Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 6/2018 - Úrskurður

Mál nr. 6/2018

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Landspítala

 

Ráðning í starf. Hæfnismat. Málskostnaður.

Kærði auglýsti 9. september 2017 lausa stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærði rökstuddi ráðningu karlsins með því að karlinn hefði verið hæfari en kærandi og vísaði þar einkum til frammistöðu í starfsviðtali. Kærunefnd taldi að stöðunefnd kærða er veitti álit um hæfni umsækjenda hefði ekki fylgt reglum er um nefndina gilda. Kærunefnd taldi einnig að kærandi hefði staðið þeim er ráðinn var framar varðandi alla þá hlutlægu þætti er áskildir voru í auglýsingu, auk þess sem sá er ráðinn var hefði við lok umsóknarfrests ekki uppfyllt kröfu auglýsingar og reglnanna um sérfræðiréttindi. Þá taldi kærunefnd að í ljósi þess hve takmarkaðra gagna nyti við um viðtöl þau sem kærði byggði ráðningu á hefði kærði ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ákvörðun um ráðninguna. Þótti kærði þannig ekki hafa sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið þeirri ákvörðun og því brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í stöðuna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. september 2018 er tekið fyrir mál nr. 6/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 24. maí 2018, kærði B hrl., f.h. A, ákvörðun Landspítala háskólasjúkrahúss um að ráða karl í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum á lyflækningasviði. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 29. maí 2018. Kærði fékk í tvö skipti framlengdan frest til að skila greinargerð sem barst kærunefnd 23. júlí 2018 með bréfi, dagsettu 18. júlí 2018. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. júlí 2018, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Kærandi fékk viðbótarfrest til þess að skila athugasemdum. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 17. ágúst 2018, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. ágúst 2018. Kærði fékk viðbótarfrest til þess að skila athugasemdum. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 10. september 2018.
  4. Með bréfi til kærða, dagsettu 10. september 2018, spurðist kærunefnd fyrir um tiltekin atriði varðandi viðtöl við umsækjendur. Svarbréf kærða barst kærunefnd 11. september 2018. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti lausa til umsóknar stöðu sérfræðings í meltingarlækningum 9. september 2017. Í auglýsingu kom fram að starfið væri laust frá 1. nóvember 2017 eða eftir samkomulagi. Helstu verkefni og ábyrgð voru talin: vinna á legu-, speglunar- og göngudeild meltingarlækninga; vinna við samráðskvaðningar á aðrar deildir Landspítala; þátttaka í vaktþjónustu meltingarlækna; þátttaka í kennslu læknanema, kandidata og deildarlækna; þátttaka í rannsóknarstarfi og þátttaka í almennum lyflækningum sem fer fram að hluta á bráðalyflækningadeild. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirtaldar menntunar- og hæfniskröfur: breið þekking og reynsla í almennum lyflækningum og meltingarlækningum; reynsla af meðferð sjúklinga með bólgusjúkdóma í meltingarvegi æskileg; reynsla af kennslu; reynsla og áhugi á klínískum rannsóknum í meltingarlækningum mikils metin; góðir samskiptahæfileikar; íslenskt sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og meltingarlækningum. Frestur til að sækja um stöðuna var til og með 26. september 2017.
  6. Alls bárust tvær umsóknir, ein frá kæranda sem er kona og önnur frá karli, og voru báðir umsækjendur boðaðir í starfsviðtöl. Kærandi var upplýst um það 21. febrúar 2018 að ákveðið hafi verið að bjóða karlmanninum starfið sem hann þáði. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna þeirrar ákvörðunar með tölvupósti, dagsettum 22. febrúar 2018, og var hann veittur með bréfi kærða, dagsettu 14. mars 2018.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Í kæru segir að af yfirliti um ráðningarferlið megi ráða að 11. október 2017 hafi sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið sent landlækni […] sérleyfi sitt í meltingarlækningum til að fá útgefið íslenskt sérfræðileyfi. Mánuði síðar eða 13. nóvember 2017 hafi kærði sent til þess umsækjanda sem ráðinn hafi verið ítrekun varðandi íslenska sérfræðileyfið. Í yfirlitinu sé því haldið fram að umsögn stöðunefndar læknaráðs um stöðuveitingar á Landspítala háskólasjúkrahúsi hafi dregist vegna margra fyrirliggjandi umsagna. Kærandi hafi hins vegar upplýsingar um það frá formanni stöðunefndarinnar að hún hafi verið beðin um að draga vinnu við umsögnina.
  8. Í áliti stöðunefndar frá 8. janúar 2018 komi fram að báðir umsækjendur séu hæfir en samantekt nefndarinnar sýni þó að mati kæranda talsverða yfirburði hennar í flestum ef ekki öllum þáttum sem skoðaðir hafi verið.
  9. Báðir umsækjendur hafi verið boðaðir í viðtal. Þrátt fyrir verulega meiri reynslu kæranda hafi hún komið lakar út í flestum þáttum, til dæmis þáttum eins og kennslu og vísindastarfsemi þar sem gögn sýni að hún hafi talsverða yfirburði yfir þann sem ráðinn var.
  10. Kærandi telji að sá sem ráðinn hafi verið í starfið standi henni talsvert að baki hvað snerti hæfni til að gegna starfinu.
  11. Þótt stöðunefnd kærða hafi metið báða umsækjendur hæfa megi af áliti nefndarinnar ráða talsverðan mun á þeim samkvæmt samantekt úr umsóknargögnum þeirra. Eftirfarandi tafla dragi þennan samanburð fram:

    Hæfnisþættir

    A

    C

    Samanburður

    Sérfræðireynsla í lyflækningum

    Frá 7. apríl 2003 í […]. Frá 27. júlí 2004 á Íslandi.

    Frá 18. maí 2013 á Íslandi.

    Reynsla kæranda er tæpum 10 árum lengri.

    Sérfræðireynsla í meltingarlækningum

    Frá 9. febrúar 2006 í [...]. Frá 14. mars 2006 á Íslandi.

    Frá 11. október 2017 í [...]. Frá 14. nóvember 2017 á Íslandi.

    Reynsla kæranda er 11 árum og átta mánuðum lengri. Karlinn fullnægði ekki skilyrði auglýsingar um sérfræðileyfi í meltingarlækningum við lok umsóknarfrests.

    Sérfræðilæknisstörf

    Frá apríl 2003 sem almennur lyflæknir. Frá febrúar 2006 sem meltingarlæknir.

    Frá maí 2013 sem lyflæknir. Frá nóvember 2017 sem meltingarlæknir.

    Kærandi hefur starfað í rúmlega 14 ár sem lyflæknir en karlinn í rúmlega fjögur ár. Kærandi hefur starfað í tæplega 12 ár sem meltingarlæknir en karlinn ekki starfað sem slíkur fyrir lok umsóknarfrests.

    Kennsla

    Kennsla apríl 2005 -desember 2006 við X. ILS og ALS reglulega á LSH frá 2008.

    Leiðbeinandi þriggja nafngreindra nemenda frá 2013 -2017.

    Kennslureynsla kæranda sýnist allnokkuð meiri.

    Stjórnun og félagsstörf

    Umsjónardeildarlæknir 1997 - 1998. Yfirlæknir sjúkrahúshluta [...] okt. 2012 - apríl 2014. Skipulag funda lyflækningasviðs á [...] apríl 2005 - desember 2006. Stjórnarmaður í Félagi ungra lækna [...], í stjórn Læknaráðs LSH –[...], Meðstjórnandi í stjórn félags ísl. lækna í [...], Ritari í stjórn Félags sérfræðinga í meltingarlækningum [...], formaður stjórnar [...]2009 - 2012.

    Engin stjórnun tilgreind.

    Kærandi með talsvert meiri reynslu af stjórnun og félagsstörfum.

    Vísindavinna og námskeið

    Kærandi er með PhD gráðu frá [...] árið 2008. Hefur birt fjórar greinar í ritrýndum ritum. Kærandi telur upp 62 ráðstefnur og námskeið og þrjú seminör í umsókn sinni. Þá tilgreinir hún sex fyrirlestra.

    Karlinn tilgreinir fjögur veggspjöld og þrjá fyrirlestra. Hefur birt tvær greinar í ritrýndum ritum og kveðst vera með tvær í vinnslu.

    Kærandi hefur doktorspróf og hefur allmiklu meiri vísindavinnu að baki.

    Samantekt stöðunefndar LSH

    Kærandi er sérfræðingur í almennum lyflækningum (ca. 15 ár) og meltingarlækningum (ca. 11 ár). Hún hefur starfað á sjúkrahúsi í [...] og á Íslandi og einnig starfað sjálfstætt í sinni sérgrein. Hún hefur lokið doktorsprófi og birt vísindavinnu sína í ritrýndum tímaritum (4) og á ráðstefnum. Kærandi hefur sinnt kennslu og hefur reynslu af stjórnun.

    Karlinn er sérfræðingur í almennum lyflækningum (4,5 ár) og hefur nýlega fengið sérfræðiréttindi í meltingarlækningum bæði í [...] og á Íslandi (2017). Hann hefur birt vísindagreinar (2) og vinnur að fleirum. Vísindavinnu hefur hann kynnt á ráðstefnum. Hann hefur verið handleiðari deildarlækna í sínu sérnámi. Reynslu af stjórnun er ekki getið í umsókn.

    Af samantekt verður ekki annað ráðið en að kærandi sé verulega reynslumeiri en karlinn.

     

     

  12. Í rökstuðningi stöðunefndar telji kærandi að beinlínis sé farið með rangt mál því við lok umsóknarfrests hafi sá sem ráðinn hafi verið ekki uppfyllt kröfu um íslenskt sérfræðileyfi í meltingarlækningum. Það hafi hann ekki fengið fyrr en 14. nóvember 2107 og augljóst af gögnum að kærði hafi beðið eftir því að hann fengi það sérfræðileyfi. Á þeim tíma hafi hann ekki heldur haft [...] sérfræðileyfi í sérgreininni. Þá sé í rökstuðningi mikið gert úr vísindastarfi þess sem ráðinn hafi verið þótt fyrir liggi að hann hafi ekki lokið doktorsprófi eins og kærandi. Loks sé vísað til meðmæla en aldrei hafi verið kallað eftir meðmælum frá kæranda.
  13. Þeim sem ráðinn hafi verið sé talin til tekna breið þekking og reynsla í almennum lyf- og meltingarlækningum. Þessi fullyrðing standist ekki skoðun og augljóst af töflunni hér að framan að reynsla kæranda á þessu sviði sé verulega meiri.
  14. Þeim sem ráðinn hafi verið sé talið til tekna að hafa unnið á háskólasjúkrahúsi og á landsbyggðasjúkrahúsi. Kærandi hafi einnig unnið á háskólasjúkrahúsi, bæði á Íslandi og í [...]. Þá hafi hún verið í 60% starfi meltingarsérfræðings í allmörg ár hjá [...]. Sá sem ráðinn hafi verið hafi fyrir ráðningu enga reynslu af því að starfa sem sérfræðingur í meltingarlækningum því sérfræðileyfið hafi hann ekki fengið fyrr en að umsóknarfresti liðnum.
  15. Haldið sé á lofti vísindavirkni þess sem ráðinn hafi verið en litið framhjá þeirri staðreynd að kærandi sé með doktorspróf sem sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki og hafi birt fleiri greinar í ritrýndum ritum en sá sem ráðinn hafi verið. Kærandi hafi farið vel yfir það í viðtalinu að hún hafi bæði reynslu og áhuga á klínískum rannsóknum.
  16. Sagt sé að sá sem ráðinn hafi verið hafi reynslu af meðferð sjúklinga með bólgusjúkdóma í meltingarvegi á einu stærsta háskólasjúkrahúsi [...]. Það hafi kærandi einnig, bæði á [...], sem sérfræðingur á stofu og í starfi sínu hjá [...]. Þar sem starfsreynsla kæranda sé verulega meiri sé þessi reynsla hennar þar af leiðandi einnig meiri.
  17. Gert sé mikið úr því að sá sem ráðinn hafi verið hafi reynslu af kennslu læknanema. Af umsókn verði ráðið að hann hafi verið leiðbeinandi þriggja læknanema meðan hann hafi verið í sérfræðinámi sínu í meltingarlækningum. Kærandi hafi mikla reynslu af kennslu læknanema. Hún hafi annast skipulag kennslu læknanema í almennum lyflækningum á [...] síðustu árin sem hún var þar og sjálf kennt mikið. Þá fylgi það læknastarfinu að kenna læknanemum og aðstoðarlæknum og það hafi kærandi gert á bráðamóttöku Landspítala og almennu lyflækningadeildinni svo og á legudeild [...]. Loks hafi hún, eins og samanburðurinn að framan sýni, kennt sérhæfða endurlífgun, ALS (Advanced Life Support). Hún hafi farið á kennslunámskeið, líklega árið 2008, þar sem breskir læknar frá Evrópska endurlífgunarráðinu hafi komið og kennt kennsluhætti. Hún hafi kennt bæði læknum og hjúkrunarfræðingum á Landspítala og sjötta árs nemum í læknisfræði við Háskóla Íslands þar sem þetta sé skyldunámskeið og verið prófdómari í verklegum prófum. Þá sé kærandi ein af fjórum læknum sem séu stjórnendur námskeiða þar sem Evrópska endurlífgunarráðið fari fram á að alltaf kenni að lágmarki einn með þá viðurkenningu á hverju námskeiði.
  18. Sérstaklega sé vikið að meðmælum um góða samskiptahæfileika þess sem ráðinn hafi verið. Kærandi hafi aldrei verið beðin um nein slík meðmæli eins og eðlilegt hefði verið þar sem þau séu sérstaklega tilgreind.
  19. Kærandi telji að ekkert útskýri af hverju sá sem ráðinn hafi verið hafi verið valinn annað en kynferði hans og að framhjá henni hafi verið gengið af sömu ástæðu.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  20. Kærði telur að kæran sé á röngum rökum reist og hafni því að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við lög, meðal annars lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það sé afstaða kærða að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn og að ákvörðunin hafi ekkert haft með kynferði umsækjenda að gera. Af hálfu kærða sé þess krafist að sjónarmiðum kæranda verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.
  21. Í kæru sé því haldið fram að sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki uppfyllt skilyrði auglýsingar vegna starfsins þar sem hann hafi ekki verið með íslenskt sérfræðileyfi þegar hann hafi lagt inn umsókn sína. Af hálfu kærða sé litið svo á að það hafi legið ljóst fyrir þegar umsóknin hafi verið lögð fram að sá umsækjandi hafi uppfyllt öll skilyrði til sérfræðileyfis í meltingarlækningum. Einnig að leyfið yrði komið áður en til ráðningar og upphafs starfs kæmi. Læknafélagi Íslands megi vera það kunnugt að sérfræðilæknar sem komi að utan, meðal annars íslenskir læknar, sæki oft um störf hér á landi og komi til álita þótt formlegri afgreiðslu landlæknis á íslensku lækningaleyfi sé ekki lokið. Þegar svo hátti til komi hins vegar ekki til ráðningar og þar með upphafs starfs fyrr en formlegt leyfi landlæknis liggi fyrir. Með vísan til þessara sjónarmiða og að stöðunefnd læknaráðs geri ekki athugasemd við sérfræðileyfi þess sem ráðinn hafi verið sé ljóst að þessi sjónarmið kæranda hafi ekkert vægi í málinu.
  22. Stöðunefndin hafi skilað áliti sínu vegna umsækjenda 8. janúar 2018. Nefndin hafi talið þá báða hæfa til að gegna því starfi sem um ræði. Ekkert komi fram í álitinu um að annar sé hæfari en hinn. Nefndin telji því að báðir umsækjendur uppfylli skilyrði auglýsingarinnar.
  23. Í kæru sé leitast við að sýna fram á að kærandi hafi verið hæfari en sá sem ráðinn hafi verið í starfið með því að velja tiltekna þætti, einkum er varðar reynslutíma umsækjenda. Þetta sé gert með því að stilla upp samanburðartöflu. Í samanburði þessum hafi kærandi valið að hluta til aðra þætti en þá sem gerð sé krafa um í auglýsingu spítalans, svo sem „sérfræðireynsla í lyflækningum“ annars vegar og „sérfræðireynsla í meltingarlækningum“ hins vegar. Í auglýsingunni hafi aðeins verið talað um reynslu í almennum lyflækningum og meltingarlækningum og að umsækjendur hafi sérfræðileyfi í viðkomandi sérgreinum. Kærði hafni samanburði þessum að því leyti sem hann samrýmist ekki þeim kröfum sem gerðar hafi verið í auglýsingunni. Þá fallist kærði ekki á sjónarmið kæranda um að aukinn reynslutími umfram kröfur skuli teljast kæranda til tekna á móti öðrum þáttum sem máli skipti og komi til mats í aðdraganda ákvörðunar um ráðningu.
  24. Í kæru gangi kærandi út frá því að við mat á hæfni skuli svo til eingöngu líta til starfstíma. Hann telji að kærandi, sem hafi starfað eða sinnt tilteknum verkefnum um lengri tíma, hljóti þar með að vera hæfari og þar með rétthærri þegar að ákvörðun um ráðningu komi. Af hálfu kærða sé þessu sjónarmiði hafnað sem einhlítri aðferð við hæfnismat og að líta verði til fleiri þátta við mat á reynslu umsækjenda. Einnig skipti máli hvernig nýr starfsmaður sé talinn geta styrkt þá liðsheild sem fyrir sé, en á viðkomandi rekstrareiningu starfi 10 sérfræðilæknar.
  25. Það sé afstaða kærða að reynsla kæranda, mæld í árum og mánuðum, sem sé umfram kröfur auglýsingarinnar eigi ekki að ryðja út eða koma kæranda til tekna gagnvart öðrum þáttum sem skipti ekki síður máli við val á milli umsækjenda, til dæmis frammistöðu í starfsviðtali, sýn á starfið, samskiptahæfileikum og þeim þáttum sem nánar séu tilgreindir á spurningablaði og matsblaði.
  26. Í kæru sé talið að doktorspróf kæranda skuli koma til mats á móti vísindavirkni þess sem ráðinn hafi verið. Þessu sjónarmiði sé hafnað sem slíku þegar af þeirri ástæðu að ekki hafi verið gerð krafa um doktorspróf í auglýsingunni.
  27. Í kæru sé vikið að því að fyrir hafi legið meðmæli vegna góðra samskiptahæfileika þess sem ráðinn hafi verið og að kærandi hafi ekki verið beðin um slík meðmæli. Því sé til að svara varðandi þennan þátt að ein af hæfniskröfum sem tilgreindar séu í auglýsingunni séu góðir samskiptahæfileikar. Umsækjendum hafi verið frjálst að leggja fram ummæli annarra eftir því sem þeim hafi þótt við eiga varðandi þennan þátt eins og aðra. Í þessu sambandi beri einnig að benda á að hjá kærða hafi þegar legið fyrir tiltekin reynsla af umsækjendum og störfum þeirra þar sem þeir hafi starfað fyrir hann áður.
  28. Í máli þessu sé það afstaða kærða að sá sem ráðinn hafi verið hafi verið hæfari til að sinna því starfi sem um ræðir. Valið hafi því ekki staðið á milli tveggja jafn hæfra umsækjenda. Þegar af þeirri ástæðu eigi ákvæði jafnréttislaga ekki við með þeim hætti sem kærandi geri ráð fyrir.
  29. Þá hafi af hálfu kæranda ekki verið sýnt fram á að það halli á konur við ráðningar í störf lækna hjá kærða. Karlar hafi á árum áður verið í meirihluta á meðal lækna og stéttin talin til karlastétta. Í seinni tíð hafi þetta gjörbreyst. Nú hafi fleiri konur en karlar útskrifast úr læknisfræði og konur því fleiri í yngri aldurshópum lækna. Kærandi hafi ekki í máli þessu sýnt fram á eða leitt að því líkum að það halli á nokkurn hátt á konur þegar horft sé til þessarar þróunar í kynjaskiptingu hjá læknum hjá kærða.
  30. Rétt sé að vísa til greinargerðar með jafnréttislögum þar sem segir meðal annars um 26. gr.: „Í 4. mgr. er það nýmæli að umsækjandi um starf getur krafist rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu annars umsækjanda af gagnstæðu kyni og skal rökstuðningur atvinnurekanda m.a. snúa að sömu þáttum og taldir eru upp í 6. mgr. ákvæðis þessa hvað varðar þann sem ráðinn var í starfið. Þar er m.a. vísað til annarra sérstakra hæfileika sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Getur atvinnurekandi því auk menntunar, starfsreynslu og sérþekkingar þess sem ráðin(n) var til starfans tilgreint sérstaklega þá hæfileika sem sá eða sú er hann réð til starfans hefur og hann telur að komi að gagni í umræddu starfi.“ Samkvæmt lokamálsgrein í tilvitnuðum texta greinargerðarinnar sé staðfest heimild ráðningarvalds til að taka auk menntunar og starfsreynslu mið af öðrum þáttum við mat á hæfni umsækjenda. Eins og áður greini hafi það verið gert í máli þessu með því að leggja áherslu á frammistöðu í starfsviðtali og þætti sem nánar séu tilgreindir á spurninga- og matsblaði.
  31. Með vísan til framanritaðs hafni kærði því alfarið að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við lög. Það sé afstaða kærða að hæfari umsækjandinn hafi verið ráðinn og að ákvörðunin hafi ekkert með kynferði umsækjenda að gera.
  32. Kærði telji kæruna tilefnislausa og krefjist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  33. Kærandi segir meðal annars að vilji kærði veita þeim möguleika sem ekki fullnægi hæfnisskilyrðum en geri það mögulega áður en til ráðningar eða upphafs starfs komi þurfi það að koma skýrt fram í auglýsingu. Í auglýsingu sé gerð hæfniskrafa um íslenskt sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og meltingarlækningum vegna starfsins. Samkvæmt upplýsingum kærða hafi sá sem starfið hlaut fengið [...] sérfræðileyfið 11. október 2017 og það íslenska 23. nóvember 2017, röskum þremur vikum eftir að auglýsing hafi gert ráð fyrir að störf hæfust. Kærandi telji því að kærði hafi ekki hnekkt fullyrðingu hennar um að sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki fullnægt hæfniskröfum vegna starfsins við lok umsóknarfrests.
  34. Fram komi hjá kærða að ítrekað hafi verið rekið á eftir þeim umsækjanda sem ráðinn hafi verið til að skila inn tilskildum gögnum. Kærandi bendi á að samkvæmt leiðbeiningum til umsækjenda vegna umsókna um sérfræði- og yfirlæknisstörf hjá kærða segi að stöðunefnd læknaráðs meti aðeins innsend gögn og að það sé á ábyrgð umsækjenda að senda inn þau gögn sem nauðsynleg séu. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá stöðunefndinni að þótt formanni hafi verið sent bréf vegna starfsins 27. september 2017 hafi nefndinni ekki borist umsóknargögnin fyrr en 23. nóvember þegar hinn umsækjandinn hafi loks sent inn íslenskt sérfræðileyfi í meltingarlækningum. Íslenska leyfið sé gefið út 14. nóvember 2017 en undirritað í raun 23. nóvember 2017. Kærandi telji það kalla á útskýringar af hálfu kærða af hverju hann hafi kosið að gefa hinum umsækjandanum tveggja mánaða svigrúm til að skila inn gögnum sem hefðu átt að fylgja með umsókninni þegar umsóknarfresti hafi lokið. Fyrir liggi að samkvæmt reglum stöðunefndar hefði hún ekki metið umsóknina fullnægjandi án gagnanna. Þá sé rétt að benda á að í umsögn stöðunefndar segi ranglega að umsóknarfrestur hafi runnið út 9. nóvember 2017.
  35. Í greinargerð kærða segi að ekkert hafi komið fram um það í áliti stöðunefndar að annar umsækjandinn væri talinn hæfari en hinn. Í reglum og leiðbeiningum fyrir stöðunefnd læknaráðs sé gert ráð fyrir stigagjöf, til dæmis fyrir rannsóknir og kennslu. Kærandi kunni ekki skýringar á því hvers vegna stöðunefndin fylgi ekki lengur þessum reglum en mótmæli því viðhorfi kærða að sökum þess að stöðunefndin hafi ekki gert það megi draga þá ályktun að annar umsækjandinn sé ekki hæfari en hinn. Samkvæmt viðmiðum um stigagjöf sýnist kæranda augljóst að hvað þessa þætti varði hefði hún fengið fleiri stig en hinn umsækjandinn. Í því sambandi mótmæli kærandi sérstaklega þeirri afstöðu kærða að doktorspróf hennar skipti engu máli þegar af þeirri ástæðu að ekki hafi verið gerð krafa um doktorspróf í auglýsingunni. Kærandi telji þetta viðhorf kærða heldur ekki standast nein rök því hingað til hafi ætíð gilt þau sjónarmið að umsækjandi með doktorsgráðu væri talinn fremri þeim sem ekki sé með doktorsgráðu.
  36. Kærði fjallar um athugasemdir kærða sem lúta að kröfum til starfsins. Í auglýsingu sé talað um breiða þekkingu og reynslu í lyflækningum og meltingarlækningum. Kærandi leyfi sér að árétta að sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið kominn með sérfræðilæknisleyfi í meltingarlækningum þegar hann hafi sótt um stöðuna og því ekki uppfyllt lágmarkskröfu til starfsins. Af því hljóti að leiða, að mati kæranda, að reynsla hans í meltingarlækningum sé verulega takmarkaðri en hennar þar sem hún hafi fengið sitt sérfræðileyfi í meltingarlækningum 2006. Kærandi hafi því 11 ára reynslu sem meltingarlæknir en sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki haft neina reynslu eftir að sérfræðinámi í þeirri sérgrein hafi lokið.
  37. Hvergi í auglýsingu hafi komið fram hvaða lágmarkskröfur kærði hafi gert. Það sé því markleysa að halda því fram að aukinn reynslutími kæranda, sem ekki sé hægt að draga í efa, umfram kröfur skipti engu máli. Til að kærði geti borið rök af þessu tagi fyrir sig hefði átt að taka fram í auglýsingu hvaða lágmarksreynslukröfur kærði gerði. Það kom ekki fram í auglýsingunni. Kærandi telji að þá beri að miða við hin almennu sjónarmið, að horft sé á starfsreynslu umsækjenda. Þegar hún sé borin saman sé augljóst að kærandi sé með verulega lengri starfsreynslu, bæði sem almennur lyflæknir og sem meltingarlæknir. Kærandi telji það ómálefnaleg rök af hálfu kærða að reyna að halda því fram að umframreynsla hennar skipti engu. Þetta viðhorf kærða telji kærandi einnig í ósamræmi við meginsjónarmið sem gilda eigi við ráðningu í störf hjá ríkinu. Kærandi leyfi sér að fullyrða að almenna reglan sé sú að bæði meiri menntun (doktorspróf) og lengri starfsreynsla teljist umsækjendum almennt til tekna.
  38. Kærandi fjallar um þau ummæli kærða að líta verði til fleiri þátta varðandi reynslu umsækjenda en starfsreynslu. Máli skipti hvernig nýr starfsmaður sé talinn geta styrkt þá liðsheild sem fyrir sé. Þeir þættir sem kærði sé hér líklega að vísa til hljóti þá að vera þeir sem raktir séu í rökstuðningi framkvæmdastjóra lyflækningasviðs. Kærandi telji þennan rökstuðning ekki standast skoðun. Varðandi ummæli um liðsheild telur kærandi að skýra þurfi sérstaklega að hvaða leyti hún hafi ekki átt að geta styrkt liðsheildina. Í greinargerð kærða segi að á rekstrareiningunni starfi fyrir 10 sérfræðilæknar. Kærandi telji rétt að bæta því við að eftir því sem hún best viti séu einungis þrír þeirra konur.
  39. Kærandi bendir á að í greinargerð kærða sé viðurkennt að reynsla hennar sé verulega meiri en hún sé umfram kröfur auglýsingarinnar. Ítrekuð sé fyrri árétting um að í auglýsingu hafi hvergi verið getið um lágmarkskröfur svo kærandi telji röksemdina ekki standast skoðun. Þá bendi kærandi á að kærði hafi ekki sýnt fram á heildstæðan samanburð á milli hennar og þess sem ráðinn hafi verið á grundvelli þeirra sjónarmiða sem kærði segir sig hafa byggt á. Umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum margsinnis bent á að slíkan samanburð verði að gera til að hann geti haft vægi við ákvörðunina. Kærandi telji því að kærði hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægjanlega og ekkert af því sem kærði reki í greinargerð sinni dugi til að staðhæfa með þeim hætti sem kærði geri að sá sem ráðinn hafi verið sé hæfari en hún.
  40. Vegna fullyrðinga kærða um að kæranda hafi verið frjálst að leggja fram umsögn annarra til stuðnings góðum samskiptahæfileikum bendir kærandi á að hún hafi bent á umsagnaraðila sem kærði hafi ekki séð ástæðu til að ræða við. Þar sem þetta hafi verið þáttur sem kærði hafi ætlað að leggja áherslu á hefði hann átt að kalla eftir því að kærandi legði fram slíka umsögn hafi hann ekki sjálfur viljað hafa samband við umsagnaraðila. Í því sambandi minni kærandi á að kærði hafi talið í lagi að bíða í tvo mánuði eftir því að sá sem ráðinn hafi verið legði fram gögn sem hafi átt að vera til staðar við lok umsóknarfrests.
  41. Kærandi telur að ummæli kærða um fyrri reynslu af umsækjendum og störfum þeirra hjá kærða feli í sér dulda aðdróttun um að reynsla af störfum hennar hjá kærða sé lakari en af störfum þess sem ráðinn hafi verið. Kærandi telji vinnubrögð af þessu tagi hjá opinberri stofnun ólíðandi, auk þess sem henni sé ómögulegt að bregðast efnislega við aðdróttunum af þessu tagi. Bent sé einnig á að sá sem ráðinn hafi verið hafi aldrei unnið sem sérfræðingur hjá kærða og liðin hafi verið tæp 10 ár frá því að hann hafi síðast unnið hjá kærða.
  42. Kærandi gerir alvarlega athugasemd við þá ályktun kærða að sá sem starfið hlaut hafi verið hæfari til að sinna starfinu og valið því ekki staðið á milli jafn hæfra umsækjenda. Kærði geri enga tilraun til að rökstyðja með hvaða hætti sá sem ráðinn hafi verið hafi verið hæfari en hún. Það hljóti að vera eðlileg krafa til kærða að hann útskýri hvernig sá sem ráðinn hafi verið hafi verið hæfari þegar svo augljós munur sé á formlegum hæfniskröfum sem í máli þessu. Kæranda sé ómögulegt að bregðast við þessari fullyrðingu eins og hún sé sett fram af hálfu kærða. Samkvæmt jafnréttislögum sé það kærða að sýna fram á að annað en kynferði hafi ráðið valinu. Kærandi sjái ekki að kærði hafi fullnægt þeirri sönnunarbyrði.
  43. Þá mótmæli kærandi því að kæra hennar sé tilefnislaus og þeirri kröfu kærða að henni verði gert að greiða málskostnað. Ekkert í greinargerð kærða renni að mati kæranda stoðum undir þá fullyrðingu að kæra hennar sé tilefnislaus. Þá þykir kæranda það alvarlegt að opinber stofnun skuli með þessum hætti setja fram málskostnaðarkröfu þar sem slík krafa sé til þess eins fallin að draga kjark úr einstaklingum í hennar stöðu til að láta reyna á rétt sinn hjá kærunefndum.

     

     

    NIÐURSTAÐA

  44. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  45. Kærði auglýsti í september 2017 lausa til umsóknar stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Í auglýsingu kom fram að starfið væri laust frá 1. nóvember 2017 en umsóknarfrestur var til og með 26. september 2017.Í auglýsingu var tilgreint að helstu verkefni væru vinna á legu-, speglunar- og göngudeild meltingarlækninga, vinna við samráðskvaðningar á aðrar deildir sjúkrahússins, þátttaka í vaktþjónustu meltingarlækna, þátttaka í kennslu læknanema, kandídata og deildarlækna, þátttaka í rannsóknarstarfi og þátttaka í almennum lyflækningum sem fram fari að hluta á bráðalyflækningadeild. Hæfniskröfur voru tilgreindar þessar: breið þekking og reynsla í almennum lyflækningum og meltingarlækningum, reynsla af meðferð sjúklinga með bólgusjúkdóma í meltingarvegi æskileg, reynsla af kennslu og loks reynsla og áhugi á klínískum rannsóknum í meltingarlækningum mikils metin. Þá var gerð krafa um góða samskiptahæfileika og íslenskt sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og meltingarlækningum. Umsækjendur voru tveir, einn karl og kærandi, sem er kona.Þrír fulltrúar kærða, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, yfirlæknir og mannauðsráðgjafi lyflækningasviðs tóku viðtöl við umsækjendur. Var karlinum boðið starfið sem hann þáði.
  46. Í reglum og leiðbeiningum fyrir stöðunefnd læknaráðs um stöðuveitingar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, sem aðgengilegar eru á heimasíðu kærða, eru settar lágmarkskröfur vegna stöðu sérfræðilækna og yfirlækna við sjúkrahúsið og tilgreindar matsreglur. Kröfur til sérfræðilæknis eru tilgreindar þannig að viðkomandi skuli vera viðurkenndur læknir í viðkomandi sérgrein á Íslandi. Umsækjandi skuli hafa sérstaka klíniska þjálfun ef eftir slíku sé leitað, skv. auglýsingu um stöðuna. Þá segir að reynsla sé metin í fjölda ára í sérfræðistöðu, að hámarki átta ár. Um matsreglur er í reglunum mælt fyrir um stigagjöf fyrir rannsóknir, kennslu, stjórnun og annað, þ.á m. klíniska þekkingu.
  47. Stöðunefnd læknaráðs fékk umsóknir umsækjendanna tveggja til meðferðar og er álit nefndarinnar dagsett 8. janúar 2018. Í álitinu er að finna samantekt úr umsóknargögnum þar sem teknar eru saman upplýsingar um nám, próf og starfsleyfi, fyrri störf, kennslu, stjórnun og félagsstörf. Í samantekt um kæranda segir að hún hafi haft sérfræðingsréttindi í almennum lyflækningum í um 15 ár og í meltingarlækningum í um 11 ár. Hún hafi starfað á sjúkrahúsi í [...] og á Íslandi og einnig sjálfstætt í sinni sérgrein. Hún hafi lokið doktorsprófi og birt vísindavinnu sína fjórum sinnum í ritrýndum tímaritum og á ráðstefnum. Hún hafi sinnt kennslu og hafi reynslu af stjórnun. Um þann er ráðinn var segir að hann hafi haft sérfræðiréttindi í almennum lyflækningum í fjögur og hálft ár og nýlega fengið sérfræðiréttindi í meltingarlækningnum, bæði í [...] og á Íslandi. Hann hafi birt tvær vísindagreinar og vinni að frekari birtingu. Hann hafi kynnt vísindavinnu á ráðstefnum og verið handleiðari deildarlækna í sínu sérnámi. Þá er tekið fram um þann er ráðinn var að reynslu af stjórnun sé ekki getið í umsókn.
  48. Enga stigagjöf er að finna í áliti stöðunefndar þrátt fyrir fyrirmæli í áðurnefndum reglum en tilgreint um báða umsækjendur að bæði séu hæf til að gegna auglýstu starfi. Þá er ekki í álitinu vikið að því að sá er ráðinn var hafði ekki fengið gefin út sérfræðileyfi í meltingarlækningum þegar umsóknarfrestur rann út 26. september 2017, hvorki í [...] né hér á landi. Því verður ekki séð að niðurstaða álits stöðunefndar um að báðir umsækjendur væru hæfir til að gegna starfinu hafi samrýmst þeim áskilnaði í reglunum og í auglýsingu um starfið að viðkomandi hefði íslenskt sérfræðileyfi í meltingarlækningum. Af því leiðir að ekki var fylgt ákvæðum reglnanna um mat á starfsreynslu þar sem miðað skyldi við árafjölda í starfi sem sérfræðilæknir.
  49. Þar sem álit stöðunefndar fól samkvæmt framansögðu í sér frávik frá reglum er um nefndina gilda og þar sem niðurstaða þess tók ekki mið af kröfu er sett var fram í auglýsingu um starfið hlaut kærði að viðhafa sérlega vandaða málsmeðferð áður en ákvörðun væri tekin um ráðningu í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Samanburður varðandi þætti sem áskildir voru í auglýsingu var óhjákvæmilegur í þessu sambandi.
  50. Kærandi lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands í júní 1996 og doktorsprófi frá Háskólanum í [...] í maí 2008. Sá er starfið hlaut lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands í júní 2003.Kærandi hafði því meiri menntun en sá er ráðinn var.
  51. Kærandi fékk útgefið sérfræðileyfi í lyflækningum í [...] í apríl 2003.Hún starfaði sem sérfræðingur í lyflækningum á sjúkrahúsi í [...] frá þeim tíma og þar til hún hlaut leyfi hér á landi sem sérfræðingur í meltingarsjúkdómum í febrúar 2006. Hún starfaði svo áfram sem sérfræðingur í meltingarsjúkdómum á sama sjúkrahúsi þar til hún sýnist hafa flutt til Íslands í byrjun árs 2007. Frá þeim tíma starfaði kærandi sem sérfræðilæknir hjá heilbrigðisstofnunum á Íslandi og í eigin rekstri. Sá er ráðinn var hlaut réttindi sem sérfræðingur í lyflækningum í maí 2013. Hann hafði starfað hjá kærða og á tveim sjúkrahúsum í [...] frá árinu 2004. Þegar metinn er sá þáttur í hæfnikröfum í auglýsingu er laut að breiðri þekkingu og reynslu í meltingarlækningum og reynslu af bólgusjúkdómum í meltingarvegi er ljóst að reynsla þess er starfið hlaut sem sérfræðilæknis var engin þar sem hann hafði ekki sérfræðiréttindi við lok umsóknarfrests, en reynsla kæranda sem sérfærðilæknis náði yfir 12 ár. Hlýtur sú reynsla kæranda að vega þyngra en reynsla umsækjendanna á sviði almennra lyflækninga en jafnvel þó sú reynsla hefði verið lögð að jöfnu við reynslu í meltingarlækningum er ljóst að reynsla kæranda sem almennur lyflæknir var nærfellt 10 árum lengri en þess er ráðinn var.
  52. Kærandi tilgreinir á ferilskrá sinni 600 stunda kennslu á tímabilinu apríl 2005 til desember 2006 við sjúkrahúsið í [...]. Hún getur einnig um aðra kennslu bæði í [...] og hjá kærða þar á meðal kennsku í sérhæfðri endurlífgun og er stjórnandi í slíku námskeiði. Sá er ráðinn var tilgreinir að hann hafi verið leiðbeinandi þriggja nemenda við sjúkrahús í [...]. Bjó kærandi því yfir meiri reynslu af kennslu en sá er ráðin var.
  53. Um rannsóknir kæranda og þess er ráðinn var er upplýst að kærandi hafði birt fjórar greinar í ritrýndum ritum en sá en ráðinn var tvær greinar. Hann tilgreindi einnig á ferilskrá að þriðja greinin væri í vinnslu og að hann tæki auk þess þátt í tiltekinni rannsókn. Kærandi tiltekur í umsókn fjölda ráðstefna og námskeiða er hún hefur setið. Sá er ráðinn var tilgeinir fjögur veggspjöld, þrjá fyrirlestra og mun færri ráðstefnur en kærandi. Telur kærunefnd að kærandi hafi tiltekið meiri virkni í rannsóknum en sá er ráðinn var.
  54. Á ferilskrá tilgreindi kærandi nokkra reynslu af stjórnun, sem umsjónardeildarlæknir, yfirlæknir, sem stjórnarmaður í félögum lækna og sem stjórnarformaður læknastofu. Sá er ráðinn var tilgreindi ekki slíka reynslu.Kærandi stóð því framar þeim er ráðinn var hvað varðar stjórnunarreynslu.
  55. Hvað varðar samskiptahæfileika, sem áskildir eru í auglýsingu, tekur kærandi fram í umsókn sinni að hafa mætti samband við tvo tilgreinda umsagnaraðila. Kærði hafði ekki samband við þá en hefur tiltekið að þegar hafi legið fyrir reynsla af báðum umsækjendum sem starfsmönnum kærða. Vísast til þess sem að neðan greinir um mat kærða á samskiptahæfileikum.
  56. Eins og áður greinir sátu báðir umsækjendur viðtöl hjá kærða. Fyrir kærunefnd hefur verið lagt skjal er hefur að geyma spurningar sem lagðar yrðu fyrir umsækjendur í viðtali og minnisatriði þeirra er viðtölin tóku fyrir hvorn umsækjanda um sig. Fyrir liggur einnig matsblað kærða vegna hvors umsækjanda um sig. Í því er í óverulegum atriðum tekið tillit til hlutrænna þátta um hæfni og reynslu umsækjenda hvað varðar þær kröfur er áskildar eru í auglýsingu en matsþættir eru þessir: sýn á starfið og viðhorf gagnvart hlutverkinu; umbótastarf, skipulag og þróun verkferla; stjórnun: hæfni og viðhorf; kennsla, vísindastarfsemi; leiðtogahæfileikar; jákvætt viðhorf og hæfni í mannlegum samskiptum. Þættir þessir endurspegla yfirskrift þeirra spurninga er tilgreindar eru á minnisblaði um viðtöl. Skjöl þessi munu vera tæmandi gögn um viðtölin. Kærði hefur jafnframt upplýst að niðurstaða um ráðningu hafi ráðist úr viðtölum við umsækjendur.
  57. Skoðun kærunefndar á minnispunktum úr viðtölum leiðir í ljós að minnispunktar þessir eru stuttaralegir og að engar færslur eru í skjali vegna viðtals við kæranda um sum þeirra atriða er rædd skyldu. Þær færslur sem fyrir liggja varpa að mati nefndarinnar ekki ljósi á að sá er ráðinn var búi yfir ríkari samskiptahæfileikum en kærandi. Við heildarmat á gögnum málsins er ekki unnt að mati kærunefndar að draga þá ályktun að kæranda hafi skort slíka hæfni og því hafi verið unnt að ganga fram hjá henni við ráðninguna á þeim forsendum.
  58. Eins og að framan greinir stendur kærandi mun framar þeim er ráðinn var hvað varðar alla þá þætti er áskildir voru í auglýsingu og fyrir liggur að sá er ráðinn var uppfyllti ekki öll skilyrði auglýsingar er umsóknarfrestur rann út. Í því ljósi og með vísan til þess hve takmarkaðra gagna nýtur við um viðtöl þau sem kærði byggir á að hafi ráðið úrslitum við ráðninguna hefur kærði að mati kærunefndar ekki sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið þeirri ákvörðun, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
  59. Með vísan til framangreinds braut kærði gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla við ráðningu í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum í febrúar 2018.
  60. Kærandi hefur ekki sett fram kröfu um að kærða verði gert að greiða sér kostnað vegna málsins. Kærði hefur aftur á móti sett fram kröfu um málskostnað úr hendi kæranda en með vísan til niðurstöðu málsins eru ekki efni til að fallast á þá kröfu.

 


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla við ráðningu í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum í febrúar 2018.

Kröfu kærða um að kæranda verði gert að greiða honum málskostnað er hafnað.

 

Erla S. Árnadóttir

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum