Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 14. október 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 40/2015:

 

Kæra A og
B

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A og B hafa með kæru, dags. 15. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 9. júlí 2015, um niðurfellingu kröfu sem glatað hafði veðtryggingu sinni.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að fasteign kærenda að C var seld á nauðungaruppboði þann X og eignaðist Íbúðalánasjóður þá eignina. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 10. desember 2012, var kærendum tilkynnt um skuldastöðu eftir nauðungarsölu og áskorun um greiðslu.  

Með umsókn, dags. 29. júní 2015, fóru kærendur fram á að skuld þeirra við Íbúðalánasjóð yrði afskrifuð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kærenda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 9. júlí 2015, á þeirri forsendu að eignir þeirra væru yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 17. júlí 2015. Með bréfi, dags. 20. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2015, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 31. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. september 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust frá kærendum þann 9. september 2015.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að fasteign kærenda hafi farið á uppboð vegna greiðsluerfiðleika sem hafi verið talin besta leiðin til að bjarga þeirra málum á þeim tíma. Kærendum hafi verið tjáð að eftirstöðvum skuldarinnar yrði deilt á milli þeirra og Íbúðalánasjóðs og að ekki kæmi til innheimtu skuldarinnar. Skuldin hafi átt að standa í fimm ár frá uppboðsdegi en að þeim tíma liðnum væri hægt að sækja um afskrift. Hvergi hafi verið minnst á eignir þeirra mættu ekki vera yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs.

Kærendur taka fram að þau hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána en leiðréttingarfjárhæðin hafi verið færð inn á lánið hjá Íbúðalánasjóði. Kærendur fara fram á að skuld þeirra við Íbúðalánasjóð verði afskrifuð þannig að leiðréttingin komi þeim að gagni.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í afstöðu Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar er vísað til 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 þar sem fram komi að heimilt sé að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu að þremur árum liðnum frá sölu eignarinnar. Á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 21. september 2006 hafi á grundvelli reglugerðarinnar verið settar reglur um skilyrði fyrir niðurfellingu. Samkvæmt reglunum er niðurfellingu synjað ef eignir umfram skuldir eru samkvæmt skattaskýrslu meiri en sem nemur helmingi eða meira af heildarkröfu sjóðsins og ef mánaðarlegar samanlagðar launatekjur skuldara nema 25% eða meira af kröfu sjóðsins.   

Mál kærenda hafi verið tekið fyrir í greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins 8. júlí 2015 og beiðninni hafnað þar sem skuldir samkvæmt skattaskýrslu væru 11.200.698 krónur en eignir 29.486.652 krónur. Skilyrði reglna Íbúðalánasjóðs að nettó eignir næmu ekki meira en helmingi af heildarkröfu sjóðsins hafi því ekki verið uppfyllt.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kærenda um niðurfellingu kröfu sem glatað hafði veðtryggingu sinni.

Í 47. gr. laga nr. 44/1998 segir að stjórn Íbúðalánasjóðs sé heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, sem sett var með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, kemur fram að kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu þegar sjóðurinn kaupir fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins eru hærri en matsverð eignarinnar við uppboð, sbr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Í samræmi við 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar aðhefst Íbúðalánasjóður ekki frekar við innheimtu kröfu sem hefur glatað veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglum. Við slík brot fellur niður heimild sjóðsins til niðurfellinga skv. 5. gr. og afskrifta skv. 6. gr.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010, sbr. reglugerð nr. 534/2015, er kveðið á um að stjórn Íbúðalánasjóðs sé heimilt að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur sett sér reglur um frekari framkvæmd niðurfellingar krafna sem glatað hafa veðtryggingu en þær voru samþykktar á fundi þann 21. september 2006. Í reglunum kemur fram að meðal skilyrða þess að geta fengið niðurfellingu sé að eignir umfram skuldir samkvæmt skattskýrslu nemi minna en helmingi af kröfu sjóðsins. Umsókn kærenda var synjað á þeirri forsendu að eignir þeirra væru yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs.  

Samkvæmt gögnum málsins nam heildarfjárhæð glataðs veðs kærenda 7.313.391 krónu. Eignir kærenda samkvæmt skattskýrslu námu 29.486.652 krónum og skuldir 11.200.698 krónum. Eignir kærenda umfram skuldir námu því 18.285.954 krónum eða meira en helmingi af kröfu sjóðsins.

Almenna reglan er sú að kröfuhafa er frjálst að gefa eftir skuldir sínar. Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer hins vegar eftir ákvæði 47. gr. laga nr. 44/1998, reglugerðar sem sett hefur verið á grundvelli þess og reglna stjórnar sjóðsins. Að því virtu verður við úrlausn þessa máls leyst úr ágreiningi aðila á grundvelli þeirra reglna sem stjórn Íbúðalánasjóðs setti sér um framkvæmd umsókna um niðurfellingu krafna sem glatað hafa veðtryggingu. Ljóst er að nettó eignir kærenda námu meira en helmingi af kröfu Íbúðalánasjóðs og því áttu þau ekki rétt á niðurfellingu kröfunnar. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 9. júlí 2015, um synjun á umsókn A og B um niðurfellingu kröfu sem glatað hafði veðtryggingu sinni er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum