Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 377/2018 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 377/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070034

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júlí 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. apríl 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 25. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 21. júlí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. ágúst 2018 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna trúarbragða sinna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í bænum […] í […], en þar hafi kærandi búið ásamt móður sinni í íbúð sem þau hafi átt í sameiningu. Móðir kæranda sé eini fjölskyldumeðlimur hans, en faðir kæranda hafi látist í […]árið 2004. Kærandi kveðst hafa búið í […]alla tíð, utan áranna […] til […] þegar hann hafi stundað nám við háskóla í […], höfuðborg landsins. Kærandi sé […] og verði hann fyrir ofsóknum í heimaríki vegna trúarskoðana sinna. Þá sé hvorki að finna […] í heimabæ kæranda né samfélag […]. Kærandi kveður sig ekki geta iðkað trú sína í heimaríki og vegna hennar hafi hann orðið fyrir árásum, hótunum og grófri mismunun.

Árið 2011 hafi kærandi tekið þátt í hreyfingu sem hafi mótmælt aðgerðarleysi lögregluyfirvalda í kjölfar þess að þekktur […] blaðamaður að nafni […] hafi orðið fyrir banatilræði vegna gagnrýnna skrifa í garð trúarbragða […] í […]. Kærandi hafi verið í hópi fólks sem hafi skrifað nafn sitt á undirskriftalista í þeim tilgangi að þrýsta á lögregluyfirvöld að rannsaka mál blaðamannsins sem hafi látið lífið á spítala í kjölfar árásarinnar. Kærandi heldur því fram að þeir sem hafi staðið fyrir undirskriftasöfnuninni hafi neyðst til að flýja […] og að þeim hafi verið veitt alþjóðleg vernd. Þá hafi enginn verið handtekinn vegna morðsins á blaðamanninum. Stuttu eftir þetta hafi kærandi komist að því að lagt hafi verið á ráðin um að myrða hann þegar hann hafi verið á leið sinni frá […] til heimabæjar síns, […]. Tilræðið hafi ekki tekist en kærandi hafi orðið fyrir alvarlegri árás. Þá kveðst kærandi vita hverjir hafi ráðist á hann en um hafi verið að ræða bræður sem séu […] og hafi þeir ráðist á kæranda vegna trúar hans. Kærandi hafi kært árásina til lögreglunnar og hafi hún kallað þá til skýrslutöku en látið þá lausa stuttu síðar. Kærandi sé viss um að bræðurnir hafi mútað lögreglunni, en þeir sem tilheyri trúarlegum meirihluta landsins, […], geti komist undan refsingu með því að greiða lögreglunni og henni sé ekki umhugað um að veita minnihlutahópum á borð við […] vernd.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi þurft að þola áreiti og mismunun í heimaríki vegna trúar sinnar. Kærandi hafi misst vinnu sína í banka í heimaríki vegna trúar sinnar. Jafnframt hafi kona sem kærandi hafi átt í sambandi við verið skipað af foreldrum sínum að slíta sambandinu við kæranda vegna trúar hans. Í greinargerð lýsir kærandi fjandsamlegu viðhorfi, framkomu og mismununar í garð […] í […] af hálfu samfélagsins og yfirvalda. Þá fái […] einstaklingar enga vernd frá lögreglu eða öðrum yfirvöldum. Kærandi hafi ákveðið að flýja heimaríki sitt í kjölfar þess að […] bræður hafi verið myrtir fyrra hluta árs 2017 þar í landi. Þá hafi kærandi sjálfur orðið fyrir því í mars 2017 að líflátshótanir hafi verið ritaðar á glugga, hurðir og veggi heimilis kæranda með tilvísun til […] trúar hans. Kærandi yfirgaf heimaríki í apríl 2017. Í greinargerð kemur jafnframt fram að verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis eigi hann á hættu að vera settur í fangelsi en samkvæmt […] lögum megi fangelsa þá sem hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda jafnframt sem fjallað er um trúarofsóknir og stöðu […] þar í landi. Þar komi m.a. fram að um […] % þjóðarinnar séu […]. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins kveði á um jafnrétti óháð trú þá séu takmarkanir á starfi trúfélaga að finna í ýmsum sérlögum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í […] fyrir árið 2016 sé fjölmörgum tilvikum lýst þar sem yfirvöld hafi stöðvað eða með öðrum hætti haft áhrif á starfsemi skráðra og óskráðra trúfélaga. Að mati mannréttindasamtaka hafi […] stjórnvöld gerst sek um að handtaka trúarlega aðgerðarsinna í pólitískum tilgangi. Samkvæmt skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi í […] frá árinu […] hafi ráðið áhyggjur af ótilhlýðilegum takmörkunum á trúfrelsi í landinu, m.a. af skyldubundinni skráningu trúfélaga, ritskoðun á trúarlegu efni og áskilnaði um samþykki fyrir innflutningi, útflutningi, dreifingu og útgáfu slíks efnis. Þá er í greinargerð jafnframt fjallað um aðstæður einstaklinga í haldi […] yfirvalda.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til trúarbragða skv. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Yfirvöld í […] standi fyrir kerfisbundnu áreiti og þvingunum þegar það komi að starfi trúfélaga minnihlutahópa, þ. á m. starfi […] safnaða. Aðgerðir yfirvalda geri það að verkum að kærandi, líkt og aðrir […] einstaklingar í […], njóti ekki frelsis til að tjá og iðka trú sína án þess að eiga á hættu refsingar eða áreiti af hálfu yfirvalda. Afstaða yfirvalda gegn trúfélögum minnihlutahópa ali á fordómum í garð þeirra og ýti undir mismunun og annað áreiti. Kærandi geti ekki iðkað trú sína nema í fullkominni leynd enda eigi hann annars á hættu að vera beittur ofbeldi. Þá eigi kærandi ekki möguleika á vernd yfirvalda verði hann aftur fyrir ofbeldi eða ofsóknum í heimaríki.

Í greinargerð kæranda kemur fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar virðist stofnunin líta svo á að almennt verði einstaklingar sem séu áberandi […] helst fyrir ofsóknum í heimaríki kæranda. Kærandi taki undir það sem fram komi í ákvörðun stofnunarinnar um að opinberir og róttækir einstaklingar séu að jafnaði útsettari fyrir ofsóknum en hinn almenni meðlimur en kærandi bendir á að ofsóknir sem slíkir þekktir einstaklingar verði fyrir beinist að þeim með það fyrir augum að hafa áhrif á alla aðra meðlimi viðkomandi safnaðar. Kærandi geti ekki túlkað niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar á annan veg en að stofnunin telji kæranda ekki eiga rétt á alþjóðlegri vernd vegna þess að hann geti forðast ofsóknir í heimaríki með því að leyna trú sinni. Sú niðurstaða fari gegn leiðbeiningum Flóttamannastofnunar þar sem fram komi að trú sem trúarskoðun, sjálfsvitund eða lífstíll sé slíkur grundvöllur mannlegrar reisnar að ekki ætti að gera þá kröfu til einstaklinga að þeir leyni, breyti eða hafni trú sinni til að forðast ofsóknir.

Kærandi óttist mjög að vera sendur aftur til heimaríkis þar sem hann sé viss um að hann muni þurfa að sæta fangelsisvist við komuna til landsins. Í greinargerð kemur fram að samkvæmt […] lögum sé refsivert að notast við fölsk skjöl til að óska eftir alþjóðlegri vernd í öðru ríki. Kærandi heldur því fram að viðkomandi ákvæðum sé beitt gegn öllum þeim sem sæki um vernd í öðrum löndum enda líti stjórnvöld svo á að alltaf þegar sótt sé um alþjóðlega vernd á grundvelli opinberra skilríkja frá […] sé um að ræða fölsun (e. fraudulent use of official documents). Verði kærandi endursendur til heimaríkis muni […] stjórnvöld komast að því að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd utan landsins þar sem hann hafi einungis vegabréfsáritun til einnar viku en hann hafi nú dvalið erlendis í fleiri mánuði. Samkvæmt framangreindu sé kærandi flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi ber fyrir sig að hann verði fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda og samfélagsins í heild vegna trúarskoðana sinna. Af þeim sökum hafi hann ekki möguleika á því að leita aðstoðar lögreglu eða annarra yfirvalda í heimaríki. Því sé ljóst að kærandi sé í raunverulegri hættu á því að verða fyrir alvarlegum skaða verði hann endursendur til heimaríkis.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.a.m. vegna almennra aðstæðna í heimaríki. Í þeim kerfisbundnu þvingunum og áreiti […] yfirvalda gegn trúfélögum minnihlutahópa sem hafi verið lýst felist viðvarandi mannréttindabrot. Þá hafi kærandi jafnframt lýst því að hann hafi ekki fengið vernd yfirvalda vegna ofbeldisbrota á hendur sér. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi heldur því fram að hann hafi verið útskúfaður af samfélaginu sökum trúar sinnar. Takmarkanir yfirvalda á starfsemi trúfélaga geri það að verkum að […] einstaklingar geti ekki iðkað trú sína í […]. Þá hafi kæranda verið sagt upp starfi vegna trúarskoðana. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis muni hann búa við mjög erfiðar almennar og félagslegar aðstæður. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Hvað varðar flutning innanlands byggir kærandi á því að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annars staðar í heimaríki. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum, enda dugi þá ekki flutningur innanlands. Um sé að ræða einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum kæranda og aðstæðum í landinu. Vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er enn þá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til athugasemda með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Kærandi heldur því fram í greinargerð að öryggi sínu sé ógnað hvar sem er í heimaríki hans, en vegna trúar sinnar og viðhorfs stjórnvalda gagnvart […] einstaklingum þá geti kærandi ekki búið annars staðar í heimaríki.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kveður stjórnarskrá […] á um trúfrelsi og að ein trú skuli ekki tekin fram yfir aðra jafnframt sem […] stjórnvöld aðhyllist fjölmenningarstefnu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi vegna ársins 2017 kemur fram að stjórnarskrá landsins kveði á um rétt einstaklinga til að tjá trúarskoðanir sínar og að iðka trú sína opinberlega svo lengi sem almannafriði og almennum siðferðisreglum sé ekki ógnað. Löggjöf landsins banni stjórnvöldum að hafa afskipti af trúarlegri starfsemi nema um trúarlegan öfgahóp sé að ræða. Löggjöfin heimili stjórnvöldum að leysa upp trúfélög ef þau hvetji til kynþáttafordóma eða þjóðernislegs, trúarlegs eða félagslegs fjandskaps. Til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar samkomur […] hafi […] stjórnvöld m.a. komið myndavélum fyrir í öllum […] landsins. Í skýrslu Freedom House kemur fram að fjölda […] hafi verið lokað á undanförnum árum vegna öryggisástæðna eða ófullnægjandi skráningar.

Líkt og öll félög í landinu þurfi trúfélög að skrá starfsemi sína hjá tilteknu stjórnvaldi sem nefnist […]. […] hafi umsjón með skráningarferli trúfélaga og geti stofnunin leitað til dómstóla í þeim tilgangi að stöðva starfsemi tiltekinna trúfélaga. Skráning hjá […] heimili trúfélögum m.a. að halda fundi, stofna bankareikning, leigja húsnæði og fá styrk frá yfirvöldum. Þá hafi stjórnvaldið heimild til að hafna skráningu trúfélags ef athafnir þess, markmið eða trúarkenningar stangast á við stjórnarskrá landsins eða önnur lög. Þá banni stjórnarskrá landsins starfsemi óskráðra trúfélaga og geti brot gegn því varðað sektum eða jafnvel fangelsisrefsingu. Ekki sé nóg fyrir […] trúfélög að skrá félagið hjá […] heldur þurfi þau einnig að fá samþykki […] nefndarinnar […] sem sé talin hafa sterk tengsl við stjórnvöld landsins. Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins hafi minni trúfélög, líkt og […], kvartað yfir því að illa hafi gengið hjá trúfélaginu að skrá sig hjá stjórnvöldum, flytja inn trúarlegar bókmenntir og að fá leyfi fyrir bænastundum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi vegna ársins 2017 kemur fram að […] stjórnvöld hafi handtekið og fangelsað um […] trúarlega aðgerðarsinna árið 2017 jafnframt sem þeir hafi verið beittir líkamlegu ofbeldi. Í janúar 2017 hafi dómstólar dæmt leiðtoga […] hreyfingar í landinu og aðstoðarmann hans í tuttugu ára fangelsi fyrir að hafa m.a. ætlað að steypa stjórnvöldum af stóli og viðhaft trúarlega hatursorðræðu. Þá hafi […] stjórnvöld fangelsað og sektað fjölmarga einstaklinga fyrir að halda trúarlega fundi í leyfisleysi. Í skýrslu bandarískrar nefndar um alþjóðlegt trúfrelsi kemur fram að […] stjórnvöld hafi ekki verið sökuð um brot gegn trúfrelsi árið […] af hálfu bandaríska stjórnvalda þrátt fyrir opinberlega gagnrýni Bandaríkjamanna á mannréttindaástandið í […].

Á síðastliðnum árum hafi umbætur verið gerðar á löggjöf landsins, m.a. heimili löggjöfin nú skráðum trúfélögum að bjóða erlendum einstaklingum til að stjórna trúarlegum athöfnum í landinu. Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að höfuðborg landsins […] hafi staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna um fjölmenningu og samræður á milli trúfélaga. Leiðtogar stærstu trúarhópanna, […], […] og […], hafi tekið þátt í trúarlegum hátíðum hvors annars og sést saman opinberlega. Samkvæmt skýrslunni ríki gagnkvæmt umburðarlyndi milli trúarbragða í […].

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi fyrir árið 2017 kemur fram að þrátt fyrir að löggjöf landsins banni mismunun á vinnumarkaði og í starfi þá veigri atvinnurekendur sér við því að ráða einstaklinga með einhverskonar fötlun og einstaklinga af armenskum uppruna. Þá eigi konur og hinsegin einstaklingar erfitt uppdráttar á vinnumarkaði. Í sömu skýrslu kemur fram að […] lögreglan heyri undir innanríkisráðuneytið og að […] yfirvöld hafi almennt góða stjórn á öryggissveitum landsins. Sjálfstæði dómstóla sé takmarkað þar sem stjórnvöld hafi töluverð afskipti af því sem fram fari, sérstaklega þegar um sé að ræða pólitísk mál. Í þeim tilvikum kunni stjórnvöld því að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála. Eins og fram hefur komið sé töluverða spillingu að finna á vettvangi hins opinbera, þó að stjórnvöld hafi að einhverju leyti reynt að stuðla að umbótum á því sviði.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og að framan greinir óttast kærandi um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til […]. Kærandi hefur borið fyrir sig að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki af hálfu stjórnvalda og samfélagsins í heild vegna trúarskoðana sinna. Þá heldur kærandi því jafnframt fram í greinargerð að hann eigi yfir höfði sér óréttmæta fangelsisrefsingu í […] þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi.

Kærandi hefur lagt fram gögn við meðferð málsins til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að hann sé […], m.a. bréf um […] hans hér á landi, og leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi sé […] trúar. Þá er að mati kærunefndar ekki ástæða til að draga í efa að kærandi hafi orðið fyrir árás árið 2011. Hins vegar hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem leiði líkur að því að árásin hafi stafað af trú hans. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans af ofsóknum af hálfu stjórnvalda og samfélagsins í heimaríki sem beinist sérstaklega gegn […] einstaklingum. Þrátt fyrir að gögn beri með sér að það geti verið erfiðleikum bundið að starfrækja trúfélög í heimaríki kæranda gefa gögnin ekki til kynna að […] einstaklingar verði sérstaklega fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda eða samfélagsins sem nái því marki að teljast ofsóknir. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í […] benda heldur ekki til þess að […] einstaklingar hafi verið útilokaðir frá störfum í […]. Þá fær sú staðhæfing kæranda að […] einstaklingar fái enga vernd frá lögreglu eða öðrum yfirvöldum í […] heldur ekki stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað.

Líkt og áður segir er krafa kæranda einnig byggð á því að hann eigi yfir höfði sér óréttmæta fangelsisrefsingu í […] þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi. Því til stuðnings vísar kærandi í greinargerð á vefsíðu ákæruvaldsins í […]. Kærandi telur að þar komi fram að refsivert sé að notast við fölsk skjöl til að óska eftir alþjóðlegri vernd í öðru landi og að það geti varðað fangelsisvist. Kærandi kveður að ákvæðinu sé beitt gegn öllum þeim sem sæki um alþjóðlega vernd í öðru landi enda líti stjórnvöld svo á að alltaf þegar sótt sé um alþjóðlega vernd á grundvelli opinberra skilríkja frá […] þá sé um að ræða fölsun. Kærandi hefur ekki stutt þá fullyrðingu með gögnum og rannsókn kærunefndar á þessum þætti hefur ekki leitt í ljós gögn sem styðja þessa fullyrðingu kæranda. Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar teljast þeir sem flýja saksókn eða refsingu vegna afbrots alla jafna ekki flóttamenn. Þó verður að meta hvort afbrotamaður geti átt á hættu óhóflega refsingu eða hvort ástæða ákæru jafngildi ofsóknum. Einnig geti þurft að meta hvort lög viðkomandi lands séu ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 kveði […] lög um frjálsa för fólks innan ríkisins sem og um landamæri þess, þó séu dæmi um að […] stjórnvöld hafi hamlað för aðgerðarsinna út úr landinu. Þá gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til kynna að einstaklingar sem hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu við endurkomu til […].

Með vísan til skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér eiga […] einstaklingar á hættu að verða fyrir mismunun af ýmsu tagi. Sú mismunun er þó ekki af þeim toga eða á því alvarleikastigi sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til sem grundvöll alþjóðlegrar verndar. Þá telur kærunefnd að sú árás sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir árið 2011 leiði til þess að kærandi hafi nú ástæðuríkan ótta við ofsóknir.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdunum er einnig fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Kærandi byggir á því að hans bíði bæði erfiðar almennar og félaglegar aðstæður í heimaríki vegna trúarskoðana sinna. Kærandi hafi orðið fyrir hótunum og áreiti í heimaríki sem hafi m.a. lýst sér í því að skrifaðar hafi verið líflátshótanir á glugga, hurðir og veggi heimilis kæranda með tilvísun til […] trúar hans. Þá kveðst kærandi hafa misst vinnu sína í heimaríki vegna trúar sinnar og að kona sem kærandi hafi átt í sambandi við hafi verið neydd af foreldrum sínum til að slíta sambandi við kæranda vegna trúar hans. Kærandi lýsir fjandsamlegu viðhorfi og framkomu og mismununar í garð […] í […] af hálfu samfélagsins og yfirvalda. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda ekki til þess að […] einstaklingar verði fyrir mismunun í […] af þeim toga sem gæti verið grundvöllur dvalarleyfis skv. 1. mgr. 74. gr. eða að félagslegar aðstæður kæranda þar í landi séu að öðru leyti þess eðlis að þær nái því alvarleikastigi að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd. Kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna sem leiða að því líkur að staða hans sé önnur og verri en ofangreindar skýrslur benda til.

Fjallað hefur verið um aðstæður í kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali við Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telur að mat Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki og þeirrar hættu sem bíði hans verði hann endursendur til […] sé ófullnægjandi. Má því af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 18. apríl 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta andlega og líkamlega heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira