Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2001: Dómur frá 27. febrúar 2001.

Ár 2001, þriðjudaginn 27. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 3/2001

Vélstjórafélag Íslands f.h.

Júlíusar Hólmgeirssonar gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Norðurlands f.h.

Siglfirðings ehf.

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 13. febrúar sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Júlíusar Hólmgeirssonar, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Hafnarhvoli, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, kt. 431096-3239, Strandgötu 29, Akureyri, f.h. Siglfirðings ehf., kt. 580679-0729, Aðalgötu 34, Siglufirði.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 1. tl. 1. mgr. I. liðs b. í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að hafna Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, um greiðslu á 25.000,00 kr. á mánuði, meðan hann gegndi stöðu yfirvélstjóra á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, tímabilin 13.06.99 til 16.07.99, 20.07.99 til 11.08.99, 20.08.99 til 18.09.99 og 21.11.99 til 31.12.99.

Að viðurkennt verði að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. tl. 2. mgr. I. liðs b. í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að hafna Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, um greiðslu á 20.000,00 kr. á mánuði, meðan hann gegndi stöðu 1. vélstjóra á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, tímabilin 23.09.99 til 18.10.99 og 05.01.00 til 23.02.00.

Að viðurkennt verði að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 1. tl. 1. mgr. II. liðs í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að greiða Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, 1,50 hásetahlut í stað 1,60 hásetahluts, vegna yfirvélstjórastarfa sinna á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, í veiðiferðum sem stóðu yfir frá 13.06.99 til 16.07.99, 20.07.99 til 11.08.99, 20.08.99 til 18.09.99 og 21.11.99 til 31.12.99.

Að viðurkennt verði að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. tl. 1. mgr. II. liðs í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að greiða Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, 1.25 hásetahlut í stað 1.33 hásetahluts, vegna 1. vélstjórastarfa sinna á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, í veiðiferðum sem stóðu yfir frá 23.09.99 til 18.10.99 og 01.05.00 til 23.02.00.

Að Siglfirðingur ehf. verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Undir rekstri málsins féll stefnandi frá fjárkröfum á hendur stefnda.

 

Dómkröfur stefnda

Stefnandi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Málavextir

Að sögn stefnanda eru málsatvik sem hér segir:

Júlíus Hólmgeirsson hóf störf sem yfirvélstjóri á Svalbarða SI-302, eign Siglfirðings ehf., í apríl 1996. Hann gegndi störfum á skipinu sleitulaust síðan, ýmist sem yfir- eða 1. vélstjóri eða þar til ráðningu hans lauk að undangenginni uppsögn 23.02.00.

Í kjaradeilu sem stefnandi átti í við Landssamband íslenskra útvegsmanna, árin 1997 1998, gerði stefnandi kröfu um hækkun skiptahluts vélstjóra á fiskiskipum með aðalvélar yfir 1500 kw. Stefnandi byggði kröfur sínar meðal annars á aukinni menntun og aukinni ábyrgð vélstjóra sem gegndu störfum á skipum af þessari stærð. Stefnandi hóf verkfallsaðgerðir til að framfylgja kröfum sínum sem lauk með lagasetningu 27.03.00, sbr. lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Í fylgiskjali nr. III með lögunum var sérstakt ákvæði um úrskurðarnefnd sem komið skyldi á fót og hefði það hlutverk að skera úr um hvort koma skyldi til sérstakra greiðslna til handa vélstjórum á fiskiskipum vegna breytts verksviðs þeirra og þátttöku í tæknivæðingu fiskiskipa. Í nefndinni skyldu sitja 3 fulltrúar, einn tilnefndur af Landssambandi íslenskra útvegsmanna, einn tilnefndur af stefnanda og oddamaður, formaður nefndarinnar, skipaður af sjávarútvegsráðherra. Deiluaðilum skyldi gefinn kostur á að skila greinargerðum um málið og kynna þær fyrir nefndinni sem ætti einnig að kanna sjálfstætt þær forsendur sem aðilar legðu til grundvallar málflutningi sínum svo og hvernig þær ættu við hinar einstöku tegundir fiskiskipa. Kæmist nefndin að þeirri niðurstöðu að verksvið vélstjóra hefði breyst og álag í störfum aukist án þess að þeir hefðu sérstaklega notið þess í launum skyldi hún úrskurða hvort þeim bæri sérstakar greiðslur; hversu miklar þær skyldu verða og frá hvaða tíma þær ættu að koma til greiðslu. Úrskurður nefndarinnar yrði hluti af kjarasamningi aðila og tæki gildi frá úrskurðardegi.

Sjávarútvegsráðherra skipaði formann til nefndarstarfanna 28.07.98 en áður höfðu stefnandi og Landssamband íslenskra útvegsmanna, tilnefnt hvorn sinn fulltrúann í nefndina.

Niðurstöður meirihluta nefndarinnar lágu fyrir þ. 10.05.99, en meirihlutann skipuðu formaður nefndarinnar og fulltrúi stefnanda. Samkvæmt lið I í niðurstöðunum skyldi yfirvélstjóri á fiskiskipum með aðalvél(ar) yfir 1500 kw og undir 3000 kw, þar sem krafist er vélfræðingsmenntunar, fá auk hlutar sérstaka greiðslu á mánuði að fjárhæð 25.000,00 kr. og 1. vélstjóri 20.000,00 kr. Samkvæmt II. lið niðurstaðnanna skyldi yfirvélstjóri á vinnsluskipi, með aðalvél(ar) >1500 kw, þar sem yfirvélstjóri hefði yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans, fá 0,10 hlut til viðbótar samningsbundnum aukahlut og 1. vélstjóri 0,08 viðbótarhlut. Samkvæmt IV. lið niðurstaðnanna skyldi greiða samkvæmt úrskurðinum frá 10.05.99.

Júlíus Hólmgeirsson var ýmist yfir- eða 1. vélstjóri á Svalbarða SI-302 og taldi sig, samkvæmt framangreindum niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar, eiga að fá greiddar ýmist 20.000,00 kr. eða 25.000,00 kr. á mánuði auk hlutar. Júlíus fékk ekki greiðslur samkvæmt úrskurði þessum og innheimtutilraunir hafa ekki borið árangur. Af þeim sökum er mál þetta höfðað.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi, f.h. Júlíusar Hólmgeirssonar, kveðst byggja mál sitt á eftirfarandi málsástæðum:

Aukagreiðslur á mánuði sbr. lið I í úrskurði skv. 10. gr. fskj. nr. III með lögum nr. 10/1998: Byggt er á því að Siglfirðingi ehf., hafi borið að greiða Júlíusi Hólmgeirssyni 25.000,00 kr. á mánuði meðan hann gegndi stöðu yfirvélstjóra á Svalbarða SI-302 og 20.000,00 kr. á mánuði meðan hann gegndi stöðu 1. vélstjóra, sbr. lið I í úrskurði samkvæmt 10. gr. fskj. nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, sbr. dskj. nr. 3, en þar segir:

"Auk hlutar skulu vélstjórar á fiskiskipum þar sem krafist er vélfræðingsmenntunar fá sérstakar greiðslur sem hér segir: ... Skip með aðalvél(ar) >1500 kw og <3000 kw ... Yfirvélstjóri 25.000 krónur á mánuði ... 1. vélstjóri 20.000 krónur á mánuði."

Skilyrðin fyrir greiðslum séu þrjú. Í fyrsta lagi skal krafist vélfræðingsmenntunar til að sinna vinnu í vélarúmi, í öðru lagi skal aðalvél skipsins vera á bilinu 1501 - 2999 kw og í þriðja lagi verður viðkomandi vélstjóri að gegna stöðu yfir- eða 1. vélstjóra:

  1. Svalbarði SI-302 hafi 1618 kw aðalvél sbr. framlagt ljósrit úr sjómannaalmanaki og uppfylli því skilyrði úrskurðarins um stærð aðalvélar.
  2. Á skipi með 1501 - 1800 kw aðalvél skuli þrír menn vera í vélarúmi, tveir vélstjórar, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri ásamt vélaverði eða aðstoðarmanni í vél, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1995. Af þessum sömu lögum megi ráða að vélfræðingsmenntun sé skilyrði til að gegna stöðu yfirvélstjóra en mestu réttindi vélstjóra, annarra en vélfræðinga, sé VS I. Réttindi þau sem fylgja þeirri stöðu séu sem hér segir sbr. 5. mgr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 113/1984, sbr. 3. gr. laga nr. 60/1995: "Að loknum 18 mánaða starfstíma sem vélstjóri eða vélavörður á skipi, þar af a.m.k. 6 mánuði sem vélavörður, en 12 mánuði sem vélstjóri. Af vélstjóratímanum, vélstjóri a.m.k. 3 mánuði við 751 kw. vél og stærri. Að loknum þessum starfstíma hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með 1500 kw. vél og minni og 2. vélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð." Það sé fyrst atvinnuskírteini vélfræðings, VF II, samkvæmt 4. mgr. 5. tl. sömu laga sem veiti rétt til að gegna stöðu yfirvélstjóra á skipi af sömu stærðargráðu og Svalbarði SI-302, en í ákvæðinu segir: "Að loknum 24 mánaða starfstíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k. 12 mánuði sem 1. vélstjóri á skipi með 1501 kw. vél og stærri að fengnum rétti til að öðlast atvinnuskírteini VF III, hefur hann öðlast réttindi til að vera yfirvélstjóri á skipi með 3000 kw. vél og minni." Af lögum nr. 113/1984 megi ráða að vélfræðingsmenntunar sé krafist til vélgæslu í vélarúmi Svalbarða SI-302 og að þessu skilyrði til nefndra aukagreiðslna á mánuði sé því fullnægt.
  3. Júlíus Hólmgeirsson hafi gegnt stöðu yfirvélstjóra á Svalbarða SI-302, tímabilið 13.06.99 - 21.10.99 og tímabilið 21.11.99 - 31.12.99, sbr. framlagt lögskráningarvottorð og stöðu 1. vélstjóra tímabilið 04.01.00 - 22.02.00.

Skiptahlutur skv. grein 1.01. í kjarasamningi og II. lið í úrskurði skv. 10. gr. fskj. nr. III með lögum nr. 10/1998: Byggt er á því að Siglfirðingi ehf., hafi borið að greiða Júlíusi Hólmgeirssyni 1,60 hásetahlut meðan hann gegndi yfirvélstjórastörfum og 1,33 hásetahlut meðan hann gegndi stöðu 1. vélstjóra á Svalbarða SI-302. Samkvæmt grein 1.01. í kjarasamningi aðila beri yfirvélstjóra 1,50 hásetahlutur en 1. vélstjóra 1,33 hásetahlutur. Í niðurstöðum úrskurðarnefndar, sbr. dskj. nr. 3, segir í II. lið:

"Á vinnsluskipum með aðalvél(ar) >1500 kw þar sem yfirvélstjóri hefur yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans, skulu vélstjórar fá hlut til viðbótar samningsbundnum aukahlut sem hér segir: Yfirvélstjóri 0,10 hl. - 1. vélstjóri 0,08 hl. - 2. vélstjóri 0,05 hl."

Svalbarði SI-302 hafi 1618 kw aðalvél, sbr. framlagt ljósrit úr sjómannaalmanaki og eigi því vélstjórar skipsins rétt á auknum hásetahlut í samræmi við nefndan úrskurð. Um sé að ræða frystitogara, eða m.ö.o. vinnsluskip. Yfirvélstjóri hafi ávallt yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans á vinnsluskipum. Telja verði að þessi skylda hvíli ávallt á yfirvélstjóra skv. 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt ákvæði 53. gr. sjómannalaga beri yfirvélstjóri ábyrgð á öllum vélbúnaði skips og þar með vélbúnaði á millidekki. Ekki verði talið að yfirvélstjóra sé unnt að semja sig undan ábyrgð sinni í þessum efnum enda gegni hann stöðu sinni um borð í skjóli laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Það sé ekki á valdi einstakra vélstjóra og útgerðarmanna að semja sig einhliða undan skýlausum ákvæðum atvinnuréttindalaganna. Þá verði að telja að yfirvélstjóra sé óheimilt að semja sig undan þessum skyldum sínum ef það leiðir til lakari kjara, sbr. 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en þar segir:

"Samtök sjómanna og útgerðarmanna geta samið um betri réttindi sjómönnum til handa en leiðir af ákvæðum laga þessara. - Ákvæði laga þessara um réttindi sjómanna skulu í engu skerða fyllri rétt þeirra samkvæmt kjarasamningum."

Hér er einnig byggt á ákvæði 1. mgr. greinar 1.51. í kjarasamningi aðila, en þar segir: "Sérsamningar milli einstakra útgerðarmanna og vélstjóra/vélavarða er hljóða upp á lægri kjör en tekið er fram í samningi þessum eru ógildir." Þá beri að líta til ákvæðis 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en þar segir:

"Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir."

Af framangreindu megi telja ljóst að enginn vafi leiki á um rétt Júlíusar Hólmgeirssonar til aflahluts miðað 1,60 hásetahlut í stöðu yfirvélstjóra og 1,33 hásetahlut í stöðu 1. vélstjóra, en á þessu hefur orðið misbrestur í launauppgjörum Siglfirðings ehf.

Um aðild er tekið fram að Júlíus Hólmgeirsson sé félagsmaður stefnanda. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur reka sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekenda mál fyrir hönd félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Félög sem ekki eru aðilar sambandanna reka sjálf mál sín og félagsmanna sinna.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Í niðurlagi athugasemda í úrskurði skv. 10. gr. fskj. nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, sbr. dskj. nr. 3, segir:

"Breytingar samkvæmt þessum úrskurði verða hluti af kjarasamningi aðila, samanber 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Samningsaðilum er falið að fella úrskurð þennan inn í kjarasamning sín á milli eftir því sem þeir telja best henta."

Úrskurðardagurinn var 10.05.99 og frá þeim tíma hafi úrskurðurinn verið hluti af kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda. Þykir því rétt að höfða mál þetta fyrir Félagsdómi með þeim hætti sem hér er gert.

Stefnandi, f.h. Júlíusar Hólmgeirssonar, kveðst byggja á úrskurði samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, liðum I. og II., greinum 1.01., 1.09., 1.14., 1.15., 1.18. og 1.51. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. og 2. málslið 1. mgr. 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, 4., 9., 32. og 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, lögum nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, sbr. lög nr. 60/1985.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er eftirfarandi tekið fram um málavexti.

Kröfur stefnanda varði sex nánar tilgreindar veiðiferðir. Fyrstu tvær veiðiferðirnar sem málið varðar þ.e. frá 13. júní 1999 til 16. júlí 1999 og 20. júlí 1999 til 11. ágúst 1999, hafi skip stefnda verið á rækjuveiðum en á bolfiskveiðum í þeim fjórum veiðiferðum sem stefnandi fór með skipi stefnda frá 20. ágúst 1999 til starfsloka þann 23. febrúar 2000.

Við rækjuveiðar séu venjulega 13-15 í áhöfn en við bolfiskveiðar 20-22. Á bolfiskveiðum séu í öllum tilfellum um borð sérstakir "baadermenn" en það séu þeir kallaðir sem hafi yfirumsjón og eftirlit með vinnsluvélum skipsins.

Á rækjuveiðum séu ekki skráðir sérstakir umsjónarmenn með vinnsluvélum og ekki greiddur aukahlutur fyrir slíkt starf en ábyrgð á því að vinnslan sé í lagi sé á herðum vaktformanns hverju sinni, en þeir sem vinna í vinnslunni sjái annars almennt um rekstur vinnslulínunnar og stillingar gerist þeirra þörf. Á þeim tíma sem um ræðir í þessu máli hafi það almennt verið matsveinninn sem annaðist það að gangsetja vinnslulínuna fyrir rækju á meðan unnið var að því að hífa aflann um borð. Ástæða þessa mismunar á milli bolfiskveiða og rækjuveiða sé að vinna við vinnslulínu á rækjuveiðum eða nauðsyn stillinga og eftirlits sé mun minni en við vinnslu bolfisks.

Vélstjórar um borð í skipi stefnda, Svalbarða SI-302, hafi ekkert komið nálægt vinnslulínu skipsins og hafi engu eftirliti sinnt eða stjórnun á vinnslulínunni.

Júlíus Hólmgeirsson hafi starfað um borð í skipi stefnda á grundvelli undanþágu frá ákvæðum laga nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, en hann hafi aðeins lokið 3. stigi í vélstjóranámi og hafi verið með réttindi VS II eða vélstjóra II. Til þess að gegna þeirri stöðu sem hann gegndi um borð í skipi stefnda, án undanþágu, hefði hann þurft að hafa lokið 4. stigi vélstjóranáms og hafa hlotið atvinnuréttindin VF III eða vélfræðingur III til að vera 1. vélstjóri en VF II eða vélfræðingur II til að vera yfirvélstjóri.

Svo sem málatilbúnaður stefnanda beri með sér snúist ágreiningur aðila um rétta túlkun á niðurstöðu úrskurðarnefndar sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Úrskurður nefndarinnar liggur frammi í málinu og teljist hann vera hluti af kjarasamningi aðila.

Þau ákvæði í niðurstöðu nefndarinnar sem um sé deilt í málinu eru ákvæði I.b. og II. Hafa þau áður verið rakin. Er fyrst fjallað um ákvæði I.b að því er varðar Júlíus Hólmgeirsson.

Óumdeilt sé á milli aðila að Júlíus hafi ekki menntun eða reynslu til að kalla sig vélfræðing og að hann hafi gegnt stöðu 1. vélstjóra og yfirvélstjóra á skipi stefnda á grundvelli undanþágu frá mönnunarnefnd skv. 8. gr. laga nr. 113/1984 og hafði hann aðeins lokið 3 stigum af 4 í vélskólanum, sem nauðsynleg eru til að öðlast vélfræðingsréttindi.

Byggir stefndi á því að það ákvæði 1. greinar úrskurðarins um auknar greiðslur til handa vélfræðingum hafi byggst á því að verið væri að umbuna þeim sem lagt hafa á sig langt nám til að öðlast réttindi til að kalla sig vélfræðinga, en ekki hafi verið ætlun úrskurðarnefndarinnar að aðrir vélstjórar en þeir sem lokið hafa vélfræðingsnámi fengju greidda aukaþóknun vegna þessa starfa. Sé þetta í samræmi við kröfur VSFÍ fyrir úrskurðarnefndinni, forsendur nefndarinnar og þá staðreynd að 2. vélstjóri á skipum sem eru stærri en 1500 kw fær enga slíka aukagreiðslu samkvæmt úrskurðinum, en slíkt hefði verið eðlilegt hafi aukagreiðslan átt að fylgja stærð skipsins en ekki menntun vélstjórans.

Stefndi telur alveg skýrt af orðalagi ákvæðisins að aukagreiðsla þessi skuli aðeins koma sem viðbót við hlut, enda sé það jafnframt tekið skýrt fram í forsendum niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að greiðsla þessi sé fyrir aukna vinnu við vél skipsins meðan það sé á veiðum, en ekki hafi verið um að ræða almenna launahækkun til vélstjóra sem eigi að vera ótengd vinnu og veiðum skips.

Hafi það verið ætlun úrskurðarnefndarinnar að greiðsla þessi væri ótengd greiðslu hlutar/veiðum þá hefði það verið ákaflega auðvelt að orða ákvæðið með þeim hætti, en hafa verði í huga að allar sérstakar greiðslur til vélstjóra eru tengdar við veiðiferð og engar greiðslur séu inntar af hendi í fríum. Til samanburðar um orðalag er bent á grein 1.11. í kjarasamningi vélstjóra, sem fjallar um rétt til fastra launa, en í ákvæðinu segir:

"Auk hluta skulu vélstjórar/vélaverðir fá föst laun á mánuði skv. launatöflu."

Hafi föst laun samkvæmt grein þessari verið greidd í veiðiferðum og á biðtíma milli veiðiferða ef viðkomandi vélstjóri haldi aftur út með skipinu í næstu ferð, en ekki greidd í frítúrum eða öðrum fríum. Hafi þessi framkvæmd verið óumdeild milli samtaka sjómanna og útgerðarmanna.

Varðandi túlkun á ákvæðum greinar II í úrskurði nefndarinnar byggir stefndi á því að stefnandi uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins til þess að geta átt rétt til aukahlutar.

Ágreiningur aðila varðandi túlkun þessa ákvæðis byggir á því að stefnandi heldur því fram að vélstjórar á vinnsluskipum skuli ávallt fá greiddan umræddan aukahlut en stefndi telur að vélstjóri eigi aðeins rétt til þessa aukahlutar að uppfylltu því skilyrði að yfirvélstjóri hafi yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á vinnsluvélum í samræmi við ákvæði greinarinnar.

Er þá fjallað um ákvæði II. greinar í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar varðandi Júlíus Hólmgeirsson.

Óumdeilt sé á milli aðila að Júlíus eða yfirvélstjóra skips stefnda hafi ekki verið falin umsjón eða eftirlit með fiskvinnsluvélum stefnda og að hann hafi ekki sinnt neinum sérstökum störfum tengdum umsjón eða eftirliti með vinnsluvélum eða vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans.

Þá liggur einnig fyrir að í þeim veiðiferðum sem Júlíus fór með skipi stefnda og skipið var á bolfiskveiðum hafi verið um borð tveir "baadermenn" sem höfðu yfirumsjón með vinnsluvélum um borð og fengu greiddan aukahlut vegna þessa starfa skv. ákvæðum kjarasamnings milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem komið var á með lögum nr. 10/1998, en grein 5.24 hljóðar svo:

"5.24. Um laun skipverja sem annast fiskvinnsluvélar.

Þeir 2 hásetar sem hafa yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum, skulu hafa 1 1/6 hásetahlut hvor.

Þetta ákvæði gildir hvort heldur skipið stundar eingöngu bolfiskveiðar eða stundar bæði bolfiskveiðar og rækjuveiðar í sömu veiðiferð. Stundi skipið eingöngu rækjuveiðar greiðast þessir aukahlutir ekki."

Í þessu sambandi megi einnig hafa í huga að "baadermaður" heyrir undir vaktformann á hverri vakt, þ.e. 2. stýrimann eða bátsmann, sem heyra undir 1. stýrimann og skipstjóra, en yfirvélstjóri hafi ekkert yfir þeim að segja og ekki hafi tíðkast að vélstjórar hafi afskifti af störfum "baadermanna".

Svo sem ofangreint ákvæði beri með sér séu aðstæður hvað varðar vinnslu bolfisks og rækju ekki með sambærilegum hætti. Sé vinna við vinnsluvélar á rækjuveiðum minni en við vinnslu bolfisks, þannig að ekki hafi verið talin ástæða til að greiða sérstakan aukahlut fyrir þá vinnu við rækjuveiðar. Á rækjuveiðum sé það hlutverk vaktformanna, bátsmanns og 2. stýrimanns, að sjá til þess að vinnsluvélar starfi rétt og einnig vélbúnaður tengdur geymslu aflans, en vaktformaður sé yfir vinnslunni á veiðum. Það sé einnig á herðum vaktformanna að sjá til þess að búnaður þessi sé í lagi er haldið sé til veiða. Í þeim rækjuveiðiferðum sem hér um ræðir hafi matsveinninn séð um að gangsetja vinnsluna hverju sinni á meðan aðrir skipverjar unnu að því að koma aflanum um borð. Vélstjórar á skipi stefnda hafi þar hvergi komið nærri.

Almennt viðhald vinnsluvéla og vélbúnaðar tengdum frystingu og geymslu afla sé á hendi þjónustuaðila í landi, sem og viðgerðir. Umsjón með því að nauðsynlegt viðhald og viðgerðir séu framkvæmdar á vinnsluvélum sé á hendi "baadermanna" og þeir bera ábyrgð á því að vinnuvélar séu í fullkomnu lagi þegar haldið sé til veiða, en á rækjuveiðum sé það vaktformanna og skipstjóra að huga að því að vinnslan sé í góðu lagi áður en haldið sé til veiða.

Það sé aðeins í undantekningartilfellum sem vélstjórar komi að viðgerð á vinnsluvélum, en það sé í þeim tilfellum sem eitthvað brotnar eða fari úr lagi þannig að nauðsynlegt sé að framkvæma bráðabirgðaviðgerð með logsuðu eða samsetningu vélahluta.

Stefndi telur að það skipti ekki máli við túlkun á II. grein úrskurðarins hver ábyrgð yfirvélstjóra samkvæmt 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 verði talin vera, enda sé með úrskurðinum ekki með neinum hætti verið að breyta þeirri ábyrgð eða tengja greiðslur við þá ábyrgð. Þvert á móti sé réttur til greiðslu skýrlega tengdur við vinnuframlag.

Þá verði að hafa í huga að ákvæði 53. gr. sjómannalaga um starfsskyldur og ábyrgð yfirvélstjóra séu að stofni til frá fyrrihluta síðustu aldar eða löngu fyrir tíma vinnsluskipa og því taki þau ekki efnislega afstöðu til þess hvort yfirvélstjóri beri ábyrgð á sérstökum vélum til vinnslu og geymslu á afla um borð. Raunin hafi ekki orðið sú að vélstjórar hafi tekið ábyrgð á rekstri vinnsluvéla og af hálfu útgerða hafi ekki verið litið svo á að vélar þessar falli undir starfs- eða ábyrgðarsvið vélstjóra. Sama niðurstaða hafi verið hjá samtökum sjómanna, enda hafi fljótlega verið samið um það í kjarasamningum þessara aðila að greiða skyldi þeim aðilum um borð, sem hafa yfirumsjón með vinnsluvélum og bera ábyrgð á rekstri þeirra, sérstakan aukahlut, sbr. áðurnefnda grein 5.24 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands, en einnig megi vísa til greinar 5.35 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Í þessu sambandi er einnig bent á grein 5.35 í kjarasamningi VSFÍ. Það ákvæði nái til báta sem frysta afla um borð, ekki vinnsluskipa. Sé það í engu samræmi við þá fullyrðingu að vélstjórar skuli sjálfkrafa teljast hafa yfirumsjón með vinnsluvélum um borð.

Ofangreint fyrirkomulag við ákvörðun á því hver skipverja eða yfirmanna skuli bera ábyrgð á vélum sem fluttar eru um borð í fiskiskip til vinnslu á afla, og ekki hafa með neinum hætti með rekstur eða siglingu skipsins að gera, sé í fullkomnu samræmi við ákvæði 56. gr. sjómannalaga, enda hljóti ávallt endanleg ákvörðun um það hver skuli bera ábyrgð á rekstri þessara véla að vera á hendi útgerðar og skipstjóra, sem að sjálfsögðu sé heimilt að fela öðrum en yfirvélstjóra þessa ábyrgð og þá jafnframt að leysa hann undan ábyrgðinni verði talið að slík ábyrgð felist í 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Þegar komi að skýringu á ákvæðum úrskurðarins verði einnig að hafa ofangreind kjarasamningsákvæði í huga og skýra II. grein til samræmis við þau, enda hafi með úrskurðinum aðeins verið að veita vélstjórum sambærilegan rétt til launa fyrir yfirumsjón með fiskvinnsluvélum og stéttarfélög annarra skipverja höfðu samið um fyrir hönd sinna félagsmanna. Við túlkun á ákvæðinu verði að gæta að samningsbundnum rétti annarra sjómanna og hafa í huga að með því að fallast á kröfur stefnanda sé verið að viðurkenna einkarétt vélstjóra til að hafa yfirumsjón með vinnsluvélunum. Með því væri ekki aðeins brotið gegn rétti annarra skipverja heldur einnig stjórnunarrétti útgerðarmanna og rétti hans til að útfæra starfsskyldur og ábyrgð yfirmanna samkvæmt 56. gr. sjómannalaga.

Stefndi byggir einnig á því að túlka verði ákvæði úrskurðarnefndarinnar þröngt, enda felist í þeim álögur á útgerðarmenn umfram umsamin kjör og hafi fulltrúi útgerðarinnar ekki tekið þátt í að móta orðalag þeirra eða efni. Formaður VSFÍ hafði hins vegar með samningu textans að gera og hafði áhrif á efni hans. Á því verði að byggja að allar nauðsynlegar upplýsingar um verksvið vélstjóra um borð í fiskiskipum og lögbundin ábyrgð þeirra á vélbúnaði skips eftir 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, hafi legið fyrir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp og að efni hans og orðalag taki mið af því.

Þá telur stefndi að dómurinn hafi ekki heimild til að túlka eða skera úr um mörk ábyrgðar vélstjóra eftir 53. gr. sjómannalaga eða víkja ákvæðum kjarasamnings til hliðar með vísan til þess að þau stangist á við ákvæði sjómannalaganna. Telur stefndi að slíkt falli ekki undir verksvið Félagsdóms samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938.

Að lokum byggir stefndi á því, verði talið að skilyrði þau sem ákvæði II. greinar úrskurðarins setja um greiðslu á aukahlut séu ólögmæt, verði að líta svo á að ákvæðið í heild sinni sé ógilt og þá niður fallið.

 

Niðurstaða

Krafa stefnanda í máli þessu lýtur að túlkun á úrskurði sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið var á fót til að skera úr um hvort koma skyldi til sérstakra greiðslna til handa vélstjórum á fiskiskipum vegna breytts verksviðs þeirra og þátttöku í tæknivæðingu fiskiskipa, sbr. ákvæði um hlutverk nefndarinnar í 1. tölulið 10. gr. í fylgiskjali nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Lög þessi voru sett til að binda endi á vinnustöðvanir á fiskiskipaflotanum, þar á meðal verkfall Vélstjórafélags Íslands sem hófst 15. mars 1998 og lauk 28. sama mánaðar, er lögin tóku gildi. Með lögum þessum voru efnisákvæði miðlunartillagna ríkissáttasemjara til lausnar kjaradeilunni lögfest, sbr. fylgiskjöl I-IV með lögunum sem eru hluti af þeim eins og mælt er fyrir um í 1. gr. laganna. Samkvæmt 5. tl. 10. gr. fylgiskjals III er úrskurður nefndarinnar hluti af kjarasamningi aðila. Falla því ágreiningsefni í máli þessu undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ágreiningslaust er með aðilum að Júlíus Hólmgeirsson gegndi stöðu yfirvélstjóra um borð í Svalbarða SI-302, skipi stefnda, Siglfirðings ehf., í fjórum veiðiferðum á tímabilinu 13. júní 1999 til 31. desember 1999 og stöðu 1. vélstjóra um borð í sama skipi í tveimur veiðiferðum á tímabilinu 23. september 1999 til 23. febrúar 2000. Ekki er heldur um það deilt að Júlíus hafði ekki tilskilin atvinnuréttindi skv. 5. tl. 3. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum til að gegna stöðu 1. vélstjóra eða yfirvélstjóra í þessum veiðferðum. Hafði honum verið veitt undanþága til þessara starfa á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem veitt er heimild til að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna um vélstjórnarréttindi, tímabundna undanþágu til starfa á tilteknu skipi, ef skortur er á mönnum með nægileg vélstjórnarréttindi. Ekki er heldur ágreiningur um að Svalbarði SI-302 er fiskiskip þar sem krafist er vélfræðingsmenntunar af yfirvélstjóra og 1. vélstjóra, sbr. 9. gr. fyrrgreindra laga.

Krafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar lýtur hún að því ágreiningsefni að Júlíusi Hólmgeirssyni hafi borið að fá greitt úr hendi stefnda, Siglfirðings ehf., 25.000 krónur á mánuði meðan hann gegndi stöðu yfirvélstjóra um borð í Svalbarða SI-302 og 20.000 krónur á mánuði er hann gegndi stöðu 1. vélstjóra eins og fyrir er mælt í lið I.b í niðurstöðum fyrrnefnds úrskurðar. Hins vegar lýtur krafan að því hvort Júlíusi hafi borið að fá 0,10 aukahlut til viðbótar samningsbundnum hlut, eða samtals 1,60 hásetahlut, meðan hann gegndi stöðu yfirvélstjóra og 0,08 aukahlut til viðbótar samningsbundnum hlut, eða samtals 1,33 hásetahlut, er hann gegndi stöðu 1. vélstjóra, sbr. lið II í niðurstöðum úrskurðarins.

Samkvæmt 1. tölulið 10. gr. fylgiskjals III með lögum nr. 10/1998 skyldi hlutverk umræddrar úrskurðarnefndar vera " & að skera úr um hvort koma skuli til sérstakra greiðslna til handa vélstjórum á fiskiskipum vegna breytts verksviðs þeirra og þátttöku í tæknivæðingu fiskiskipa." Þá segir svo í 4. tl. 10. gr. fylgiskjals þessa: "Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að verksvið vélstjóra hafi breyst og álag í störfum aukist án þess að þeir hafi sérstaklega notið þess í launum skal hún úrskurða hvort þeim beri sérstakar greiðslur og ef svo er hversu miklar þær skulu vera og frá hvaða tíma þær eiga að koma til greiðslu." Í þessum fyrirmælum, sem höfðu lagagildi, var ekki áskilið að hinar sérstöku greiðslur, sem nefndin skyldi úrskurða um, ef til þess kæmi, skyldu vera bundnar við tiltekna menntun. Samkvæmt gögnum málsins fékk Júlíus Hólmgeirsson aflahlut sinn samkvæmt I. kafla kjarasamnings aðila greiddan í samræmi við starf sitt en ekki menntun meðan hann gegndi starfi yfirvélstjóra og 1. vélstjóra. Í niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar undir I segir svo: "Auk hlutar skulu vélstjórar á fiskiskipum þar sem krafist er vélfræðingsmenntunar fá sértakar greiðslur sem hér segir:

"Þegar orðalag úrskurðarins er virt, m.a. í ljósi fyrirmæla í nefndum töluliðum fylgiskjals III með lögum nr. 10/1998 og jafnframt er litið til lögmæltra undanþága samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984, þykja ekki efni til að túlka úrskurðinn með þeim hætti sem stefndi heldur fram. Samkvæmt framansögðu eru viðurkenningarkröfur samkvæmt fyrstu og annarri málsgrein í dómkröfum stefnanda teknar til greina.

Ákvæði liðar II í niðurstöðum úrskurðarins verður að skýra með hliðsjón af sjálfu orðalagi hans og sérstökum athugasemdum í niðurlagi hans. Í þeim athugasemdum segir að með vinnsluskipi í lið II sé átt við "hefðbundna skilgreiningu þess orðs samkvæmt almennri málvenju og í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna. Einungis er átt við vinnsluskip þar sem yfirvélstjóri hefur yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans."

Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en sú að hlutur sá sem vélstjórum ber til viðbótar samningsbundnum aukahlut komi einungis til greiðslu í þeim tilvikum, þegar yfirvélstjóri hefur tekið á sig aukið vinnuframlag í því skyni að hafa yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans um borð í skipi. Þetta er á hinn bóginn ekki algilt og verður að skoða í hverju einstöku tilviki hvort yfirvélstjóri hafi þessi störf með höndum. Þá verður ekki talið að ákvæði 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 um ábyrgð yfirvélstjóra séu þessari niðurstöðu til fyrirstöðu. Stefndi hefur eindregið mótmælt því að störf þessi hafi verið unnin af yfirvélstjóra um borð í Svalbarða SI-302. Verður því að telja það ósannað. Ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda samkvæmt 3. og 4. mgr. kröfugerðar hans.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 1. tl. 1. mgr. I. liðs b í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að hafna Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, um greiðslu á 25.000,00 kr. á mánuði, meðan hann gegndi stöðu yfirvélstjóra á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, tímabilin 13.06.99 til 16.07.99, 20.07.99 til 11.08.99, 20.08.99 til 18.09.99 og 21.11.99 til 31.12.99.

Viðurkennt er að Siglfirðingur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 2. tl. 2. mgr. I. liðs b í niðurstöðum úrskurðar samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, með því að hafna Júlíusi Hólmgeirssyni, kt. 070150-3449, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði, um greiðslu á 20.000,00 kr. á mánuði, meðan hann gegndi stöðu 1. vélstjóra á Svalbarða SI-302, skipaskrárnúmer 1352, tímabilin 23.09.99 til 18.10.99 og 05.01.00 til 23.02.00.

Stefndi er sýkn af dómkröfum stefnanda samkvæmt 3. og 4. mgr. kröfugerðar hans.

Málskostnaður fellur niður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum