Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 21/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 21/2019

Miðvikudaginn 10. apríl 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 14. janúar 2019, kærði A lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 25. október 2018 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 5. apríl 2018. Í umsókninni lýsir kærandi tjónsatvikinu þannig að hún hafi þann X verið flutt á heilsugæslu og þaðan á C vegna [...]. Þar hafi hún verið greind með [...] en ekki hafi verið unnt að framkvæma frekari rannsóknir vegna bilunar í segulómtæki. Vegna ítrekaðra [...] daginn eftir hafi kærandi verið send til D til frekari rannsókna sem leitt hafi í ljós [...]. Vegna rangrar greiningar hafi kærandi ekki fengið viðhlítandi læknismeðferð eins skjótt og auðið var. Afleiðingarnar séu [...]. Þá eigi kærandi einnig í vandræðum með [...]. Þá sé kærandi [...].

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 24. október 2018, á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. janúar 2019. Með bréfi, dags. 15. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2019, bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands verði breytt þannig að samþykkt verði að greiða kæranda bætur úr sjúklingatryggingu, sbr. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í kæru kemur fram að sonur kæranda hafi hringt í neyðarlínuna um kl. X að kvöldi X og hafi sjúkrabíll strax verið sendur á vettvang sem flutti kæranda á sjúkrahúsið á C að fyrirmælum heilsugæslulæknis á E. Í  [...], hafi verið fjallað um þetta tiltekna atvik og þar hafi komið fram að lýsingar á sjúkdómseinkennum kæranda hafi samræmst einkennum [...]. Sú meðhöndlun sem kærandi hafi fengið á C hafi hins vegar ekki að neinu leyti lotið að því að hugsanlega gæti verið um [...] að ræða, þrátt fyrir ýmis einkenni þar að lútandi. 

Að sögn bæði F og G er komu síðar á sjúkrahúsið þá hafi þeim verið tjáð að „þetta væru bara [...]“, ekkert alvarlegt og hún færi heim daginn eftir. Samkvæmt sjúkraskrá kæranda hafi hún verið greind með [...] sem sé allt annað þó að sumum einkennum þess sjúkdóms kunni að svipa til [...]. Enn frekari ástæða hafi því verið til að kanna það sérstaklega og framkvæma skoðun og athugun í því skyni að útiloka að um [...] kynni að vera að ræða. Að sögn F hafi ekki verið unnt að senda kæranda í segulómtæki þar sem það tæki hafi verið sagt bilað.  Ummæli H læknis í bréfi til landlæknis, dags. X 2018, styðji þá staðhæfingu. Í öllu falli hafi kærandi ekki verið send á Landspítala fyrr en kl. X þann X þar sem hún fór í segulómun [...].  Segulómskoðunin hafi leitt í ljós að hún væri með [...].  Þá hafi kærandi verið búin að liggja á C í X klukkustundir, ranglega sjúkdómsgreind og án viðhlítandi læknismeðferðar. 

Afleiðingar [...] séu þær að kærandi sé með [...]. Hún hafi auk þess [...] og þá hafi [...] sem hún hafði [...] tekið sig upp að nýju.

Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við að læknar á C hafi ekki skoðað ítarlega þann möguleika að um yfirvofandi eða ákomið [...] gæti verið að ræða og til að mynda sent hana fyrr í segulómun. Þó að tölvusneiðmyndataka (CT) af [...] hafi verið eðlileg þá hafi  læknum ekki átt að geta dulist að slík myndataka greini almennt ekki [...].  Hvergi komi fram að sá möguleiki hafi verið skoðaður í raun og hvergi sé þess til dæmis getið að [...] hafi verið gert til að útiloka [...]. Telja verður verulegar líkur á því að hefði kærandi verið send fyrr í segulómun (MRI) þá hefði hún fengið sjúkdómsgreiningu fyrr þannig að unnt hefði verið að veita henni fullnægjandi læknismeðferð og hugsanlega koma í veg fyrir frekari [...].

Við komuna hafi einkennin verið talin lítilvægleg, talað hafi verið um [...] sem væri ekkert alvarlegt og það hafi átt að senda hana heim gegn mótmælum aðstandenda. Það hafi  ekki verið fyrr en hún hafi verið búin að [...] sem læknar sáu loksins tilefni til frekari íhlutunar og sendu hana á Landspítala en þá hafði hún verið á C í X. 

Kærandi fellst ekki á þá niðurstöðu ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands að einkenni og ástand kæranda eigi rætur að rekja til grunnsjúkdóms en ekki meðferðar eða skorts á meðferð. Ekki sé ljóst við hvaða grunnsjúkdóm sé átt eða hver sé rökstuðningur fyrir slíkri staðhæfingu. Sé verið að vísa til staðhæfinga meðferðaraðila um „ófullnægjandi lyfjameðferð“ eða einhliða ályktana vegna þess að kærandi hefði „ekki [...] í einhvern tíma“ þá sé þeim mótmælt og vísað á bug sem röngum og órökstuddum. Kærandi hafi verið [...] en fengið [...] þegar hún var X ára og hafi ekki [...] frá um það bil X ára aldri. Hún hafi verið X ára gömul þegar umrætt atvik gerðist og því fráleitt að halda fram einhverju orsakasamhengi þar á milli.

Telja verði að góður og gegn læknir hefði skoðað kæranda ítarlega með tilliti til möguleika á [...] en verulegar líkur séu á að með viðhlítandi skoðun og meðferð hefði verið unnt að koma í veg fyrir [...] eða að afleiðingar þess yrðu ekki jafn alvarlegar og raun varð á.

Samkvæmt framansögðu séu að mati kæranda uppfyllt skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu um orsakatengsl á milli vangreiningar lækna C og tjóns sem hún varð fyrir þar sem vangreiningin hafi leitt til þess að kærandi fékk ekki rétta meðhöndlun til þess að hægt væri að koma í veg fyrir eða takmarka það tjón er hún varð fyrir. 

Kærandi áréttar að strax í upphafi, eða við afskipti neyðarlínunnar, hafi verið talið að kærandi væri að [...] og því til stuðnings sé vísað til [...] þar sem fjallað hafi verið um þetta tiltekna atvik. Þá hafi aðstandendur kæranda margsinnis farið fram á að hún yrði send á Landspítala til frekari skoðunar og athugunar en því hafi verið hafnað.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé krafa kæranda um bætur ítrekuð.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að krafa hennar byggi á því að hún hafi verið vangreind á C og drætti á viðhlítandi skoðun og meðferð. Fyrir liggi staðfesting C á að ekki hafi verið unnt að senda hana fyrr í segulómun eða eins og fram komi í bréfi stofnunarinnar, dags. X 2018 „…dráttur mun hafa orðið á því að rannsóknin fengist vegna bilunar í tækjabúnaði Landspítalans“. Kærandi hafi aldrei haldið því fram að hún hafi verið vangreind eða ekki hlotið tilhlýðilega læknismeðferð á Heilsugæslunni E eða á Landspítala. Hún byggi á því að hún hafi ekki verið rétt greind á C sem hafi leitt til þess að hún hafi ekki fengið viðhlítandi læknismeðferð.

Staðhæfingu Sjúkratrygginga Íslands um að kærandi hafi fengið [...] á heimili sínu og að það sé grunnsjúkdómur hennar sé mótmælt sem ósannaðri og órökstuddri. Það liggi ekkert fyrir um það hvenær kærandi fékk fyrst [...] en áréttað skal að hún hafi verið inniliggjandi á C í X klukkustundir og hafi ekki verið send í segulómun á Landspítala fyrr en eftir [...]. Meðhöndlun kæranda á C hafi ekki lotið að neinu leyti að því að hugsanlega gæti verið um [...] að ræða, þrátt fyrir ýmis einkenni þar að lútandi. Starfsmenn hafi hundsað beiðnir aðstandenda um að senda kæranda til frekari meðferðar á Landspítala og hafi gert lítið úr veikindum kæranda. Kærandi telji að verulegar líkur séu á því að ef hún hefði verið send fyrr í segulómun þá hefði hún fengið rétta sjúkdómsgreiningu fyrr þannig að unnt hefði verið að veita henni viðhlítandi læknismeðferð og hugsanlega koma í veg fyrir eða takmarka það tjón er hún var fyrir. Skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu þannig uppfyllt.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið synjað þar sem skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt. Við meðferð málsins hafi meðal annars verið rannsakað hvort tjón mætti rekja til þess að ekki hafði verið rétt staðið að læknismeðferð, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða -tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem sjúklingur gekkst undir.

Eftir sjálfstæða skoðun á gögnum máls hafi það verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að ekki hafi verið hægt að gera athugasemdir við viðbrögð á Heilsugæslunni E þann X. Það hafi verið mat Sjúkratrygginga Íslands að einkenni kæranda hafi ekki verið svo sértæk að sjúkdómsgreining hefði átt að liggja fyrir. Nákvæmri skoðun á [...] hafi verið lýst. Aðaleinkenni kæranda virtust í upphafi hafa verið [...]. Orsakir [...] geti verið margvíslegar og oft fylgi [...]. Algengust séu [...] en meðal annarra algengra orsaka megi einkum nefna [...]. Töldu Sjúkratryggingar Íslands að það hafi verið eðlileg ákvörðun að senda umsækjanda á sjúkrahús til frekara mats.

Ekki hafi verið fundið að viðbrögðum lækna á C. Í greinargerð H læknis komi fram að aðaleinkenni kæranda hafi verið sem fyrr [...]. Hann staðfesti að kærandi hafi verið [...]. Hann hafi greint [...]. I unglæknir hafi hins vegar talið [...]. Frumgreining H hafi verið [...] en henni fylgir gjarnan [...]. Eðlilegt hafi verið að leggja áherslu á að útiloka sýkingu með [...]. Umræddar myndgreiningaraðferðir hafi líka verið réttmætar til að útiloka [...]. Eins og fram hafi komið í ákvörðun hafi segulómun verið í undirbúningi þegar kærandi [...] og ákveðið hafi verið að flytja hana á Landspítala.

Við komu á Landspítala hafi [læknir] skoðað kæranda og [...]. Raunar hafi [...] varla verið nefnt fyrr en X. Þann X hafi J [læknir] greint frá [...]. Þann X hafi K [læknir] lýst [...], auk þess sem [...] virðist hafa farið vaxandi.

Þannig verði að álíta að [...] hafi farið vaxandi fyrstu legudaga kæranda á Landspítala, þrátt fyrir [...]. Meðferðarval á Landspítala hafi staðið á milli hefðbundinnar [...] annars vegar eða [...] hins vegar. Hið fyrrnefnda hafi orðið fyrir valinu þótt síðar í legu hafi meðferðinni verið breytt og [...]. Að jafnaði sé ekki munur á árangri meðferðar hvor leiðin sem farin sé. Það hafi því verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að val á meðferð hafi ekki haft áhrif á tjón umsækjanda.

Ekki hafi því verið heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

Kærandi telji að læknar á [C] hafi ekki brugðist við einkennum kæranda með fullnægjandi hætti. Þá séu í kæru gerðar athugasemdir við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands um að einkenni og ástand kæranda megi rekja til grunnsjúkdóms án þess að vísað sé til hvaða grunnsjúkdóms og rökstuðnings.

Kærandi telji þannig að góður og gegn læknir hefði skoðað kæranda með ítarlegum hætti með tilliti til möguleika á [...] en verulegar líkur séu á að með viðhlítandi skoðun og meðferð hefði verið unnt að koma í veg fyrir [...] eða að afleiðingar þess yrðu ekki jafn alvarlegar og raun varð á.

Í hinni kærðu ákvörðun séu málavextir raktir og með ítarlegum hætti farið yfir forsendur niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Hvað varðar vísun í grunnsjúkdóm þá sé það niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að einkenni og ástand kæranda nú megi rekja til hennar grunnsjúkdóms sem sé [...]. Sjúkratryggingar Íslands geti ekki fallist á að verulegar líkur séu á að með viðhlítandi skoðun og meðferð hefði verið unnt að koma í veg fyrir [...] líkt og haldið sé fram í kæru. Kærandi hafi [...] á heimili sínu og sé það grunnsjúkdómur hennar en mat það sem fari fram á grunni umsóknar með vísan í lög um sjúklingatryggingu feli í sér skoðun á þeirri meðferð sem fram fór í kjölfarið.

Það hafi verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands, eftir gagnaöflun og skoðun á málinu, að ekki hafi verið um að ræða atvik sem fallið gæti undir 2. gr. laganna.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meðferðar sem fór meðal annars fram á C X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Kærandi telur að meint sjúklingatryggingaratvik falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt gögnum málsins veiktist kærandi heima fyrir 23. júlí 2014. Vegna einkenna kæranda var hún flutt á C til frekari rannsókna og meðferðar

Í greinargerð meðferðaraðila hjá C, dags. X 2018, segir:

„Veiktist skyndilega X með [...]. [...]. Heilsugæslulæknir á E var tilkallaður. Var í framhaldi flutt í sjúkrabíl og innlögð á C. Fram kom að hún hafði sögu um [...]. Hafði haft væg flensulík einkenni í tvo daga fyrir komu. Þegar hún lagðist inn var hún vel áttuð á stað og stund en treysti sér ekki til að [...]. Var ekki [...]. Fínn styrkur var í öllum útlimum. Hún var með [...]. Til að byrja með var líklegasta greiningin talin [...]. Gangur var hins vegar með þeim hætti að frekari rannsókna var þörf og því var gerð mænustunga til að útiloka meningitis eða encephalit. Var niðurstaða eðlileg. Þá var gerð CT af [...] sem var eðlileg. Þá var gerð ráðstöfunt til að fá MRI af [...]. Að morgni eftir innlögn fékk A [...]. Kom þá fram að hún [...]. Hún fluttist á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Hvað gang sjúkdóms hennar varðar frekar vísast til læknabréfa Landspítalans.“

Í svari meðferðarlæknis vegna kvörtunar kæranda til Embættis landlæknis, dags. X  2018, segir:

„Óskað var eftir sjúkrflutningi vegna veikinda A þann X kl. X og sjúkraflutningsmennirnir komnir að heimilihennar X mínútum síðar. A var flutt á Heilsugæslustöðina á E til skoðunar og X síðar var hún flutt hingað í C. Þeim flutningi lauk X þann X kl. X. Hún var svo flutt á LSH til frekari rannsóknar X og kom þangað kl. X.“

„…Eins og fram kemur í sjúkraskrá var tekin tölvusneiðmynd til þess að útiloka mögulega [...]. Eins og áður hefur komið fram þá sýndi rannsóknin, sem gerð var hér ekki fram á slíkt. Í framhaldinu var gerð ráðstöfun til þess að fá segulómskoðun en dráttur mun hafa orðið á að rannsókn fengist vegna bilunar í tækjabúnaði Landspítalans. Komið er inn á frásögn F og G  að einkenni  A stöfuðu af því sem kallað er [...]. Ekkert er skráð í sjúkraská um að slíkur kvilli hefði getað skýrt einkenni A enda voru þau mun alvarlegri og af öðrum toga en það. Þá var vitnað í G, sem lýsti áhyggjum sínum af [...]. Eins og fram kemur í sjúkraskrá mun hafa borið á [...] í einhverja mánuði fyrir innlögnina hér en A mun ekki hafa leitað læknis vegna þess. Í bréfi lögmanns er fjallað um [...] og fullyrt að hún hafi verið [...]. Hún er enn [...]. Telja verður að ófullnægjandi lyfjameðferð hafi átt þátt í að hún [...] X.“

Kærandi telur að tilvik hennar falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu þar sem hún hafi ekki verið greind með [...], þrátt fyrir einkenni þar að lútandi. Með vísan til þess telur úrskurðarnefnd velferðarmála að 1. mgr. 2. gr. komi til skoðunnar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Nefndin fær ráðið af fyrirliggjandi gögnum að greiningu hafi seinkað á hinu raunverulega vandamáli kæranda, þ.e. [...]. Samkvæmt sjúkraskrá kandídats voru einkenni kæranda við komu á C X mun vægari en síðar varð. Ekki er unnt að ráða nákvæmlega af gögnum málsins hvenær þau versnuðu en ljóst er þó að ekki síðar en um X voru læknar sem önnuðust kæranda farnir að huga að [...] sem möguleika sem þyrfti að rannsaka og staðfesta eða útiloka. Teknar voru tölvusneiðmyndir [...] sem gagnast helst til að [...] en eru ekki áreiðanleg rannsókn [...]. Kjörrannsókn í því skyni er segulómun. Þótt talað sé um að bilun í segulómtæki Landspítala hafi valdið töfum á greiningu verður að hafa í huga að þrjú slík tæki eru á Landspítala og nokkur til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu. Því hefði með réttum ráðstöfunum átt að vera hægt að fá þessa rannsókn gerða samdægurs hið minnsta.

Að mati úrskurðarnefndar má hins vegar ljóst vera að þótt greining hefði náðst fyrr voru meðferðarmöguleikar takmarkaðir. Eins og fram kemur í gögnum málsins stóð valið á milli [...] og [...]. Hvorug meðferðin [...]. Ekki hefur verið sýnt fram á með vísindalegum rannsóknum að önnur meðferðin sé hinni betri. Úrskurðarnefndin álítur ekki unnt að fullyrða að meiri líkur en minni séu fyrir því að tekist hefði að draga úr því heilsutjóni sem kærandi varð fyrir, hefði greining tekist fyrr og önnur hvor lyfjameðferðin hafist fyrr sem því nam.

 Úrskurðarnefnd fær ráðið af framansögðu að rannsóknum og meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt var í tilfelli kæranda og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Að mati nefndarinnar séu hins vegar ekki meiri líkur en minni á því að það hafi valdið því heilsutjóni sem kærandi varð fyrir eða hluta þess. Bótaskylda verður því ekki byggð á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum