Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 1/2014, úrskurður 10. febrúar 2014

Mál nr. 1/2014
Eiginnafn: Reykdal (kk.)

Föstudaginn 19. desember 2013 barst mannanafnanefnd erindi þar sem farið var þess á leit við nefndina að hún endurskoðaði fyrri ákvörðun sína frá 22. desember 2010 um að hafna því að færa eiginnafnið Reykdal (kk.) á mannanafnaskrá.

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2013 í máli nr. E-1917/2013 var framangreind ákvörðun mannanafnanefndar frá 10. desember 2010 felld úr gildi. Hins vegar var vísað frá dóminum þeirri kröfu stefnenda, fyrir hönd ólögráða sonar, að viðurkenndur yrði réttur hans til að bera eiginnafnið Reykdal. Mánudaginn 23. desember hafði mannanafnanefnd samband við innanríkisráðuneytið í því skyni að fá fram formlega afstöðu þess um það hvort nefndum dómi héraðsdóms yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Aðilar málsins voru upplýstir um þetta, og jafnframt að nefndinni væri ekki heimilt að afgreiða beiðni um endurskoðun fyrri afstöðu fyrr en afstaða innanríkisráðuneytisins um áfrýjun málsins lægi fyrir. Þann 31. desember rann skipunartími mannanafnanefndar út, sbr. 21. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Innanríkisráðuneytið tók formlega afstöðu um að áfrýja ekki málinu þann 13. janúar 2013. Ný mannanafnanefnd var skipuð með bréfi, dags. 27. janúar 2014. Skipunarbréf bárust hinni nýju nefnd í byrjun febrúar.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, er það hlutverk mannanafnanefndar að semja skrá um eiginnöfn sem heimil teljast samkvæmt lögunum. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á. Eins og fyrr segir var ákvörðun mannanafnanefndar um eiginnafnið Reykdal felld úr gildi með fyrrgreindum dómi héraðsdóms, sem nú hefur verið ákveðið að ekki verði áfrýjað. Liggur því fyrir nefndinni að taka nýja ákvörðun um hvort umrætt nafn skuli fært á mannanafnaskrá sem eiginnafn.

Til þess að heimilt sé að færa eiginnafn á mannafnanskrá þarf nafnið að fullnægja skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn. Samkvæmt 1. mgr. þess lagaákvæðis skal eiginnafn í fyrsta lagi taka íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, í öðru lagi má það ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og í þriðja lagi skal það ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Fyrri ákvörðun mannanafnanefndar um eiginnafnið Reykdal byggðist á því að öðru skilyrðinu hér að framan væri ekki fullnægt. Að lokinni endurskoðun nefndarinnar á málinu, sérstaklega með hliðsjón af ítarlegum forsendum tilvitnaðs héraðsdóms, hefur nefndin nú komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða hennar hafi verið röng. Eiginnafnið Reykdal (kk.) hefur verið notað í íslensku máli, þótt um það séu fá dæmi. Með hliðsjón af þeirri notkun verður ekki fullyrt að nafnið brjóti gegn íslensku málkerfi, í þeirri merkingu sem hugtakið málkerfi hefur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.

Mannanafnanefnd vísar til þess að ekki verður fullyrt að það hafi verið ætlun löggjafans við setningu laga nr. 45/1996 að takmarka rétt manna til að bera eiginnöfn sem áður höfðu tíðkast, jafnvel í mjög litlum mæli, þrátt fyrir að þau beri einkenni annarra flokka nafna samkvæmt lögunum, þ.e. millinafna og eða ættarnafna. Með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, ber enn fremur að túlka þau skilyrði sem fram koma í 5. gr. laga um mannanöfn þröngt.

Úrskurðarorð

Fallist er á eiginnafnið Reykdal (kk.) og skal það fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum