Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2017

Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 24/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 481/1991

Ákæruvaldið

gegn

Sigurþóri Ólafsyni og Guðna Magnússyni


og kveðinn upp svohljóðandi


ÚRSKURÐUR:

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 21. ágúst 2017 fóru Sigurþór Ólafsson og Guðni Magnússon þess á leit að mál nr. 481/1991, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. mars 1992, verði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 481/1991, sem kveðinn var upp 6. mars 1992, voru endurupptökubeiðendur dæmdir til að sæta fangelsi í þrjá mánuði skilorðsbundið. Báðir voru sakfelldir fyrir hlut þeirra að tryggingasvikum en Hæstiréttur komst að niðurstöðu um að þeir hefðu sviðsett árekstur bifreiða þeirra. Brot endurupptökubeiðandans Guðna taldist fullframið samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga þar sem hann hafði fengið greiddar vátryggingabætur vegna skemmda á bifreið hans en endurupptökubeiðandinn Sigurþór taldist sekur um tilraun til fjársvika en hann hafði ekki fengið greiddar vátryggingabætur. Sigurþór var jafnframt sakfelldur fyrir tékkalagabrot með því að hafa gefið út tékka 11. janúar 1991 að fjárhæð 23.000 krónur fyrir iðgjaldi vegna húftryggingar bifreiðar hans. Tékkinn hafi reynst innstæðulaus þegar hann var sýndur til greiðslu 1. febrúar sama ár en tryggingafélagið mun hafa geymt að sýna tékkann til greiðslu til mánaðarmóta að beiðni endurupptökubeiðandans Sigurþórs.

III.       Grundvöllur beiðni

Í endurupptökubeiðni er engum röksemdum hreyft er lúta að beiðni um endurupptöku vegna sakfellinga fyrir vátryggingasvik.

Á því er byggt varðandi beiðni um endurupptöku vegna tékkalagabrots endurupptökubeiðandans Sigurþórs að fram séu komin ný gögn sem varpi ljósi á að næg innstæða hafi verið á tékkareikningnum þegar tékkinn var sýndur. Vísað er í þessum efnum til yfirlits tékkareiknings endurupptökubeiðandans vegna tímabilsins 18. janúar 1991 til 31. desember 1991. Innstæða hafi numið 111.596 krónum 18. janúar 1991 en tékki að fjárhæð 100.000 krónur hafi verið gjaldfærður 21. janúar 1991 sem endurupptökubeiðandi kannast ekki við að hafa gefið út og byggir á að hafi verið falsaður af bankanum. Tékkinn beri annað raðnúmer en tékkar í tékkhefti því sem endurupptökubeiðandi hafi haft í notkun á þessum tíma. Byggir endurupptökubeiðandinn á því að bankinn hafi fært tékkann til frádráttar innstæðu til að koma höggi á endurupptökubeiðanda og gert þetta í þágu tryggingafélagsins svo endurupptökubeiðandi yrði dæmdur í sakamálinu. Ef fjárhæð þessa tékka yrði dregin frá hefði næg innstæða verið á reikningum og því beri að líta framhjá þeirri staðreynd að endurupptökubeiðandi játaði útgáfu innstæðulauss tékka grunlaus um þá staðreynd að næg innstæða hafi verið á reikningnum. Þá vekur endurupptökubeiðandi athygli á því að tékkinn til tryggingafélagsins komi hvergi fram á fyrrnefndu yfirliti yfir færslur á bankareikningum sem þó spanni tímabilið allt til 31. desember 1991. Á því er byggt að yfirlit yfir reikninginn séu ný gögn sem hefðu verulegu máli skipt fyrir niðurstöðu málsins varðandi meint tékkalagabrot hefðu þau komið fram áður en dómur gekk. Er þess óskað að sá hluti dómsins er lýtur að þessu sakarefni verði endurupptekinn.

Að lokum er á því byggt af hálfu endurupptökubeiðenda að dómurinn verði ógiltur með vísan til þess að einn dómari Hæstaréttar hafi skilað sératkvæði og talið þá saklausa. Málið á hendur endurupptökubeiðendum líti út sem samsæri á hendur þeim.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

  1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

  2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

  3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

  4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt. Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir síðan að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Fyrir liggur að sakfellt var fyrir tvenns konar brot með dómi Hæstaréttar í máli nr. 481/1991. Annars vegar fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika, sem báðir endurupptökubeiðendur voru sakfelldir fyrir, og hins vegar tékkalagabrot sem endurupptökubeiðandinn Sigurþór var sakfelldur fyrir. Eins og áður er getið þá eru engin rök færð fyrir því að skilyrðum sé fullnægt til endurupptöku málsins hvað varðar fjársvik og tilraun til fjársvika. Af þeim sökum verður beiðni endurupptökubeiðandans Guðna Magnússonar hafnað þegar í stað. Þess ber sérstaklega að geta að í þessum efnum er ranglega á því byggt að einn dómara Hæstaréttar hafi dæmt endurupptökubeiðendur saklausa eins og það er orðað í endurupptökubeiðni. Endurupptökubeiðendur voru sýknaðir í héraði af ákæru fyrir fjársvik en sakfelldir einróma fyrir þá háttsemi í Hæstarétti.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi 4. september 1991 játaði endurupptökubeiðandinn Sigurþór afdráttarlaust að hafa gerst brotlegur við tékkalög með útgáfu innstæðulauss tékka en hann mun hafa gefið tékkann út 11. janúar 1991 og falast eftir því að tryggingafélagið myndi geyma tékkann og sýna hann ekki til greiðslu fyrr en 1. febrúar 1991 þar sem hann hafi ekki átt nægt fé á tékkareikningnum á þessum tíma. Þegar til kom hafi hann ekki átt næga innstæðu fyrir fjárhæð tékkans 1. febrúar þar sem launagreiðsla til hans hafi dregist samkvæmt því sem fram kemur í framburði hans fyrir dómi.

Beiðni sína um endurupptöku í þessum efnum styður endurupptökubeiðandi við yfirlit yfir tékkareikning hans fyrir tímabilið 18. janúar 1991 til 31. desember 1991 sem feli í sér ný gögn sem varpi ljósi á upplýsingar sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Endurupptökubeiðandi telji þannig að skilyrði a-liðar 1. mgr 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt enda hafi verið færður til skuldar tékki að fjárhæð 100.000 krónur á reikninginn 21. janúar 1991 sem endurupptökubeiðandi kannast ekki við að hafa gefið út. Ef litið yrði framhjá þeirri fjárhæð hefði hann átt nægt fé á reikningnum fyrir tékkanum til tryggingafélagsins 1. febrúar.

Til þess er að líta að reikningsyfirlit það sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á nær ekki aftur til 11. janúar 1991, það er að segja til þess tíma sem endurupptökubeiðandi kveðst hafa gefið tékkann út. Af yfirlitinu verður ekki dregin nein ályktun um hver staðan á tékkareikningnum hafi verið á þeim tíma. Að sama skapi er til þess að líta að einungis tvær færslur eru á reikningnum eftir 31. janúar 1991 sem báðar fólu í sér lágar fjárhæðir, önnur fólst í úttekt úr hraðbanka 1. febrúar og hin útborgun 12. febrúar er öll innstæða reikningsins var tekin út með úttekt að fjárhæð 1.623 krónur og 16 aurar. Frekari færslur voru ekki færðar á reikninginn það sem eftir var af árinu. Eina háa fjárhæðin sem skuldfærð er á reikninginn á þessu tímabili er fyrrnefnd 100.000 króna tékkafærsla.

Hvergi í málsgögnum kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi gert athugasemd við úttektir af tékkareikningi hans sem hafi verið án vitundar eða vilja hans þegar málið var til rannsóknar og dómsmeðferðar á árinu 1991. Í þessu sambandi er vert að geta þess að fjársvik endurupptökubeiðenda, sem fólust í sviðsetningu árekstrar 14. janúar 1991 og krafna um vátryggingabætur í kjölfarið, voru kærð 6. febrúar 1991 og fyrsta lögregluskýrsla var tekin af endurupptökubeiðandanum Sigurþóri 12. febrúar sama ár. Hann mun svo hafa greitt tryggingafélaginu skuld sína vegna innstæðulausa tékkans í mars 1991.

Það að tékki að fjárhæð 100.000 krónur, sem sýndur var til greiðslu og innleystur 21. janúar 1991, hafi verið úr öðru tékkhefti, felur eitt og sér ekki í sér upplýsingar sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þær hefðu komið fram áður en dómur gekk. Í þeim efnum breytir engu þó tryggingafélagið hafi ekki getað sýnt tékkann fyrir iðgjöldunum 1. febrúar 1991 þannig að við honum hefði verið tekið og hann færður með athugasemd um færsluskrá innstæðulausra tékka. Fram kemur á yfirlitinu að fyrir mánaðarmót hafi þegar verið færðir tveir innstæðulausir tékkar sem hafa gefið bankanum tilefni til að stöðva móttöku frekari tékka sem sýndir voru til greiðslu en ekki síður hefði sú staðreynd, að tékkar voru færðir með þessari athugasemd á reikninginn, átt að gefa endurupptökubeiðanda ríkt tilefni til að kanna hverju sætti ef hann kannaðist ekki við að hafa gefið út tékka að fjárhæð 100.000 krónur. Í þessu ljósi nægir staðhæfing endurupptökubeiðanda ein og sér ekki, sem sett er fram 26 árum síðar, um að nefndur tékki hafi verið falsaður af bankanum, en hann hefur ekki fært fram nein gögn þar að lútandi. Verður af þessum sökum ekki talið að framangreind skilyrði a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu er ekkert skilyrða a-, c- eða d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt. Þar sem beiðni um endurupptöku þykir bersýnilega ekki á rökum reist er beiðninni hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

 Úrskurðarorð

Beiðni Sigurþórs Ólafssonar og Guðna Magnússonar um endurupptöku máls nr. 481/1991, sem dæmt var í Hæstarétti 6. mars 1992, er hafnað.

  

Björn L. Bergsson formaður

  

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum