Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Nr. 316/2018 - Úrskurður

Staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara. Stofnað til skulda þegar skuldari var ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar skv. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Skuldari hefur hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað skv. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ​

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 316/2018

Fimmtudaginn 25. október 2018

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 7. september 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. ágúst 2018 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 10. september 2018 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. september 2018. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 18. september 2018 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur X. Hann er einhleypur og býr í X fermetra leiguíbúð. Hann á X árs gamalt barn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi er í [námi]. Hann hefur aðallega fengið tekjur af eigin atvinnurekstri og frá ýmsum fyrirtækjum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2018 eru 9.066.884 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuld við LÍN að fjárhæð 2.346.093 krónur.

Ástæður fjárhagsvanda eru að sögn kæranda veikindi en auk þess hafi hann ekki náð tilskildum einingum í skóla sem hafi leitt til þess að hann fékk ekki námslán. Það hafi aftur leitt til vanskila við viðskiptabanka kæranda.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 22. mars 2018 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2018 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa stofnað til skuldanna í [...] veikindum en hann geti sýnt fram á innlagnir á [...] árið  2016.

Nú sé hann að vinna í sínum málum. Hann stundi erfitt nám en það sé grundvallarforsenda þess að hann geti haldið áfram námi að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Námið sé einnig grundvallarforsenda þess að kæranda muni vegna vel í framtíðinni og hann geti búið við efnahagslegt öryggi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun komi fram að þær ástæður sem fjallað sé um í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Kæranda hafi verið send tvö bréf með ábyrgðarpósti 25. júní og 30. júlí 2017. Í fyrra bréfinu hafi kærandi verið beðinn um upplýsingar vegna mismunar á veltu á bankareikningum hans og tekjum samkvæmt opinberum gögnum vegna tekjuáranna 2015, 2016, 2017 og 2018 annars vegar og samkvæmt upplýsingum og gögnum um framfærslukostnað, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., hins vegar. Kærandi hafi veitt umbeðnar skýringar og lagt fram gögn þeim til stuðnings að hluta til. Með bréfi 30. júlí 2018 hafi verið óskað nánari upplýsinga um innborganir á bankareikninga kæranda. Kærandi hafi gefið skýringar á þeim með tölvupóstum 2. ágúst 2018. Jafnframt hafi verið óskað upplýsinga um stofnun skulda á árinu 2016 er greiðslugeta kæranda hafi verið neikvæð og var vísað þar um til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins hafi tekjur kæranda á árinu 2016 verið eftirfarandi:

Skattskyldar tekjur

105.121

Skattfrjálsar tekjur

0

Reiknað endurgjald og

hreinar tekjur af atvinnurekstri

1.365.170

Samtals

1.470.291

Tekjur á mánuði

122.524

 

Samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir desember 2016 hafi framfærslukostnaður fyrir einstakling verið 133.709 krónur á mánuði. Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort kærandi hafi greitt húsaleigu eða annan kostnað á árinu 2016.

Sé gert ráð fyrir að kærandi hafi haft 122.524 krónur í nettótekjur á mánuði og framfærslukostnaður, miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í desember 2016, hafi verið 133.709 krónur, hafi greiðslugeta kæranda verið neikvæð um 11.185 krónur á mánuði á árinu 2016.

Á árinu 2015 hafi kærandi stofnað til eftirtalinna skulda:

Dagsetning

Kröfuhafi

Heildarfjárhæð

Afborgun

Vanskil hófust

Eftirstöðvar

25. febrúar 2015

Arion banki hf.

1.320.000

8.500

1. apríl 2016

387.811

2. júní 2015

Borgun/ [...]

150.970

8.640

2. júní 2016

101.571

Samtals

17.140

489.382

 

Á árinu 2016 hafi kærandi stofnað til eftirtalinna skulda:

Dagsetning

Kröfuhafi

Heildarfjárhæð

Afborgun

Vanskil hófust

Eftirstöðvar

2. febrúar 2016

Borgun/[...]

294.475

24.540

2. júní 2016

367.729

25. febrúar 2016

Valitor/[...]

589.950

23.000

30. apríl 2016

838.119

2. júní 2016

Borgun/[...]

448.111

13.334

2. september 2016

513.210

Samtals

1.332.536

60.874

1.719.058

 

Er kærandi hafi stofnað til skulda á árinu 2015 hafi greiðslubyrði lána verið 17.140 krónur á mánuði. Er stofnað hafi verið til skulda á árinu 2016 hafi samanlögð greiðslubyrði þeirra lána verið 60.874 krónur á mánuði. Greiðslubyrði vegna lána sem tekin hafi verið á árunum 2015 og 2016 hafi því samtals verið að fjárhæð 78.014 krónur á mánuði.

Á árinu 2016 hafi að auki eftirfarandi reikningar kæranda farið í vanskil:

Dagsetning

Kröfuhafi

Heildarfjárhæð

Vanskil hófust

Eftirstöðvar

27. apríl 2016

365 miðlar ehf.

7.684

27. apríl 2016

21.995

20. maí 2016

365 miðlar ehf.

3.907

20. maí 2016

18.556

20. júní 2016

365 miðlar ehf.

5.516

20. júní 2016

19.312

20. júlí 2016

Síminn

9.180

20. júlí 2016

24.165

20. september 2016

HS veitur hf.

95.647

20. september 2016

154.981

24. október 2016

365 miðlar ehf.

10.481

24. október 2016

28.452

27. október 2016

Bílastæðasjóður

40.000

27. október 2016

49.544

21. nóvember 2016

365 miðlar ehf.

9.102

21. nóvember 2016

26.360

20. desember 2016

365 miðlar ehf.

2.529

20. desember 2016

14.463

Samtals

184.046

357.828

 

Með vísan til alls framangreinds sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað á árinu 2016 er greiðslugeta hans var neikvæð um 11.185 krónur á mánuði, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi vísi meðal annars til þess í kæru að til skulda hafi verið stofnað í [...] veikindum og hann geti sýnt fram á innlagnir inn á [sjúkrahús]. Hann sé nú að vinna í sínum málum og leggi stund á erfitt nám. Grundvallarforsenda þess að hann geti haldið áfram námi sé að umsókn hans um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærandi ekki haldið því fram að hann hafi verið veikur þegar til skuldanna var stofnað. Í svari kæranda, í kjölfar þess að honum hafi verið sent áðurnefnt bréf 30. júlí 2018, komi fram að ekki hafi verið stofnað til skuldanna með það að markmiði að greiða þær ekki. Þá hafi kærandi gefið þær skýringar að hann hefði fengið vinnu á [...] í X 2016. Hann hefði látið af störfum þar og ekki fengið greidd laun fyrir X viknaX vinnu. Honum hefði svo ekki tekist að fá starf eftir það. Í svari sínu kveðst kærandi loks hafa greitt mörg hundruð þúsund krónur til innheimtufyrirtækja og reynt að standa í skilum þar til hann hafi misst tökin X 2016.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011, 23/2011 og 31/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun hafi stofnað til skuldbindinga. Þyki ljóst að þeir hafi ekki getað staðið við skuldbindingar þegar til þeirra hafi verið stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Hin kærða ákvörðun byggi á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem fyrir hafi legið.

Umboðsmaður skuldara fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2015, 2016 og 2017 í krónum:

 

 

2015

2016

2017

Meðaltekjur á mánuði (brúttó)

103.688

120.088

232.803

Eignir alls

501.690

503.885

438.596

· Bifreið

500.000

450.000

405.000

· Bankainnstæður

1.690

53.885

33.596

Skuldir

4.277.639

6.213.766

3.388.700

Nettó eignastaða

-3.775.949

-5.709.881

-2.950.104

 

Á tímabilinu janúar til apríl 2018 hefur kærandi ekki gefið upp neinar tekjur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi

Ár

Tegund

Upphafleg

Staða

Vanskil

 

 

 

fjárhæð

2018

frá

LÍN

2010-2014

Skuldabréf

2.393.118

2.346.093

Í skilum

Arion banki

2015

Skuldabréf

1.320.000

387.811

2017

Síminn

2016

Reikningur

9.180

24.165

2016

Valitor hf.

2016

Lánasamningur

615.978

838.119

2016

Landsbankinn

2016

Tékkareikningar

1.732.322

2.270.522

2016

365 miðalar hf.

2016

Reikningar

40.017

101.571

2016

Tollstjóri

2015-2017

Ýmis opinber gjöld

902.627

904.404

2015

Bílastæðasjóður

2016-2017

Reikningar

40.000

49.544

2016

HS veitur hf.

2016-2017

Reikningar

95.647

154.981

2016

Borgun hf.

2016-2018

Lánasamningar

576.849

982.510

2016

Íslandsbanki hf.

2017

Tékkareikningur/kreditkort

775.390

827.486

2017

 

 

Alls:

8.501.128

8.887.206

 

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gert grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2016 hafði kærandi að meðaltali 120.088 krónur til ráðstöfunar á mánuði. Framfærslukostnaður kæranda á mánuði miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara var 133.709 krónur. Þannig var greiðslugeta hans neikvæð um 13.621 krónu eftir greiðslu framfærslukostnaðar. Gögn málsins sýna að kærandi var þegar kominn í vanskil með opinber gjöld á árinu 2015, sbr. yfirlit yfir skuldir kæranda í töflunni hér að framan. Þrátt fyrir það gerði hann þrjá lánasamninga við Borgun hf. og Valitor hf. til kaupa á ýmsum hlutum árið 2016. Voru þessir samningar þannig úr garði gerðir að hann skyldi greiða ákveðna fjárhæð mánaðarlega, en kærandi var þegar með neikvæða greiðslugetu sem fyrr segir. Þá var eignastaða hans jafnframt neikvæð, sbr. töflu um fjárhagsstöðu kæranda hér að framan.

Að mati úrskurðarnefndarinnar gáfu hvorki tekjur kæranda né eignastaða honum tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir greiðslu þeirra skulda sem hann stofnaði til á árinu 2016. Í ofangreindu ljósi telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi verið með þeim hætti að með því að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2016 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Er þá sérstaklega horft til þess að kærandi gerði þrjá lánasamninga til kaupa á ýmsum hlutum á árinu 2016 þrátt fyrir að vera með neikvæða greiðslugetu og aðrar skuldir í vanskilum. Kærandi greindi frá því í kæru sinni að hann hefði stofnað til lánasamninganna í [...] veikindum og að hann gæti sýnt fram á innlagnir á [sjúkrahús] því til stuðnings. Kærandi hefur þó ekki lagt fram nein gögn er staðfesta að umræddar lántökur megi rekja til veikinda hans, hvorki læknisvottorð né yfirlýsingu frá [sjúkrahúsi]. Úrskurðarnefndin telur því að með því að gera áðurnefnda lánasamninga hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir                                                Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira