Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 9. maí 2002.

Ár 2002, fimmtudaginn 9. maí, er í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 8/1999

                                                           Ágúst Sigurðsson

                                                            gegn

Guðmundi, Jóni, Magnúsi, Stefáni og Þorbirni Brynjólfssonum

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni, og Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2.gr. laga nr. 11/1973.

 

Innlausnarhafi er Ágúst Sigurðsson, bóndi, Geitaskarði, Engihlíðarhreppi.

Innlausnarþolar eru Guðmundur, Jón, Magnús, Stefán og Þorbjörn Brynjólfssynir en sjötti bróðirinn Sigurður Brynjólfsson hefur ekki viljað taka þátt í máli þessu og gert sérstakt samkomulag við innlausnarþola.

Innlausnarhafi býr á jörðinni Geitaskarði. Með samningi hans og Brynjólfs Þorbjarnarsonar frá 8. desember 1982 skiptu þeir heimalandi jarðarinnar, eins og það er orðað, þannig að 1/4 þess kom í hlut Brynjólfs. Er spildu hans nánar lýst í samkomulaginu og afsalaði Brynjólfur henni síðan til sona sinna, innlausnarþola, 1. júlí 1983. Auk spildu þessarar fylgdi hluti í kvisthæð íbúðarhúss að Geitaskarði, þ.e. tvö herbergi og eldhús ásamt aðgangi að baði og þvottahúsi. Þá skyldu peningahús öll sem og önnur útihús, þ.m.t. afnot af rafstöð, skiptast eftir eignarhlutföllum. Svonefnd Buðlungatjörn sem er í eignarhluta innlausnarþola skyldi vera í jafnri eign og notum innlausnarþola og innlausnarhafa. Þá skyldi eignar- og nytjaréttur aðila á landsvæðum þeim sem tilheyra Skarðskarði og Tungubakka á Laxárdal vera óskiptur.

Með bréfi, dagsettu 13. nóvember 1998, óskaði innlausnarhafi eftir því við landbúnaðarráðuneytið að fram færi innlausn á eignarhluta Magnúsar Brynjólfssonar, Guðmundar Brynjólfssonar, Jóns Brynjólfssonar, Sigurðar K. Brynjólfssonar, Stefáns Brynjólfssonar og Þorbjarnar Brynjólfssonar í jörðinni Geitaskarði í Engihlíðarhreppi. Með bréfi, dagsettu 21. júní 1999, heimilaði landbúnaðarráðuneytið innlausnarhafa að leysa til sín eignarhluta ofangreindra manna í jörðinni. Með bréfi, dagsettu 8. ágúst 1999, kvörtuðu innlausnarþolar til umboðsmanns Alþingis yfir málsmeðferð ráðuneytisins við innlausn þessa og segir í áliti hans frá 8. ágúst 2000 að meðferð ráðuneytisins á innlausnarbeiðninni hefði verið áfátt. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki innlausnarbeiðnina til meðferðar á ný, yrði eftir því leitað. Með bréfi, dagsettu 25. október 2000, óskuðu innlausnarþolar eftir því við ráðuneytið að málið yrði endurupptekið og var það gert. Þann 10. júlí sl. kvað landbúnaðarráðuneytið upp úr um það að innlausnarhafa væri heimil innlausn á sameignarhluta í íbúðarhúsi og útihúsum og sameignarhluta sem félli utan þess hluta úr Geitaskarði sem fjallað er um í eignaskiptasamningi frá 1982. Hins vegar var kröfu um innlausn úrskipta hlutans samkvæmt nefndu samkomulagi hafnað og Buðlungatjörn skyldi áfram í sameign aðila.

Með beiðni, dagsettri 28. september 1999, óskaði innlausnarhafi eftir því við matsnefnd eignarnámsbóta að framkvæmt yrði mat á verðmæti eignarhluta sameigenda hans að jörðinni Geitaskarði. Byggði hann þar á innlausnarheimild landbúnaðarráðuneytisins frá 21. júní 1999 og vísaði til 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum. Eftir að úrskurður landbúnaðaráðuneytisins gekk 10. júlí sl. krefst innlausnarhafi mats á óskiptu landi jarðarinnar, útihúsum og hluta í íbúðarhúsi sem er í eigu innlausnarþola.

 

Af hálfu innlausnarhafa eru gerðar eftirfarandi kröfur fyrir matsnefndinni:

a)         Að hinn innleysti eignarhluti verði hið hæsta metinn á fasteignamatsverði.

b)         Að metnar verði endurbætur innlausnarbeiðanda á hinum innleysta eignarhluta, bæði endurbætur á mannvirkjum og landi, og sú fjárhæð dregin frá bótum.

 

Kröfur innlausnarþola eru þær að hinir innleystu hlutar og réttindi verði metin á hæsta verði og skuli þá miðað við fullar bætur eins og meginregla í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins mæli fyrir um, þannig að allt fjárhagslegt tjón verði bætt að fullu. Krafist er dráttarvaxta af öllum fjárhæðum frá úrskurðardegi.

Krafist er f.h. Guðmundar Brynjólfssonar og Stefáns H. Brynjólfssonar að metið verði að fullu miðað við núverandi markaðsverð greiðslumark mjólkur, sem er 233 krónur á lítra, enda tilheyrði það lögbýlinu og hefði innlausnarhafi engan rétt til að selja og rýra jörðina svo stórkostlega eins og reyndin sé orðin. Er gerð krafa um að hvorum aðila um sig verði greiddar 524.842 krónur, eða samtals 1.049.684 krónur með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi matsfjárhæðar.

Auk þess krefjast Magnús Björn, Jón, Guðmundur og Stefán Heiðar Brynjólfssynir hlutdeildar í þeim beingreiðslum er runnið hafa til lögbýlisins undanfarin 4 ár, eða samtals 2.414.724 krónum ásamt dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Jafnframt er þess krafist að það verði sérstaklega metið hverju það varði jörðina í peningum að hafa tapað mjólkurkvótanum þannig að jörðin verði án beingreiðslna (í dag  67 krónur á lítra) og mjólkurkvóta hér eftir.

Einnig krefjast allir 5 matsþolar greiðslu á hlut sínum í fullvirðisrétti á kindakjöti, ærgildum, sem tilheyra lögbýlinu, eða samtals 221.375 krónur.

Þá krefjast þeir hlutdeildar í beingreiðslum vegna sama fullvirðisréttar sem nemi samt. 167.520 krónum með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Þá er krafist málskostnaðar fyrir hvern innlausnarþola fyrir sig samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns innlausnarþola ásamt virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988.

 

SJÓNARMIÐ INNLAUSNARHAFA

Innlausnarhafi ber fyrir sig innlausnarheimild þá sem honum hafi verið veitt með úrskurði Landbúnaðarráðuneytisins frá 10. júlí 2001. Hvað lagaheimild fyrir innlausn varðar vísar hann til 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976 en á grundvelli þeirrar lagaheimildar heimilaði landbúnaðarráðuneytið honum innlausn á eignarhluta innlausnarþola í jörðinni Geitaskarði, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 10. júlí 2001. Fyrir liggi því ákvörðun tekin af valdbæru stjórnvaldi og sé matsnefnd eignarnámsbóta ekki bær til að endurskoða hana, sbr. l. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Innlausnarhafi telur að enginn vafi sé á því hvernig fasteignir þær sem heimiluð var innlausn á séu afmarkaðar, en þær eru allt land jarðarinnar Geitaskarðs að undanskildum þeim hluta sem kom í hlut Brynjólfs Þorbjarnarsonar, föður innlausnarþola, í jörðinni, sbr. lands- og eignaskiptasamning milli hans og innlausnarbeiðanda frá 18. desember 1982. Eignir innlausnarþola á jörðinni samkvæmt framangreindum samningi séu eftirfarandi:

Fjórðungseignarhluti í penings- og útihúsum sem standa á jörðinni.

Eignarhluti innlausnarþola í íbúðarhúsi, en í framangreindum samningi er hann skilgreindur með eftirfarandi hætti:

"Í hlut Brynjólfs falli hluti af kvisthæð, sem eru tvö herbergi og eldhús. Herbergi eru stofa og svefnherb. þar innaf, ásamt innbyggðum skáp við súð. Aðgangur að baði og þvottahúsi, sem liggja að sameiginlegum stigagangi fylgi, þ.e. afnota- og umgengnisréttur."

 

Loks sé um að ræða fjórðungshlut innlausnarþola í óskiptri sameign á landsvæði sem tilheyra Skarðsskarði og Tungubakka á Laxárdal.

Innlausnarhafi tekur fram, að hann telur, að landamerki jarðarinnar séu óumdeild. Vitnar hann um það til landamerkjabréfs frá 1884. Einnig vísar hann í því sambandi til yfirlýsingar, dags. 23. mars 1999, sem undirrituð er af eigendum jarðanna Kagaðarhóls, Smyrlabergs, Grænuhlíðar og Köldukinnar II auk innlausnarbeiðanda. Þar kemur fram að landamerki þessara jarða séu með öllu ágreiningslaus og óumdeilt sé að Blanda skipti löndum milli Geitaskarðs og annarra ofantalinna jarða. Einnig er vísað til þess að í lands- og eignaskiptasamningi milli innlausnarbeiðanda og Brynjólfs Þorbjarnarsonar sem fjallað var um hér að framan sé afmarkað hver eignarréttindi Brynjólfs í jörðinni Geitaskarði eru. Brynjólfur afsalaði þeim til innlausnarþola með afsali, dags. 1. júlí 1983. Í samræmi við grundvallarreglur eignaréttar geti þeir vitaskuld ekki krafist frekari réttar sér til handa en mælt er fyrir um í títtnefndum samningi innlausnarhafa og Brynjólfs.

Innlausnarhafi telji auk þess að úrlausn þessa meinta deiluefnis falli ekki samkvæmt lögum undir Matsnefnd eignarnámsbóta en eins og áður hafi verið vikið að sé hlutverk hennar að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Telji innlausnarþolar sig hins vegar eiga frekari rétt til jarðarinnar en leiðir af áðurnefndu heimildarskjali þeirra geti þeir borið þann ágreining undir dómstóla, en hann komi ekki til úrlausnar í þessu matsmáli.

Þess er krafist að hinn innleysti eignarhluti verði hið hæsta metin á fasteignamatsverði. Sérstök athygli sé vakin á því að hlutur innlausnarþola í íbúðarhúsi geti ekki verið metinn svo hátt þar sem einungis sé um að ræða lítinn hluta í íbúðarhúsi innlausnarbeiðanda og því virði þess mun minna en samkvæmt fasteignamati.

Varðandi gögn sem innlausnarþolar leggi fram um sölu eigna verði að gæta þess sérstaklega við hvaða aðstæður hver samningur um sölu hliðstæðra eigna, sem notaður er til samanburðar, sé gerður og að sú eign sem um ræðir sé sambærileg þeirri sem mál þetta snýst um.

Innlausnarbeiðandi bendir á að nauðsynlegt sé að meta endurbætur hans á hinum innleysta eignarhluta, bæði endurbætur á mannvirkjum og landi, enda hafi þær ráðstafanir verið innlausnarþolum til hagsbóta og því þurfi að meta þann hagnað sérstaklega og draga frá bótum, enda hafa þessar ráðstafanir gert hluta þeirra verðmeiri. Þessu til stuðnings vísar innlausnarbeiðandi til hluta landbúnaðarskýrslu hans árin 1983-1997. Eins og sjáist af þeim gögnum hafi innlausnarbeiðandi þurft að standa straum af verulegum kostnaði vegna endurbóta og viðhalds.

 

SJÓNARMIÐ INNLAUSNARÞOLA

Af hálfu innlausnarþola hefur mál þetta og aðrar þrætur því tengdar verið sótt af miklu kappi. Þannig hefur verið gerður ágreiningur um fjölmörg atriði, sum smávægileg og langsótt, að mati nefndarinnar. Af þessum sökum telur nefndin rétt að taka upp í heild sinni málatilbúnað í greinargerð innlausnarþola, þó þannig að felld eru út atriði sem þegar hefur verið leyst úr, m.a. með úrskurði nefndarinnar frá 20. október 2000 og einnig þau sem engu máli skipta eins og málið liggur nú fyrir.

"[Kröfugerð] er á þá leið að krafist er að hinir innleystu hlutar og réttindi verði metin á hæsta verði og skuli þá miðað við fullar bætur eins og meginregla í 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins mælir fyrir um, þannig að allt fjárhagslegt tjón verði bætt að fullu. Krafist er dráttarvaxta af öllum fjárhæðum frá úrskurðardegi.

Þá er krafist málskostnaðar fyrir hvern eignarnámsþola fyrir sig samkv. framlögðum málskostnaðarreikningi lögm. eignarnámsþola ásamt virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988.

Aðrar kröfur:

b. Krafist er að ekki verði tekið tillit til hugsanlegra endurbóta eignarnema á hinum innleystu eignarhlutum.

Sérstaklega skal bent á leigu- og afnotasamning að íbúðarhúsn. d. l. maí 1986, þar sem tekið var skýrt fram í 4. gr. að innlausnarbeið. beri kostnað af viðhaldi hins leigða og skv. 6. gr. var honum óheimilt að breyta hinu leigða húsnæði án leyfis innlausnarþola.

Því er mótmælt að nokkrar endurbætur hafi farið fram á íbúðarhúsi, gripahúsum eða landi á eignarhaldstíma eignarnema.

Sérstaklega er skattframtölum mótmælt varðandi efnis- og viðhaldskostnað, þar sem allar tölur eru órökstuddar og engin sundurliðun tilgreind varðandi hverja byggingu eða mannvirki.

Þá er enn í gildi leigusamningur milli Sigurðar Þorbjarnarsonar og Brynjólfs Þorbjarnarsonar frá 1966 og gengu eignarnámsþolar sjálfkrafa inn í það samningssamband við lát föður síns, enda hefur samningi þessum hvorki verið sagt upp af hálfu Sigurðar Þorbjarnarsonar eða þeim sem leiða réttindi sín frá honum, eignarnema, Ágústi Sigurðssyni og matsþolum.

e. Krafist er f.h. Guðmundar Brynjólfssonar og Stefáns H. Brynjólfssonar að metið verði að fullu miðað við núverandi markaðsverð greiðslumark mjólkur, sem er kr. 233.- pr. líter, enda tilheyrði það lögbýlinu og hafði innlausnarbeiðandi engan rétt til að selja og rýra jörðina svo stórkostlega eins og reyndin er orðin. Er gerð krafa um að hvorum aðila um sig verði greiddar kr. 524.842.- eða samtals kr. 1.049.684.- með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi matsfjárhæðar.

Auk þess krefjast Magnús Björn, Jón, Guðmundur og Stefán Heiðar Brynjólfssynir hlutdeildar í þeim beingreiðslum er runnið hafa til lögbýlisins undanfarin 4 ár eða samtals kr. 2.414.724.- ásamt dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Jafnframt er þess krafist að það verði sérstaklega metið hverju það varði jörðina í peningum að hafa tapað mjólkurkvótanum þannig að jörð verður án beingreiðslna ( í dag kr. 67.-pr. líter) og mjólkurkvóta hér eftir.

f. Einnig krefjast allir 5 matsþolar greiðslu á hlut sínum i fullvirðisrétti á kindakjöti, ærgildum, sem tilheyra lögbýlinu, eða samtals kr. 221.375.-.

Þá krefjast þeir hlutdeildar í beingreiðslum vegna sama fullvirðisréttar, sem nemur samt. kr. 167.520.- með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Nánari útskýring krafna kemur fram í IV kafla, umfjöllun þrautavarakröfu.

g. Krafist er nákvæmrar sundurliðunar á hverjum matslið bótafjárhæðar fyrir sig skv. 10. gr. laga nr. 11/1973 og lýsi matsnefndin grundvelli útreikninga.

 

IV. Málsástæður og lagarök.

[…]

Umfjöllun þrautavarakröfu. Andlög eignarnámsins:

Þrátt fyrir lands- og eignarskiptasamning, skjal nr. 3, eru ýmis mikilvæg mál, sem matsnefndinni ber skylda til að leysa áður en hægt er að meta allar eignir innlausnarþola.

1. Meta skal öll gripa- og útihús, hvort sem um er að ræða fjós, fjárhús með áburðark., haughús, mjólkurhús/fóðurgeymsla, blásarahús/súgþurrkun, járnsmiðja, steinhús, bílgeymsla, hjallur, heimarafstöð og stífla, tvær hlöður, tveir votheysturnar, bæjarhlið og mjólkurpallur. Um þetta vísast nánar til matsvottorðs, skjal nr. 14 .

2. Meta skal eignarhluta innl.þola í íbúðarhúsi, svo sem lýst er í lands- og eignarskiptasamningi dags. 18. des. 1982, skjal nr. 3.

[…]

6. Þá gera innlausnarþolar kröfu um hæstu bætur fyrir sig vegna alls þess landssvæðis, er tilheyrir Skarðskarði og Tungubakka á Laxárdal. Allt þetta land er skilyrðislaust eignarland og vísast um það til Merkjalýsingar frá júní 1844.

Skarðskarð er grösugur dalur upp af heimalandi jarðar uþb. 8-9 km. langur með ótakmörkuðum beitarmöguleikum. Dalur þessi er í óskiptri sameign aðila þessa máls.

Þá er jörðin Tungubakki, sem er eyðibýli, sérstök hjálenda Geitaskarðs og er krafist að allri matsgerðinni verði frestað þar til niðurstaða óbyggðanefndar liggur fyrir, sjá skjal nr. 75. Nánar er fjallað um þetta í V. kafla um stærð jarðar og landamerki.

Þá er Laxárdalur um og yfir 20 km. langur dalur, og er hann afréttur ásamt Trölla - og Grjótárbotnum m.a. í hlutaeign Geitaskarðs vegna þess eignarlands, sem jörðin á á afréttinum. Laxárdalur ásamt Tröllabotnum og Grjótárbotnum hafa frá ómunatíð verið notuð sem afréttur Geitaskarðs og fleiri bæja í Engihlíðarhreppi.

Gerð er krafa um að viðurkennd verði eignarréttindi innlausnarþola hlutfallslega í afréttinum og að hann verði metinn til peningaverðs. Um þetta vísast m.a. til merkjalýsingar 1844 um Illugastaðaland, lands- og eignarskiptasamn. og afsala frá Árna Þorkelssyni og Þorbirni Björnssyni, skjöl nr. 31 og 33 .

7. Þá er gerð sérstök krafa um hlutdeild í landi vestan Blöndu, er greinir í Merkjalýsingu frá júní 1844, skjal. nr. 26 en þar er þessu landi lýst eftirfarandi:

"Fyrir vestan Blöndu á Geitaskarð svonefndan Skarðshaga, er hann afmarkaður að norðan frá Köldukinnarlandi með garði, sem liggur frá Blönduárbakka norðan til við svonefnda Strenghóla til vesturs útsuður og frá Smyrlabergslandi meðfram garði sem liggur þá til suðurs meðfram brekkum þeim, er austan í hálsinum eru allt til merkja milli Smyrlabergs og Kagaðarhóls en er bein lína úr svonefndum Flathamar beint austur í Blöndu."

Matsnefndin getur ekki horft fram hjá þessu eignarlandi og er ítrekuð krafan um mat á því með tilliti til landsstærðar og landgæða þannig að gengið verði á ofangr. landamerki, þau kortlögð og landið metið að stærð og umfangi með það fyrir augum meta til fjár.

8. Krafist er að eignarhlutdeild innlausnarþola í hlunnindum, sem eru vatnsréttindi og veiðiréttindi í Blöndu, Svartá, Norðurá og Laxá á Laxárdal verði sérstaklega metin. Varðandi Svartá ber að horfa til þess að innlausnarþolar eiga land að Blöndu er tilheyrir vatnasvæði Svartár og eru þ.a.l. með skylduaðild í veiðifélagi um ofangr. ár.

Um er að tefla gríðarleg hlunnindi er fylgja vatnsrétti og veiðirétti í ofangreindum ám, sem eru með þekktustu og bestu veiðiám landsins s.s. t.d. Blanda og Svartá.

Gerð er og krafa um að fá aukin arð þegar og ef arðskrá verður breytt á næstu árum til hækkunar fyrir Geitaskarð, þar sem veiði hefur nú þegar færst á svæði, sem eru innan eignarlands matsþola.

Innlausnarbeiðandi hefur ætíð trassað að greiða innlausnarþolum arð frá veiðifélaginu, þrátt fyrir ákafa kröfu þar um undanfarin ár. Er það sérstaklega ámælisvert þar sem hann er sjálfur formaður veiðifélagsins. Var umrædd umsýsla eignarnema kærð til ríkislögreglustjóra.

Er þess krafist að innlausnarbeiðandi sjái til þess að lagðir verði fram reikningar veiðifélags Blöndu og Svartár fyrir öll þau ár, sem eignarnámsþolar hafa verið eigendur eða frá 1983 til þessa dags til matsnefndar eignarnámsbóta, þannig að hægt verði að meta umfang verðmætis innlausnarþola í veiðifélaginu.

Er þess og krafist að eignarhlutar innlausnarþola verði metnir að svok. framtíðar núvirði, þar sem innlausnarþolar munu verða fyrir ævarandi tekjumissi og tapi vatnsréttar og veiðiréttar vegna þessarar eignaupptöku a.m.k. 75 ár fram í tímann.

Rétt er að benda á nýlegan kaupsamning um jörðina Árnes en þar voru hlunnindi í vatns- og veiðiréttindum metin á kr. 11.618.880.-, skjal nr. 78.

Jafnframt er krafist með vísan til bréfs veiðimálastofnunar dags. 5. júlí 2000 og bréfs Landsvirkjunar hf dags. 26. júlí 2000, skjöl nr. 70 og 71, að metnar verði til núvirðis þær væntanlegu bætur, sem Landsvirkjun mun greiða eigendum lands að Blöndu á næstu árum, vegna hugsanlegra spjalla og röskunar á lífríki Blöndu og Svartár, en það kann að hafa orðið fyrir verulegum spjöllum.

Er sérstaklega krafist mats á hlut matsþola í þeim veiðihúsum, er Landsvirkjun hf hefur afhent veiðifélaginu sem innborgun upp í væntanlegar bætur.

Þá er krafist að það verði metið til verðs að Landsvirkjun hf mun leggja hitaveitu að hverju lögbýli og er áætlað að kostnaður á hverja jörð verði að fjárhæð kr. 1.000.000.- , sem skoðast sem bótagreiðsla til hvers lögbýlis. Er krafist hlutdeildar í framangr. fjárhæð sem nemur eignarhlut matsþola.

[…]

Einnig er áskilinn réttur til að sækja bætur eða greiðslur með aðstoð dómstóla vegna hvers konar bóta eða greiðslna Landsvirkjunar hf til veiðifélags Blöndu og Svartár næstu árin vegna þess tjóns, sem virkjunarframkvæmdir hafa þegar valdið eða kunna að valda í lífríki Blöndu og Svartár.

9. Með vísan í dóm héraðsdóms Norðurlands-vestra nr. E-16/1999, dags. 9. júní 2000 er krafist samtals greiðslu að kr. 1.049.684.- fyrir greiðslumark mjólkur f.h. Guðmundar Brynjólfssonar og Stefáns H. Brynjólfssonar en þeir samþykktu ekki söluna á sínum tíma. Útreikn. er eftirfarandi: 54.061 lítrar á ársgrundvelli x 233.- kr. pr. líter = 12.596.213.- x 2/24 hl. = 1.049.684.-krónur samtals fyrir þá báða. 

Þá krefjast Magnús, Jón, Guðmundur og Stefán Heiðar hlutdeildar í þeim beingreiðslum a.m.k. fjögur ár aftur í tímann, eða sem nemur 4/24 hlut af kr. 14.508.984.- miðað við kr. 67.- pr.  líterinn, sem matsbeiðandi hirti sjálfur í stað þess að deila þessum fjármunum milli sameigenda sinna. Samtals nemur krafa þeirra kr. 2.414.724.-

Útreikn er eftirfarandi: 54.061 lítrar x 67.-beingr. pr. líter = 3.622.087.- x 4 ár = 14.488.348.-. 4/24 hlutar eru kr. 2.414.724.-

10. Þá er krafist hlutdeildar í öllum vélum og tækjum hverju nafni sem nefnist þ.á.m. rafstöðvartúrbínu, stíflu og röralögn frá henni að rafstöðvarhúsi, auk bóta vegna skemmda á eldhúsi, förgun eldhúsinnréttingar, eldavélar og tvöfalds vasks með blöndunartækjum auk annars lausafjár, véla og tækja, er kunna að koma í ljós við vettvangsgöngu.

11. Þá er krafist mats á hlutdeildareign eignarnámsþola í ærgildum og /eða fullvirðisrétti í kindakjöti, sem fylgja lögbýlinu og nema i dag 48,3 ærgildi en hlutfallskrafa matsþola nemur samtals kr. 221.375.- .

Útreikn. ærgildiskröfu: Hvert ærgildi er metið á kr. 22.000.- x 48,3 ærgildi = 1.062.600.- krónur og eiga því matsþolar sem nemur 5/24 hlut eða samtals kr. 221.375.- af þessum fullvirðisrétti.

Þá er einnig krafist fyrir sömu aðila greiðslu á hlutdeild í beingreiðslum v/fullvirðisréttar á kindakjöti skv. lögum nr. 99/1993 sbr. reglug. nr. 5/1996 sem nemur samt. kr. 167.520.- Útreikn. beingreiðslukröfu: Árleg beingr. pr. hvert ærgildi er kr. 4.162.- x 48,3 ærgildi = 201.024.- x 4 ár = 804.098.-. Matsþolar eiga 5/24 hluta af þessari fjárhæð eða kr. 167.520.-

12. Magnús Björn og Jón krefjast greiðslu að fjárhæð kr 557.296.- vegna tapaðrar leigu fyrir árin 1998, 1999 og 2000 ásamt dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Allir matsþolar krefjast og greiðslu á kr. 19.875.000.- ásamt dráttarvöxtum frá úrskurðardegi vegna þeirra tekna, er þeir verða sviptir næstu 50 árin af húsnæði sínu í íbúðarhúsi.

Um rökstuðning vísast til málsástæðna fyrir aðalkröfu v/ íbúðar í íbúðarhúsi A liður VI kafla.

Ítrekað er að matsnefndin sundurliði mat sitt á hverjum tölulið hér að ofan.

 

V. Stærð jarðar og landamerki:

Harðlega er mótmælt yfirlýsingu dags. 23.03. 1999, (skjal nr. 27), sem innlausnarþolar telja sig ekki bundna við með nokkrum hætti. Þeir aðilar, sem um getur í skjali nr. 27 hafa ekki umboð eða heimild til að semja um eignarréttindi innlausnarþola hvað þá að afsala þeim.

Bent skal á að merkjabréf frá 1884 er afar mikilvægt skjal og byggir jörðin öll sín landamerki á þessu skjali enda er það undirritað af þar til bærum aðilum á þeim tíma, sem voru eigendur að þeim réttindum, sem samið var um, sem núverandi eigendur leiða réttindi sín frá.

Vakin er sérstök athygli á því að merkjabréfinu hefur aldrei verið mótmælt né véfengt af innlausnarbeiðanda. Ekki er að sjá að hafi með nokkrum hætti andmælt gildi merkjabréfsins 1884 í greinargerð sinni né í skjali nr. 27. Matsnefndin er því knúin til að fylgja merkjabréfinu frá 1884 varðandi mat á landamerkjum og landsstærð í eigu eignarnámsþola í einu og öllu. Þá er og bent á afsal frá Þorbirni Björnssyni til sona sinna, Brynjólfs og Sigurðar, skjal nr. 33 en eignanámsþolar leiða og rétt sinn af reglum erfðaréttar.

Merkjalýsing fyrir jörðina Fremstagil frá 1887, skjal nr. 30 staðfestir sömu landamerki, er koma fram í nefndu skjali nr. 26. Bæði þessi skjöl hafa verið lögð fram áður af innlausnarbeiðanda máli hans til stuðnings fyrir landbúnaðraráðuneytinu sbr. greinarg. hreppsnefndar Engihlíðarhrepps (viðhengi við skjal nr. 30).

Merkjalýsingin frá 1884 er grundvallarskjal í þessu máli og vilji innlausnarbeiðandi afneita þeim eignarheimildum , sem þar eru viðurkenndar, gerir hann það á eigin ábyrgð.

Verður að telja sennilegt að þegar óbyggðanefndin tekur eignarréttarmálið fyrir á afréttinum, muni verulega reyna á þetta skjal.

Samkvæmt lands- og eignarskiptasamningi dags. l8. des. 1982 eiga innlausnarþolar 25% af öllu öðru landi eða eins og segir í nefndum samningi:

"Þar sem landssvæði þau, er tilheyra Skarðskarði og Tungubakka á Laxárdal, liggja ekki að hinu afmarkaða landssvæði, sem liggur eins og áður hefur komið fram norðast í heimalandi Geitaskarðs og telst útmældur eignarhlutur Brynjólfs, þá getur hann fyrir sitt leyti fallist á af framangreindum ástæðum að eignar- og nytjaréttur eignaraðila verði óskiptur eins og verið hefur um ótiltekin tíma hingað til".

Það sætir furðu að innlausnarbeiðandi skuli leyfa sér að halda fram að innlausnarþolar eigi eingöngu afmarkað land innan heimalands eins og hann gefur í skyn á miðri bls. 3. í greinargerð.

Það liggur í augum uppi að það getur ekki verið hlutverk eignarnámsþola að inna þá vinnu af hendi að ákvarða það land, sem er til eignarnáms. Það er vinna, sem eignarnemi átti að hafa rækt af hendi að kröfu landbúnaðarráðuneytis áður en mál þetta var lagt fyrir matsnefnd eignarnámsbóta til umfjöllunar.

Landsstærðin og öll landamerki áttu því að liggja fyrir áður en úrskurðað var í málinu. Um þetta vísast til álit umboðsmanns Alþingis nr.2807/1999 bls. 18 en þar segir umboðsmaður:

"Samkvæmt fyrrgreindu tel ég að skýrara hefði verið og eðlilegra að tiltaka nákvæmlega í ákvörðuninni um innlausn þær eignir sem innlausnin tók til".

Af framangreindu er ljóst að innlausnarbeiðandi er vísvitandi að villa um fyrir matsnefndinni hvað landsstærð og landamerki áhrærir. Matsnefndin getur ekki sinnt starfi sínu nema landsstærð liggi fyrir. Þess vegna er því harðlega mótmælt að deiluefni um landamerki og landsstærð liggi utan við starfsvettvang matsnefndarinnar. Lagaskyldan lýtur að því að skera úr um ágreining um bætur skv. l. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 en það verður vitaskuld aldrei framkvæmanlegt nema landamerki og landsstærð liggi fyrir. Treysti nefndin sér ekki til að úrskurða um landamerki og landsstærð ber henni að vísa málinu frá þar sem úrskurðaraðilinn (landbún.ráðun.) sendi málið svo vanreifað og vanbúið frá sér að ómögulegt er að leggja mat á það að svo komnu máli.

Þessu til stuðnings skal bent á lokaorð umboðsmanns Alþingis:

"Samkvæmt því sem nú var rakið tel ég að ákvörðun sú um innlausn, sem mál þetta fjallar um, hafi verið haldin verulegum ágöllum".

Geitaskarð er gríðarlega stór jörð, þar nægir að nefna allt eignarlandið í Skarðskarði, afréttinn á Laxárdal, Tröllabotnum, Grjótárbotnum og eignarlandið Tungubakka ásamt Skarðshaga vestan Blöndu.

[…]

VI. Verð á hinum innleystu eignarhlutum.

Með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 3311944 skal greiða eignarnámsþolum fullt verð eignir sínar.

Til greina koma tvenns konar sjónarmið, alm. söluverð, notagildi og kostnaður af útvegun sambærilegrar eignar. Er grunnreglan sú að matsþoli eigi ætíð kröfu á því verði, sem hæst reynist af þessu þrennu.

Einnig gildir sú regla að matsþoli geti krafist hæsta verðs, sem fæst fyrir eign við sölu á almennum markaði. Er þá átt við söluverð sömu eignar rétt fyrir eignarnámið eða söluverð sambærilegra eigna.

 

A. Mat á íbúð í íbúðarhúsi.

Aðallega er krafist að fundið verði hæsta söluverð á íbúðarhúsnæði eins og það gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag og að Magnúsi og Jóni verði greiddar samt. kr. 557.296.- með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi. Jafnframt er krafist að tekið verði tillit til hins fjárhagslega ávinnings á undanförnum árum og fyrirsjáanlegs ávinnings í framtíðinni v/notkunar matsbeiðanda á gistirými matsþola þannig að matsbeiðandi verði úrskurðaður til að greiða kr. 19.875.000.- með dráttarvöxtum frá úrskurðardegi.

Til vara er krafist brunabótamatsverðs fyrir íbúðarhúsnæðið skv. skjölum nr. 72 .

Málsástæður fyrir aðalkröfu v/ íbúðar í íbúðarhúsi:

Varðandi mat á íbúð í íbúðarhúsi skal bent á leigusamning dags. 1. maí 1986 og þá sérstaklega 4. gr., 5. gr. og 6. gr. samnings, skjal nr. 6.

Gerð er krafa um bætur fyrir þau eignaspjöll, sem eignarnemi hefur unnið á húsnæði eignarnámsþola.

Mótmælt er frádrætti vegna endurbóta í íbúðarhúsi, þar sem endurbætur hafa ekki farið fram með leyfi eignarnámsþola. Bent skal á að endurbætur og viðhald húsnæðis, ef einhverjar eru, var innifalið í leigugreiðslu eignarnema vegna íbúðarhúsnæðis skv. 4. gr. leigusamnings.

Eignarnema bar skylda til að tilkynna allar breytingar á húsnæði til eignarn.þola. Það gerði hann hins vegar aldrei og á þ.a.l. ekki endurgjaldskröfu vegna hugsanl. endurbóta.

Þá skal bent á innréttingar og innanstokksmuni, sem eignarnemi fargaði án vitundar og leyfis eignanámsþola sbr. t.d. Rafha-eldavél (skjal nr. 34), vaskur, raf og pípulagnir ásamt blöndunartækjum og eldhússkápum reif hann niður úr eldhúsi og henti á haugana, skjal nr.40. Þá færði hann hurðarop til án heimildar eigenda og eyðilagði þar með notagildi eldhússins með því að fjarlægja tvöfaldan vask frá vegg. Er þess krafist að nefndin meti hverju varði að ekki er lengur hægt að nota eldhúsið til sinna upphaflega nota.

Eignarnemi hefur þegar viðurkennt bótaskyldu sína í bréfi A&P lögmanna dags. 11. feb. 1999, (skjal nr. 54 ) á öllu ofangreindu og er krafist að umræddir munir, skemmdir og röskun á húsnæðinu verði sérstaklega metið til verðs af nefndinni og það sundurliðað í matinu.

Harðlega er mótmælt að fasteignamat eða annað lægra mat gildi um íbúð.

Bent er á að matsþola hafa alla tíð greitt eignarskatt af hluta sínum í íbúðinni þrátt fyrir að eignarnema hafi borið skylda til að greiða það skv. leigusamningi. Er þess krafist að nefndin taki tillit til þessa í matsstörfum sínum.

 Mótmælt er framlögðum gögnum um jarðasölur í nágrannahreppum Engihliðarhrepps. Er þar um algjörlega ósambærilegar eignir að ræða, sem ekkert eru skilgreindar nánar í samningum. T.d. liggur ekkert fyrir um verðgildi mjólkurkvóta hins vegar og fasteignar annars vegar v/ sölu Brandsstaða.

Þá er þess krafist að tekið verði tillits til hins fjárhagslega ávinnings matsbeiðanda að hafa leigt út þrjú herbergi matsþola síðan 1983. Er þess krafist að hann leggi fram skýrslur um það hversu margar gistinætur hann hafi selt frá 1983 í húsnæði matsþola fram til þessa dags og á hvaða verði í hvert skipti. Ella verði notast við skýrslur Hagstofu Íslands um fjölda gistinátta sbr. skjal nr.76 og byggt á þeim útreikningum þar sem stuðst er við skýrslurnar og áætluð meðalverð pr. gistinótt.

Er krafist sérstaklega bóta vegna tapaðrar leigu til handa Magnúsi B. Brynjólfssyni og Jóni Brynjólfssyni, sem sögðu sérstaklega upp leigusamningi við matsbeiðanda hinn 29. sept. 1997 með 3 ja mán. fyrirvara. Átti íbúð að vera laus frá 1. jan. 1998 sbr. skjal nr. 49.

Árið 1998 gistu samt. 361 gestir. Má ætla að þeir hafi að meðaltali greitt kr. 2000.- pr. nótt. Af 10 rúmum eru matsþolar eigendur að a.m.k. 6 rúmum. Dæmið lýtur því þannig út:

Gestir voru 361 x kr. 2.000.- = 722.000.- kr. fyrir árið 1998.

Matsþolar eiga 6 rúm af 10 og eiga því 60% af 722.000.- eða kr. 433.200.- Matsþolar eru 6 og er hluti hvers um sig kr. 72.200.- en tveggja kr. 144.000.-

Gestir voru 397 x kr. 2000.- = 794.000.- fyrir árið 1999.

Matsþolar eiga 6 rúm og ber því 60% af kr. 794.000.- eða kr. 476.400.-Hluti M.B.B. og J.B. er 2/6 hlutar af 476.400.- eða samt. kr. 158.800.-

Sama viðmiðun er notuð fyrir árið 2000, þar sem matsbeiðandi hefur ekki skilað skýrslu fyrir árið, sem er að líða.

Krafa Magnúsar og Jóns sundurliðast eftirfarandi :

Höfuðstóll v.1998                                 144.400.-

Dráttarvext. 01.10.98 - 28.09.00          63.536.-

Höfuðstóll v. 1999                                158.800.-

Dráttarv. frá 01.10.99 - 28.09.00         31.760.-

            Höfuðstóll v. 2000                                158.800.-

Samtals                                    kr.        557.296.-

Einnig er krafist f.h. allra matsþola að metinn verði fyrirsjáanlegur ávinningur matsbeiðanda af því að nýta húsnæði matsþola til framtíðar sem gistirými fyrir ferðamenn næstu 50 árin.

Samkv. gistiskýrslum, skjal nr. 76 hafa gist á Geitaskarði samtals 1990 gestir s.l. 5 ár og eru þá ekki meðtaldar hversu margar nætur hver hefur gist en þær nema hundruðum. Matsbeiðandi hefur aðeins upplýst um fjölda gistinátta fyrir árið 1997. Að meðaltali hafa því gist 398 gestir á hverju ári. Áætlað er að hver gestur hafi greitt kr. 2.000.- fyrir nóttina sem gerir kr. 795.000.- á ársgrundvelli og er þá varlega áætlað. Matsþolar eiga 6 rúm af þeim 10, sem eru í boði og eiga þ.a.l. hlutdeild í sem nemur 60% af kr. 795.000.- eða samt. kr. 477.004.- á ársgrundvelli x 50 ár = 23.850.000.- x 5/6 hlutar = 19.875.000.-

 Gerð er krafa til þess að matsþolum verði greiddar kr. 19.875.000.- vegna þeirra tekna, sem þeir verða sviptir næstu 50 árin af ofangreindu húsnæði, þar sem eign þeirra mun verða tekin með valdi og þeir sviptir öllum tekjumöguleikum hér eftir.

Krafist er dráttarvaxta frá úrskurðardegi af öllum fjárhæðum.

[…]

 

IX. Lokaorð og áskilnaður:

Það hlýtur að vera grundvallarregla að eignarnámsþolar verði ekki látnir þola meiri skerðingu en eðlilegt er og að þeim beri því hæsta verð á hverjum tíma. Það athugist sérstaklega að réttlætiskennd eignarnámsþolanna hefur verið verulega misboðið í þessu máli og að þeir eru afar ósáttir við að skilja við eignir sínar og land, sem þeir hafa verið tengdir alla sína ævi. Það er staðfest af umboðsmanni Alþingis að landbúnaðarráðuneytið fór offari í máli þessu.

Ítrekað er áskilinn er réttur til að leggja fram frekari gögn í máli þessu, hafa uppi andmæli, koma með nýjar málsástæður, lagarök og rökstuðning eignarnámsþolum til framdráttar. Þá er krafist munnlegs málflutnings um þær kröfur, sem gerðar hafa verið í málinu.

Áskilinn er réttur til að dómkveðja sjálfstætt sérstaka matsmenn til að meta allar eignir matsþola og/eða krefjast yfirmats eða bera niðurstöður matsnefndar undir dómstóla. Þá skal það ítrekað að matsnefndinni er skylt að gæta sérstaklega að því að virða rétt eignarnámsþola í máli þessu, sem telja verulega á sér brotið.

Það er jafnframt ljóst að úrskurður landbúnaðarráðuneytis mun ekki standast skoðun dómstóla hvorki um form- né efnisrétt samkv. mati umboðsmanns Alþingis.

Hér er það bóndi, er tilheyrir minnihlutahópi bænda, sem var úthlutað án ástæðu og nokkurra raka stórkostlegum eignarréttindum allt á kostnað matsþola. Öllu jafnræði hefur veríð fórnað til að fullnægja þörf, sem sannanlega var og er ekki fyrir hendi."

 

NIÐURSTAÐA

Matsnefndin fór á vettvang 9. nóvember sl. og kynnti sér aðstæður eftir föngum. Þann 23. sama mánaðar var málið flutt munnlega fyrir nefndinni og tekið til úrskurðar.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir einstökum matsliðum og niðurstöðum um þá. Áður en að því kemur er rétt að taka fram að hér eru einungis metnir framangreindir eignarhlutar sem innlausnarhafa var heimiluð innlausn á með ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins 10. júlí sl. Utan mats falla því meint kröfuréttindi innlausnarþola vegna leigu, greiðslumarks í mjólk, hlutdeildar í beingreiðslum, hlutdeildar í ærgildum og/eða fullvirðisrétti í kindakjöti, hlutdeildar í vélum og tækjum o.fl. Engar forsendur eru til þess að matsnefnd eignarnámsbóta fjalli um kröfur þessar enda falla þær utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar og matsandlagins svo sem það liggur fyrir í máli þessu. Þá áréttar matsnefnd sérstaklega að hún telur að hin heimilaða innlausn taki ekki til veiðiréttinda málsaðila í Svartá og Blöndu heldur einungis þeirra hlunninda sem liggja á  og fyrir hinum óskipta og innleysta hluta jarðarinnar.

Í annan stað tekur matsnefnd fram vegna kröfu innlausnarþola um mat á landi vestan Blöndu, svonefndu Skarðshagalandi, að uppi er ágreiningur með aðilum um rétt jarðarinnar til lands þessa. Úr þeim ágreiningi verður að leysa á öðrum vettvangi enda ekki á valdsviði nefndarinnar. Fyrr getur ekki komið til álita að nefndin meti land þetta.

Verður nú vikið að einstökum matsliðum.

Geitaskarð - íbúðarhús

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1910                321,5               4.490.000        21.721.000

Hér er um að ræða stílhreint, virðulegt og fallegt einbýlishús. Húsið er kjallari, aðalhæð og rishæð. Það er steinsteypt. Pússning virðist ónýt og steypan í húsinu léleg. Þegar matsmenn bar að garði var múrari að hefja viðgerðir á múr- og steypuskemmdum. Líklegt er að slíkar viðgerðir dugi aðeins til skamms tíma (fárra ára) en klæðning á ytra byrði sé eina varanlega lausnin. Slíkt myndi hins vegar eflaust raska hinni virðulegu ásýnd hússins. Í húsinu er að sjálfsögðu rafmagn og heitt og kalt vatn. Eins og að framan greinir er húsið skráð einbýlishús.

Það sem hér skal metið er skv. lýsingu í lands- og eignaskiptasamningi milli Brynjólfs Þorbjarnarsonar og Ágústs Sigurðssonar, dags. í Hafnarfirði 18. desember 1982:

"Eignar- og afnotaréttur aðila  á íbúðarhúsi skilgreinist eftirfarandi:

Í hlut Brynjólfs falli hluti af kvisthæð, sem eru tvö herbergi og eldhús. Herbergin eru stofa og svefnherbergi þar innaf, ásamt innbyggðum skáp við súð. Aðgangur að baði og þvottahúsi, sem liggja að sameiginlegum stigagangi fylgir þ.e. afnota- og umgengisréttur og noti hver aðili eigin þvottavél. Gengið verði þannig frá raflögn að raforkueyðsla beggja aðila verði mæld sér."

Við verðmatið er tekið tillit til þess sem stendur í greinargerð lögmanns innlausnarþola, dags. í Reykjavík 27, september árið 2000, og er að finna á bls. 11 í greinargerðinni:

"Þá skal bent á innréttingar og innanstokksmuni, sem eignarnemi fargaði án vitundar og leyfis innlausnarþola sbr. t.d. Rafha-eldavél (skjal nr. 34), vaskur, raf- og pípulagnir ásamt blöndunartækjum og eldhússkápum reif hann niður úr eldhúsi og henti á haugana, skjal nr. 40. Þá færði hann hurðarop til án heimildar eigenda og eyðilagði þar með notagildi eldhússins með því að fjarlægja tvöfaldan vask frá vegg. Er þess krafist að nefndin meti hverju varði að ekki er lengur hægt að nota eldhúsið til sinna upphaflegu nota."

Hefst nú lýsing hins metna:

Komið er inn í forstofu og gengið upp stiga í rishæð hússins. Tröppur í stiga eru dúklagðar. Hol á rishæð er klætt máluðum panel, þ.e. loft og veggir. Í risi fylgja nú þrjú herbergi, eitt þeirra var áður innréttað sem eldhús, sbr. hér að framan.

Til hægri úr holi er komið inn í rúmgott herbergi, gólfflötur þess er u.þ.b. 25 fm. Á því eru tveir stórir gluggar með tvöföldu verksmiðjugleri. Á gólfi er dúkur. Listar eru í loftum, veggir eru klæddir maskínupappír og hurð er fulningahurð úr furu.

Beint inn af holi er komið í herbergi (áður eldhús). Þetta er einnig rúmgott herbergi, gólfflötur u.þ.b. 18 fm, með glugga og í honum er tvöfalt verksmiðjugler. Í herberginu er hluti af gamalli eldhúsinnréttingu, neðri skápar u.þ.b. 1 m á breidd og með þremur hurðum. Dúkur er á skápaborðinu. Efri skápar eru með tveimur krossviðarhurðum. Furupanell er á gólfi, veggjum og lofti. Inn af eldhúsi er dúklagður gangur. Á þessum gangi eru tvö herbergi og það herbergi sem telst til þessa mats er innst til hægri. Það er rúmgott, gólfflötur u.þ.b. 20 fm. Dúkur er á gólfi en veggir og loft eru klædd maskínupappír. Í því er skápur. Tvöfalt verksmiðjugler er í glugga. Þá ber að geta um snyrtingu (W.C.). Það er lítið rými undir stiga í kjallara. Á þessu rými er lítill gluggi og á gólfi og veggjum er dúkur, þá er þvottahús við hliðina á snyrtingu. Þar mun eitt sinn hafa verið baðker en það er ekki lengur fyrir hendi.

Vafasamt er að eignarhluti þessi hafi almennt markaðsvirði eins og hér háttar til. Að mati matsmanna hentar hinn metni eignarhluti fyrst og fremst fyrir einhverja nátengda ábúendum eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Þykir ákaflega hæpið að slík aðstaða henti ókunnugum nema í því tilliti að "húsráðandi", ábúandi, leigi sjálfur út slíka aðstöðu. Sá sem ræki slíka sveitagistingu yrði að áliti matsmanna að búa í húsinu og hafa mun meiri aðstöðu til þess að geta leigt þessi herbergi út, svo sem fullkomið eldhús, gott baðherbergi og snyrtiaðstöðu, síma o.fl., auk þess að vera sjálfur eða með sinn fulltrúa (starfsmann) á staðnum. Hins vegar er til þess að líta að af því kann að vera ávinningur að eiga innhlaup af þessu tagi, sem þó hlýtur að vera háð góðu samkomulagi við aðaleiganda fasteignarinnar.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreinds vera 1.000.000 króna og er þá litið til þess hvernig og til hvers stofnað var til eignarréttinda þessara.

 

(04) Fjós 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1949                185,8               968.000           4.095.000

Fjósið er steypt. Þak er járnklætt, en í loftum er asbestklæðning. Á framhlið þess (haughúsmegin) eru gluggar. Gert er ráð fyrir að fjósið rúmi 32 gripi (32 básar). Fjórar dyr eru á fjósinu, einar fyrir gripi, aðrar milli fjóssins og mjólkurhúss og loks tvennar dyr við hlöðu. Í því eru sjálfbrynningartæki. Handmoka þarf flór. Járn á þaki er mikið ryðgað. Einangrun innveggja er úr vikri og allvíða hafa stórir hlutar pússningar og einangrunar hrunið af veggjum, m.a. öll pússning og einangrun á veggnum sem er haughúsmegin. Annars staðar eru stórar sprungur í pússningu og verður að telja að þar séu pússning og einangrun ónýt. Asbestklæðning er i loftum og hefur leka orðið vart enda göt á nokkrum stöðum á þakinu. Gluggar eru gamlir herbraggagluggar (úr járni), hver með nokkrum rúðum, en allir ryðgaðir og með einföldu gleri. Á framhlið fjóss eru tvennar burstir (haughúsmegin). Á þeim vegg eru verulegar sprungur og steypuskemmdir, m.a. á skilum húsanna (burstanna) og verulegar steypuskemmdir eru við alla glugga.

Vægast sagt verður að telja fjósið mjög lélega byggingu. Járnbinding er lítil, e.t.v. engin, og steypa léleg. Þá er erfitt að koma auga á nokkrar endurbætur eða viðhald. Að framangreindu má vera ljóst að fjósið uppfyllir ekki þær kröfur sem nú eru gerðar til slíkra bygginga ("mjólkurframleiðslu"). Brúsapallur (við þjóðveg) er úr timbri og járni og á steyptum sökkli.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreinds fjóss vera 246.775 krónur.

 

(16) Mjólkurhús/fóðurgeymsla 4141

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1950                33,5                 243.000           1.025.000

Mjólkurhús er steypt bygging og með járnklæddu þaki. Loft eru klædd asbest plötum. Gengið er inn gang, beint inn af honum er fjósið og til hægri er mjólkurhús með stóru opi fyrir mjólkurbrúsa og inn af því er rými fyrir vélar og fóðurbæti. Þessi bygging er með rafmagni og vatni og niðurföll eru í gólfum. Gluggar eru gamlir herbraggagluggar úr járni, hver með nokkrum rúðum, póstar eru ryðgaðir og gler einfalt. Þetta er léleg bygging, steypa er léleg, nokkrar sprungur eru í veggjum og gólf í báðum rýmum eru mikið sigin. Raki er í loftum.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreinds mjólkurhúss vera 63.404 krónur.

 

(9) Fjóshlaða 0141

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1946                158,5               279.000           1.773.000

Báðir gaflar eru steyptir, einnig sökkull. Efri hluti hlöðunnar og þak eru úr timburstoðum og klædd járni. Veggur fjær fjósinu er ýmist steyptur eða úr timbri og járnklæddur. Á þessari hlið eru fjögur baggagöt. Járn á þessum vegg er víða beyglað. Veggur milli fjóss og hlöðu er ýmist steyptur eða úr timbri sem er járnklætt. Gaflar eru steyptir. Gólf í hlöðu er moldargólf. Steypa í hlöðunni er eflaust léleg eins og steypa í öðrum byggingum. Að mati ábúanda rúmar hlaðan 1500 hesta.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreindrar hlöðu vera 119.125 krónur.

 

( 17) Blásarah/súgþurrkun

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1980                7,0                   33.000             149.000

Hér er um að ræða járnklætt timburhús á steyptum grunni og byggt á kostnað ábúanda að hans sögn. Ekki var fjallað um þetta litla mannvirki er skoðun fór fram. Það verður því ekki metið sérstaklega.

 

(11) Votheysgryfja við fjóshlöðu 0101

Byggingarár 1946

Aðrar upplýsingar veita framangreind gögn FMR ekki.

Við endann á fjóshlöðu er votheysgryfja. Þvermál er u.þ.b. 3,5 - 4 m og hæð u.þ.b. 6 m. Þetta er steypt mannvirki og lítur steypan ekki illa út, en u.þ.b. helming af þaki vantar á votheysgryfjuna. Notkunargildi slíkra bygginga er nú nánast ekkert.

Nefndin telur matsandlag þetta einskis virði.

 

( 15) Haughús 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat                                      

1950                137,6               417.000           2.622.000

Haughús er tvískipt, úr fjósi eru tvö op frá flórum og að framan eru tvö stór op, með hurðum til þess að hægt sé að tæma haughúsið. Steypa í haughúsi virðist léleg og eru sprungur í veggjum. Járn á þaki er ryðgað og göt á þaki eru á nokkrum stöðum. Þetta er léleg bygging eins og fjósið.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreinds vera 63.404 krónur.

 

(05) Fjárhús með áburðark. 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1956                472,5               1.148.000        7.034.000

Fjárhúsin eru steypt og með járnklæddu þaki. Þeim er skipt í tvö hús um miðju. Í þeim eru 12 krær og sex garðar og rúma þau 480 ær að sögn ábúanda. Á húsunum eru sex hurðir við enda kránna og hurðir eru frá görðum í hlöðu. Grindur eru í húsunum með u.þ.b. 1 m kjallara. Vatn til að brynna fénu er í tunnum. Milligerði og grindur eru í slæmu ástandi og hurðir líta illa út. Þak á fjárhúsunum lekur og við hlöðuskil hefur þak (járnið) svignað. Ástand fjárhúsanna í heild er slæmt og viðhald virðist ekkert. Rafmagn er í fjárhúsunum.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreinds fjárhúss vera 290.325 krónur.

 

(10) Fjárhúshlaða 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1956                206,3               1.442.000        4.468.000

Hlaðan er steypt og með járnklæddu þaki. Í hlöðunni er súgþurrkunarstokkur Súgþurrkunin hefur ekki verið notuð um árabil og telst væntanlega léleg eða ónýt. Moldargólf er í hlöðunni. Ytri langveggur hlöðunnar virðist steyptur í tvennu lagi, þ.e. neðri hlutinn (á langveginn) fyrst en efri hlutinn ári síðar. Þetta hefur haft þau áhrif að veggurinn er að "falla" inn í heilu lagi. Veggurinn er einnig mjög sprunginn. Nokkur baggagöt eru á þessum vegg. Litlir gluggar eru ofarlega á gaflhliðum. Með tilliti til framangreindra galla verður að telja hlöðuna ónýta. Við enda hennar er blásarah/súgþurrkun (17) og votheysturn (12).

Nefndin telur hlöðu þess einskis virði.

 

(12) Votheysturn við fjárhúshlöðu 0101

Byggingarár 1956

Aðrar upplýsingar veita framangreind gögn FMR ekki.

Hér er um að ræða steypt mannvirki með járnklæddu þaki. Hæð er 5 m og þvermál u.þ.b. 3,5 m. Notkunargildi slíkra bygginga er nú nánast ekkert.

Matsverð er 0

 

(13) Járnsmíðaverkstæði 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1930                12,2                 31,000             208.000

Hér er um að ræða gamla smiðju og eru þrír veggir, m.a. gaflveggur, hlaðnir úr steini en einn veggur er úr timbri. Þak er járnklætt og gólf er moldargólf. Á annarri langhliðinni eru dyr og gluggi t.v. við þær. Einn veggur hússins er illa sprunginn og ein rúða í glugga er sprungin. Þetta hús var síðar nýtt sem reykhús en hefur ekki verið notað i fjölda ára nema sem geymsla undir ýmis konar hluti. Við hliðina á því er þurrkhjallur, skráður sem geymsla, sjá (14).

 

( 14) Geymsla 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1930                25,8                 124.000           529.000

Hér er um að ræða framhald eða í raun byggingu sem er samtengd gömlu smiðjunni (járnsmíðaverkstæðinu). Hliðar byggingarinnar eru úr timbri og vírneti og þak er járnklætt. Gildi þessarar byggingar er fyrst og fremst sögulegt svo að ekki er um að ræða efnisleg verðmæti sem hægt er að nýta.

 

(19) Geymsla 0101

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1926                38,5                 185.000           788.000

Á hlaðinu skammt frá fjósi og haughúsi er steypt geymsla með bárujárnsklæddu þaki. Geymslan er tvískipt og á hvorum hluta eru allstórar dyr. Annar hlutinn er mun stærri en hinn og á heildareigninni eru fjórir gluggar, tveir að framanverðu og einn á hvorum stafni. Einnig er þakgluggi úr gegnsæu báruplasti á byggingunni. Gólf er steypt. Þak er nokkuð sigið og steypuskemmdir eru á gaflvegg nær íbúðarhúsinu. Þessi geymsla er óeinangruð og óupphituð og í henni er hvorki rafmagn né vatn.

Nefndin telur hæfilegt matsverð framangreindrar geymslu vera 37.872 krónur.

 

(20) Rafstöð/stífla

Byggingarár      Fermetrar         Fasteignamat    Brunabótamat

1945                6,4                   33.000             139.000

Hér er um að ræða steinsteypt hús með járnklæddu þaki sem stendur við bæjarlækinn. Á annarri langhlið hússins eru dyr og einnig gluggi. Ljóst er að þessi rafstöð hefur ekki verið í notkun um árabil. Ef nýta ætti slíka rafstöð og koma í gang þyrfti bæði töluvert fé og ekki síður þekkingu, Síðast en ekki síst er Geitaskarð tengt almennri rafveitu. Telja matsmenn því óraunhæft að meta mannvirki þetta og vélar því tilheyrandi til fjár.

 

Nefndin telur þannig að heildarverðmæti framangreindra eigna sé 826.449 krónur.

 

Til mats kemur enn fremur landsvæði sem tilheyra Skarðsskarði og Tungubakka og eru í óskiptri sameign aðila og þau hlunnindi sem því fylgja, þ.m.t. veiði- og vatnsréttindi í Laxá og Norðurá. Undir rekstri málsins kom fram að innlausnarhafi telur hektaratölu á korti á málsskjali nr. 95 og nr. 122 ranga. Aðilar lýstu því hins vegar yfir við munnlegan flutning að mörk hins óskipta lands séu þar rétt dregin. Innlausnarhafi hefur ekki getað upplýst frekar hverja hann telji rétta stærð landsins í hekturum. Matsnefnd telur sig allt að einu geta metið verðmæti landsins. Land þetta hefur verið notað til beitar. Er það álit nefndarinnar að það sé einungis nothæft sem beitarland og aðrir nýtingarmöguleikar séu ekki fyrirsjáanlegir nú. Telur nefndin hæfilegt matsverð vera 1.200.000 krónur.

 

Samkvæmt framansögðu eru peninga- og útihús metin á samtals 826.449 krónur og óskipt land Skarðskarðs og Tungubakka á 1.200.000 krónur, eða samtals 2.026.449 krónur. Þegar hlutur innlausnarhafa hefur verið dreginn frá standa eftir 506.612 krónur sem er eign bræðranna 6. Einn þeirra, Sigurður, hefur eins og áður greinir, samið sérstaklega við innlausnarhafa og dregst því hlutur hans frá og koma samtals 422.177 krónur til innlausnarþola.

Þá er hluti bræðranna 6 í íbúðarhúsi metinn á 1.000.000 króna, eða 166.667 krónur til hvers þeirra, samtals 833.335  krónur til innlausnarþola.

Samkvæmt öllu framansögðu er matsverð eignarhluta bræðranna Guðmundar, Jóns, Magnúsar, Stefáns og Þorbjörns Brynjólfssona í þeim hluta jarðarinnar Geitaskarðs sem til innlausnar er, útihúsum og eignarhluta þeirra í íbúðarhúsi samtals 1.255.512.krónur.

Við ákvörðun málskostnaðar til innlausnarþola verður einungis litið til kostnaðar vegna meðferðar málsins hjá matsnefndinni en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns þeirra, sem er einn innlausnarþola, er krafið um kostnað vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis, meðferð máls hjá öðrum stjórnvöldum en nefndinni, þ.e.a.s. landbúnaðarráðuneyti, svo og skipti innlausnarþola við sveitarstjórn, sem er meðferð matsmálsins sjálfs óviðkomandi. Þá verður tillit tekið til kostnaðar matsbeiðanda vegna úrskurðar nefndarinnar frá 20. október 2000 þar sem kröfum matsþola um frávísun málsins frá nefndinni var hafnað svo og því að málinu væri frestað ótiltekið.

Þykir hæfilegt að gera innlausnarhafa að greiða innlausnarþolum málskostnað samtals að fjárhæð 395.698 krónur að viðbættum virðisaukaskatti af 200.000 krónum upp í kostnað þeirra af matsmáli þessu.

Kostnaður matsnefndar eignarnámsbóta vegna málins er 875.000 krónur.


ÚRSKURÐARORÐ

            Innlausnarhafi, Ágúst Sigurðsson, greiði innlausnarþolum, Guðmundi, Jóni, Magnúsi, Stefáni og Þorbirni Brynjólfssonum, 1.255.512 krónur sem innlausnarverð eignarhluta þeirra í jörðinni Geitaskarði, útihúsum á sömu jörð og hluta í íbúðarhúsi, sem innlausnarhafa var heimiluð innlausn á með ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins 10. júlí 2001, og 395.698 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts af lögmannsþóknun, 200.000 krónum.

            Innlausnarhafi greiði 875.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

                                                                                    Allan V. Magnússon

                                                                                    Karl Axelsson

                                                                                    Sverrir Kristinsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum