Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 397/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 397/2016

Miðvikudaginn 18. janúar 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 10. október 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. september 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 30. nóvember 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. desember 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. desember 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1958 og 1960. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum í eigin einbýlishúsi við C, sem er 261,4 fermetrar að stærð. Kærendur eru bæði útivinnandi.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til þess að tekjur kæranda A hafi lækkað í kjölfar efnahagshrunsins.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Þann 30. september 2013 var tekin ákvörðun samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Nefndin hnekkti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 22. október 2015 þar sem þær aðstæður sem leitt höfðu til niðurfellingarinnar þóttu ekki lengur vera til staðar. Málið barst því umboðsmanni skuldara aftur til efnismeðferðar og var nýr umsjónarmaður skipaður 9. júní 2016.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. ágúst 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. (lge.). Í bréfinu kom fram að umsjónarmaður hefði ákveðið að selja skyldi einbýlishús kærenda í samræmi við 13. gr. lge. Við mat á sölu eignarinnar væri meðal annars litið til stærðar og staðsetningar eignar, fjölskylduaðstæðna og aðstæðna á húsnæðismarkaði. Fasteign kærenda væri 261,4 fermetra, átta herbergja einbýlishús. Fasteignamat 2016 væri 69.600.000 króna og fasteignamat 2017 væri 70.600.000 króna. Að mati umsjónarmanns væri fasteign kærenda ekki hófleg í skilningi 13. gr. lge. Umsjónarmaður hafi tekið fram að X af X börnum kærenda væru uppkomin. Jafnframt teldi umsjónarmaður að aðstæður á húsnæðismarkaði væru góðar og líklegt að orðið gæti af sölu eignarinnar á tímabilinu.

Í athugasemdum við 13. gr. lge. segi meðal annars að litið sé til þess hvort íbúðarhúsnæði sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að skuldari geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Fyrir liggi að fjárhæð áhvílandi lána á 1. og 2. veðrétti fasteignar kærenda sé samtals 76.392.664 krónur. Mánaðarlegar afborganir þessara lána nemi 355.026 krónum, án dráttarvaxta, miðað við fasteignamat ársins 2016. Þá séu fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld að meðaltali 34.478 krónur á mánuði og brunatrygging um 5.000 krónur á mánuði. Rekstrarkostnaður fasteignarinnar ásamt framangreindum afborgunum lána innan matsverðs, eignar, þ.e. fasteignamats, sé því um 394.500 krónur á mánuði fyrir utan kostnað við rafmagn og hita. Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að kveða þurfi á um sölu á húsi kærenda í frumvarpi til greiðsluaðlögunar.

Umsjónarmaður hafi gefið kærendum frest til að samþykkja sölu fasteignarinnar. Þessu hafi kærendur mótmælt og þannig neitað að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 6. september 2016 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Andmæli bárust frá kærendum 15. september 2016.

Með ákvörðun 23. september 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og umboðsmanni skuldara falið að hjálpa þeim að finna lausn á skuldamálum sínum í samræmi við lge. Kærendur krefjast þess einnig að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

Kærendur gera verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Í greiðsluaðlögunarferlinu hafi umboðsmaður aldrei sest niður með kærendum og rætt við þau. Kærendur kveðast hafa gert allt sem umboðsmaður skuldara hafi beðið um en þá sé þeim upp úr þurru sagt að húsnæði þeirra sé óhóflega stórt fyrir þau. Ein af forsendum þess að hægt sé að finna farsæla lausn fyrir kærendur og kröfuhafa hljóti að vera að rætt sé við kærendur um stöðu þeirra og mögulegar lausnir.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. sem umboðsmaður vísar til segi: „Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils er rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Í 13. gr. er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir og þá muni sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án. Við mat á slíku skal umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skal þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Einnig skal umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Hér er viðbúið að til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði, og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðir. Við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skal umsjónarmaður m.a. líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar má ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduhaga skuldara. Umsjónarmaður skal einnig líta til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni og meta hvort af sölu íbúðar, og þar af leiðandi kaupum eða leigu á nýrri íbúð, geti orðið innan tímabils greiðsluaðlögunarumleitana. Megi ætla að sala eða kaup íbúðar muni dragast á langinn eða sé með öllu óvíst um hvaða söluverð fæst samþykkt skal umsjónarmaður síður kveða á um sölu íbúðar samkvæmt greininni. Umsjónarmaður er þó ekki bundinn af því að sala fari fram á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og getur mælt fyrir um að sala fari fram einhvern tíma á greiðsluaðlögunartímanum. Almennt skal umsjónarmaður einnig síður kveða á um sölu íbúðar ef hann telur hana að stærð og staðsetningu hæfa skuldara og fjölskyldu hans. Einnig skal líta til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldumeðlimi hans að þurfa að flytja milli staða, með tilliti til starfsstöðva þeirra, skólagöngu og félagslegra aðstæðna. Skuldarinn getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skal því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir auk þess sem miklar líkur þurfa að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Í þeim tilvikum þar sem skuldari á aðrar fasteignir en íbúðarhúsnæði sem hann býr í skal almennt miðað við að skuldara verði gert að selja slíkar eignir, að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða. Getur þar t.d. verið um að ræða annað íbúðarhúsnæði, sumarbústaði eða jarðeignir. Um lausafjármuni skal gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám skv. 43. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skal almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið er bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, getur umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar. Umsjónarmaður getur einnig kveðið á um sölu óskráðra lausafjármuna telji hann slíkt til hagsbóta svo um muni fyrir kröfuhafa. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir með óyggjandi hætti að skuldari eigi viðkomandi lausafjármuni og getur umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum frá skuldara í því skyni. Almennt má segja að umsjónarmaður skuli einungis beita þessari heimild ef um verulega verðmæta muni er að ræða. Í síðari málslið 1. mgr. segir að þyki umsjónarmanni ástæða til geti hann leitað afstöðu lánardrottna til sölu eignanna enda skal ekki krafist sölu þeirra eigna sem allir lánardrottnar samþykkja að skuldari fái að halda eftir. Að lokum skal þess getið að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna getur leitt til þess að þau verðmæti sem þar með safnast saman nægi til að leysa greiðsluerfiðleika skuldara að fullu. Komi slík staða upp skal umsjónarmaður, að því gefnu að sölu eignanna eða samningum um sölu þeirra sé lokið, tilkynna umboðsmanni skuldara um að skilyrði fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana séu fyrir hendi í samræmi við 15. gr. Í 2. mgr. kemur fram sú grundvallarregla að eignir skuli selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Skal umsjónarmaður ákveða hvernig sala eigna fer fram og annast söluna sjálfur eða fela öðrum hana. Er umsjónarmanni því heimilt að láta sérfróða aðila, svo sem fasteignasala eða bílasala, annast söluna að fullu eða aðstoða umsjónarmann við söluna. Eftir atvikum kemur til greina að skuldari hlutist til um sölu eigna óski skuldari þess og telji umsjónarmaður líklegra að sala náist fram með þeim hætti. Eðlilegt er að skuldari sýni þá viðleitni að aðstoða við leit að kaupendum að viðkomandi eignum enda leiði sala eigna frekar til þess að umsjónarmaður leggi fram frumvarp til greiðsluaðlögunar. Kostnaður vegna sölu eignar greiðist af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er, sbr. 30. gr. Kveðið er á um það í 3. mgr. að ákveði umsjónarmaður að selja skuli eign skal hann gera þeim sem njóta veðréttar í eigninni viðvart um það með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Þá er mælt fyrir um að þegar komið er tilboð í eignina sem umsjónarmaður telur fært að taka skuli hann kynna það fyrir þeim veðhöfum í eigninni sem ekki mundu fá fullnustu krafa sinna af söluverðinu. Er þetta gert með það að sjónarmiði að þeir geti gert hærra boð eða eftir atvikum gengið inn í fram komið boð. Þeim er því veittur frestur til þess sé tilboðið ekki bindandi fyrir tilboðsgjafann. Telji síðari veðhafar, sem samkvæmt sölutilboði fengju ekki greitt upp í kröfu sína, að tilboð í eignina sé of lágt eða vilji þeir verja rétt sinn og eignast sjálfir eignina til hugsanlegrar endursölu síðar gefur ákvæðið þeim kost á að kaupa veðsettu eignina sjálfir. Í 4. mgr. er kveðið á um að þegar eign hefur verið seld falli niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu þegar um veðsettar eignir er að ræða. Umsjónarmaður skal hlutast til um aflýsingu veðkrafna og aflýsa þeim gegn staðfestingu umboðsmanns skuldara á að umsókn skuldara um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt, yfirlýsingu umsjónarmanns að sala eignarinnar hafi verið gerð vegna greiðsluaðlögunar og afrit samnings um söluna. Loks segir í 5. mgr. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr. Samþykki umboðsmaður skuldara niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana er skuldara heimilt að kæra þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. 15. gr.“

Af ofanrituðu megi skýrt ráða hver tilgangur ákvæðis 13. gr. sé, hvernig umsjónarmaður eigi að taka ákvörðun um sölu eignar og hvaða sjónarmið eigi þar að ráða.

Umboðsmaður telji að 261,4 fermetra, átta herbergja einbýlishús sem metið sé á 69.600.000 króna samkvæmt fasteignamati ársins 2016, geti ekki annað en talist óhóflegt að stærð og verðmæti fyrir kærendur með tilliti til þarfa þeirra og yngsta barns þeirra. Umboðsmaður skuldara taki aldrei afstöðu til þess hverjir hagsmunir aðila, þ.e. kærenda og kröfuhafa, séu af því að eignin verði seld. Hann kanni ekki hvaða áhrif sala eignarinnar hafi á greiðsluhlutfall krafna og þá hvort um muni. Umboðsmaður meti ekki hversu líklegt sé að honum takist að koma eigninni í verð með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Hann hafi ekki látið skoða eignina og ekki spurt um ástand hennar og hafi þar af leiðandi enga hugmynd um raunhæft söluverðmæti hennar. Þá hafi umboðsmaður hvorki litið til hagsmuna né vilja kærenda og fjölskyldu þeirra. Umboðsmaður segi að ekki skuli litið til þarfa barna kærenda á þrítugsaldri, enda ættu þau að hafa möguleika á að framfleyta sér sjálf. Sú staðreynd að kærendur kjósi að búa í sama húsnæði og elstu börn þeirra snúist einfaldlega um vilja þeirra og val. Hugmyndin sé ekki sú að börn kærenda búi hjá þeim án endurgjalds. Kærendur hafi einnig sýnt fram á greiðslugetu sína, þ.e. að þau geti greitt af fasteign sinni.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi brotið málshraðareglu stjórnsýslulaga. Málið hafi verið í rúmlega fimm ár hjá umboðsmanni og hafi kærendum nú verið stillt upp við vegg og sagt að þau þurfi að selja eignina. Þeim hafi verið gefinn sjö daga frestur til að samþykkja söluna en aldrei hafi verið rætt við þau og þau upplýst um að þetta stæði til.

Þá telja kærendur að málið hafi ekki verið unnið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga en sú regla kveði á um að tryggt skuli að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun í því sé tekin. Í málinu hafi umsjónarmaður ákveðið að selja skyldi fasteign kærenda án þess að hann viti nokkuð um ástand hennar, verðmæti eða söluhorfur.

Í stjórnsýslulögunum sé einnig að finna svonefnda meðalhófsreglu en samkvæmt henni skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem stefnt sé að, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Í máli þessu hafi umsjónarmaður krafist þess að fasteign kærenda verði seld þrátt fyrir að eignin sé fullveðsett og að þau geti greitt af henni. Að mati kærenda sé ákvörðun umboðsmanns skuldara ekki rökstudd á þann hátt sem ráð sé fyrir gert með íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir. Umboðsmaður hunsi bæði lagaskyldu sína til að rökstyðja ákvörðun sína og rök kærenda.

Kærendur séu afar ósátt við að hafa lagt til hliðar allt sem þau geti fyrir kröfuhafa í fimm ár en standi nú frammi fyrir því að þurfa að selja eign sína, borga kröfuhöfum allan sinn sparnað og fá ekkert að vita um það hvað þau fái mögulega í staðinn. Þau fái til að mynda ekki tækifæri til að greiða af eigninni í eitt til tvö ár til að sýna að þau geti staðið við þær greiðslur.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í andmælum sínum 15. september 2016 geri kærendur athugasemd við að einbýlishús þeirra sé talið óhóflegt að stærð og að húsið sé talið umfram það sem hæfi kærendum. Einnig að ekki sé tekið tillit til vilja kærenda til að búa áfram í húsinu með fjölskyldu sinni. Þá bendi kærendur á að þau geti greitt af eigninni, að þau hafi lagt til hliðar þann sparnað sem þeim hafi borið að gera, að það séu ekki hagsmunir kröfuhafa að eignin verði seld, að eignin sé ekki í „toppstandi“, að ekki sé hægt að fullyrða að líklegt sé að eignin seljist innan skamms tíma, að óvissa sé með söluverð hennar og að litið sé framhjá þeim áhrifum sem sala á eigninni hafi á fjölskylduna.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 6. september 2016 komi fram að fyrirliggjandi gögn beri það með sér að kærendur ættu að geta staðið undir greiðslum veðkrafna sem falli innan matsverðs eignarinnar. Umboðsmaður geti ekki litið til þarfa barna kærenda á þrítugsaldri, enda ættu þau að hafa möguleika á því að framfleyta sér sjálf. Ákvörðun um sölu eignarinnar byggi fyrst og fremst á mati á því hvort eignin teljist hófleg hvað varði stærð og verðmæti.

Í ljósi gagna málsins sé það mat embættisins að 261,4 fermetra, átta herbergja einbýlishús sem metið sé á 69.600.000 króna samkvæmt fasteignamati ársins 2016, geti ekki annað en talist óhóflegt að stærð og verðmæti fyrir umsækjendur um greiðsluaðlögun. Sé þá litið til þarfa kærenda og yngsta barns þeirra.

Sú ákvörðun kærenda að hlutast ekki til um að koma eigninni í söluferli standi í vegi fyrir því að samningur um greiðsluaðlögun komist á.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi brotið málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málatilbúnaður kærenda verður ekki skilinn á annan veg en þann að þau telji málshraðaregluna hafa verið brotna þar sem þeim hafi verið gefinn of skammur tími til að taka ákvörðun um hvort selja ætti einbýlishús þeirra. Samkvæmt málshraðareglunni skal ákvörðun í stjórnsýslumáli tekin svo fljótt sem unnt er.

Núverandi umsjónarmaður kærenda var skipaður 9. júní 2016. Með bréfum 13. júlí og 10. ágúst 2016 voru kærendur upplýst um það mat umsjónarmanns að þau þyrftu að selja einbýlishús sitt. Andmæli kærenda bárust 17. ágúst 2016. Með bréfi sama dag tilkynnti umsjónarmaður til umboðsmanns skuldara að hann legði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður, meðal annars vegna þess að þau hefðu neitað að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns um að selja eignina. Umboðsmaður tilkynnti kærendum um afstöðu umsjónarmanns með bréfi 6. september 2016. Með ákvörðun 23. september 2016 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður þar sem þau hlutuðust ekki til um sölu á fasteigninni. Samkvæmt þessu liðu rúmlega tveir og hálfur mánuður frá því að kærendum var fyrst kynnt að þau þyrftu að selja eignina og þangað til að ákvörðun umboðsmanns skuldara þar að lútandi var tekin. Kærendur hefðu hvenær sem var á þessu tímabili getað tekið ákvörðun um að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns um sölu eignarinnar. Með vísan til þessa er ekki fallist á að meðferð málsins hafi verið andstæð málshraðareglu stjórnsýslulaga og kærendum gefinn of skammur tími til að taka afstöðu til framangreindrar sölu.

Þá telja kærendur að málið hafi ekki verið unnið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem umsjónarmaður hafi ákveðið að selja skyldi fasteign kærenda án þess að hann vissi nokkuð um ástand hennar, verðmæti eða söluhorfur.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í málinu byggði umsjónarmaður tillögu sína um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á því að einbýlishús þeirra væri óhóflega stórt og verðmætt miðað við stærð og þarfir fjölskyldunnar. Einnig var byggt á því að ekki væru miklar líkur á því að kærendur gætu greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir lok greiðsluaðlögunar í ljósi greiðslubyrði veðlána og tekna kærenda. Þessu mati umsjónarmanns lágu til grundvallar upplýsingar um stærð eignarinnar ásamt fasteignamati hennar, veðbandayfirliti og upplýsingum um afborganir af henni. Ekki verður því fallist á það með kærendum að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins.

Kærendur telja enn fremur að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Umsjónarmaður hafi krafist þess að fasteign kærenda yrði seld þrátt fyrir að eignin væri fullveðsett og að kærendur gætu greitt af henni. Þau telja einnig að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi ekki verið rökstudd á þann hátt sem ráð sé fyrir gert með íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Í tilviki kærenda hafa þau óskað greiðsluaðlögunar en voru ekki talin uppfylla skilyrði lge. svo hægt væri að koma samningi um hana á eins og fram hefur komið. Samkvæmt lge. voru þá ekki aðrir möguleikar fyrir hendi en að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður. Ekki verður því talið að meðalhófsreglan hafi verið brotin við meðferð málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Kærendur eru eigendur einbýlishúss með bílskúr að C, en húsið er 261,4 fermetrar að stærð. Fasteignamat hússins fyrir árið 2016 var 69.600.000 króna en fasteignamat fyrir árið 2017 er 70.600.000 króna.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það teljist ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Á framfæri kærenda eru þrír einstaklingar, þ.e. þau sjálf og barn þeirra fætt X. Þau eiga og búa í rúmlega 260 fermetra einbýlishúsi í C. Í athugasemdum með 13. gr. lge. kemur fram að þegar metið er hvort íbúð skuldara skuli seld skuli meðal annars litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir, auk þess sem miklar líkur þurfa að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Í tilviki kærenda þarf ekki að fjölyrða um að einbýlishús þeirra er óhóflega stórt fyrir þrjá einstaklinga.

Kærendur gera athugasemdir við að söluverð eignarinnar liggi ekki fyrir. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins hefur einbýlishús kærenda ekki verið verðmetið en fasteignamat hússins er um 70.000.000 króna. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þó ljóst að eign af því tagi sem kærendur eiga er verulega verðmikil og getur ekki talist í samræmi við markmið og tilgang lge. að þeir sem leitað hafi greiðsluaðlögunar vegna erfiðleika við að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar haldi slíkri fasteign. Fasteign kærenda er yfirveðsett og geta þau samkvæmt 13. gr. lge. ekki haldið henni nema miklar líkur séu á því að þau geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum þegar greiðsluaðlögun lýkur.

Eignin er veðsett þannig að á 1. og 2. veðrétti hvíla um 76.000.000 króna. Á 3. til 5. veðrétti hvíla að auki rúmar 9.000.000 króna að höfuðstól en ekki liggja fyrir núverandi fjárhæðir þeirra krafna. Greiðslubyrði krafna á 1. og 2. veðrétti er alls um 390.000 krónur á mánuði en þá á eftir að greiða af kröfum á 3. til 5. veðrétti. Kærendur hafa samkvæmt gögnum málsins til ráðstöfunar tæpar 412.000 krónur eftir að framfærslukostnaður þeirra í hverjum mánuði hefur verið greiddur. Þegar tekið hefur verið tillit til mánaðarlegra afborgana fasteignaveðkrafna á 1. og 2. veðrétti hafa þau til ráðstöfunar 22.000 krónur (412.000 - 390.000) á mánuði miðað við núverandi laun. Eftir að greiðsluaðlögun lýkur þyrfti sú fjárhæð að duga til afborgana fasteignaveðkrafna á 3. til 5. veðrétti að höfuðstól rúmar 9.000.000 króna, auk greiðslna af samningskröfum en þær nema nú tæpum 3.200.000 króna. Með hliðsjón af ofanrituðu svo og launum kærenda undanfarin ár verður að telja mjög ólíklegt að þau geti staðið í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar með þeim fjármunum sem þau hafa aflögu eftir að hafa staðið straum af framfærslukostnaði og afborgunum fasteignaveðlána á 1. og 2. veðrétti fasteignar sinnar. Á hinn bóginn hafa kærendur möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar með því að selja einbýlishúsið og kaupa ódýrari eign.

Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að kröfuhafar fái fullnustu á kröfum sínum og létt verði á greiðslubyrði skuldara vegna afborgana fasteignaveðkrafna. Kærendur hafa verið upplýst um afleiðingar þess að mæla gegn sölu á fasteign sinni. Í málinu liggur fyrir að kærendur hafa hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um að selja einbýlishús sitt. Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati úrskurðarnefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart úrskurðarnefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur fyrir nefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila úrskurðarnefndinni að ákvarða kærendum kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálf að bera þann kostnað sem þau kunni að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni. Beiðni kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Samkvæmt framangreindu er fallist á að skilyrði hafi verið fyrir því samkvæmt ákvæðum lge. að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Kröfu um málskostnað er hafnað.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum