Hoppa yfir valmynd

Viðskipti

Öflug viðskipti við útlönd og kraftmikið efnahagslíf er undirstaða velferðar á Íslandi. Á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins er unnið að því að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara, íslenskra fyrirtækja og neytenda með því að tryggja þeim aðgang að alþjóðamörkuðum og efla fríverslun.

Sendiráð Íslands í Osló sinnir viðskiptaþjónustu, ferðamálum og menningarkynningu, en m.a. veitir sendiráðið íslenskum fyrirtækjum í Noregi og í öðrum umdæmislöndum sendiráðsins aðstoð í samstarfi með Íslandsstofu, Viðskiptaráði, Fjárfestingastofu og öðrum hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunasamtökum í því augnamiði að stilla saman strengi allra þeirra sem starfa að viðskiptum, ferðamálum og menningarkynningu á erlendri grund.

Frekari upplýsingar má finna á vef viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda og miðar að því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með því að efla markaðssókn Íslendinga erlendis. Íslandsstofa aðstoðar íslensk fyrirtæki og einstaklinga sem huga að útflutningi og býður m.a. upp á fræðslufundi og námskeið sem efla samkeppnisfærni íslenskra fyrirtækja og skýra innviði erlendra markaða. Jafnframt er íslenskum fyrirtækjum boðið uppá faglega aðstoð við sölu á vörum, þjónustu og þekkingu á erlendum mörkuðum í samstarfi við sendiráðin sem styður við kynningu á íslenskri menningu ytra.

Mörg íslensk fyrirtæki hafa undanfarið sótt til Noregs. Viðskiptaumhverfið er svipað og á Íslandi og Noregur er góður stökkpallur út í Evrópu.

Viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Osló er Eva Mjöll Júlíusdóttir, [email protected]

Norsk-íslenska viðskiptaráðið (NIH)  hefur það að markmiði að efla og viðhalda traustum viðskiptatengslum milli Noregs og Íslands.

Viðskiptaráðið er góður vettvangur fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að styrkja tengslanet sitt en ráðið stendur fyrir fundum og ráðstefnum um málefni sem tengjast viðskiptum milli Íslands og Noregs.

Með því að gerast meðlimur í ráðinu er hægt að fá greiðan aðgang að hópi íslenskra fyrirtækja sum með langa reynslu af viðskiptum í Noregi auk þess sem ráðið getur aðstoðað við uppsetningu funda og skipulagningu heimsókna milli landanna.

Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Ísland flutti út vörur til Noregs að verðmæti tæplega 26 milljörðum ISK árið 2020, en Noregur er í sjöunda sæti yfir helstu útflutningsmarkaði Íslands. Helstu útflutningsvörur Íslands til Noregs eru sjávarafurðir, sem telja yfirleitt um 70% af heildarútflutningi hvers árs. Má það meðal annars rekja til eftirspurnar eftir fiskimjöli sem notað er í miklum mæli við laxeldi. Frá Noregi er það helst jarðeldsneyti sem flutt er til Íslands.

Hægt er að nálgast nákvæmt talnaefni yfir útflutning á heimasíðu Hagstofu Íslands

Undanfarin ár hefur töluvert af íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi, byggingariðnaði og samgöngumannvirkjum, verkfræðingar, arkitektar og hönnuðir sótt á norska markaðinn með góðum árangri. Mörg fyrirtækjanna hafa opnað útibú í Noregi ellegar gert samstarfssamning við norsk fyrirtæki. 

 
Sendiráð Íslands í Osló og sendiráð Noregs í Reykjavík hafa í samvinnu gefið út viðskiptahandbók á ensku, Doing business between Iceland & Norway, með gagnlegum upplýsingum fyrir alla sem hyggjast stunda viðskipti á Íslandi eða í Noregi.
 

Eitt af hlutverkum sendiráðs Íslands í Osló er að efla enn frekar viðskiptatengsl Íslands og Noregs og veitir sendiráðið í því skyni viðskiptaþjónustu til fyrirtækja og annarra sem vilja sækja á norskan markað, og/eða á markaði í öðrum umdæmislöndum sendiráðsins. Til að gera þetta mikilvæga hlutverk markvissara en einnig sýnilegra var ákveðið að ráðast í gerð heildstæðrar viðskiptaáætlunar sendiráðsins – sem hér lítur dagsins ljós. Viðskiptaáætlunin myndar ramma utan um verkefni sendiskrifstofunnar á viðskiptasviðinu – áætlunin er lifandi skjal sem verður endurskoðuð og uppfærð með reglubundnu millibili. Viðskiptaáætlunin byggist á áherslum í utanríkisviðskiptastefnu Íslands og áhersluflokkum framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning sem unnin var af Íslandsstofu og kynnt í lok árs 2019. Meginmarkmið viðskiptaáætlunarinnar er að bera kennsl á hvar og hvernig sendiráðið getur lagt af mörkum við framkvæmd framtíðstefnunnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum