Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 193/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 193/2018

Miðvikudaginn 22. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 25. maí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. apríl 2018 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað og fyrra mat um tímabundinn örorkustyrk látið standa óbreytt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati, dags. 29. nóvember 2017, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. október 2017 til 31. október 2019. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á ný með rafrænni umsókn, móttekinni 23. mars 2018. Með bréfi, dags. 4. apríl 2018, var umsókn kæranda synjað en fyrra mat um tímabundinn örorkustyrk látið standa óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. maí 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. júlí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. júlí 2018. Með bréfi, dags. 25. júlí 2018, bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau kynnt Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júlí 2018. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verið felld úr gildi og umsókn hennar um örorkulífeyri samþykkt.

Í kæru segir að eftir að kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá VIRK í meira en 18 mánuði með lítilli framför hafi verið ákveðið að hún myndi sækja um örorku. Hún hafi farið í örorkumat og verið metin með 50% örorku en fengið fullar bætur í tvo mánuði sökum mistaka hjá Tryggingastofnun. Kærandi hafi haldið að hún hefði fengið fulla örorku vegna þess að starfsgeta hennar sé einungis 20%. Hún hafi fengið bréf um að það hefðu orðið mistök og lífeyririnn hafi breyst en þegar hún hafi fengið botn í málið hafi kærufresturinn verið runninn út. Starfsmaður Tryggingastofnunar hafi sagt henni að hún yrði að sækja um aftur. Við hafi tekið mánaðarbið eftir tíma hjá heimilislækni. Læknirinn hennar hafi gert mun ítarlegra vottorð, enda hafi ýmislegt virst hafa vantað þar inn. Ákvörðun hafi verið tekin af Tryggingastofnun 4. apríl 2018 en hún hafi ekki fengið svarið fyrr en hún hafi hringt þann 18. apríl 2018. Svarið hafi verið að þetta breytti engu og það vilji hún kæra. Hún hafi ekki þá starfsorku sem henni sé ætluð til að lifa, enda vinni hún einungis eina og hálfa klukkustund á dag þegar hún geti. Hún hafi verið greind með vefjagigt og hafi glímt við ofsakvíða og fleira. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sækja um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái 6 stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Fyrirliggjandi gögn séu umsókn, dags. 23. mars 2018, læknisvottorð B, dags. 27. mars 2018, og spurningalisti, móttekinn 23. mars 2018.  Frá fyrra örorkumati hafi legið fyrir umsókn, dags. 12. október 2017, læknisvottorð B, dags. 20. október 2017, spurningalisti, móttekinn 20. október 2017, starfsgetumat VIRK, dags. 22. ágúst 2017, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 6. nóvember 2017. Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 34 mánuði.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 27. mars 2018, séu sjúkdómsgreiningar kæranda þunglyndi, almenn kvíðaröskun, svefntruflun, fibromyalgia og streituröskun eftir áfall. 

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 20. október 2017, séu sjúkdómsgreiningar kæranda hugarangur, almenn kvíðaröskun og óvefrænar svefnraskanir.  Í báðum vottorðum komi fram að kærandi hafi verið í endurhæfingu í gegnum VIRK síðustu misseri.  Reynd hafi verið atvinna með stuðningi en þetta hafi ekki skilað miklum árangri. Hún hafi lengi verið í viðtölum hjá sálfræðingi í gegnum VIRK.  Hún sé búin með allan endurhæfingarlífeyri og VIRK sé búið að útskrifa hana.

Í spurningalista, mótteknum 23. mars 2018, lýsi kærandi heilsuvanda sínum sem ofsakvíða, þunglyndi, vefjagigt. Fyrirhuguð læknismeðferð á næstu mánuðum sé áframhaldandi að taka Sobril eftir þörfum og reyna að komast að hjá sálfræðingi. Þá lýsi kærandi vandamálum varðandi líkamlega færniskerðingu í liðunum við að beygja sig og krjúpa, að standa, að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að teygja sig eftir hlutum, að lyfta og bera og sjón.  Varðandi andlega færniskerðingu segist hún hafa verið með ofsakvíða og þunglyndi frá X ára aldri. Möguleiki sé á því að það hafi byrjað fyrr en hún hafi fengið greiningu á þessum aldri.    Hún hafi byrjað hjá sálfræðingi þegar hún var í [...] vegna mikils eineltis. Hún hafi upplifað mikla þráhyggju með kvíðanum, hegðunarvanda og mjög alvarlegt þunglyndi nokkrum sinnum í gegnum árin. Hún hafi fengið áfallastreitu sem hafi varað nokkuð lengi.  Eftir botnlangaaðgerð x hafi hún fengið áfall og þurft að leita á geðdeild nokkrum mánuðum síðar vegna alvarlegs svefnleysis út frá rosalegum ofsakvíða sem geðlæknir hennar hafi sagt heimilislækni hennar að ætti að taka mjög alvarlega. 

Í spurningalista, mótteknum 20. október 2017, lýsi kærandi heilsuvanda sínum sem kvíða, þunglyndi og vefjagigt. Fyrirhuguð læknismeðferð á næstum mánuðum sé að hún eigi tilvísun hjá sálfræðingi á heilsugæslustöðinni. Þá lýsi kærandi vandamálum varðandi líkamlega færniskerðingu í liðunum við að beygja sig og krjúpa, að ganga upp og niður stiga, að nota hendur, að lyfta og bera og sjón. Varðandi andlega færniskerðingu segist hún hafa verið með ofsakvíða frá því að hún var barn og þunglyndi frá því hún muni eftir sér.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 22. ágúst 2017, komi fram að líðan sé betri en litlar breytingar hafi orðið varðandi vinnufærni. Starfsendurhæfing sé fullreynd en mælt sé með tilvísun á C.

Í skýrslu skoðunarlæknis, dags. 6. nóvember 2017, hafi kærandi fengið þrjú stig í líkamlega hluta staðalsins fyrir að geta ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Í andlega hluta staðalsins hafi kærandi fengið eitt stig fyrir að geðrænt ástand hennar komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður, eitt stig fyrir að geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dags, eitt stig fyrir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, tvö stig fyrir að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að hún lagði niður starf, eitt stig fyrir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og tvö stig fyrir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra eða samtals átta stig.

Kærandi hafi þannig fengið þrjú stig í hinum líkamlega hluta staðalsins og átta stig í þeim andlega. Þetta nægi ekki til að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli, en kærandi hafi verið talin uppfylla skilyrði um örorkustyrk og hann því verið veittur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en veita henni tímabundinn örorkustyrk. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eigi þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skuli Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B , dags. 27. mars 2018. Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að sjúkdómsgreiningar hennar séu:

„ÞUNGLYNDI

ALMENN KVÍÐARÖSKUN

SVEFNTRUFLUN

FIBROMYALGIA

STREITURÖSKUN EFTIR ÁFALL“

Lýsing læknisskoðunar í vottorðinu er svohljóðandi:

„Dapurt yfirbragð. Stutt í kvíðann. Svarar spurningum greiðlega. DASS: Þunglyndi 28 (mjög alvarlegt), kvíði 14 (miðlungs), streita 31 (alvarleg).“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir meðal annars:

„A er fædd á D. Flutti til E þegar hún var X ára. Yngst af X systkinum. Elst upp við miklar fjárhagsáhyggjur foreldra og ofbeldisfullan föður. Hún lýsir því að hann hafi einu sinni beitt hana líkamlegu ofbeldi þegar hún var X ára en annars mest andlegt ofbeldi. Þetta litar samskipti þeirra í dag. Hún lýsir því að hún vilji helst ekki tala mikið við pabba sinn. Byrjaði að finna fyrir kvíða í kringum X ára aldur. A leiddist út í neyslu í kringum X ára aldur. Byrjaði að reykja X ára og byrjaði að drekka X ára. Misnotaði lyf og amfetamín um tíma. Hætti allri neyslu fyrir nokkrum árum. Hætti að reykja tímabundið í fyrra en er byrjuð aftur. Er í stabílu sambandi í dag og býr hjá kærasta sínum. Hann vinnur hjá F. Hefur hún lent í kynferðisofbeldi á unglingsárum og séð hluti sem sitja fast í henni og valda mikilli andlegri vanlíðan. A hefur verið í endurhæfingu í gegnum VIRK síðustu misseri en er ekki lengur í þeirra þjónustu. Reynd atvinna með stuðningi en þetta hefur ekki skilað miklum árangri. Hún var lengi í viðtölum hjá sálfræðingi í gegnum VIRK. Hún er búin með allan endurhæfingarlífeyri og VIRK er búin að útskrifa hana. Ekki talin geta endurhæfst meira en reynt hefur miðað við núverandi aðstæður.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 22. ágúst 2017, segir meðal annars svo um sögu kæranda:

„Komin í vinnu, X klst. á dag. Vefjagigtareinkennin farið batnandi. Kvíðaeinkennin hinsvegar ennþá til staðar en mismunandi milli tímabila. Reyndi á tímabili að vinna Xklst á dag en þurfti að minnka við sig vegna versnandi kvíðaeinkenna. Almenn kvíðaeinkenni, kvíðir flestu og veit ekki af hverju. Þunglyndiseinkenni einnig til staðar, vonleysi og inn á milli dauðahugsanir. Gengur vel í vinnunni en þarf að passa sig, bæði andlega og líkamlega. Vinnur í [...]. Upplifir einnig mikla þreytu og þarf að sofa mikið. Verið í sjúkraþjálfun reglulega. Áframhaldandi með einkenni en mun betri, einna helst með einkenni frá baki.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda sínum nefnir kærandi ofsakvíða, þunglyndi og vefjagigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún eigi erfitt með að sitja lengi því þá verði hún mjög stirð. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að það sé mjög erfitt. Hún geti fengið mar af því að krjúpa. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að það sé mjög erfitt að standa í meira en hálftíma í einu. Þá finni hún mikið fyrir vefjagigtinni. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að henni verði illt í fótunum við það, sérstaklega vinstri fæti. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að það sé mjög erfitt að labba upp stiga, þ.e. 10 tröppur. Henni verði illt í fótunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að svo sé og nefnir að hún fái verki í síðuna. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það sé mjög erfitt. Hún hafi alltaf verið kraftlítil í höndunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með sjón þannig að hún sé með sjónskekkju og 2,5 á bæði vinstra og hægra auga. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna þvaglátum þannig að hún missi oft þvag áður en hún komist á salerni. Kærandi svarar játandi spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Fram kemur að hún hafi verið með ofsakvíða og þunglyndi frá X ára aldri. Mögulega hafi það þó byrjað fyrr en hún hafi fengið greiningu þá. Hún hafi byrjað hjá sálfræðingi í [...] vegna mikils eineltis. Hún hafi upplifað mikla þráhyggju með kvíðanum, hegðunarvanda og mjög alvarlegt þunglyndi nokkrum sinnum í gegnum árin. Hún hafi fengið áfallastreitu sem hafi varað lengi. Eftir botnlangaaðgerð x hafi hún fengið áfall og þurft að leita á geðdeild nokkrum mánuðum síðar vegna alvarlegs svefnleysis sökum mikils ofsakvíða sem geðlæknir hafi sagt við heimilislækni hennar að taka ætti mjög alvarlega.

Kærandi skilaði inn nýjum spurningalista með svörum sínum vegna færniskerðingar, dags. 25. júlí 2018, undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Í lýsingu á heilsuvanda kemur fram að hún sé greind með hugarangur, almenna kvíðaröskun, þunglyndi, vefjagigt, svefnraskanir og streituröskun eftir áfall. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún geti ekki setið lengi án þess að finna fyrir óróleika. Henni verði illt í mjöðmunum. Henni finnist betra að liggja og geri það frekar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að það sé misjafnt eftir dögum vegna vefjagigtarinnar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún eigi erfitt með að beygja sig. Hún finni verki í bakinu og hnjánum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa lengi þannig að hún þurfi að setjast eða leggjast á að minnsta kosti hálftíma fresti. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að hún geti gengið á jafnsléttu en ekki of lengi án þess að finna fyrir óþægindum í fótunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún verði að halda sér í eitthvað og hvíla sig á milli þrepa. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að hún sé með góðar fínhreyfingar en sé kraftlaus í höndunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að það sé misjafnt eftir dögum út af vefjagigtinni. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti þannig að hún sé nokkuð kraftlaus og geti ekki lyft neinu þungu eða borið neitt þungt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með sjón þannig að hún sé með sjónskekkju og nærsýni. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með heyrn þannig að hún þurfi að minnsta kosti einu sinni til tvisvar í mánuði að skola úr eyrunum vegna þess að það lokist fyrir. Eyrnamergur í hægra eyranu skolist ekki sjálfur út. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna þvaglátum þannig að hún eigi erfitt með að halda í sér og missi oft þvag. Í lýsingu á geðrænum vandamálum kemur fram að kærandi sé greind með þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og svefnraskanir. Það hafi áhrif á hennar daglega líf. Hún geti oft legið lengi án þess að gera neitt í marga klukkutíma og fái sig oft ekki í að hugsa um sjálfa sig. Fólk þurfi stundum að minna hana á að borða. Hún eigi oft erfitt með að einbeita sér að því sem hún þurfi að gera. Hún sinni lítið áhugamálum nema helst tónlist. Hún þurfi að hafa einhvern með sér í allt sem sjái til þess að hún hugsi um það sem hún þurfi að gera yfir daginn. Hún vilji helst ekki fara ein út og þurfi alltaf að hafa einhvern með sér vegna hræðslu. Hún hringi oft í einhvern ef hún sé ein úti að ganga til þess að henni finnist hún örugg. Svefnvandinn hafi mikil áhrif á líðan hennar yfir daginn og úthald til að sinna verkefnum og vinnu. Hún sé úthaldslítil og forðist allt sem valdi álagi og streitu. Hún sé hrædd um að ástandið versni ef hún fari að vinna meira. Hún sé mjög einangruð og hafi ekki frumkvæði að samskiptum við aðra, utan fjölskyldunnar, vegna andlegrar vanlíðanar.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 6. nóvember 2017. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp og hún geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda  komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún naut áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda í skýrslu sinni á eftirfarandi hátt:

„Í rétt rúmum meðalholdum. Hreyfir sig tiltölulega lipurlega. Beygir sig og bograr án verulegs vanda. Dreifð þreifieymsli í stoðkerfi.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Fyrst og fremst kvíðaröskun. Frekar sveiflukennt ástand. Vægt undirliggjandi þunglyndi sem virðist þó ekki há henni mikið nú.“

Atferli í viðtali er lýst svo:

„Gefur ágæta sögu. Dálítið spennt í fyrstu og óörugg en slakar á þegar líður á viðtalið og líður betur. Situr kyrr. Grunnstemning vægt lækkuð. Undirliggjandi kvíði og spenna.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu skoðunarlæknis er líkamleg færniskerðing kæranda sú að kærandi getur ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekkert stig samkvæmt örorkustaðli. Það er mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er líkamleg færniskerðing kæranda því metin til þriggja stiga. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand komi í veg fyrir að kærandi sinni áhugamálum sem hún naut áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er andleg færniskerðing kæranda því metin til átta stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og átta stig úr þeim hluta sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum