Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 6/2011

Ár 2011, miðvikudaginn 5. október, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 6/2011 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu hinn 9. maí 2011 kærði Jón Jóhann Jóhannsson, kt. 120257-4639, til yfir­fasteignamatsnefndar og óskaði eftir að fasteign hans að Kistumel 3, fnr. 208-5226, mhl. 010101, Reykjavík, væri skattlögð samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga.

 

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir umsögn Reykja­víkur­borgar 17. ágúst 2011. Umbeðin umsögn barst nefndinni 30. ágúst 2011.

 

Kæranda var gefinn kostur á að gera athuga­semdir vegna umsagnar Reykjavíkurborgar og gerði það 19. september 2011.

 

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eignina 7. september 2011 í fylgd kæranda og fulltrúa Reykja­víkur­borgar.

 

Málið var tekið til úrskurðar 28. september 2011.

 

Sjónarmið kæranda

Í kæru er rakið að kærandi hafi sótt um atvinnulóð hjá Kjalarneshreppi 1988 til þess að byggja bílskúr til að geyma fornbíla sína. Á lóðinni hafi kærandi byggt 250 m2 skemmu (bílskúr). Lýst er að eftir sameiningu Kjalar­nes­hrepps og Reykjavíkurborgar hafi fasteigna­sköttum verið breytt úr a lið í c lið (skv. 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995). Eftir athugasemd kæranda og skoðun matsmanns frá Fasteignamati ríkisins hafi byggingin aftur verið skráð sem bílskúr og gjaldflokkun verið færð aftur í a lið. Þannig hafi verið allt þar til á árinu 2010 þegar gjaldflokkun hafi á ný verið færð í c lið. Kærandi gerir kröfu um að gjaldflokkun eignarinnar verði skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

 

Til rökstuðnings vísar kærandi til þess að yfir 20 ára hefð hafi skapast um gjaldflokkun skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Þá vísar kærandi til þess að sótt hafi verið um lóðina 1988 til þess að byggja þar bílskúr/geymslu og sú umsókn hafi verið samþykkt. Kærandi bendir á að húsið sé skráð sem bílskúr í fasteignaskrá. Jafnframt vísar kærandi til þess að enginn arður sé af rekstri hússins og engin atvinnustarfsemi sé í húsinu.

 

Sjónarmið Reykjavíkurborgarar

Í umsögn Reykjavíkurborgar er vísað til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga og því haldið fram að vísa beri ágreiningi um gjaldstofn til úrskurðar Þjóð­skrár Íslands. Þeim úrskurði megi skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Það hafi ekki verið gert í þessu máli og varði þess vegna frávísun frá nefndinni.

 

Þá segir í umsögninni að þegar kærandi fékk lóðinni úthlutað 1988 hafi svæðið verið skil­greint sem iðnaðarsvæði. Um þetta er vísað til skipulags- og byggingarskilmála 11. janúar 1988. Núna sé svæðið skilgreint sem athafnasvæði í skipulagi Reykjavíkurborgar og sé fyrst og fremst ætlað fyrir framleiðsluiðnað sem ekki hafi teljandi mengun í för með sér, verk­stæði og vörugeymslur. Rakið er að skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands virðist eignin ýmist hafa verið skráð sem iðnaðarhús eða bílskúr.

 

Þá er í umsögn Reykjavíkurborgar vísað til þess að skv. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekju­stofna sveitarfélaga skuli allar fasteignir sem ekki falli undir a lið eða b lið ákvæðisins falla undir c lið. Einnig er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt. Því er haldið fram að staðsetning fasteignarinnar ráði gjaldflokkuninni, enda séu bílskúrar sem stað­settir eru án íbúða og íbúðarhúsa flokkaðir skv. c lið skv. lögum nr. 4/1995 og reglu­gerð nr. 1160/2005. Fullyrt er að heitið á notkun eignarinnar, skemma, bílskúr eða annað, skipti hér ekki máli.

 

Í umsögn Reykjavíkurborgar er greint frá því að fasteignaskattur af hinni kærðu eign hafi um árabil verið innheimtur skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna kerfisvillu í álagningar­kerfi. Þegar sú villa hafi uppgötvast í ársbyrjun 2010 hafi álagningu á hina kærðu eign verið breytt og felld undir c lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Því er haldið fram að þessi villa við álagningu geti ekki leitt til þess að gjaldandi sem ekki hafi verið krafinn um rétt gjöld geti byggt á því til frambúðar.

 

Viðbótarathugasemdir kæranda

Kærandi sendi yfirfasteignamatsnefnd viðbótarathugasemdir eftir að honum hafði borist umsögn Reykjavíkurborgar. Í viðbótarathugasemdum sínum fullyrðir kærandi að hann hafi í umsókn sinni um lóðina 1988 sérstaklega tekið það fram að hann væri ekki með neinn iðnað eða fyrirtækjarekstur heldur vantaði eingöngu geymslu fyrir fornbíla. Sú umsókn hafi verið samþykkt.

 

Þá ítrekar kærandi það sem áður hafði komið fram um skoðun matsmanns frá Fasteigna­mati ríkisins og skráningu eignarinnar hjá Reykjavíkurborg 2007/2008 og er ósammála því að rétt sé að kalla það kerfisvillu, enda hafi skráning eignarinnar verið unnin í samráði við starfs­fólk Reykjavíkurborgar og Fasteignamats ríkisins. Þá vísar kærandi til þess að fordæmi séu fyrir því að iðnaðar- eða atvinnuhúsnæði sé breytt í íbúðir, þó svo að svæðin séu skilgreind sem iðnaðarsvæði.

 

Niðurstaða

Skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal vísa ágreiningi um gjald­­­stofn til úrskurðar Þjóðskrár Íslands og þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteigna­mats­nefndar. Reykjavíkurborg telur þessa ekki hafa verið gætt og málið skuli því sæta frávísun frá yfirfasteignamatsnefnd. Í þessu máli er ekki ágreiningur um gjaldstofn, heldur um gjald­flokkun eða gjaldskyldu fasteignar. Skv. 3. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 sker yfir­fast­eigna­matsnefnd úr í slíkum ágreiningsmálum og úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dóm­stóla.

 

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði hina kærðu eign 7. september 2011. Á vettvangi voru kærandi Jón Jóhann Jóhannsson og Halldór Frímannsson hdl. fyrir Reykja­víkur­borg. Fasteignin, sem er í fasteignaskrá skráð sem bílskúr, er á einni hæð, flatarmál er skráð 227,0 m2, byggingarár 1989. Byggingin er kúluhús, álgrind klædd með trefjaplötum, á stein­steyptum sökkli og gólfi. Gengið er inn um litla forstofu inn í útbyggingu en þaðan inn í aðal­bygginguna, sem er eitt rými. Inn í það rými eru einnig stórar innkeyrsludyr. Í útbyggingu hefur verið afmörkuð lítil kaffistofa og skrifstofuaðstaða. 

 

Kærandi gerir kröfu um að fasteign hans að Kistumel 3, fasta­númer 208-5226 í Reykjavík, verði skattlögð skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sam-kvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteigna­skatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b lið og c lið allt að 1,32%. Fasteignir sem falla undir a lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðar­hús ásamt lóðar­réttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mann­virki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðar­réttindum. Undir b lið falla sjúkra­stofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heima­vistir, leikskólar, íþrótta­hús og bókasöfn. Undir c lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fast­eignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunar­húsnæði, fiskeldis­mannvirki, veiði­hús og mann­virki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

 

Álitaefni í kærumáli þessu er hvort hin kærða fast­eign skuli teljast hluti af íbúðar­hús­næði í skilningi a liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga. Í gögnum málsins og við vettvangsgöngu kom fram að kærandi býr ekki í fasteigninni. Við vettvangsgöngu bar aðbúnaður og innréttingar í eigninni ekki með sér að húsnæðið væri notað sem íbúð og það fellur heldur ekki undir aðrar tegundir eigna sem tilgreindar eru í a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Því verður ekki fallist á með kæranda að fella beri eignina undir gjald­flokkun skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ber því að fella eignina undir gjald­flokkun skv. c lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, enda á b liður 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 ekki við um eignina.

 

Úrskurðarorð

Greiða skal fasteignaskatt af fasteign kæranda að Kistumel 3, Reykjavík, fastanúmer 208-5226, samkvæmt c lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Reykjavík, 5. október 2011,

 

________________________________

Jón Haukur Hauksson

 

________________________________

Inga Hersteinsdóttir

________________________________

Ásta Þórarinsdóttir



 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum