Hoppa yfir valmynd

Kópavogsbær: Ágreiningur um lóðaskil. Mál nr. IRR10121657

 

Ár 2011 13. maí  er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli IRR10121657

Tónahvarf 7 ehf.

gegn

Kópavogsbæ

 

I.         Kröfur, aðild, kæruheimild og kærufrestir

Þann 7. maí 2010 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem Tónahvarf 7 ehf. kt. 650507-3980 (hér eftir nefnt T) kærði þá ákvörðun Kópavogsbæjar dags. 12. febrúar 2010, að hafna beiðni T dags. 2. júní 2009 um skil á lóð að Tónahvarfi 7 og að fá endurgreiðslu gatnagerðargjalds. T gerir þær kröfur að framangreind ákvörðun verðið úrskurðuð ógild og að Kópavogsbæ beri að endurgreiða það gatnagerðargjald sem greitt hafi verið vegna lóðarinnar, að viðbættum verðbótum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

Kópavogsbær krefst þess að ákvörðun bæjarins um að hafna því að taka við lóðinni að Tónahvarfi 7 og endurgreiða gatnagerðargjald verði staðfest.

Ekki er vísað til kæruheimildar í kæru en ljóst er að kæran byggist á 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt T með bréfi dags. 12. febrúar 2010 og var kæra borin fram með bréfi, dags. 7. maí sama ár og því ljóst að hún var fram komin innan hins lögmælta kærufrests sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Ekki er ágreiningur um aðild.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Á fyrri hluta árs 2007 fékk Áltak ehf. úthlutaðri lóð að Tónahvarfi 8 og gerði félagið samkomulag við Húsabæ ehf. þess efnis að byggja í sameiningu á lóðinni og var félagið T stofnað í þeim tilgangi. Með samþykki Kópavogsbæjar skipti T við Vídd ehf. á fyrrgreindri lóð og lóðinni að Tónahvarfi 7 og er það sú lóð sem um ræðir í máli þessu. T greiddi gatnagerðargjald að fjárhæð kr. 7.895.663 þann 21. maí 2007 og kr. 112.556.312 þann 13. júlí 2007. Í ársbyrjun 2008 hætti Áltak ehf. þátttöku sinni í verkefninu og um samdist að Húsabær ehf. greiddi út hlut Áltaks.

Með bréfi dags. 2. júní 2009 óskaði T eftir því við bæjarráð Kópavogsbæjar að skila lóðinni að Tónahvarfi 7 í Kópavogi og fá endurgreitt gatnagerðargjaldið. Á fundi bæjarráðs þann 25. júní 2009 var erindið lagt fram. Erindinu var synjað með bréfi dags. 12. febrúar 2010. Í synjuninni var vísað til þess í fyrsta lagi að á lóðinni væru áhvílandi veð sem næmu uppreiknuð hærri fjárhæð en verðmæti lóðarinnar. Í öðru lagi var vísað til þess að við úthlutun lóðarinnar hafi ekki verið kveðið á um skilarétt lóðarhafa og engin ákvæði væri að finna í lögum, reglum eða úthlutunarskilmálum sem kveði á um skyldu bæjarins til að taka við lóðum. Í þriðja lagi var vísað til samþykktar bæjarráðs frá 7. janúar 2010 þar sem ákveðið var að bærinn tæki ekki við atvinnuhúsalóðum. Í samþykkt bæjarráðs Kópavogs frá 7. janúar 2010 var samþykkt tillaga skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs er hljóðaði svo:

Vegna breyttra efnahagsaðstæðna telur framkvæmdasvið rétt að endurskoða framkvæmd bæjarins við móttöku lóða sem lóðarhafar óska eftir að skila til bæjarins. Af því tilefni er eftirfarandi tillaga lögð fyrir bæjarráð:

1) Íbúðarhúsalóðir.......

2) Atvinnuhúsalóðir.

Ekki verði heimilt að skila lóðum sem úthlutað hefur verið undir atvinnuhúsnæði nema sérstök heimild bæjarráðs komi til hverju sinni. Þetta á bæði við um lóðir sem aðilum hefur verið úthlutað fyrir eigin atvinnustarfsemi og lóðir sem úthlutað hefur verið til aðila til að byggja og selja atvinnuhúsnæði. Lóðarhöfum þessara lóða verður tryggður réttur til framsals á lóðarréttindum.”

Frá því að T óskaði eftir skilum 2. júní 2009 og þar til erindi félagsins var synjað með bréfi dags. 12. febrúar 2010, eða um 8 mánuðum síðar, átti félagið í tölvupóstsamskiptum við Kópavogsbæ og Íslandsbanka auk þess sem Íslandsbanki og Kópavogsbær áttu einnig í tölvupóstsamskiptum sín á milli um lóðamálin. Umrædd samskipti verða hér rakin, þá sérstaklega í ljósi þess að T heldur því fram að Kópavogsbær hafi í þeim samskiptum fallist á lóðarskilin og endurgreiðslu gatnagerðargjaldsins.

  1. Þann 15. júní 2009 sendi T fyrirspurn til Kópavogsbæjar um hvenær endurgreiðslan færi fram og hver áætluð fjárhæð væri. Í tölvubréfi Innheimtufulltrúa Kópavogsbæjar dags. sama dag segir m.a.: ,,Því miður get ég ekki áætlað hversu mikið eða hvenær lóðin verður endurgreidd þar sem bæjarráð hefur ekki enn tekið lóðarskilin fyrir. Venjan er sú að eftir að þetta er bókað í bæjarráði berst greiðsla eftir 90 daga, eins og lögin segja.” Þá segir jafnframt að endurgreiðslan taki mið af vísitölu í þeim mánuði sem hún fari fram.
  2. Þann 27. október 2009 sendi T ítrekun til Kópavogsbæjar og bað um að lóðin yrði endurgreidd sem fyrst. Í svari fjármála- og hagsýslustjóra Kópavogsbæjar var T innt eftir því hvort veðbönd væru enn á lóðinni. T upplýsti að Íslandsbanki ætti veð í lóðinni og þá óskaði T jafnframt eftir því við Íslandsbanka að hann hefði samband við Kópavogsbæ vegna málsins. Í kjölfarið átti viðskiptastjóri Íslandsbanka í samskiptum við Kópavogsbæ og lýsti því yfir að vilji væri hjá bankanum að klára málið hratt og örugglega með T.
  3. Þann 27. nóvember 2009 sendi fjármála- og hagsýslustjóri Kópavogsbæjar upplýsingar til viðskiptastjóra Íslandsbanka um að venja væri að ganga frá þríhliða samkomulagi milli bæjarins, bankans og lóðarhafans og að þegar bærinn hefði fengið lóðina afsalaða til sín veðbandslausri þá greiddi bærinn skilaverðið inn á tiltekinn reikning. Meðfylgjandi var tillaga að yfirlýsingu bæjarins. Íslandsbanki samþykkti þessa leið og óskaði eftir að ganga frá málinu sem fyrst.
  4. Þann 10. desember 2009 sendi T fyrirspurn til Kópavogsbæjar um stöðu málsins en fékk ekki svar. Fyrirspurnin var því ítrekuð þann 13. janúar 2010.
  5. Þann 14. janúar 2010 sendi viðskiptastjóri Íslandsbanka fyrirspurn um málið til Kópavogsbæjar. Fjármála- og hagsýslustjóri Kópavogsbæjar vísaði til þess í svari sínu að málið væri ekki í hans höndum á þeim tímapunkti og ástæða þess að málið hefði dregist væri veðsetning lóðarinnar og tómlæti lóðarhafa við að afgreiða það mál.
  6. Þann 20. janúar 2010 ítrekaði T beiðni sína til fjármála- og hagsýslustjóra um að lóðin yrði endurgreidd en fékk ekki svar. Þann 1. febrúar 2010 sendi T því bæjarritara Kópavogsbæjar beiðni um upplýsingar.
  7. Kópavogsbær svaraði T með bréfi dags. 12. febrúar 2010 þar sem beiðni hans um skil á lóð var synjað.

T kærði ákvörðun Kópavogsbæjar að synja félaginu um skil á lóðinni að Tónahvarfi 7 til ráðuneytisins þann 7. maí 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. maí 2010 var Kópavogsbæ gefinn kostur á að veita umsögn vegna kærunnar og barst umsögnin þann 18. ágúst 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 19. ágúst 2010 var T veittur andmælaréttur og bárust andmæli félagsins þann 11. október 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. október 2010 var aðilum málsins var tilkynnt að vegna anna í ráðuneytinu yrðu tafir á uppkvaðningu úrskurðar í málinu.

Með símtali dags. 29. apríl 2011 óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá Kópavogsbæ og bárust umbeðnar upplýsingar í tölvupósti sama dag. Með tölvupósti dags. 29. apríl og aftur þann 5. maí 2011 óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá Kópavogsbæ. Svar barst ráðuneytinu í tölvupósti dags. 6 maí 2011. 

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök T

T rekur tölvupóstsamskipti milli félagsins og Kópavogsbæjar auk samskipta við Íslandsbanka og telur að þau verði ekki skilin á annan hátt en að Kópavogsbær hafi í verki verið búinn að fallast á lóðarskilin og endurgreiðslu gatnagerðargjalds.

T heldur því fram að Kópavogsbæ hafi borið skylda til að taka við umræddri lóð og endurgreiða gatnagerðargjald með beinni tilvísan til ákvæðis 9. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald. Í ákvæðinu segi skýrum orðum að sveitarfélagi beri að endurgreiða gatnagerðargjald innan tiltekins frests ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. T telur að orðalag þetta sé skýrt og án nokkurra fyrirvara um það að samkomulag takist um skil á lóð. Þvert á móti verði að túlka ákvæðið svo að það sé réttur hvers lóðarhafa að fá að skila lóð og fá endurgreitt gatnagerðargjald. Sú röksemd Kópavogsbæjar að ekki sé kveðið á um skilarétt, hvorki við úthlutun lóðarinnar né í lögum eða reglum, fái því ekki staðist.

Þá heldur T því fram að með ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar þann 7. janúar 2010 hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin. Fyrir hafi legið að flestir lóðarhafar sem hafi fengið úthlutað atvinnulóðum við Tónahvarf á sama eða svipuðum tíma og T hafi fengið að skila lóðunum og fengið endurgreitt. T vísar í fundargerðir bæjarráðs þar sem fram komi að atvinnulóðum við Tónahvarf hafi m.a. verið skilað í október og nóvember 2008 og febrúar og apríl 2009. Þá vísar T til bæjarráðsfundar þann 14. ágúst 2008 þar sem fram komi að lóðarhafar að lóðunum Tónahvarf 3-5, Tónahvarf 8 og lóð nr. 7 við götu sem á þeim tíma fékk nafnið Tónahvarf II, fengu að skila lóðunum og var skrifstofustjóra Kópavogsbæjar falið að auglýsa þessar lóðir að nýju til umsóknar. T telur því að Kópavogsbær hafi af geðþótta ákveðið hvaða aðilar hafi fengið að skila og fá endurgreitt og hvaða aðilar ekki. Slíkt sé skýrt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

T telur að glögglega megi sjá að félagið hafi, allt frá þeim degi er það óskaði eftir því að fá að skila umræddri lóð og fram að bréfi Kópavogsbæjar þann 12. febrúar 2010, eða í rúma 8 mánuði, mátt ætla og haft til þess réttmætar væntingar að Kópavogsbær hafi annað hvort strax í upphafi samþykkt að taka við lóðinni og endurgreiða gatnagerðargjöld eða síðar í viðræðum við félagið og viðskiptabanka þess, fallist á lóðarskilin og endurgreiðslu. T bendir á að tölvupóstar milli félagsins og Kópavogsbæjar og Kópavogsbæjar og Íslandsbanka, ásamt öðrum samskiptum T við starfsmenn Kópavogsbæjar, verði ekki skildir öðruvísi. Skýringar Kópavogsbæjar sem fram koma í bréfi skrifstofustjórans frá 12. febrúar 2010 þess efnis að ekki sé unnt að taka við lóðinni þar sem hún sé yfirveðsett, er að mati T hreinn fyrirsláttur þar sem veðsetning lóðarinnar hafi frá upphafi legið fyrir og að Íslandsbanki myndi aflétta veðinu gegn yfirlýsingu Kópavogsbæjar um greiðslu, óháð því hvort greiðslan nægði fyrir veðskuldinni að fullu eða ekki.

T bendir á að af ástæðum sem vörðuðu Kópavogsbæ hafi dregist í um eitt ár að lóðin að Tónahvarfi 7 yrði byggingarhæf. Þá hafi bankahrunið orðið til þess að ómögulegt hafi verið að koma fyrirhugaðri byggingu á lóðinni í leigu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. T telur því ljóst að um algeran forsendubrest hafi verið að ræða sem leiði til þess að félagið eigi rétt á að skila lóðinni verði skilaréttur ekki byggður á öðrum lagarökum sem reifuð hafa verið.

Þá bendir T á að málsmeðferðin hafi verið með miklum ólíkindum og ekki í samræmi við góð og fagleg vinnubrögð á sviði stjórnsýsluréttar. T átelur að Kópavogsbær hafi ekki tekið erindi félagsins til formlegrar afgreiðslu fyrr en 7. janúar 2010. Þrátt fyrir fyrrgreinda samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar var allt til 8. febrúar 2010 enn verið að ræða við félagið og Íslandsbanka af hálfu Kópavogsbæjar um lóðarskil og endurgreiðslu gatnagerðargjalda.

Þá vísar T til fyrri úrskurða ráðuneytisins í sambærilegum málum, t.d. í máli Brimborgar hf. gegn Reykjavíkurborg. Jafnframt hafi í héraðsdómi Reykjavíkur verið kveðnir upp þrír dómar þann 6. maí 2010 sem hafi staðfest rétt lóðarhafa til að fá að skila lóðum og fá endurgreitt gatnagerðargjald.

Í andmælum T vegna umsagnar Kópavogsbæjar bendir félagið á að bærinn hafi aldrei tilkynnt um að lóðin væri byggingarhæf. Fyrirsvarsmenn T hafi þó fylgst vel með gatnagerð og framkvæmdum á umræddu svæði. Að þeirra mati hafi lóðin ekki verið byggingarhæf fyrr en í fyrsta lagi um haustið 2008 og jafnvel ekki þá þar sem enn vantaði stofnlagnir að lóðarmörkum.

T bendir á að í umsögn Kópavogsbæjar sé viðurkennt að bærinn hafi tekið við atvinnuhúsalóðum sem skilað hafi verið á árinu 2008 og fyrri hluta árs 2009. T minnir því á að félagið hafi óskað eftir því með bréfi dags. 3. júní 2009 að skila umræddri lóð og fá endurgreitt en það sé ekki fyrr en með bréfi dags. 12. febrúar 2010 sem beiðni T hafi verið hafnað.

Þá vísar T til þess að í umsögn Kópavogsbæjar komi fram að bærinn hefði hugsanlega verið reiðubúinn til að taka við lóðinni og endurgreiða ef T gæti hlutast til um að viðskiptabanki félagsins myndi fjármagna endurgreiðsluna. T telur þessa umfjöllun bæjarins einkennilega því hana megi skilja svo að bærinn hafi sett það að skilyrði að utanaðkomandi aðili myndi annast fjármögnunina. Slík skilyrði séu afar sérstök og ómálefnaleg að mati félagsins.

Að lokum bendir T á að í umsögninni hafi ítrekað komið fram að þar sem lóðin hafi verið yfirveðsett þá hafi bærinn ekki getað tekið við henni. T ítrekar að þarna sé um hreinan fyrirslátt að ræða.

IV.       Málsástæður og rök Kópavogsbæjar

Kópavogsbær mótmælir að svo langur dráttur hafi orðið á afhendingu lóðarinnar sem haldið sé fram í kæru. Óvíst sé að nokkur raunveruleg töf á húsbyggingu hafi átt sér stað vegna afhendingar lóðarinnar þar sem lóðarhafi hafi ekki verið tilbúinn með teikningar og hafi aldrei sótt um byggingarleyfi. Lóðarhafi hafi lagt inn erindi um breytingu á deiliskipulagi og undirbúningur og afgreiðsla þess erindis hafi stuðlað að drætti á því að hægt væri að hefjast handa við húsbyggingu. Tafir á húsbyggingu skapi lóðarhafa því ekki aukinn rétt gagnvart bænum á nokkurn hátt.

Varðandi móttöku lóða af hálfu bæjarins upplýsir Kópavogsbær að tekið hafi verið við atvinnuhúsalóðum sem skilað hafi verið inn á árinu 2008 og í upphafi árs 2009, m.a. við Tónahvarf. Þegar umfang og áhrif efnahagshrunsins hafi komið betur í ljós hafi verið hætt að taka við lóðum enda þá ljóst að mjög erfitt yrði fyrir bæjarfélagið að koma atvinnuhúsalóðum í verð að nýju og það myndi vera þungbært að standa undir frekari endurgreiðslum. Þar sem móttaka atvinnuhúsalóða hafi verið umfram skyldu hafi verið ákveðið að hætta að taka við slíkum lóðum. Bæjarráð hafi samþykkt þann 7. janúar 2010 að hætta að taka við atvinnuhúsalóðum, en í raun hafi því verið hætt u.þ.b. ári fyrr. Við samþykkt bæjarráðs 7. janúar 2010 hafi m.a. verið höfð hliðsjón af dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. desember 2009 í máli nr. E-6971/2009.

Kópavogsbær bendir á að eftir að erindi T barst hafi átt sér stað samskipti milli starfsmanna bæjarins, lóðarhafa og veðhafa. Tilgangur þeirra hafi verið að kanna hvort hægt væri að finna flöt á því að taka við lóðinni og fá á hreint hvort veðhafar væru reiðubúnir að fjármagna yfirtöku lóðarinnar ef af henni yrði og eins að fá staðfestingu á því að áhvílandi veðum yrði aflétt. Engin skýr niðurstaða hafi fengist frá viðkomandi lánastofnun.

Kópavogsbær vísar til málsástæðu T sem gangi út á að ákvæði 9. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald skapi skyldu til að taka við lóðum. Þessu hafi þegar verið hafnað af dómstólum, m.a. í dómi héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2010 í máli nr. E-8010/2009. Ákvæðið feli ekki í sér sjálfstæða skyldu til móttöku lóða, en það fjalli aðeins um tilhögun endurgreiðslu ef móttaka lóðar eigi sér stað.

Þá vísar Kópavogsbær til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. desember 2009 í máli nr. E-6971/2009 þar sem segi:

„Það er mat dómsins að stefndi hafi eftir efnahagshrunið ekki verið bundinn af að leggja sömu sjónarmið til grundvallar við ákvörðun um lóðarskil og fyrir það enda aðstæður allt aðrar. Því verði að telja að ákvörðun borgarráðs, 20. nóvember 2008, um að samþykkja ekki frekari skil á lóðum nema með sérstakri heimild borgarráðs, hafi verið málefnalegs eðlis og almenn. Því verði ekki talið að með samþykktinni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglur 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Kópavogsbær hætti móttöku atvinnuhúsalóða í kjölfar efnahagshrunsins á sama hátt og Reykjavíkurborg gerði og vísað sé til í dómi þessum.

Þau samskipti við starfsmenn Kópavogsbæjar sem T vísi til hafi ekki falið í sér neitt loforð um að tekið yrði við lóðinni. Gefnar hafi verið upplýsingar um hver væri fjárhæð gatnagerðargjalds með verðbótum auk yfirtökugjalda og viðræður hafi átt sér stað við fulltrúa veðhafa. Það sé í höndum bæjarráðs að ákveða hvort tekið sé við lóðum sem ekki sé skylt að taka við og öllum eigi að vera það ljóst að almennar viðræður við starfsmenn bæjarfélagsins feli ekki í sér neina skuldbindingu að þessu leyti. Yfirlýsing frá Íslandsbanka um að veðum yrði aflétt hafi ekki komið fyrr en mörgum mánuðum eftir að óskað hafi verið eftir að skila lóðinni og sú yfirlýsing sé alls ekki skýr og einungis send í tölvupósti. Þá hvíli veðin enn á lóðinni. Lóðarhafi hafi því ekki getað haft neinar réttmætar væntingar þess efnis að tekið yrði við lóðinni.

Kópavogsbær mótmælir því að T hafi öðlast skilarétt sem leiddur sé af forsendubresti vegna efnahagshrunsins. Í fyrsta lagi hafi orðið tafir á húsbyggingu fyrst og fremst af ástæðum sem varði T. Ekki hafi verið búið að teikna hús á lóðina eða sækja um byggingarleyfi og skipulagsbreytingar T hafi einnig tafið framkvæmdir. Í raun hafi húsnæðismarkaðurinn orðið mjög erfiður strax um áramótin 2007-2008 og meginástæða þess að T hafi ekki farið af stað með húsbyggingu virðist hafa verið að félagið hafi hvorki getað útvegað fjármagn né leigjendur að húsinu. Kópavogsbær bendir á að almennt séð geti forsendubrestur af þessu tagi ekki skapað öðrum samningsaðilanum rétt til að ganga út úr samningi. Það væri óhugsandi niðurstaða að allir þeir sem hafi keypt fasteign eða lóðir fyrir hrun gætu varpað allri áhættunni yfir á seljandann og skilað því sem keypt var vegna þess að kaupin væru ekki lengur hagkvæm.

Kópavogsbær bendir á að dráttur á málsmeðferð hafi einkum verið vegna skorts á svörum frá veðhafa og lóðarhafa og geti á engan hátt leitt til skyldu bæjarins til að taka við lóðinni.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Algengt er að sveitarfélög afli sér lands með kaupum eða eignarnámi til þess að skipuleggja þar byggð og úthluta síðan sem byggingarlóðum til leigu fyrir einstaklinga eða lögaðila. Þetta heyrir þó ekki til verkefna sem sveitarfélögum er skylt að sinna skv. 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og í reynd eru engin lagaákvæði fyrir hendi sem með beinum hætti fjalla um framkvæmd lóðaúthlutunar sveitarfélaga. Verður þó að telja að með vísan til venju og eðlis máls, að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta byggingarlóðum og selja byggingarrétt líkt og þeim er heimilt að taka ákvarðanir um aðra fjárhagslega hagsmuni sína, sbr. einkum 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998 enda ekki um það deilt.

Ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum um úthlutun lóða og byggingarréttar komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sveitarfélags um slíkt efni sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Hins vegar eru þeir samningar sem gerðir eru á grundvelli slíkrar úthlutunar einkaréttarlegs eðlis og verður ágreiningi er varðar þá efnislega almennt ekki skotið til úrskurðar ráðuneytisins en ákvörðun um það til hvaða einstaklings eða lögaðila lóð sé úthlutað er stjórnvaldsákvörðun sem lýtur reglum stjórnsýslulaga. Sjá m.a. úrskurði ráðuneytisins frá 9. febrúar 2010 og 4. mars 2010. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 11. nóvember 2010 í máli nr. 151/2010.

Í málinu liggur fyrir að aðilar höfðu ekki gert lóðaleigusamning heldur hafði félagið fengið lóð úthlutað og greitt umkrafið gatnagerðargjald en engar framkvæmdir voru hafnar á lóðinni. Ágreiningur aðila lýtur því ekki á túlkun á samningi aðila heldur er um að ræða vafaatriði við  framkvæmd sveitarstjórnarmála, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, þ.e. um það hvort Kópavogsbæ beri að taka við áður úthlutaðri lóð T og endurgreiða þá fjárhæð sem T hefur greitt í gatnagerðargjald. Fyrir ráðuneytinu liggur því að úrskurða um lögmæti þeirrar ákvörðunar Kópavogsbæjar að hafna beiðni T um lóðaskilin.

Um tveimur árum eftir að T hafði fengið úthlutað lóð að Tónahvarfi í Kópavogi, óskaði félagið eftir því að skila lóðinni. Erindi félagsins var svarað með formlegum hætti rúmlega átta mánuðum síðar eða þann 12. febrúar 2010, þar sem beiðninni var hafnað. Samkvæmt gögnum málsins voru viðræður um skilin í gangi milli aðila á þeim tíma sem leið frá því að erindið var sett fram og þar til því var hafnað. Þá liggur fyrir að 7. janúar 2010 samþykkti bæjarráð Kópavogs að óheimilt væri að skila lóðum sem úthlutað hafði verið undir atvinnuhúsnæði nema sérstök heimild bæjarráðs kæmi til hverju sinni.

2.         Í upphafi er rétt að taka til umfjöllunar þá málsástæðu T að Kópavogsbæ hafi borið samkvæmt lögum um gatnagerðargjald og þeim reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra að taka við áður úthlutaðri lóð og hafi bænum þ.a.l. borið skylda til að endurgreiða félaginu það gatnagerðargjald sem það hafði innt af hendi. Þessu hafnar Kópavogsbær.

Ráðuneytið hefur yfirfarið lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006, reglugerð um gatnagerðargjald nr. 543/1996 og reglugerð um gatnagerðargjöld í Kópavogi nr. 493/1991 og skoðað athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 153/2006 og einnig athugasemdir með því frumvarpi sem varð að eldri lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

Ráðuneytið telur ljóst að markmið laga um gatnagerðargjald sé fyrst og fremst að lögbinda annars vegar gjaldstofn fyrir sveitarfélög til töku sérstaks gjalds af fasteignum og hins vegar rétt þeirra til að ákveða innan marka laganna hvernig sá gjaldstofn skuli nýttur. Í lögum nr. 153/2006 og reglugerð nr. 543/1996 sem sett var með stoð í lögum nr. 17/1996 eru ákvæði um það hvenær heimilt sé og skylt að endurgreiða gatnagerðargjaldið og hvernig þeirri endurgreiðslu skuli háttað. Samkvæmt skýru ákvæði 9. gr. laga nr. 153/2006 og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/1996 skal endurgreiða gatnagerðargjald þegar lóð er skilað. Hins vegar eru engin ákvæði um lóðarskilin sem slík enda er markmið laganna eins og fyrr segir fyrst og fremst að heimila álagningu gjaldsins og kveða á um nýtingu þess. 

Með vísan til framangreinds getur ráðuneytið ekki fallist á þau rök T að af fyrrgreindum lögum og reglugerðum megi draga þá ályktun að einhliða skil úthlutunarlóða séu heimil. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 11. nóvember 2010 í máli nr. 151/2010.

3.         Næsta skref er að leysa úr því hvaða reglur og/eða framkvæmd voru í gildi hjá Kópavogsbæ um skil atvinnuhúsalóða.

Það vinnulag var við lýði við úthlutun atvinnuhúsalóða í Kópavogi að eftir að lóð hafði verið úthlutað þá fékk viðkomandi svokallað úthlutunarbréf þar sem tilkynnt var um úthlutunina og í bréfinu er vísað til úthlutunarskilmála. Ráðuneytið hafði símasamband við skrifstofustjóra Kópavogsbæjar þann 29. apríl 2011 og óskaði eftir úthlutunarskilmálum og/eða úthlutunarreglum sem giltu um úthlutun atvinnuhúsalóða á árinu 2007. Svar barst í tölvupósti þann sama dag þar sem kom fram að engar úthlutunarreglur höfðu verið settar um atvinnuhúsalóðir né hafi gilt aðrir úthlutunarskilmálar en þeir sem koma fram í úthlutunarbréfi. Ráðuneytið hefur yfirfarið úthlutunarbréfið og er þar hvorki kveðið á um að skil lóðanna séu heimil né óheimil.

Óumdeilt er að einhliða skil á atvinnuhúsalóðum voru heimil í Kópavogi áður en reglurnar um bann við skilunum voru samþykktar í janúar 2010 enda kemur fram í greinargerð Kópavogsbæjar til ráðuneytisins að bærinn hafi tekið við úthlutuðum atvinnuhúsalóðum árið 2008 og í upphafi árs 2009 þó svo að bærinn hafi talið slíkt umfram skyldu.

Varðandi þá fullyrðingu Kópavogsbæjar að bærinn hefði í raun verið hættur að taka við lóðum um ári áður en reglurnar voru samþykktar í bæjarráði þá óskaði ráðuneytið eftir nánari upplýsingum um það frá sveitarfélaginu. Í svarbréfi sveitarfélagsins var upplýst að á árinu 2009 hafi verið tekið við tveimur atvinnuhúsalóðum þ.e. annars vegar í janúar og hins vegar í mars, en frá þeim tíma hafi verið hætt að taka við atvinnuhúsalóðum. Þá var jafnframt upplýst að frá því að beiðni T barst þann 2. júní 2009 hefur Kópavogsbær hafnað að taka við tveimur atvinnuhúsalóðum á sömu forsendum og höfnun vegna lóðar T byggðist á. Upplýsti Kópavogsbær jafnframt að auk þess hefði verið óskað eftir skilum á einni lóð þann 3. júlí 2009 en bærinn féllst á að heimila þau skil þar sem ekki var unnt að afhenda lóðina vegna landfræðilegra aðstæðna. Þá var jafnframt upplýst að óskað hefði verið eftir skilum á lóð þann 4. maí 2011 en sú beiðni sé óafgreidd.  

Þá óskaði ráðuneytið eftir því að Kópavogsbær upplýsti hvernig sveitarfélagið hefði brugðist við beiðnum um skil atvinnuhúsalóða ef viðkomandi lóð var veðsett. Í svari Kópavogsbæjar segir:

,,Á meðan enn var tekið við atvinnuhúsalóðum, var mögulegt að skila veðsettri lóð ef fyrir lá skýr og bindandi yfirlýsing frá lánastofnun um afléttingu allra veðskulda gegn greiðslu endurgreiðslufjárhæðar. Sum mál leystust með því að banki gat út slíka yfirlýsingu, en sum hafa strandað á því að slík yfirlýsing hefur ekki fengist, t.d. þegar lóðir eru yfirveðsettar og viðkomandi banki er ekki til í að aflétta gegn greiðslu sem er lægri en veðkrafan.”

Ráðuneytið telur ljóst að sú framkvæmd hafi verið við lýði í Kópavogsbæ að heimilt hafi verið að skila úthlutuðum atvinnuhúsalóðum og tekur ágreiningsefnið þar af leiðandi ekki til þess hvort lóðarskil atvinnuhúsalóða hafi almennt verið heimil eða ekki. Hin venjubundna framkvæmd í Kópavogsbæ var sú að unnt væri að skila atvinnuhúsalóðum og þegar af þeirri ástæðu telur ráðuneytið að röksemdir þær sem Kópavogsbær vísar til í dómi uppkveðnum í héraðsdómi Reykjavíkur í máli E-6971/2001, dags. 16. desember 2009 og Hæstiréttur staðfesti þann 11. nóvember 2010, sbr. mál 151/2010 eigi ekki við, enda segir í dómi í Hæstaréttar:

,,Ekki er unnt að líta svo á að áfrýjandi hafi leitt í ljós að það hafi verið venjuhelguð og alkunn framkvæmd að stefndi tæki við skilum á atvinnuhúsalóðum gegn endurgreiðslu gjalda. Af því verður áfrýjandi að bera hallann, sbr. 2.mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.”

4.         Liggur því næst fyrir að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun Kópavogsbæjar að breyta fyrrgreindri framkvæmd og hætta að heimila einhliða skil atvinnuhúsalóða hafi verið lögmæt og hvort það hafi áhrif hvenær breytingin átti sér stað.

Með setningu reglnanna í janúar 2010 þá samþykkti bæjarráð Kópavogsbæjar að breyta þeirri stjórnsýsluframkvæmd sem verið hafði. Telja verður að sveitarfélög hafi svigrúm til þess að breyta fyrri framkvæmd sinni en við slíkt eru þau að sjálfsögðu ávallt bundin af því að athafnir þeirra séu lögmætar og málefnalegar og gætt sé að hinum óskráðu meginreglum stjórnsýslunnar. Ráðuneytið getur fallist á að rök Kópavogsbæjar séu málefnaleg, þ.e. að í ljósi hins breytta efnahagsástands í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, hafi bænum verið heimilt að endurskoða framkvæmd við móttöku á lóðum enda aðstæður þá allt aðrar. Styðst þessi niðurstaða bæði við fyrri úrskurði ráðuneytisins, svo sem úrskurð kveðinn upp þann 9. febrúar 2010  í máli nr. SAM09040031, og dóm Hæstaréttar í máli nr. 151/2010, uppkveðnum 11. nóvember 2010.

Þá er til þess að líta að stjórnvald getur ekki farið með það vald sem það hefur í krafti lögmætrar stöðu sinnar að eigin geðþótta heldur er það bundið af kröfum stjórnsýsluréttarins um að við ákvörðun um breytingu stjórnsýsluframkvæmdar sé gætt réttra grundvallarreglna um meðferð opinbers valds og hagsmuna. Ákvörðun um slíka breytingum verður þar af leiðandi að vera tekin á gagnsæjan hátt og þannig að þeir sem hún varði geti kynnt sér hana enda segir í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar nr. 151/2010

,,Ganga verður út frá því að hafi stjórnsýsluframkvæmd lengi tíðkast og almennt verið kunn geti stjórnvald ekki breytt henni svo að íþyngjandi sé gagnvart almenningi á þeim grunni einum að málefnalegar ástæður búi þar að baki, heldur verði að taka slíka ákvörðun á formlegan hátt og kynna hana þannig að þeir, sem breytingin varðar, geti gætt hagsmuna sinna.”

Þá hefur ráðuneytið í fyrri úrskurðum sínum svo sem í áður tilvitnuðu máli SAM09040031 og úrskurði uppkveðnum 26. apríl 2011 í máli nr. IRR10121691 ítrekað þann skilning ráðuneytisins að breyti stjórnvald framkvæmd á vinnulagi sem hjá því hefur tíðkast og breytingin er íþyngjandi fyrir borgarana þá verður að gera þá kröfu til stjórnvaldsins að málsmeðferðin við hina breyttu framkvæmd falli í þann ramma sem bæði lögfestar og ólögfestar reglur setja starfsháttum stjórnvalda almennt. Fær þessi skilningur ráðuneytisins stoð í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 652/1992 en þar segir:

,,Þegar breytt er stjórnsýsluframkvæmd, sem er almennt kunn, án þess að til komi breyting á réttarreglum, verður í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau kynni breytinguna fyrirfram, þannig að þeir aðilar, sem málið snertir, geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna.”

Á grundvelli framangreinds telur ráðuneytið að líta verði til þess hvernig Kópavogsbær stóð að hinni breyttu framkvæmd en það verður ekki séð að T né öðrum hagsmunaaðilum hafi verið tilkynnt um það að sveitarfélagið hyggðist hætta að taka við atvinnuhúsalóðum. Ráðuneytið telur  það ekki hafa nokkur áhrif á hvaða tímapunkti Kópavogsbær ákvað að hætta að taka við lóðunum, þ.e. hvort það var þegar reglurnar voru samþykktar þann 7. janúar 2010 eða 10 mánuðum fyrr, þar sem það ljóst að um íþyngjandi breytingu stjórnsýsluframkvæmd var að ræða gagnvart lóðarhöfum, sem uppfyllir ekki þau skilyrði sem gerð er grein fyrir hér að framan.  Skiptir í þessu sambandi engu sú staðhæfing Kópavogsbæjar að móttaka bæjarins á atvinnuhúsalóðum hafi verið umfram skyldu enda var sú afstaða bæjarins ekki gerð kunn á nokkurn hátt. 

5.         Þá telur ráðuneytið einnig að líta þurfi til þess hvort T hafi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fá að skila lóðinni að Tónahvarfi 7.

Eins og áður hefur komið fram lagði T fram beiðni um lóðaskilin í júní 2009 en beiðninni var ekki hafnað fyrr en í janúar 2010. T hefur lagt fram afrit af tölvusamskiptum milli félagsins og Kópavogsbæjar og einnig milli bæjarins og viðskiptabanka T, en í þeim kemur hvergi fram að Kópavogsbær hafi hætt að taka við atvinnuhúsalóðum snemma árs 2009 eins og sveitarfélagið heldur fram. Af bréfaskiptunum verður hins vegar ekki annað ráðið en að verið sé að reyna að finna lausn málsins. Nægir í því sambandi að vísa til tölvupóst frá Ingólfi Arnarsyni, fjármála- og hagsýslustjóra Kópavogsbæjar, til starfsmanns Íslandsbanka, dags. 26. nóvember 2009 þar sem segir:

,,Varðandi Tónahvarfið. Við höfum gjarnan haft það þannig undir svona kringumstæðum, að ganga frá þríhliða samkomulagi á milli bæjarins, bankans og lóðarhafans sem gengur út á það, að þegar bærinn hefur verið fengið lóðina afsalaða til sín veðbandslausa, þá hefur bærinn greitt skilaverð inn á tiltekinn reikning. Þetta er yfirlýsing sem getur hljómað svona:

Kópavogsbær lofar að greiða andvirði gatnagerðargjalda lóðarinnar XXXX, fastanúmer XXXX, nú kr. XXXX miðað við vísitölu neysluverðs í XXXX inn á reikning Íslandsbanka númer XXX kt. XXX.

Skilyrði þessarar greiðslu er að Íslandsbanki hafi aflétt öllum verðkröfum sem á eigninni kunna að hvíla, enda hafi lóðarhafi áður afsalað lóðinni til Kópavogsbæjar og skjali þess efnis verði þinglýst án athugasemda hjá sýslumanninum í Kópavogi.”

Tölvupósti þessum svarar fyrrnefndur starfsmaður þann 27. nóvember 2009 og samþykkir þá leið sem lögð er til í tölvubréfi bæjarins frá deginum áður. Af þeim tölvupóstsamskiptum sem lögð hafa verið fram í málinu verður ekki annað séð en að sá dráttur sem síðan varð á afgreiðslu erindisins verði ekki rakinn til T eða viðskiptabanka félagsins heldur til Kópavogsbæjar.

Af álitum umboðsmanns Alþingis, einkum í málum nr. 2763/1999 og nr. 3307/2001 og dómi Hæstaréttar frá 5. febrúar 2006 í máli nr. 239/2003, er ljóst að sjónarmið um réttmætar væntingar koma fyrst og fremst til álita og skoðunar þegar um er að ræða tiltekna stjórnsýsluframkvæmd sem síðan er breytt en eins og áður er fram komið telur ráðuneytið ljóst að um slíkt sé að ræða í máli þessu. Geta þessi sjónarmið leitt til þess að sé ákveðin framkvæmd viðhöfð megi aðili hafa réttmætar væntingar til þess að hann geti byggt rétt sinn á þeirri framkvæmd og geti það vikið til hliðar síðar tilkomnum breytingum á framkvæmdinni.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2763/1999, segir m.a.:

,,.....stjórnvöld verða að hafa í huga að samskipti þeirra við þann sem borið hefur fram erindi, hvort sem þau eru formleg eða óformleg, geta leitt til þess að telja verði samkvæmt hlutlægum mælikvarða að skapast hafi málefnalegar og eðlilegar væntingar hjá þeim sem bar erindið fram. Til að meta hvort eðlilegar væntingar vegna samskipta hlutaðeigandi við stjórnvöld hafi skapast verður að taka mið af vitneskju hans með tilliti til þeirra lagareglna, almennu stjórnvaldsfyrirmæla og þeirrar stjórnsýsluframkvæmdar sem til staðar er á viðkomandi sviði á umræddum tíma. Verði talið að slíkar væntingar hafi vaknað hjá hlutaðeigandi ber að meta hvort önnur lagasjónarmið, s.s. markmið og tilgangur stjórnsýsluframkvæmdar, eigi að leiða til þess að samt sem áður skuli horft fram hjá væntingum aðilans í því tiltekna tilviki. Verður í því sambandi að líta meðal annars til þess tjóns sem hlotist getur af þeirri niðurstöðu. Ef niðurstaða þessa mats er hins vegar talin leiða til þess að hagsmunir hlutaðeigandi aðila vegi þyngra verður að leggja til grundvallar að væntingar hans séu réttmætar.”

Telur ráðuneytið að sú staðreynd að lóð T var veðsett leiði ekki til þess að félagið geti ekki haft réttmætar væntingar til þess að skila lóðinni enda hefur verið upplýst af hálfu Kópavogsbæjar að veðsetning hamlaði því ekki almennt að lóðaskil væru heimil en hins vegar var nauðsynlegt að ganga frá samkomulagi milli aðila og þá oftast einnig viðskiptabanka viðkomandi um afléttingu veðanna.

Á grundvelli þeirrar framkvæmdar hjá Kópavogsbæ að unnt var að skila inn atvinnuhúsalóðum og þeirra samskipta sem T og viðskiptabanki félagsins höfðu við sveitarfélagið, sbr. framangreint  þar sem skilaréttur T var óbeint viðurkenndur, verður ekki fram hjá því litið að mati ráðuneytisins að T hafi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að félagið gæti skilað inn lóð sinni eins og aðrir í sambærilegri stöðu. 

6.         Ráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að markmið og tilgangur Kópavogsbæjar með því að breyta þeirri stjórnsýsluframkvæmd sem verið hafði við líði við skil á atvinnuhúsalóðum hafi verið málefnaleg, sbr. nr. 4  hér að framan. Með vísan til framangreinds álits umboðsmanns Alþingis telur ráðuneytið nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort það leiði til þess að horfa skuli fram hjá væntingum T í þessu efni. 

Þá er einnig að geta að í fyrrgreindu áliti umboðsmanns Alþingis kemur einnig fram að sjónarmiðið um réttmætar væntingar hafi sérstaka þýðingu þegar ákveðið er að stjórnsýsluframkvæmd skuli breytt en þar segir:

,,Þótt slík breyting teljist fyllilega lögmæt kunna slík sjónarmið ásamt lagarökum um að forðast skuli afturvirkni réttarreglna að setja stjórnvöldum ákveðin mörk um það hvenær heimilt er að láta þá breytingu taka gildi og um hvaða tilvik þau skulu gilda.”

Þá leggur umboðsmaður jafnframt áherslu á að stjórnvöld verði að gæta að sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti, að teknu tilliti til réttmætra væntinga málsaðila, við mat á því hvernig breytingar á stjórnsýsluframkvæmd eru gerðar.  Í því sambandi telur ráðuneytið rétt að ítreka að það er algengt að sveitarfélög afli sér lands með kaupum eða eignarnámi til þess að skipuleggja þar byggð og úthluta síðan sem byggingarlóðum til leigu þó slíkt heyri ekki til lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Verður að líta til þess að við slík verkefni verða sveitarfélög að vanda vel til verka enda eru þau sterkari aðili við slíka samningsgerð. Því er það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að sveitarfélög setji skýra úthlutunarskilmála þannig að öllum megi vera ljóst hvaða reglur gildi um úthlutun og skil lóða hjá viðkomandi sveitarfélagi. Verður ekki séð að Kópavogsbær hafði hagað framkvæmd sinni í samræmi við þetta.

Ráðuneytið telur í ljósi alls framangreinds og þegar atvik og aðstæður eru metin á heildstæðan og hlutlægan hátt að ákvörðun Kópavogsbæjar um að heimila T ekki skil á lóð sinni sé haldin verulegum annmarka að lögum. Við úrlausn á máli T bar Kópavogsbæ að tryggja félaginu sömu réttindi til skila á atvinnuhúsalóð sinn og öðrum sem líkt var ástatt um og fengið höfðu úthlutað atvinnuhúsalóðum hjá sveitarfélaginu. Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja T um skil lóðinni að Tónahvarfi 7 ber því, með vísan til 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að fella úr gildi.     

7.         Kröfugerð T tekur einnig til þess að Kópavogsbæ verði gert að endurgreiða þau gatnagerðargjöld sem greidd hafa verið vegna lóðarinnar, að viðbættum verðbótum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 felst heimild fyrir ráðuneytið að staðfesta eða, að lagaskilyrðum fullnægðum, fella úr gildi ákvarðanir sveitarfélaga. Valdheimild ráðuneytisins samkvæmt því lagaákvæði felur ekki í sér að það geti lagt fyrir sveitarfélög landsins að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. 

Ráðuneytið getur því ekki á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga lagt fyrir Kópavogsbæ að endurgreiða T áður greitt gatnagerðargjald. Á grundvelli þeirrar afstöðu ráðuneytisins að synjun Kópavogsbæjar á skilum lóðarinnar sé ógild er þeim tilmælum hins vegar beint til Kópavogsbæjar að bærinn endurgreiði fyrrgreint gjald í samræmi við þá framkvæmd sem gilt hefur varðandi skil atvinnuhúsalóða og heimili fyrrgreind skil enda er annað ólögmætt. Valdheimild ráðuneytisins til framsetningar þessara tilmæla leiðir af 102. gr. sveitarstjórnarlaga.

Vegna starfsanna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu Tónahvarfs 7, kt. 650507-3980 að ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja félaginu að skila til bæjarins lóðinni nr. 7 við Tónahvarf í Kópavogi sé ógild.

Ráðuneytið hefur ekki á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga heimild að lögum til að úrskurða um þá kröfu Tónahvarfs 7 ehf. að lagt verði fyrir bæjarráð Kópavogs að endurgreiða félaginu það gatnagerðargjald sem það hefur greitt vegna lóðarinnar. Kröfu Tónahvarfs 7 ehf. að því leyti er vísað frá ráðuneytinu. Á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga beinir ráðuneytið hins vegar þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að rétta stöðu félagins þannig að það verði jafnsett öðrum sem fengið höfuð úthlutað atvinnuhúsalóð og bærinn heimilaði lóðaskil.

Bryndís Helgadóttir

Hjördís Stefánsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum