Hoppa yfir valmynd

7/2005

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 föstudaginn 11. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2005  Jón Otti Jónsson, Efstasundi 2 Reykjavík gegn Bláskógabyggð.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Jóns Otta Jónssonar, kt. 170130-2279, Efstasundi 2, 104 Reykjavík er dags. 27. apríl, 2005.  Kærð er álagning Bláskógabyggðar á rotþróar- og sorpgjaldi vegna sumarhúss Jóns Otta,  B-gata lóð 19, í landi Miðdals í Bláskógabyggð. Jón Otti er hér eftir nefndur kærandi, en Bláskógabyggð kærði.  Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. Svarbréf kærða er dags. 20. júní s.l. Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar en hann svaraði því ekki. Stjórnsýslukæru fylgdu eftirfarandi gögn:

1)      Afrit af seðli um álagningu fasteignagjalda 2005.

2)      Afrit af bréfi Bláskógabyggðar, skýringar á álagningarreglum fasteignagjalda fyrir Bláskógabyggð árið 2005.

Greinargerð kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1)       Samþykkt Bláskógabyggðar, samþykkt Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar 2005 og auglýsing umhverfisráðuneytis í Stjórnartíðindum B53/2005.

2)       Gjaldskrá vegna seyrulosunar frá nóvember 2004, samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 15. mars, 2005 og auglýsing í Stjórnartíðindum.

3)       Upplýsingar og staðreyndir, Umhverfisstofnun maí 2005.

4)       Gjaldskrá vegna sorphirðu í Bláskógabyggð.

 

II.

Í stjórnsýslukæru  dags. 27. apríl s.l. gerir kærandi þær kröfur að úrskurðarnefnd felli úr gildi stjórnvaldsákvörðun kærða um álagningu rotþróargjalds á kæranda vegna fasteignarinnar við B-götu lóð 19 fyrir árið 2005.  Þá er þess og krafist að sorpgjald verði lækkað og ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá kærða. 

Málavöxtum lýsir kærandi svo að hann sé eigandi sumarhúss í landi Miðdals.  Hafi honum fyrir nokkrum dögum borist í pósti ódagsettur álagningarseðill fasteignagjalda svo og rotþróar- og sorpgjalds.  Telji kærandi að sorphirðugjaldið hafi verið ákvarðað of hátt og ekki í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá.  Aftur á móti telji kærandi að rotþróargjald verði ekki lagt á þar sem til þess skorti allar heimildir.  Gerir kærandi þær kröfur að kærði rökstyðji og leggi fram gildandi og birta gjaldskrá sem heimili kærða töku sorpgjalds og að fjárhæð sorpgjalds verði ekki ákveðin hærri en gjaldskrá segi til um. Krafist er ógildingar rotþróargjalds þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á.  Þannig hafði samþykkt um gjaldið staðfest af umhverfisráðherra ekki verið birt þegar gjaldið hafi verið lagt á. Á sama máta hafði gjaldskráin ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Því fari þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda.

Bendir kærandi á að fari svo að gjaldskráin verði birt áður en úrskurður í máli þessu sé uppkveðinn sé álagningin engu að síður ólögleg, þar sem hún sé þá afturvirk og taki til mánaða sem þegar séu liðnir.  Vísar kærandi um ólögmæti afturvirkra álagningu þjónustugjalda til dóms Hrd 1984:560. 

Kærandi kveður að í öðru lagi sé því haldið fram að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi skyldað alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kaupa af því þjónustu um seyrulosun.  Hvorki lög né reglugerðir geti leitt til þessarar niðurstöðu. Á hinn bóginn sé íbúum sveitarfélaga skylt að sjá til þess að seyrulosun sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafi heilbrigðisfulltrúi og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélaga löglegar heimildir til þess að hafa eftirlit með því og eftir atvikum að láta framkvæma seyrulosun á kostnað fasteignareiganda ef hann vanræki að kaupa að sér slíka þjónustu aðila sem hafi opinber leyfi til þess að sinna henni. 

Kveður kærandi að hvernig sem á sé litið sé því álagning seyrulosunargjalds ólögleg og beri að ógilda hana.  Kærandi áskilur sé rétt til þess að koma að nýjum lagarökum og kröfum.  Ennfremur að koma að andmælum við þau gögn sem kærði kunni að leggja fram. 

 

III.

Greinargerð kærða er dagsett 20. júní, 2005.  Vísar sveitarstjóri kærða til þess að sveitarstjórn kærða hafi rætt ítarlega um losun seyru úr rotþróm.  Vandamál þetta hafi farið vaxandi, en að auki hafi komið fram vitneskja um að losun hafi ekki verið sinnt og í kjölfar þess komið upp vandamál m.a. mengun vatnsbóla og sýkingar.  Hafi málið orðið flóknara þar sem bændur með haugsugur hafi ekki heimild til að sjá um losun og urðun seyru heldur þurfi til þess viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað.  Til þess að uppfylla skyldur kærða hafi verið samþykktar reglur um seyrulosun, gjaldskrá og ennfremur hafi verkið verið boðið út og það tilkynnt sérstaklega með ýmsu móti.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með í ráðum, enda þurfi samþykki þess til að koma að aflokinni umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri kærða kveður heimild kærða vera í 14. gr. rgl. um meðhöndlun seyru.  Skv. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og skólps.  Sveitarstjóri kærða bendir á að þó sveitarfélög hafi skýrar heimildir til þess að leggja á seyrulosunargjöld sé ljóst að heimildir sveitarfélags nái ekki til annars en að leggja á gjöld fyrir  áföllnum kostnaði við þennan verkþátt. Er ennfremur bent á að ákvörðun kærða um seyrulosun sé tekin í ljósi brýnna heildarhagsmuna og í samræmi við lög og reglugerðir.  Bendir kærði á að gjaldskrá vegna seyrulosunar sé byggð á greiðsludreifingu til þriggja ára sem eigi að nægja fyrir einni losun.  Gjaldskrá kærða vegna næsta árs muni byggja á kostnaði vegna ársins 2005 og gjald vegna ársins 2007 á raunkostnaði áranna 2005 og 2006.  Bent er ennfremur á að um sé að ræða árgjald en ekki mánaðargjald þó greiðslu sé dreift og innheimt um leið og fasteignagjöld.  Sé framangreint skoðað í heild er það skoðun sveitarstjóra kærða að vísa skuli kröfum kæranda á bug, en til vara sé kærði tilbúinn til að greiða viðkomandi hlutfallslega af álögðu árgjaldi 2005 til þess tíma er auglýsing um gjaldskrá birtist í Stjórnartíðindum.

 

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hækkun sorphirðugjalds annars vegar og hins vegar álagningu seyrulosunargjalds.  Gjaldskrá kærða um sorphirðu var birt 27. apríl 2005.  Gildistími hækkunar getur ekki verið fyrr en frá og með þeim tíma enda kemur fram í gjaldskrá fyrir 2005 að frá og með sama tíma falli úr gildi eldri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Bláskógabyggð. 

Í 14. gr rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé að kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.  Með tilvísan til þess og og með tilvísun til 25. gr. l. nr. 7/1998 er sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og sorps. Eru því heimildir kærða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og álagning gjalda vegna seyrulosunar einnig.  Álögð gjöld mega þó aldrei vera hærri heldur en þjónusta sú sem veitt er.  

Með tilvísan til framangreinds er það því niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið heimilt að krefja um hærri sorphirðugjöld fyrr en  auglýsing um gjaldskrá var birt.  Er því fallist á kröfu kæranda um að hækkun sé bundin birtingu gjaldskrár. 

Eins og fram er komið eru álögð gjöld vegna seyrulosunar lögmæt.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Fallist er á kröfu kæranda um gildistíma auglýsingar um sorphirðugjald. Breyting á gjaldskrá tekur fyrst gildi með birtingu auglýsingar.  Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærða sé óheimilt að leggja á gjald fyrir seyrulosun.

 

 

_______________________________

       Lára G. Hansdóttir

 

 

 

__________________________         ___________________________

          Gunnar Eydal                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum