Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 33/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 31. janúar 2020
í máli nr. 33/2019:
Íslensk orkumiðlun ehf.
gegn
Veitum ohf.,
Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveita sf. og
Orku náttúrunnar ohf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 18. desember 2020 kærir Íslensk orkumiðlun ehf. útboð Veitna ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveitu sf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „VEIK-2019-11 Raforkukaup fyrir Veitur“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála stöðvi um stundarsakir samningsviðræður varnaraðila við Orku náttúrunnar ohf. vegna raforkukaupa í flokki C þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda vegna raforkukaupa í flokki C í hinu kærða útboði, að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ehf. vegna raforkukaupa í flokki C og að varnaraðilum verði gert að taka tilboði kæranda í sama flokki. Kærandi krefst þess til vara að kærunefnd útboðsmála lýsi útboðið ógilt. Þá er þess krafist í öllum tilvikum að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Í þessum þætti málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir.

Í október 2019 buðu varnaraðilar út á EES- svæðinu raforkukaup fyrir árið 2020 í þremur flokkum, meðal annars kaup í flokki C er varðaði kaup á raforku til að mæta töpum í dreifikerfi varnaraðila. Samkvæmt grein 3.3 í útboðsgögnum var heimilt að framlengja samningstímann um eitt ár allt að þrisvar sinnum. Í grein 1.1.4 kom fram að um væri að ræða almennt útboð sem framkvæmt væri í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og póstþjónustu. Í grein 1.1.6.2 var gerð sú krafa til bjóðenda að fjárhagsstaða þeirra skyldi vera það trygg að þeir gætu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Skyldi lánshæfismat bjóðenda hjá Creditinfo vera að lágmarki í flokki 1-4 auk þess sem heildarmeðalvelta bjóðenda fyrir árin 2016, 2017 og 2018 skyldi ekki vera lægri en 500 milljónir án virðisaukaskatts. Samkvæmt grein 1.1.6.3 skyldu bjóðendur hafa leyfi til raforkuviðskipta á Íslandi í samræmi við raforkulög nr. 65/2003. Valið skyldi á milli tilboða eingöngu á grundvelli verðs samkvæmt grein 1.1.7. Samkvæmt grein 1.1.3 skyldi frestur til að skila tilboðum og opnunartími tilboða vera 2. desember 2019 kl. 11.

Með viðauka 1 við útboðsgögn hins kærða útboðs frá 29. nóvember 2019 var upplýst að skilafrestur og opnun tilboða myndi vera 6. desember 2019 kl. 12:30. Með viðauka 2 við útboðsgögn 4. desember 2019 var kröfum til fjárhagslegrar stöðu bjóðenda breytt á þann veg að fallið var frá kröfu um lánshæfismat frá Creditinfo og þess í stað gerð krafa um að eiginfjárhlutfall bjóðenda samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2018 skyldi að lágmarki vera 30%. Með viðauka 3 sem gefinn var út þennan sama dag var gerð krafa um að eiginfjárhlutfallið skyldi nema 40%. Voru samhliða gefin út ný útboðsgögn sem endurspegluðu þær breytingar sem gerðar höfðu verið.

Tilboð í hinu kærða útboði voru opnuð 6. desember 2019 og bárust tilboð frá fjórum bjóðendum sem buðu í alla flokka útboðsins. Í flokki C var tilboð kæranda lægst að fjárhæð, eða 207.690.000 krónur, en tilboð Orku náttúrunnar ohf. var næst lægst að fjárhæð 209.410.000 krónur. Með bréfi varnaraðila 10. desember 2019 voru bjóðendur upplýstir um að varnaraðilar hefðu ákveðið að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ohf. í öllum flokkum útboðsins, einnig flokki C, þar sem fyrirtækið var með næst lægsta tilboðið. Jafnframt var upplýst að tilboð kæranda hafi ekki uppfyllt þær fjárhagslegu kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum sem birt hefðu verið 31. október 2019, og því yrði ekki samið við hann.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að varnaraðilum hafi verið óheimilt að breyta útboðsgögnum með jafn verulegum og íþyngjandi hætti og hann gerði auk þess sem þeim sé óheimilt að auka þær kröfur sem upphaflega voru gerðar undir rekstri útboðsins. Þessi háttsemi varnaraðila hafi brotið gegn meginreglum innkaups- og stjórnsýsluréttar um jafnfræði og meðalhóf. Þá telur kærandi kröfu varnaraðila um 40% eiginfjárhlutfall óhóflega og ómálefnalega, en ekki verði séð hvernig þetta hlutfall sé nauðsynlegt með hliðsjón af eðli og umfangi kaupanna. Þá byggir kærandi einnig á því að varnaraðilum hafi verið óheimilt að hafna tilboði hans á grundvelli þess að veltutölum fyrir árið 2016 var ekki skilað inn með tilboði þar sem kærandi var ekki starfandi það ár.

Varnaraðilar byggja að meginstefnu á því að vísa eigi kröfum kæranda frá kærunefnd útboðsmála, að því leyti sem þær lúti að kröfum útboðsgagna um heildarmeðalársveltu, þar sem þær séu fram komnar að liðnum kærufresti samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en kröfur þessar um veltu hafi verið óbreyttar í útboðsgögnum frá 31. október 2019. Í öllu falli séu kröfur um heildarmeðalársveltu, sem og kröfur um eiginfjárhlutfall, innan þeirra marka sem lög setji, einkum hvað varðar kröfur um jafnræði og meðalhóf. Þá er því mótmælt að kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi hafi verið settar til að útiloka kæranda frá útboðinu auk þess sem heimilt hafi verið að breyta skilmálum eftir að hið kærða innkaupaferli var hafið. Því er mótmælt að varnaraðilar hafi brotið gegn þeim lögum og reglum sem giltu um útboðið og að þeir kunni að hafa bakað sé skaðabótaskyldu gagnvart kæranda.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst að koma í veg fyrir gerð samnings þegar ákvörðun kaupanda um val tilboðs er ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðilar hafa upplýst að þeir muni ekki ganga til samninga við Orku náttúrunnar ohf. um raforkukaup í flokki C í hinu kærða útboði á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Við þessar aðstæður er ekki þörf á að beita framangreindu heimildarákvæði. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu kæranda um að stöðva hið kærða innkaupaferli varnaraðila hafnað.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Íslenskrar orkumiðlunar ehf., um að útboð varnaraðila, Veitna ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveitu sf. auðkennt „VEIK-2019-11 Raforkukaup fyrir Veitur“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

Reykjavík, 31. janúar 2020

Sandra Baldvinsdóttir
Hildur Briem



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum