Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 219/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 219/2016

Fimmtudaginn 26. janúar 2017

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. júní 2016, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 22. apríl 2016, um synjun á umsókn hennar um afskrift veðkrafna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með bréfi til Íbúðalánasjóðs, dags. 6. ágúst 2015, óskaði kærandi eftir afskrift veðkrafna hjá sjóðnum á þeirri forsendu að fasteign hennar væri ónýt sökum myglu. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 19. október 2015, var beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál væri ekki uppfyllt. Með tölvupósti Íbúðalánasjóðs þann 11. janúar 2016 var kæranda tilkynnt að sjóðurinn hefði endurupptekið mál hennar og ákvörðun frá 19. október 2015 því afturkölluð. Með bréfi, dags. 22. apríl 2016, synjaði Íbúðalánasjóður á ný beiðni kæranda um afskrift veðkrafna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. júní 2016. Með bréfi, dags. 14. júní 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 30. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júlí 2016, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 2016, og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júlí 2016. Viðbótarathugasemdir bárust frá Íbúðalánasjóði með bréfi, dags. 18. ágúst 2016, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 14. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði og bárust þau nefndinni 2. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar greinir kærandi frá því að myglusveppur hafi fundist í fasteign hennar í nóvember 2014 og í kjölfarið hafi hún og fjölskylda hennar flutt úr fasteigninni. Kærandi hafi óskað eftir því við Íbúðalánasjóð að lán hennar yrði fellt niður vegna þess að fasteign hennar væri ónýt sökum myglu. Íbúðalánasjóður hafi hafnað beiðni hennar á þeirri forsendu að orsök myglunnar væri galli við byggingu fasteignarinnar og því teldist eyðilegging hennar ekki vera af óviðráðanlegum orsökum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Kærandi tekur fram að hún sé ósammála þeirri niðurstöðu Íbúðalánasjóðs og vísar til þess að undir hugtakið falli þau tilvik þegar íbúðir hafi eyðilagst af völdum veggjatítlna, jarðhræringa eða annarra atvika sem eiganda verði ekki um kennt.

Kærandi bendir á að í málinu liggi fyrir skýrslur, álit og möt sérfræðinga á orsökum og tjóni hennar. Þannig hafi verið staðfest að fasteign hennar sé verðlaus, óíbúðarhæf og ónýt sökum myglu sem hafi brotið smám saman niður burðarvirki húsnæðisins. Orsök myglunnar virðist mega rekja til handvammar við byggingu fasteignarinnar sem kæranda verði ekki kennt um. Kærandi tekur fram að það hafi verið staðreynt með sýnatöku að fasteignin sé verulega mygluð og byggingarfulltrúi ásamt tveimur fasteignasölum hafi dæmt hana verðlausa. Myglan hafi náð að grassera í fjölda ára án þess að nokkur aðili hafi orðið hennar var fyrr en kærandi hafi rifið niður veggi í nóvember 2014. Það sé dæmi um óviðráðanlega orsök en kærandi hafi ekki getað staðið öðruvísi að málinu, myglan hafi þá verið orðin það mikil að hún hafi verið óviðráðanleg.

Kærandi vísar til þess að með síðustu lagabreytingu á ákvæði 47. gr. laga nr. 44/1998 hafi heimildir Íbúðalánasjóðs til þess að meta og afskrifa útistandandi veðkröfur verið rýmkaðar. Tilgangur ákvæðisins sé sá að koma til móts við þau tilvik þegar eigendur fasteigna, sem hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, hafi fengið takmarkaðar bætur og sitji því uppi með áhvílandi veðkröfur. Lagaákvæðið hafi sérstaklega verið rýmkað svo að sjóðurinn hefði tök á því að verða við beiðnum um að afskrifa veðlán í slíkum tilvikum, enda ljóst að engin rök né skynsemi séu í því að hafa veð í verðlausri fasteign. Verði tjón kæranda ekki talið vera af óviðráðanlegum orsökum sé það í öllu falli skýrt dæmi um tilvik þar sem aðili sitji uppi með veðkröfur í ónýtu og verðlausu húsi og því einmitt tilvik þar sem Íbúðalánasjóður hafi skýra heimild til þess að meta stöðuna og afskrifa lánið.

Kærandi tekur fram að Íbúðalánasjóður hafi sett sér vinnureglur um afskriftir á veðkröfum sjóðsins með vísan til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998. Þar komi meðal annars fram að við mat á óviðráðanlegum orsökum sé horft til hvers tilviks um sig og hverjar orsakir eyðileggingar séu taldar vera. Einnig sé tekið fram að það skuli liggja fyrir að eiganda verði ekki beinlínis kennt um tjónið eða að hann hafi getað eða átt að geta forðað því. Framangreindar útskýringar sjóðsins í reglum sínum á því hvað teljist vera óviðráðanlegar orsakir undirstriki þann skilning að um sé að ræða atvik sem viðkomandi eiganda verði ekki um kennt. Í 3. tölul. a-liðar vinnureglna Íbúðalánasjóðs komi fram að umsókn skuli eftir atvikum studd áliti sérfræðinga svo sem ef tjón sé vegna myglusvepps eða skordýra. Reglurnar geri því beinlínis ráð fyrir því að afskrift á veðkröfum sjóðsins megi rekja til tjóns vegna myglusvepps. Það sé nákvæmlega sú staða sem kærandi standi í. Það sé hin óviðráðanlega orsök eyðileggingar hússins sem ekki sé hægt að kenna kæranda um.

Kærandi vísar til þess að Íbúðalánasjóður hafi áður afskrifað veðkröfur fasteignar sem hafi verið metin ónýt sökum myglu. Íbúðalánasjóður hafi þannig áður metið það sem svo að það að fasteign sé ónýt sökum myglu teljist vera orsök sem sé óviðráðanleg í skilningi 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 og vinnureglna sjóðsins. Með því að hafna beiðni kæranda um afskrift veðkrafna hafi Íbúðalánasjóður brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því ákvæði beri stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála og enn fremur sé þeim óheimilt að mismuna aðilum. Þá hafi jafnræðisreglan mesta þýðingu þegar um matskenndar stjórnvaldsákvarðanir sé að ræða líkt og eigi við um heimildarákvæði 47. gr. laga nr. 44/1998.

Með hliðsjón af framangreindu krefst kærandi þess aðallega að úrskurðarnefnd velferðarmála felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og að veðkrafa Íbúðalánasjóðs í fasteign hennar verði afskrifuð. Til vara krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og að orsök tjóns hennar teljist vera óviðráðanleg.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að mat byggingatæknifræðings sjóðsins sé ómarktækt þar sem hvorki hann né nokkur aðili á vegum Íbúðalánasjóðs hafi farið á staðinn til að meta fasteignina. Því sé ekki hægt að byggja á því mati. Kærandi tekur fram að engu breyti fyrir mál hennar að Íbúðalánasjóður hafi ákveðið að breyta reglum sínum um afskriftir. Mál kæranda byggist á gildandi reglum og lögum á þeim tíma sem umdeildir atburðir hafi átt sér stað og þær ákvarðanir sem um ræðir hafi verið teknar. Þá hafnar kærandi því að hún hefði átt að ganga úr skugga um að fasteign hennar væri í samræmi við teikningar og að henni hafi mátt vera ljóst að húsið væri ónýtt. Slíkar kröfur séu ekki gerðar til kaupenda í fasteignaviðskiptum.

Kærandi tekur fram að um fyrirslátt sé að ræða hjá Íbúðalánasjóði að bera fyrir sig aukna þekkingu og vitneskju manna á myglu og orsökum hennar. Mikil þekking hafi verið á myglu í langan tíma, að minnsta kosti áratug hérlendis. Þá hafi mygla verið þekkt vandamál í kjölfar mikils byggingahraða á árunum 2006 til 2007 en þá hafi skapast afar víðtæk þekking. Íbúðalánasjóður hafi því búið yfir þekkingu til að meta orsök og afleiðingar myglu, í allra síðasta lagi frá árinu 2008. Ljóst sé að Íbúðalánasjóður hafi afskrifað veðlán sökum myglu og vegna jafnræðissjónarmiða verði því að fallast á kröfu kæranda eða sýna fram á að önnur sjónarmið eigi við í hennar máli. Kærandi bendir á að hún hafi aflað allra gagna sem sjóðurinn hafi óskað eftir samkvæmt vinnureglum og annarra sönnunargagna þurfi ekki við. Sé það vilji Íbúðalánasjóðs að leggja í kostnað við að óska dómkvaðningar matsmanns til að meta tjónið sé kærandi tilbúin til að una því. Þá bendir kærandi á að ákvæði stjórnarskrár um vernd borgaralegra réttinda séu sett til að vernda borgarana gegn ofríki stjórnvalda en ekki öfugt. Tilvísun til stjórnarskrár til verndar eignum ríkissjóðs sé því mótmælt sem rökleysu.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs er greint frá því að ákvæði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 hafi verið breytt með lögum nr. 57/2004 en tilefni þess hafi verið úrskurður kærunefndar húsnæðismála í máli nr. 2/2003. Þar hafi komið fram að skerpa þyrfti á ákvæðinu þar sem Íbúðalánasjóður og kærunefndin hefðu haft afar mismunandi túlkun á því hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla, hvaða gögn þyrftu að fylgja umsókn og hvernig beita mætti heimildinni. Ljóst sé að þar hafi verið tekið undir með túlkun Íbúðalánasjóðs og telja verði að heimildin hafi verið þrengd frá fyrri túlkun. Af lestri ákvæðisins og lögskýringargögnum sé ljóst að um algjöra undantekningarreglu sé að ræða frá þeirri meginreglu sem gildi í íslenskum rétti að samninga beri að halda. Því verði að túlka heimildina þröngt. Að mati sjóðsins hafi sú túlkun verið lögfest með lögum nr. 57/2004 og að löggjafinn hafi þannig staðfest þá þröngu túlkun.

Íbúðalánasjóður hafnar þeim skilningi kæranda að þegar eign skemmist og eiganda verði ekki kennt um feli alltaf í sér óviðráðanlegar aðstæður. Slík túlkun eigi ekki stoð í lögskýringargögnum og það sé rangt að slíkur skilningur hafi verið lögfestur með lögum nr. 57/2004. Þvert á móti hafi ákvæðinu verið breytt og í lögskýringargögnum sé aðeins verið að tiltaka hvaða gögn þurfi að liggja fyrir til að hægt sé að meta hvort um óviðráðanlegar aðstæður sé að ræða. Meðal þeirra gagna sé yfirlýsing matsmanna að um sé að ræða atvik sem eiganda verði ekki kennt um. Hvergi í lögskýringargögnum sé það tengt við mat á því hvað teljist óviðráðanlegar orsakir og því verði að telja að Íbúðalánasjóði beri að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Löggjafinn hafi þannig ekki takmarkað heimildir Íbúðalánasjóðs til þess mats með sérstökum hætti heldur aðeins gefið fyrirmæli um hvaða gögn þurfi að liggja fyrir til að matið geti farið fram. Þá geti mat manna á því hvað teljist óviðráðanlegt breyst með tímanum, meðal annars vegna aukinnar þekkingar, til að mynda á myglusveppi. Ljóst sé að þekking manna á myglusveppi hafi aukist verulega undanfarin ár en þó telji sérfræðingar, líkt og byggingatæknifræðingur sjóðsins, að myglusveppur sé ekki óviðráðanlegur og að hægt sé að koma í veg fyrir myndun hans. Þær reglur sem kærandi vísi til séu í endurskoðun, meðal annars vegna aukinnar þekkingar á orsökum myglu. Að mati Íbúðalánasjóðs geti galli á fasteign sem rekja megi til mannlegra mistaka ekki talist óviðráðanlegar orsakir, ekki síst í ljósi þess að ekki hafi verið unnið í samræmi við teikningar. Kærandi hefði getað gengið úr skugga um að svo væri og því hafi kæranda mátt vera það ljóst. Þegar af þeim sökum beri að staðfesta ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður hafnar því að hafa brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda sé um matskennda stjórnvaldsákvörðun að ræða þar sem meta beri hvert tilfelli fyrir sig. Það að myglusveppur kunni að teljast óviðráðanlegar orsakir í einu máli þýði ekki sjálfkrafa að svo sé í öðru máli. Íbúðalánasjóður ítrekar að þekking á orsökum og afleiðingum myglu hafi aukist mjög síðastliðin tvö til þrjú ár. Það að mygla kunni að hafa verið talin óviðráðanleg orsök fyrir nokkrum árum síðan þýði ekki að svo sé enn í dag. Slík breyting á túlkun matskenndra lagaákvæða sé bæði eðlileg og málefnaleg.

Íbúðalánasjóður bendir á að ekki liggi fyrir mat á því hvort seinna skilyrði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 sé uppfyllt, þ.e. hvort fasteignin sé ónýt. Því sé ekki tækt fyrir úrskurðarnefndina að fallast á aðalkröfu kæranda um að fella ákvörðun sjóðsins úr gildi og afskrifa veðkröfur kæranda. Þá sé það mat Íbúðalánasjóðs að kröfugerð kæranda gangi gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé ljóst að virði fasteignarinnar sé metið á bilinu fjórar til fimm milljón króna. Þar sem kærandi fari fram á algera afskrift en ekki afskrift niður að því marki verði að telja að kröfugerðin gangi of langt.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um afskrift veðkrafna. Kærandi fór fram á afskrift veðkrafna á fasteign hennar að Hvannabraut 2 á þeirri forsendu að fasteignin væri ónýt sökum myglu.

Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Stjórn Íbúðalánasjóðs er einnig heimilt, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins þegar íbúð sem stóð að veði fyrir viðkomandi kröfu hefur eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Afskriftarheimildin nær til veðkrafna sjóðsins að því leyti sem söluverð, afsláttur eða bætur duga ekki til að greiða þær upp miðað við veðröð áhvílandi lána. Skilyrði fyrir afskriftum samkvæmt þessari málsgrein er að fasteignareigandi hafi tekið venjubundnar fasteignatryggingar. Samkvæmt lagaákvæðinu eru tvö grundvallarskilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að heimilt sé að afskrifa veðkröfur. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi fasteign að vera ónýt og í öðru lagi þarf eyðileggingin að vera af óviðráðanlegum orsökum.

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur sett sér vinnureglur um afskriftir á veðkröfum sjóðsins í sérstökum tilfellum. Reglurnar voru upphaflega samþykktar á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 4. janúar 2002 en breytt á fundi stjórnar þann 19. júní 2014. Í A-lið reglnanna kemur fram að í umsókn um niðurfellingu lána þurfi eftirfarandi atriði að koma fram ásamt gögnum og staðfestingum þar sem það eigi við:

  1. Matsgerð dómkvaddra matsmanna um eyðileggingu húss, þar sem fram kemur m.a. staðfesting og lýsing á tjóni, verðmat á tjóni og á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar.

  2. Ef íbúð/hús er óíbúðarhæf að mati viðkomandi byggingarfulltrúa og enginn býr í íbúðinni vegna gallans þá nægir staðfesting og lýsing byggingarfulltrúans á eyðileggingunni og á óviðráðanlegum orsökum hennar. Sé íbúð þannig metin óíbúðarhæf þá má miða tjónamat við meðaltal verðmata tveggja starfandi löggiltra fasteignasala.

  3. Umsókn skal eftir atvikum studd áliti sérfræðinga svo sem ef tjón er vegna myglusvepps eða skordýra.

  4. Tjónamat verður að nema a.m.k. 85% af brunabótamati íbúðar.

  5. Staðfesting á fjárhæð bóta sem eigandi hefur fengið eða telur sig fá svo og ef eigandi fær engar bætur vegna tjónsins.

  6. Yfirlýsing eiganda um að hann muni ekki sækja bætur eða frekari bætur en hann hefur þegar fengið og ástæður þessa.

  7. Staðfesting á vátryggingu íbúðar.

Í B-lið reglnanna kemur meðal annars fram að samkvæmt orðanna hljóðan eigi eign að vera ónýt. Þannig hljóti Íbúðalánasjóður að krefjast þess, áður en heimild til afskrifta komi til skoðunar, að tjón á eigninni sé metið verulegt miðað við verðmæti eignarinnar. Eign teljist ekki ónýt nema tjón á henni nemi, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, samkvæmt dómi eða mati tveggja löggiltra fasteignasala þar sem það eigi við, að minnsta kosti 85% af brunabótamati eignarinnar. Tjón sem nemi minna hlutfalli af brunabótamati eignarinnar falli því ekki undir heimild til afskrifta. Í B-lið reglnanna kemur einnig fram að við mat á óviðráðanlegum orsökum sé horft til hvers tilviks fyrir sig og hverjar orsakir eyðileggingar séu taldar vera og væntanlega stuðst við álit sérfræðinga og/eða dómkvaddra matsmanna sem fram komi í umsókn. Liggja verði fyrir að eiganda verði ekki beinlínis kennt um tjónið eða að hann hafi getað eða átt að geta forðað því. Þá er tekið fram að orsakir teljist ekki óviðráðanlegar ef ágalli hafi átt að vera umsækjanda ljós við kaup á eigninni eða mátti vera honum ljós svo sem með tilliti til ástands, aldurs og gerðar húsnæðisins.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væri hægt að fullyrða að fasteign hennar hefði eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Að mati Íbúðalánasjóðs væru orsakir eyðileggingar galli við byggingu fasteignarinnar þar sem ekki hafi verið unnið í samræmi við teikningar en eyðilegging vegna mannlegra mistaka gæti ekki talist óviðráðanleg orsök.

Af hálfu kæranda er á því byggt að Íbúðalánasjóður hafi áður afskrifað veðkröfur fasteignar sem hafi verið metin ónýt sökum myglu. Íbúðalánasjóður hafi þannig áður metið það sem svo að það að fasteign sé ónýt sökum myglu teljist vera orsök sem sé óviðráðanleg í skilningi 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 og vinnureglna sjóðsins. Vísaði kærandi til ákveðins máls í því samhengi og skoraði á úrskurðarnefndina að kynna sér gögn þess máls.

Úrskurðarnefnd velferðarmála aflaði frekari gagna frá Íbúðalánasjóði í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna framangreindrar málsástæðu kæranda. Samkvæmt þeim gögnum er ljóst að stjórn Íbúðalánasjóðs hefur áður afskrifað áhvílandi lán á fasteign sem var sýkt af myglusvepp og viðgerð talin nánast ómöguleg. Af þeim gögnum sem Íbúðalánasjóður hefur afhent er ekki að sjá á hvaða sjónarmiðum sjóðurinn byggði eða lagði áherslu á við afskrift veðkrafna. Úrskurðarnefndin getur því ekki á grundvelli fyrirliggjandi gagna tekið afstöðu til þess hvort málin tvö séu sambærileg eða ekki en bendir á að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Líkt og að framan greinir eru í ákvæði 47. gr. laga nr. 44/1998 tvö grundvallarskilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að heimilt sé að afskrifa veðkröfur. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi fasteign að vera ónýt og í öðru lagi þarf eyðileggingin að vera af óviðráðanlegum orsökum. Við mat á því hvað teljast vera óviðráðanlegar orsakir lítur úrskurðarnefndin til þess sem fram kemur í B-lið vinnureglna sjóðsins. Eins og áður hefur verið sagt skal við mat á óviðráðanlegum orsökum horft til hvers tilviks fyrir sig og hverjar orsakir eyðileggingar séu taldar vera. Væntanlega yrði stuðst við álit sérfræðinga og/eða dómkvaddra matsmanna er komi fram í umsókn. Þá verði að liggja fyrir að eiganda verði ekki beinlínis kennt um tjónið eða að hann hafi getað eða átt að geta forðað því. Þetta viðmið í vinnureglum sjóðsins fær stoð í greinargerð með breytingarlögum nr. 57/2004 en þar kemur fram að liggja verði fyrir að tjón sé tilkomið vegna atvika sem eiganda verði ekki kennt um. Að lokum er tekið fram að orsakir teljist ekki óviðráðanlegar ef ágalli hafi átt að vera umsækjanda ljós við kaup á eigninni eða mátti vera honum ljós, svo sem með tilliti til ástands, aldurs og gerðar húsnæðisins.

Í málinu liggja fyrir ýmis gögn er fylgja skulu umsókn, sbr. A-lið vinnureglna Íbúðalánasjóðs, þar á meðal umsögn byggingarfulltrúa. Í umsögninni er staðfest að fasteign kæranda sé óíbúðarhæf, verðlítil eða verðlaus á meðan ekki hafi verið brugðist við myglu í húsinu. Þar er ekki að finna lýsingu á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar, svo sem áskilið er í 2. tölul. A-liðar vinnureglna sjóðsins. Ekki er að sjá af fyrirliggjandi gögnum að athygli kæranda hafi verið vakin á þessu eða honum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn þar um.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar kannaði Íbúðalánasjóður ekki með fullnægjandi hætti né lagði mat á hvort tjón á fasteign kæranda væri tilkomið vegna óviðráðanlegra orsaka eða atvika sem kæranda væri beinlínis kennt um, sbr. B-lið vinnureglna sjóðsins. Ekki er heldur metið hvort galli hafi mátt vera kæranda ljós, sbr. nánari áskilnað vinnureglna sjóðsins. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega áður en ákvörðun um synjun var tekin og skyldubundið mat Íbúðalánasjóðs sem stjórnvalds hafi ekki farið fram.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að Íbúðalánasjóður hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um að eign þurfi að vera ónýt sé uppfyllt í máli kæranda, sbr. B-lið reglna sjóðsins þar um. Í vinnureglum Íbúðalánasjóðs kemur fram að eign teljist ekki ónýt nema tjón á henni nemi, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, samkvæmt dómi eða mati tveggja löggiltra fasteignasala þar sem það á við, að minnsta kosti 85% af brunabótamati eignarinnar. Þetta viðmið í vinnureglum sjóðsins fær einnig stoð í greinargerð með breytingarlögum nr. 57/2004. Í máli þessu liggja fyrir tvö verðmöt löggiltra fasteignasala. Annars vegar er um að ræða verðmat C, dags. 8. júlí 2015, en hann telur verðmæti fasteignar kæranda vera 4.000.000 kr. Hins vegar er verðmat D, dags. 9. júlí 2015, en þar kemur fram að verðmæti fasteignar kæranda sé 4.600.000 kr. Brunabótamat fasteignarinnar árið 2015 var 33.800.000 kr. Ekki er að sjá að Íbúðalánasjóður hafi tekið afstöðu til þessara gagna og hvort með þeim hafi verið sannað að tjón kæranda nemi að minnsta kosti 85% af brunabótamati fasteignar hennar. Sjóðurinn óskaði heldur ekki eftir neinum viðbótargögnum þess efnis frá kæranda. Að því virtu og með vísan til þess sem að framan greinir verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til Íbúðalánasjóðs til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 22. apríl 2016, á umsókn A, um afskrift veðkrafna er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum