Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 25. nóvember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 45/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 14. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 12. júní 2015, um synjun á beiðni hans um skuldbreytingu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi óskaði eftir skuldbreytingu vanskila hjá Íbúðalánasjóði og var mál hans lagt fyrir greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins 6. mars 2015. Beiðni kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá umboðsmanni skuldara, væri greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum. Beiðni kæranda var lögð fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á ný þann 12. júní 2015 og var kæranda tilkynnt í tölvupósti sama dag um synjun og vísað til þess að hann yrði að sýna fram á tekjur til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 14. júlí 2015. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 26. ágúst 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. september 2015 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. september 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að fasteign hans hafi farið á nauðungarsölu þann X 2015. Íbúðalánasjóður hafi leiðbeint honum um að sækja um greiðsluerfiðleikamat hjá umboðsmanni skuldara til að fá skuldbreytingu hjá sjóðnum vegna vanskila. Það ferli hafi tekið nokkra mánuði og upplýsingar frá kæranda varðandi mál hans hjá Landsbankanum og einkahlutafélagi sem haldi utan um starf hans hefðu ekki verið teknar gildar í matinu. Hann hafi sjálfur greitt skuldir einkahlutafélagsins og reikni sér því ekki laun á meðan sem sé vissulega óheppileg staða þegar komi að greiðslumati. Kærandi bendir á að tekjur séu til staðar þótt þær séu ekki í formi greiddra launa.

Kærandi tekur fram að Íbúðalánasjóður hafi hafnað skuldbreytingu sem honum hafi verið tjáð að gæti orðið til 30 ára og vilji þess í stað að vanskil að fjárhæð 2,2 milljónir króna verði greidd á 18 mánuðum eftir að 20% af heildarvanskilum við sjóðinn hafi verið greidd. Kærandi er ósáttur við þá afstöðu Íbúðalánasjóðs og tekur fram að hann þurfi á því að halda að fá skuldbreytingu til lengri tíma þrátt fyrir að hann hyggist greiða vanskilin hraðar niður í samræmi við tekjur, eða eins hratt og hægt sé. Kærandi er ósáttur við að sumum sé boðin skuldbreyting vanskila til 30 ára eða lengri tíma en aðrir fái einungis 18 mánuði. Að auki krefjist Íbúðalánasjóður að greidd séu 50% af vanskilum ef eitthvað fari úrskeiðis á þessum 18 mánuðum og að farið verði fram á nauðungarsölu. Kærandi fer fram á að fá að greiða 20% inn á vanskil við Íbúðalánasjóð og fá skuldbreytingu fyrir 2,2 milljónum sem eftir standi, til lengri tíma en 18 mánaða.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins kemur fram að sjóðurinn hafi í aðdraganda nauðungarsölunnar samþykkt að afturkalla beiðni um nauðungarsölu gegn greiðslu á um 20% vanskila. Kærandi hafi greitt þá fjárhæð sem hafi verið ráðstafað inn á elstu vanskil lána hans hjá sjóðnum. Í kjölfarið hafi kæranda verið boðið að gera 18 mánaða vanskilasamning um greiðslu á eftirstöðvum vanskila en því hafi hann hafnað. Kærandi hafi síðan þá greitt enn frekar inn á vanskil sín hjá sjóðnum og fengið annað boð um að gera vanskilasamning að teknu tilliti til þeirra aukagreiðslna, með tilheyrandi lægri greiðslubyrði.

Kærandi hafi á fyrri stigum sótt um skuldbreytingu á vanskilum en verið synjað þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt, einkum það að sýnt væri fram á að skuldbreytingin leysi vanda, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001. Af greiðsluerfiðleikamati umboðsmanns skuldara megi ráða að greiðslugeta kæranda sé neikvæð enda tekjulaus samkvæmt matinu. Þegar af þeim sökum uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að fá skuldbreytingu og því hafi Íbúðalánasjóði borið að synja beiðni hans. Það hafi starfsmenn Íbúðalánasjóðs ítrekað útskýrt fyrir kæranda og gætt að leiðbeiningarskyldu gagnvart honum. Íbúðalánasjóður bendir á að skuldbreyting standi öllum viðskiptavinum sjóðsins til boða sem á annað borð uppfylli hin lögbundnu skilyrði fyrir því úrræði. Hið sama gildi um öll önnur greiðsluvandaúrræði sjóðsins, þau standi öllum til boða sem á annað borð uppfylli þau skilyrði sem séu fyrir hverju úrræði fyrir sig. Íbúðalánasjóði beri sem stjórnvaldi að fara eftir þeim lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Það leiði af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvald megi aðeins gera það sem því sé heimilað með lögum. Í ljósi þessa sé sjóðnum beinlínis óheimilt að skuldbreyta lánum kæranda. 


IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um skuldbreytingu.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að veita skuldbreytingarlán til allt að 30 ára í því skyni að leysa úr tímabundnum erfiðleikum hjá lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 584/2001 geta úrræði Íbúðalánasjóðs til þess að bregðast við greiðsluvanda verið fólgin í því að veita skuldbreytingarlán og/eða fresta greiðslum á lánum sjóðsins. Einnig er heimilt að lengja lánstíma á lánum sjóðsins. Í 4. gr. reglugerðarinnar er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati, sem unnið var af umboðsmanni skuldara og liggur fyrir í málinu, yrði staða kæranda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð þar sem kærandi er tekjulaus samkvæmt matinu og því myndi greiðslubyrði hans ekki rúmast innan greiðslugetu.

Kærandi hefur gert athugasemdir við greiðsluerfiðleikamat umboðsmanns skuldara og vísað til þess að tekjur séu til staðar þótt þær séu ekki í formi greiddra launa og greint frá ástæðu þess. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að bera brigður á greiðsluerfiðleikamat umboðsmanns skuldara sem liggur fyrir í málinu þrátt fyrir athugasemdir kæranda. Þar sem greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 584/2001 hefði ekki rúmast innan greiðslugetu hans, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, átti kærandi því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Þegar af þeirri ástæðu verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 12. júní 2015, um synjun á umsókn A um skuldbreytingu vanskila er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum