Hoppa yfir valmynd

Mál 05060050

Þann 20. september 2005 var í ráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra Jóns Þórs Guðmundssonar vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 19. maí 2005 um útgáfu starfsleyfis fyrir rafskautaverksmiðju Kapla hf., Katanesi í Hvalfjarðarstrandarhreppi.

Ráðuneytið leitaði, þann 22. júní 2005, eftir umsögn Umhverfisstofnunar, Hönnunar hf. f.h. Köplu hf., Hvalfjarðarstrandarhrepps, Skilmannahrepps og Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um fram komna kæru. Umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 27. júlí 2005, umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps þann 8. júlí, umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands þann 15. júlí 2005. Kæranda var með bréfi, dags. 18. ágúst 2005, gefinn kostur á að koma að athugasemdum um fram komnar umsagnir. Athugasemdir kæranda bárust þann 30. ágúst 2005.

I. Kæruatriði og umsagnir um þau.

Kærandi krefst þess að starfsleyfi fyrir rafskautaverksmiðju Kapla hf. verði fellt úr gildi.

1. Endurskoðun vöktunaráætlunar.

Í kæru segir að Umhverfisstofnun hafi ekki tilgreint í svari sínu við athugasemdum kæranda við drög að starfsleyfi fyrir rafskautaverksmiðjuna hvenær endurskoðun vöktunaráætlunar eigi að fara fram.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að markmiðið með því að tilgreina ekki vöktunaráætlanir nákvæmlega í starfsleyfum sé að þær séu lifandi verkfæri sem hægt sé að endurskoða oftar en sú endurskoðun sem fari fram á starfsleyfum. Vísað er til slíkrar endurskoðunar vöktunaráætlana iðnaðarfyrirtækja á nærliggjandi iðnaðarlóðum. Einnig er vísað til þess að starfsleyfi skuli að jafnaði endurskoða á fjögurra ára fresti samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, nr. 785/1999.

Í umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps segir að setja mætti tímaskorður um hvenær endurskoðun vöktunaráætlunar ætti að liggja fyrir.

2. Losun PAH-efna.

Í kæru segir að Umhverfisstofnun hafi heimilað losun PAH-efna í umtalsverðu magni frá fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju þrátt fyrir að engar íslenskar reglur séu til um losunarmörk þessara efna.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til reglugerðar um loftgæði, nr. 787/1999, þar sem fjölhringja vetniskolefni (PAH) séu tilgreind á lista yfir loftmengandi efni. Þá kemur fram að losunarmörk fyrir PAH í starfsleyfi Kapla hf. séu sett í samræmi við viðmið Evrópusambandsins um losunarmörk þar sem notast er við bestu fáanlegu tækni. Sama gildi um mörk fyrir flúoríð og brennisteinsdíoxíð.

Í umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps er vísað til fordæmis vegna álvers Norðuráls hf. varðandi það að sett séu evrópsk viðmið um losunarmörk PAH efna.

3. Samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að starfsleyfi sé ekki í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Í niðurstöðum úrskurðar Skipulagsstofnunar, frá 3. september 2004, komi fram að stofnunin telji nauðsynlegt að girða þynningarsvæði flúoríðs af áður en starfsleyfi verði gefið út. Vísar kærandi í því sambandi til 23. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun þar sem segir að ef viðkomandi atvinnurekstur sé háður mati á umhverfisáhrifum skuli í starfsleyfi taka fullt tillit til niðurstöðu matsins áður en starfsleyfi er gefið út.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin telji að nauðsynlegt sé að hafa samráð við fyrirtækið Norðurál og viðkomandi sveitarstjórnir hvernig best verði að takmarka beit á þynningarsvæði vegna flúoríðs þar sem málið varði þá aðila mest.

Í umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps er tekið undir gagnrýni kæranda varðandi það að ósamræmi sé milli úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi að því er varðar girðingu umhverfis þynningarsvæði. Á hinn bóginn hafi engin rafskautaverksmiðja verið byggð og óvíst að svo verði.

4. Málshraði við útgáfu starfsleyfis.

Kærandi telur að útgáfa starfsleyfisins sé ekki í samræmi við 25. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, nr. 785/1999 þar sem segir að útgefandi starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 1 og I. viðauka skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins. Umhverfisstofnun hafi tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins 16 vikum eftir að athugasemdafrestur rann út.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hefði átt að gefa starfsleyfið út þann 18. febrúar sl., sbr. tilgreint reglugerðarákvæði. Frestur hafi orðið á útgáfu starfsleyfisins með vitund umsækjanda starfsleyfisins og í sátt við hann. Telji stofnunin því ekki rétt að ógilda ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins vegna þessa galla við málsmeðferðina enda hafi starfsleyfishafi verulega hagsmuni af því að leyfið haldi gildi sínu.

II. Niðurstaða.

Kærandi krefst þess að starfsleyfi fyrir rafskautaverksmiðju Kapla hf. verði fellt úr gildi.

1. Endurskoðun vöktunaráætlunar.

Í kæru segir að Umhverfisstofnun hafi ekki tilgreint í svari sínu við athugasemdum kæranda við drög að starfsleyfi rafskautaverksmiðjunnar hvenær endurskoðun vöktunaráætlunar eigi að fara fram.

Í hinu kærða starfsleyfi segir í grein 5.1 að rekstaraðili skuli, ásamt öðrum hlutaðeigandi á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga, taka þátt í samfelldum mælingum á styrk flúoríðs í andrúmslofti og árlegum mælingum á flúroíði í vatni, gróðri og í beinum grasbíta í nágrenni rafskautaverksmiðjunnar og reglubundnum mælingum á SO2 og ryki í andrúmslofti og SO42- og sýrustigi (pH) í úrkomu, vatni og jarðvegi. Slíkar mælingar skulu gerðar samkvæmt áætlun sem Umhverfisstofnun hafi samþykkt. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, nr. 785/1999 skal að jafnaði endurskoða starfsleyfi á fjögurra ára fresti. Þá hefur komið fram það viðhorf Umhverfisstofnunar að nauðsynlegt geti verið að endurskoða vöktunaráætlanir oftar. Í hinu kærða starfsleyfi eru auk þess sem að framan segir ákvæði um innra eftirlit, skráningar, prófun vöktunarbúnaðar, grænt bókhald o.fl. sem og opinbert eftirlit. Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu að ákvæði hins kærða starfsleyfis séu fullnægjandi hvað varðar endurskoðun vöktunaráætlunar. Telur ráðuneytið því ekki tilefni til að ógilda ákvörðun um útgáfu starfsleyfis eða gera breytingar á fyrirliggjandi starfsleyfi á grundvelli framangreindrar málsástæðu kæranda.

2. Losun PAH-efna.

Í kæru segir að Umhverfisstofnun hafi heimilað losun PAH-efna í umtalsverðu magni frá fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju þrátt fyrir að engar íslenskar reglur séu til um losunarmörk þessara efna.

Samkvæmt 14. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, nr. 785/1999 skal í starfleyfi m.a. kveða á um losunarmörk. Í reglugerð um loftgæði, nr. 787/1999, eru fjölhringja vetniskolefni (PAH) tilgreind á lista yfir loftmengandi efni. Losunarmörk PAH-efna eru 2 g/t samkvæmt grein 2.13 í hinu kærða starfsleyfi. Samkvæmt umsögn Umhverfisstofnunar eru notuð evrópsk viðmið um losunarmörk þar sem notast er við bestu fáanlegu tækni. Fjallað var ítarlega um losun PAH-efna frá verksmiðjunni í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðjunnar frá 1. apríl 2005. Með eðlilegri virkni mengunarvarnabúnaðar verksmiðjunnar er gert ráð fyrir að losun PAH efnasambanda verði aldrei meiri en 15% af því sem gerist í eldri verksmiðjum af þessu tagi. Áætlað er að framleiðslan losi 2 g. af PAH efnasamböndum fyrir hvert framleitt tonn, eða samtals 680 kg. á ári. Um er að ræða hámarkstölu sem fyrirtækið gerir ráð fyrir að vera undir í eðlilegum rekstri. Ráðuneytið telur samkvæmt því sem að framan segir að ákvæði hins kærða starfsleyfis um losunarmörk PAH-efna sé í samræmi við lög og reglugerðir á þessu sviði. Með vísun til þess er ekki fallist á framangreinda málsástæðu kæranda.

3. Samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að starfsleyfi sé ekki í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Í niðurstöðum úrskurðar Skipulagsstofnunar, frá 3. september 2004, komi fram að stofnunin telji nauðsynlegt að girða þynningarsvæði flúoríðs af áður en starfsleyfi verði gefið út.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er óheimilt að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans. Í niðurstöðukafla úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðjunar segir að Skipulagsstofnun telji nauðsynlegt að girða þynningarsvæði flúoríðs af áður en starfsleyfi verði gefið út. Þetta kemur hins vegar ekki fram í þeim skilyrðum sem Skipulagsstofnun setur fyrir niðurstöðu sinni. Gert er ráð fyrir að þynningarsvæði flúoríðs vegna iðnaðar á nærliggjandi iðnaðarlóðum í Hvalfirði haldist óbreytt við tilkomu rafskautaverksmiðjunnar. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar var stór hluti þynningarsvæðisins fyrir utan iðnaðarlóðirnar þegar girtur vegna skógræktar eða annarrar nýtingar. Hluti girðinga var hins vegar tekinn niður vegna nýrrar vegagerðar tengdri stækkun álvers Norðuráls. Nú þegar framkvæmdir við stækkun álversins séu langt komnar þurfi að huga betur að beitartakmörkum þar sem losun flúoríðs mun tvöfaldast við stækkunina. Rætt hafi verið við fulltrúa Norðuráls um að koma í veg fyrir beit á þynningarsvæðinu. Heimiluð losun flúoríðs frá álveri Norðuráls eftir stækkun verði allt að 150 tonn á ári ef framleiðsla nær 300.000 tonnum á ári, eða 130 tonn frá 260.000 tonna ársframleiðslu. Heimiluð losun frá rafskautverksmiðju Kapla sé 7,1 tonn á ári miðað við fulla framleiðslu sem er innan við 5% af losun álvers Norðuráls. Dreifing flúoríðs frá rafskautverksmiðjunni verði einnig með öðrum hætti þannig að áhrif í umhverfinu verði líklega enn minni. Ráðuneytið lítur svo á að unnið sé að því hjá Umhverfisstofnun í samráði við hlutaðeigandi aðila að koma í veg fyrir beit á þynningarsvæðinu. Telur ráðuneytið því að Umhverfisstofnun taki tillit til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðjunnar hvað þetta varðar, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Með vísun til þess sem að framan segir telur ráðuneytið ekki tilefni til að ógilda eða gera breytingar á hinu kærða starfsleyfi vegna framangreindrar málsástæðu kæranda.

4. Málshraði við útgáfu starfsleyfis.

Kærandi telur að útgáfa starfsleyfisins sé ekki í samræmi við 25. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, nr. 785/1999. Þar segir að útgefandi starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 1 og I. viðauka skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins. Umhverfisstofnun hafi tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins 16 vikum eftir að athugasemdafrestur rann út.

Eins og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar varð frestur á útgáfu starfsleyfisins með vitund umsækjanda starfsleyfisins og í sátt við hann. Ekki eru í lögum eða reglugerðum tiltekin réttaráhrif af því að útgáfa starfsleyfis dragist. Ráðuneytið lítur svo á að umsækjandi um starfsleyfi sé sá aðili sem einkum hafi beina hagsmuni af því að starfsleyfi sé gefið út á réttum tíma. Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að galli sé á málshraða við útgáfu hins kærða starfsleyfis að þessu leyti varði sá dráttur ekki ógildingu þess.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað og skal ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis fyrir rafskautaverksmiðju Kapla hf. óbreytt standa.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum