Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 232/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 232/2018

Miðvikudaginn 29. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 29. júní 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. júní 2018 um að synja umsókn hans um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 29. júní 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dagsettu sama dag, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu kemur fram að kærandi sé ekki með lífeyrisgreiðslur frá stofnuninni. Aðeins sé heimilt að greiða uppbót til kaupa á bifreið þeim sem fái greiddan elli- og örorkulífeyri.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2018. Með bréfi, dags. 3. júlí 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 23. júlí 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júlí 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hans um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og uppbót vegna reksturs bifreiðar verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi sé með gilt hreyfihömlunarvottorð hjá Tryggingastofnun vegna [...]. Þá hafi hann sótt um þennan sama styrk fyrir fimm árum og sú umsókn hafi verið samþykkt. Rök Tryggingastofnunar fyrir synjun á umsókn séu þau að hann sé ekki lengur lífeyrisþegi vegna tekna. Kærandi sé engu að síður skráður sem örorkulífeyrisþegi þó svo að hver greiðsla sé 0 kr.

Í lögum nr. 39/1988 um bifreiðagjöld segi:

„Eftirfarandi bifreiðir skulu undanþegnar bifreiðagjaldi:

a. Bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, …“

Kærandi hafi fengið þessi gjöld felld niður þótt hann hafi farið yfir tekjumörkin.

Notkun á orðinu „örorkulífeyrisþegi“ sé notað í daglegu tali og stundum á síðum Tryggingastofnunar í staðinn fyrir orðið öryrki, þ.e. einhvern með örorkumat. Á heimasíðu stofnunarinnar þar sem fjallað sé um barnalífeyri og örorku segi: „Örorkulífeyrisþegar geta átt rétt á barnalífeyri ef …“ neðar standi svo „Barnalífeyrir er ekki tekjutengdur.“ Ekki sé talað um neina aðra í þessum lista en örorkulífeyrisþega, þ.e. ekkert sé minnst á þá sem hafi einungis örorkumat. Það sé því aðeins hægt að draga þá ályktun að „örorkulífeyrisþegar“ séu allir sem hafi fengið slíka skilgreiningu áður, óháð tekjum.

Í 3. mgr. 14. gr laga um nr. 117/1993 um almannatryggingar segi:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi.“

og

„Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 11. gr. né [5. mgr. 12. gr.] 2) takmarka rétt til barnalífeyris.“

Eins og hér að framan segir þá sé aðeins fjallað um örorkulífeyrisþega. Skilningur kæranda sé sá að örorkulífeyrisþegi sé sá sem hafi fengið þau réttindi áður. Sé farið yfir tekjumark sé sá aðili eftir sem áður örorkulífeyrisþegi sem fái greiddar 0 kr. á mánuði.

Atvinnutekjur geti breyst á milli ára en þörfin fyrir farartæki geri það ekki. Bifreiðin sem hann hafi áður haft aðgang að hafi bilað og viðgerð hafi ekki svarað kostnaði og því hafi hann þurft að kaupa nýja bifreið. Kærandi hafi tekið ákvörðun um bifreiðakaupin út frá upplýsingum á vefsíðu Tryggingastofnunar og tveimur símtölum til stofnunarinnar þann X 2018 og X 2018. Kærandi hafi hringt í Tryggingastofnun og spurt hvort hann ætti rétt á þessum styrk þar sem að hann hafi viljað fullvissa sig um það áður en hann keypti bifreiðina og hafi honum verið tjáð að svo væri. Bifreiðin hafi því verið keypt með það í huga. Kærandi sitji því uppi með bifreið þar sem hann hafi gert ráð fyrir að svör Tryggingastofnunar myndu standa.

Það sé einstaklega óþægilegt að fá staðfestingu á þessum styrk, sem sé aðeins greiddur eftir að kaup hafi átt sér stað, aðeins til þess að fá síðan neitun byggða á því sem kæranda finnist frekar óljós skilgreining. Þetta sé erfið staða. Samkvæmt símsvara Tryggingastofnunar geti símtölin verið hljóðrituð.

Krafist sé endurskoðunar í ljósi þess að kæranda hafi verið sagt að hann ætti rétt á þessu og hafi svo í kjölfarið tekið ákvörðun samkvæmt þeim upplýsingum. Einnig sé krafist endurskoðunar þar sem að ástæða synjunar Tryggingastofnunar sé ekki mjög skýr samkvæmt skilgreiningu á orðinu örorkulífeyrisþegi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót vegna kaupa og reksturs bifreiðar. Þá segir að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- og örorkulífeyrisþegar eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Nánar sé kveðið á um uppbætur vegna reksturs bifreiðar í 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þar segi að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega eða örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt sé að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Nánar sé kveðið á um uppbætur vegna kaupa á bifreið í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Þar komi fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega eða örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009, eigi blindir rétt samkvæmt 2. og 3. gr. reglugerðarinnar, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Hugtakið lífeyrisþegi sé skilgreint í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, en þar segi að lífeyrisþegi sé einstaklingur sem fái greiddan lífeyri sem hann hafi sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Orðskýringin hafi komið inn með lögum nr. 88/2015. Í frumvarpinu sem hafi orðið að þeim lögum segi meðal annars að hugtakið lífeyrisþegi taki til þeirra sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögunum sem ætlaðar séu þeim sjálfum, þ.e. ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um uppbót til bifreiðakaupa og uppbót til reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 29. júní 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem hann njóti ekki greiðslna örorkulífeyris.

Ekki sé deilt um það að kærandi teljist hreyfihamlaður í skilningi 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. 4. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Ekki sé heldur deilt um það að kærandi uppfylli skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 4. gr. sömu reglugerðar. Þá sé heldur ekki deilt um það að kærandi njóti ekki greiðslna örorkulífeyris vegna tekna.

Í 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé gerð skýr og ófrávíkjanleg krafa um að til þess að einstaklingur eigi rétt á uppbót vegna kaupa eða reksturs á bifreið þá skuli umsækjandi vera lífeyrisþegi. Sömu skilyrði séu ítrekuð í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá þessu skilyrði.

Kærandi hafi nú um nokkurt skeið ekki notið greiðslna örorkulífeyris vegna tekna. Það sé því alveg ljóst að hann uppfylli ekki það skilyrði að vera örorkulífeyrisþegi. Sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé ekki bara í samræmi við skýr ákvæði laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð heldur einnig í samræmi við túlkun úrskurðarnefndar á ákvæðunum, til dæmis í máli nr. 106/2018. Einnig megi benda á túlkun úrskurðarnefndar í sambærilegum ákvæðum, til dæmis í málum nr. 419/2009 og 267/2017.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á umsókn kæranda um uppbót til kaupa og reksturs á bifreið.

Að gefnu tilefni sé rétt að taka það fram að í kæru komi fram umfjöllun um greiðslu barnalífeyris til barna öryrkja. Barnalífeyrir í þeim tilvikum sé greiddur á grundvelli sjálfstæðs lagaákvæðis í 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, sem eigi ekki við í þeim bótaflokkum sem hér um ræðir.

Að lokum vilji Tryggingastofnun taka það fram að í bréfi stofnunarinnar frá 29. júní 2018 komi fram að kæranda sé synjað um uppbót til kaupa og reksturs á bifreið þegar af þeirri ástæðu að hann uppfylli ekki það skilyrði að vera lífeyrisþegi. Umsókn kæranda hafi því ekki verið tekin til frekari efnislegrar meðferðar og því hafi ekki verið kannað hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði þess að fá uppbót vegna kaupa eða reksturs á bifreið.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið og uppbótar vegna reksturs bifreiðar er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu. Ákvæðið hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hefur verið sett með stoð í 3. mgr. 10. gr. laganna. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna reksturs bifreiðar. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt sé að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 3. gr. er fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreið. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Í 4. gr. er fjallað um styrki til bifreiðakaupa.

Af gögnum málsins, meðal annars greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2018, er ljóst að kærandi þiggur ekki greiðslur örorkulífeyris sökum tekna og hefur kærandi ekki andmælt því. Þann 29. júní 2018 sótti kærandi um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Umsókn kæranda var synjað af stofnuninni á þeim forsendum að kærandi fengi ekki greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun en uppbót vegna kaupa á bifreið væri einungis heimilt að greiða þeim sem fái greiddan elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk. Í kæru greinir kærandi frá því að hann sé með gilt hreyfihömlunarvottorð hjá Tryggingastofnun og hafi fengið uppbót vegna bifreiðakaupa fyrir 5 árum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði 1. og 2. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, fyrir uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar.

Hugtakið lífeyrisþegi er ekki skilgreint í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt 14. gr. laganna gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Við túlkun á því hvaða skilning beri að leggja í orðin örorkulífeyrisþegi í 10. gr. laganna telur úrskurðarnefnd velferðarmála því að líta verði til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. að lífeyrisþegi sé sá einstaklingur sem fái greiddan lífeyri sem hann hafi sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Ákvæðið kom inn í lögin með breytingarlögum nr. 88/2015 en í athugasemdum við frumvarp til laganna segir að hugtakið taki til þeirra sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögunum sem ætlaðar séu þeim sjálfum, þ.e. ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að með orðinu örorkulífeyrisþegi í 10. gr. laga um félagslega aðstoð felist það skilyrði að viðkomandi njóti örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Túlkun Tollstjóra á hugtakinu í lögum nr. 39/1988 og notkun hugtaksins á vef Tryggingastofnunar gengur ekki framar skýru ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar um skilgreiningu á orðinu lífeyrisþegi. Þá sé sérstaklega tilgreint í 3. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar að ákvæði laganna um lækkun bóta vegna tekna hafi ekki áhrif á greiðslu barnalífeyris. Sem fyrr hafa lífeyrisgreiðslur kæranda frá Tryggingastofnun fallið niður sökum tekna. Að mati nefndarinnar telst kærandi því ekki vera örorkulífeyrisþegi í skilningi laga um félagslega aðstoð og uppfyllir hann því ekki skilyrði 10. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, fyrir því að fá uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar.

Kærandi byggir á því að hann hafi keypt sér nýja bifreið í kjölfar þess að hafa fengið upplýsingar frá starfsmanni Tryggingastofnunar um að hann ætti rétt á uppbót til bifreiðakaupa. Erfitt er að segja til um hvað nákvæmlega hafi farið fram í símtölum kæranda við starfsmann stofnunarinnar. Ljóst er aftur á móti að kærandi uppfyllir ekki skilyrði samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 170/2009 fyrir því að fá uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að til álita komi að breyta hinni kærðu ákvörðun á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi veitt rangar upplýsingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum