Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd%20eignarn%C3%A1msb%C3%B3ta

Matsmál nr. 5/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 5/2019

 

 

Vegagerðin

gegn

Önnu Lilju Jónsdóttur

Guðbjörgu Ósk Jónsdóttur

og Þorbergi Hjalta Jónssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 4. mars 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landspildu í landi Skarðshóla, landnúmer 221022, undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð.

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþolar eru Anna Lilja Jónsdóttir, […], […], og Þorbergur Hjalti Jónsson, […]. Eignarnámsþolar eru eigendur Hjarðarness, landnúmer 159484.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

26.095 fermetra landspilda í landi Skarðshóla milli vegstöðva 16700 og 17365, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar. Samkvæmt matsbeiðni nýtast þar af áfram 433 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem dragast frá.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 28. mars 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 12 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Þriðjudaginn 25. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Af hálfu eignarnema var lögð fram bókun þar sem greinir meðal annars: „Eignarnámsþolar í ofangreindu máli vekja athygli matsnefndar eignarnámsbóta á eftirfarandi atriðum: 1. Að þeir mótmæla ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám og hún verði kærð skv. heimild til ráðherra, sbr. meðfylgjandi kæru. Komi til þess að ráðherra staðfesti ákvörðunina munu eignarnámsþolar leita réttar síns fyrir dómstólum. 2. Að þeir mótmæli umráðatöku Vegagerðarinnar á landi þeirra meðan ekki hefur verið skorið endanlega úr um lögmæti ákvörðunar Vegagerðarinnar um eignarnám.“ Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 25. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum og greinargerð eignarnámsþola ásamt fimm tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram málskostnaðaryfirlit ásamt einum reikningi vegna útlagðs kostnaðar. Af hálfu eignarnema var lagt fram skjal, þar sem eignarnemi vísar til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað að hann byggi í þessu máli á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni, eftir því sem við eigi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

 

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna 25.622 fermetra landspildu í landi Hjarðarness milli vegstöðva 16700 og 17365 769.860 krónum, sem myndi skiptast milli eignarnámsþola þannig að hver þeirra fengi þriðjungshlut.

 

Við mat á bótum vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014, […]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði.

 

Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat 2019 vegna Skarðshóla, sem sé 59,7 hektarar að stærð, sé 1.915.000 krónur eða 32.077 krónur á hektara sem verði að teljast óraunhæft og gefi varla vísbendingu um verðmæti landsins.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara.

 

Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspilda í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365 ) af deiglendi, mýri og mosagróðri. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþolar haldi eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins.

 

Þá hafnar eignarnemi fullyrðingum eignarnámsþola um fyrirhugaða landnýtingu og að slíkt réttlæti áhrif til hækkunar bóta fyrir matsandlagið, með vísan til þess að hvorki deiliskipulag á svæðinu né aðrar upplýsingar liggi fyrir um slíka uppbyggingu á landinu í fyrirsjáanlegri framtíð.

 

Að síðustu vísar eignarnemi eins og áður greinir til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolum verði ákveðnar 137.864.800 krónur, sem skiptast skuli með þeim hætti að eignrnámsþolar fái hvert um sig þriðjungshlut.

 

Tekur kröfugerð eignarnámsþola mið af því að greiða beri bætur fyrir hið eignarnumda land, það er matsandlagið, en einnig áhrif fyrirhugaðs vegar á verðmæti annars landssvæðis í þeirra eigu. Árétta eignarnámsþolar í því samhengi að þeim beri fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti og að ekki eigi að fullu við hefðbundin sjónarmið skaðabótaréttar varðandi sönnun á skaðabótaskyldu tjóni. Hafi eignarnámsþolar uppfyllt sönnunarkröfur með málatilbúnaði sínum, áliti löggilts fasteignasala og öðrum framlögðum gögnum. Þá sé matsnefnd eignarnámsbóta sérstaklega skipuð til að ákvarða tjón í tilefni eignarnáms og búi nefndin yfir víðtækri sérþekkingu og á henni hvíli sjálfstæð rannsóknarskylda. Er töluleg kröfugerð eignarnámsþola reist á sérfræðiáliti Jóns Hólms Stefánssonar, löggilts fasteignasala, frá því í ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði. Verðmatið ber heitið „Hringvegur um Hornafjörð - leið 2, 3 og 3b. Áhrif vegagerðar 3b á verðgildi viðkomandi jarða.“ Í álitinu segir meðal annars að skoðað hafi verið fyrirhugað vegstæði, meðal annars um eignarlönd eignarnámsþola, svonefnd leið 3b, og hver áhrif þeirrar vegalagningar myndi hafa á verðgildi jarðanna. Er kröfugerð eignarnámsþola nánar sundurliðuð á svofelldan hátt:

 

Í fyrsta lagi krefjast eignarnámsþolar 10.264.800 króna fyrir 25.662 fermetra landspildu í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365). Er miðað við að greiða skuli 400 krónur fyrir hvern fermetra í samræmi við niðurstöðu sérfræðiálitsins.

 

Í öðru lagi krefjast eignarnámsþolar bóta að fjárhæð 22.800.000 krónur vegna landspildu milli vegar og Míganda sem þeir telja að missi verð- og notagildi sitt með öllu vegna vegarins samkvæmt sérfræðiálitinu. Um ræðir landspildu austan og sunnan veglínu, það er 57.000 fermetra landspildu í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365). Er miðað við að greiða skuli 400 krónur fyrir hvern fermetra í samræmi við niðurstöðu sérfræðiálitsins. Eru stærðarútreikningar þessir reistir á útreikningum lögmanna eignarnámsþola sem framkvæmdir voru með hjálp flatarmælis vefsíðunnar map.is.

 

Í þriðja lagi krefjast eignarnámsþolar bóta að fjárhæð 102.800.000 krónur vegna annars lands sem þeir telja að missi verð- og notagildi sitt með öllu vegna vegarins samkvæmt sérfræðiálitinu. Um ræðir annað land, vestan og norðan veglínu, sem eignarnámsþolar halda eftir, það er samtals 51,4 hektara landspildu í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365). Í samræmi við niðurstöðu sérfræðiálitsins er miðað við að verðmætarýrnun nemi 2.000.000 krónum á hektara. Eru stærðarútreikningar þessir reistir á útreikningum lögmanna eignarnámsþola sem framkvæmdir voru með hjálp flatarmælis vefsíðunnar map.is.

 

Um þrjár ofangreindar kröfur styðjast eignarnámsþolar eins og áður greinir við sérfræðiálit löggilts fasteignasala. Um land eignarnámsþola segir meðal annars í álitinu: „Land Skarðshóla er með öðru móti en land Árnaness og Dilksness. Landið er hólótt með misþurru landi milli klapparholta. Landið afmarkast af þjóðvegi bæði á vestur- og norðurhlið og er því ekki í sama kyrrðarflokki og Árnanes og Dilksnes. Landið býður upp á margs konar möguleika til nýtingar, er samgöngulega vel sett, kalt vatn er til staðar á landinu til endurgjaldslausrar notkunar, sem og ljósleiðari til notkunar án endurgjalds. Fyrirhuguð vegalagning á að fara eftir þurrasta og besta ræktunarlandi jarðarinnar, og klýfur þannig landið. Svæðið austan og sunnan vegstæðisins, sem nær að Míganda, sem rennur á austurmörkum landsins, verður varla nýtanlegt til nokkurs og því að mínu mati tilheyrandi bótaskyldu landi. Þá verður landið vestan og norðan vegstæðisins með allt öðrum hætti en nú er, nýtanlegt til skógræktar og bygginga, ef fólk vill vera svo nærri miklum umferðarþunga. Þannig er það mitt mat að vegaframkvæmdin muni hafa verulegt óbætanlegt tjón á lögbýlið til framtíðarnota. Það er mitt mat að bótafjárhæð sbr. framanritað sé krónur 400 pr. fermeter eða krónur 4.000.000,00 pr. hektara á helgunarlandi vegarins og að austur- og suðurmörkum lands Skarðshóla. Land vestan og norðan veglínunnar að núverandi þjóðvegi myndi rýrna að verðgildi á frjálsum markaði um krónur 2.000.000,00 pr. hektara.“ Þar segir einnig meðal annars að um ræði svo mikil áhrif, að teknu tilliti til landstærðar, að krafa um bætur fyrir landið í heild sinni væri réttmæt, það er eignarnám að fullu, og að það sé ábyrgðarhluti að skemma slíkar náttúruperlur, einkanlega þegar sátt geti verið um aðrar útfærslur sem skili svipaðri niðurstöðu. Landsvæðið sé eftirsótt búsetusvæði enda mjög vel til fallið til hvers kyns landbúnaðar og afar eftirsótt af ferðamönnum umfram mörg önnur svæði hér á landi og nánar ekkert land sé til sölu á frjálsum markaði.

 

Um landshætti á landi eignarnámsþola vísa þeir einnig til þess að Skarðshólar séu lögbýli í Nesjum í Hornafirði, tæplega 60 hektarar að flatarmáli. Markist verðmæti landsins af staðsetningu og náttúrufegurð. Það sé í þungamiðju byggðar og samgangna á Suðausturlandi, þaðan sem fjórir kílómetrar séu til Hafnar í Hornafirði, tveir kílómetrar á Árnanesflugvöll og álíka langt í þéttbýliskjarnann Nesjakauptún við Laxá, ásamt því að þjóðvegur (Lónvegur) liggi á norðurjaðri landsins og vegurinn til Hafnar marki vesturhlið þess en gatnamót veganna séu við norðvesturhorn landsins. Allar leiðir að landinu séu á uppbyggðum malbikuðum vegi og landið henti íbúðabyggð, atvinnurekstri og ferðaþjónustu og landeigendur hafi áformað búrekstur þar sem byggði á ferðamennsku, fræðslu og menningarstarfi. Eignarnámsþolar vísa til þess að þeir hafi í febrúar 2004 fyrst frétt af hugmyndum um vegleið yfir landið, tveimur árum eftir að þau eignuðust landið með afsali í júlí 2002. Þau hafi áður hugsað sér að leggja í fjárfestingar á landinu en þessar hugmyndir hafi sett slíkar framkvæmdir í uppnám og eignarnámsþolar hafi t.d. hvorki getað reist vandaða og hreindýrahelda girðingu sem væri nauðsynleg ræktun á landinu né getað endurgróðursett í skógræktarsvæði á landinu eftir gróðurelda 2010 sem eyddu 21,9 hekturum á landinu og þar með næstum öllu skógræktarlandinu. Þá hafi eignarnámsþolar fest kaup á fasteignum á Höfn í stað þess að byggja á landinu vegna óvissu um nýtt vegstæði.

 

Til viðbótar vísa eignarnámsþolar til þess að þeir hafi reynt að afla sér upplýsinga um söluverð hliðstæðra landareigna og ekki sé mikið um þær. Þeir vísa þó til munnlegra upplýsinga um kaupverð á […], sem seld hafi verið […] 2017 með 10,6 hektara af ræktuðu landi og muni kaupverð hafa numið um 80.000.000 krónum.

 

Í fjórða lagi krefjast eignarnámsþolar 2.000.000 króna vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma. Fyrirhuguð framkvæmd muni taka nokkur ár miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sem ljóst megi vera að valdi miklu raski og ónæði.

 

Þá krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 9.550.041 krónu vegna lögfræðiþjónustu að meðtöldum virðisaukaskatti og 98.774 krónum vegna öflunar verðmats löggilts fasteignasala, samtals að fjárhæð 9.860.545 krónur. Málskostnaðaryfirlitið tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fimm annarra mála sem lögmenn eignarnámsþola hafa rekið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, það er mála nr. 2/2019, 3/2019, 4/2019, 6/2019 og 7/2019 og reikningurinn tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fjögurra þessara mála. Krefjast eignarnámsþolar þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til umfangs málsins, þar sem fyrir liggi að eignarnemi hafi staðið í málarekstri gegn eignarnámsþolum um árabil.

 

Að síðustu vísa eignarnámsþolar eins og áður greinir til þess að þeir byggi í þessu máli eftir því sem við eigi á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolanum Þorbergi Hjalta Jónssyni, og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til áðurgreindrar landspildu, þar sem um ræðir 25.662 fermetra landspildu í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365), sem samkvæmt gögnum málsins einkennast af deiglendi, mýrum, mosagróðri og flóa. Vettvangsathugun leiddi meðal annars í ljós stöku mosavaxin klapparholt og fagurt útsýni fyrir landi eignarnámsþola.

 

Er stærð landspildunnar lýst hér á undan og óumdeild.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir þá landspildu sem fer undir nýtt vegstæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að verðmat það sem eignarnámsþolar lögðu fram og miðar við 400 krónur á fermetra gefi heldur ekki rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna austan fljótsins. Fyrir 25.662 fermetra landspildu í landi Skarðshóla (milli vegstöðva 16700 og 17365) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 1.539.720 krónur (25.662x60).

 

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþolum beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefur á það land sem eignarnámsþolar halda eftir, það er verðrýrnun þar sem vegurinn skiptir landspildunni þannig að óhagræði hlýst af, án þess þó að til álita komi að beita heimildum 12. gr. laga nr. 11/1973. Matsnefndin telur rétt að miða verðrýrnun þessa við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra eða 300.000 krónur á hektara. Er það álit nefndarinnar að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun verði á landi ármegin vegar, það er milli vegar og Míganda, sem nemi 5,7 hekturum í landi Skarðshóla. Hæfilegar eignarnámsbætur vegna landspildunnar sem eignarnámsþolar halda eftir þykja vera 1.710.000 krónur (5,7x300.000). Er stærð þessarar landspildu reist á mælingum matsnefndarinnar, sem í aðalatriðum fer saman við þær mælingar lögmanna eignarnámsþola sem tilgreindar eru í kröfugerð þeirra fyrir nefndinni. Er kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif, sem nýtt vegstæði hefði á annað það land sem þeir halda eftir, hafnað sem tilhæfulausri.

 

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram sameiginlegt málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola í þessu máli og eignarnámsþola í fimm öðrum málum sem rekin eru fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, málum nr. 2/2019, 3/2019, 4/2019, 6/2019 og 7/2019, vegna fyrirhugaðrar vegalagningar um Hornafjörð. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþolar nutu um tíma áður en til samningaviðræðna um matsandlagið og ákvörðun um eignarnám lágu fyrir, allt frá 31. mars 2016 að telja, en yfirlitið tekur t.d. til hagsmunagæslu fyrir skipulagsyfirvöldum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þ. á m. vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegalagningar. Þessi kostnaður eignarnámsþola verður ekki í heild sinni talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins áttu fyrstu bréflegu samskipti málsaðila sér stað með bréfi eignarnema 31. ágúst 2017 til eignarnámsþola og að eignarnemi hafi fyrst boðið fram bætur til handa eignarnámsþolum með bréfi 9. október 2017. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþolum í þessu máli þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til reiknings vegna útlags kostnaðar við sérfræðiálits fasteignasala, sem aflað var sameiginlega að beiðni eignarnámsþola í þessu máli og málum nr. 3/2019, 4/2019, 6/2019 og 7/2019 vegna Dilksness, Hjarðarness og Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar, samkvæmt reikningi sem lagður var fram fyrir matsnefndinni 26. ágúst 2019, svo og með hliðsjón af því að lögmenn eignarnámsþola hafa samkvæmt áðurgreindu rekið fimm önnur mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 4.249.720 krónur, eða 1.416.573 krónur til hvers eignarnámsþola. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 1.510.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 4.249.720 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu, eða 1.416.573 krónur til hvers eignarnámsþola, og eignarnámsþolum, Önnu Lilju Jónsdóttur, Guðbjörgu Ósk Jónsdóttur og Þorbergi Hjalta Jónssyni, samtals 1.510.000 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum