á.

Markmiðið með þessu stjórnskipulagi er að treysta stefnumótun og samræma aðgerðir og vinnubrögð við framkvæmd stefnu ráðuneytisins og ráðherra. Jafnframt felur stjórnskipulagið í sér eflingu á innri starfsemi ráðuneytisins með áherslu á markvissa stjórnun.

 

Skrifstofa ráðuneytisstjóra

Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra. Helstu verkefni sem sinnt er á skrifstofu ráðuneytisstjóra eru stefnumótun og þróun, samhæfing verkefna, almannatengsl og alþjóðasamstarf.

Skrifstofa félagsþjónustu

Skrifstofan annast verkefni sem varða húsnæðismál, barnavernd, málefni aldraðra, málefni fatlaðs fólks, málefni innflytjenda, félagsþjónustu sveitarfélaga, jafnréttismál og öryggi, gæði og eftirlit með félagsþjónustu. 

Skrifstofa gæða og forvarna

Skrifstofan annast verkefni sem varða öryggi, gæði, þjónustuviðmið, lýðheilsu og forvarnir, þar með taldar sóttvarnir og geislavarnir. Einnig eru á hennar sviði eftirlit með heilbrigðisþjónustu, lífvísindi, sjúkraskrár og gagnasöfn í heilbrigðisþjónustu, lækningatæki, lyf, ávana- og fíkniefni, starfsréttindi í heilbrigðisþjónustu, þekkingarþróun og vísindarannsóknir.

Skrifstofa hagmála og fjárlaga

Skrifstofa hagmála og fjárlaga undirbyggir stefnumarkandi ákvarðanir velferðarráðherra með hagtölum og greiningu og hefur heildarsýn yfir fjárreiður stofnana, tryggingarliða og annarra viðfangsefna sem undir ráðuneytið heyra. Þá leggur skrifstofan mat á hagkvæmni verkefna og þann kostnað sem kann að hljótast af lagafrumvörpum á ríkissjóð. Í þessu felst m.a. uppbygging, greining og úrvinnsla gagna, ábyrgð á gerð fjárlaga og rekstrar- og framkvæmdaáætlana og eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Þá hefur skrifstofan umsjón með kostnaðarþátttöku notenda í velferðarþjónustu og gerð samninga um þjónustukaup.

Skrifstofa heilbrigðisþjónustu

Skrifstofan annast verkefni sem varða skipulag heilbrigðisþjónustu, sérhæfingu og verkaskiptingu þjónustuaðila. Einnig eru á hennar sviði sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, heilsugæsla, heilbrigðisþjónusta utan stofnana, hjúkrunar- og dvalarheimili, læknisfræðileg endurhæfing, réttindi sjúklinga og sjúkratryggingar.

Skrifstofa lífskjara og vinnumála

Skrifstofan annast verkefni sem varða afkomu einstaklinga, þ.e. lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi. Einnig eru á hennar sviði ráðgjöf og úrræði vegna fjármála heimilanna, málefni leigumarkaða, félagsleg aðstoð, vinnumál, virkni á vinnumarkaði og vinnuvernd.

Skrifstofa rekstrar og innri þjónustu

Skrifstofan annast fjármál ráðuneytisins og innri starfsemi þess, svo sem launavinnslu, upplýsingatækni, skjala og upplýsingastjórnun, auk þess að hafa umsjón með húsnæði ráðuneytisins, mannauðsmálum og innri gæðamálum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn