Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 26/2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 26. janúar 2017 í máli nr. 26/2016.
Fasteign: Brekkugata [ ], Akureyri, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2017, 26. janúar 2017, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 26/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 20. desember 2016, kærðu A, kt. [ ], og B, kt. [ ], álagningu fasteignaskatts vegna Brekkugötu [ ], Akureyri, fnr. [ ], fyrir árið 2016. Kæran lýtur að því að álagning fasteignaskatts vegna eignarinnar hafi áður verið samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en við álagningu fasteignaskatts 2016 hafi sveitarfélagið, Akureyrarbær, breytt flokkun fasteignar kærenda að Brekkugötu [ ] og lagt fasteignaskatt á eignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Krefjast kærendur þess aðallega að fyrrgreind ákvörðun sveitarfélagsins frá 20. janúar 2016 verði felld úr gildi og að álagning fasteignaskatts verði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna eða til vara að álagningin verði lækkuð verulega.

Samkvæmt gögnum málsins var kærendum tilkynnt með bréfi skipulagsdeildar Akureyrarbæjar þann 14. desember 2015 að fyrirhugað væri að leggja fasteignaskatt á fasteign þeirra að Brekkugötu [ ], Akureyri samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem fasteignin væri nýtt til ferðaþjónustu. Lögmaður kærenda mótmælti fyrirhugaðri ákvörðun sveitarfélagsins með bréfi, dags. 14. janúar 2016. Akureyrarbær ákvað síðan þann 20. janúar 2016 að leggja fasteignaskatt á eignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í þeirri ákvörðun var tekið fram að unnt væri að bera ágreining um greiðsluskyldu undir yfirfasteignamatsnefnd samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ekki var tekið fram í bréfi Akureyrarbæjar hver kærufrestur væri.

Ekki er kveðið á um kærufrest í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sker yfirfasteignamatsnefnd úr ágreiningi um gjaldskyldu fasteignaskatts. Fyrir liggur að kærendum var kynnt fyrirhuguð ákvörðun sveitarfélagsins með bréfi, dags. 14. desember 2015. Kærendur mótmæltu þeirri fyrirætlan með bréfi, dags. 14. janúar 2016. Akureyrarbær tók síðan ákvörðun þann 20. janúar 2016 um að leggja fasteignaskatt á fasteign kærenda að Brekkugötu [ ], Akureyri, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Kærufrestur vegna fyrrgreindrar ákvörðunar frá 20. janúar 2016 var því löngu liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd 23. desember 2016.

Í kæru til yfirfasteignamatsnefndar kemur fram sú afstaða kærenda að tilkynningu sveitarfélagsins um breytta álagningu hafi verið áfátt þar sem hún hafi eingöngu beinst að öðrum kærandanum, A, en báðir kærendurnir séu eigendur viðkomandi eignar. Þá er einnig á því byggt að kæran sé nægilega snemma fram komin þar sem álagning sveitarfélagsins taki til alls ársins 2016, og fasteignaskattur ársins sé til greiðslu allt fram í október 2016, auk þess sem kærendur hafi þurft að staðreyna forsendur fyrir álagningunni með útleigureynslu af eigninni áður en kröfugerð þeirra væri lokið í málinu.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að lögmaður kærenda mótmælti fyrirhugaðri ákvörðun sveitarfélagsins fyrir hönd þeirra beggja með bréfi, dags. 14. janúar 2016. Líkt og áður kemur fram svaraði Akureyrarbær því erindi sérstaklega með bréfi til lögmanns kærenda þann 20. janúar 2016 auk þess sem skipulagsdeild Akureyrarbæjar sendi öðrum kærenda bréf þann sama dag á lögheimili kærenda. Ljóst er af efni fyrrgreindra bréfa að ákvörðunin beinist að báðum kærendunum og að allri fasteigninni. Þá verður heldur ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærendur eða lögmaður þeirra hafi litið svo á að fyrrgreind ákvörðun hafi einungis beinst að öðrum kærenda eða hluta eignarinnar. Að mati yfirfasteignamatsnefndar er því ákvörðun sveitarfélagsins ekki áfátt að þessu leyti.

Þá verður ekki fallist á það sjónarmið kærenda að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þar sem álagning fasteignaskatts gildi fyrir allt árið 2016, og fasteignaskatturinn sé til greiðslu allt fram í október 2016. Kærufrestur byrjar að líða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun en ekki þegar réttaráhrif ákvörðunar líða undir lok. Kærendum var jafnframt veittur andmælaréttur og þeir gert athugasemdir við forsendur sveitarfélagsins fyrir álagningunni.

Það fyrirkomulag að eigendur geti tilkynnt í lok hvers árs hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstæð lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Að virtu öllu framangreindu verður ekki séð að undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga geti átt við í því máli sem hér um ræðir og er því kærunni vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru A og B vegna álagðra fasteignaskatta Brekkugötu [ ], Akureyri, fnr. [ ], fyrir árið 2016, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum