Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 13/2000: Dómur frá 12. desember 2000.

Ár 2000, þriðjudaginn 12. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 13/2000.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Flugvirkjafélags Íslands vegna

Sverris Erlingssonar

(Andri Árnason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

Landhelgisgæslu Íslands

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 27. nóvember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, fyrir hönd Flugvirkjafélags Íslands, kt. 550169-0109, Borgartúni 22, Reykjavík, vegna Sverris Erlingssonar, flugvirkja, kt. 060670-3239, Fagrahvammi 2a, Hafnarfirði.

Stefndi er íslenska ríkið og Landhelgisgæsla Íslands, kt. 710169-5869, Seljavegi 32, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda Að viðurkennt verði með dómi að Sverrir Erlingsson, flugvirki, hafi öðlast 9 klukkustunda frítökurétt vegna vinnu sinnar hjá stefnda frá kl. 21.00, hinn 15. apríl 2000, til kl. 03.00, hinn 16. apríl 2000.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

  

Dómkröfur stefnda Aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

  

Málsatvik

Samkvæmt lögum nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands er hún ríkisstofnun. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar þ.á.m. Sverrir Erlingsson flugvirki, eru ríkisstarfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Var Sverrir ráðinn með ráðningarsamningi, dags. 17. mars 1999 og hefur unnið samkvæmt honum frá 8. mars 1999.

Í 9. gr. laga nr. 25/1967 segir að laun og kjör þeirra starfsmanna Landhelgisgæslunnar, sem vinna að staðaldri á landi, skuli vera samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða stéttarfélagssamningum viðkomandi starfsmanna. Um kaup og kjör flugvirkja, sem starfa hjá Landhelgisgæslunni, fer samkvæmt kjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands (FVFÍ) og Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) vegna Flugleiða hf., þ.e. að öðru leyti en því sem greinir í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sbr. dóm Félagsdóms í málinu nr. 1/1995.

Nánari atvik eru þau að Sverrir Erlingsson, flugvirki hjá stefnda, Landhelgisgæslunni, var kallaður til vinnu frá kl. 18.00 laugardaginn 15. apríl 2000 til 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 16. s.m. Sverrir hafði, þegar atvik gerðust, verið á bakvakt sem hófst kl. 16.00 á mánudeginum í byrjun umræddrar viku þ.e. 10. apríl. Í málinu er um það deilt hvort Sverrir Erlingsson hafi vegna þessarar vinnu sinnar öðlast frítökurétt í samræmi við grein 04.-8.3. sbr. 04.-8.4. samkvæmt kjarasamningi flugvirkja.

Með bréfi trúnaðarmanns flugvirkja á vinnustað til Landhelgisgæslunnar, dags. 25. apríl sl., var óskað eftir afstöðu stofnunarinnar varðandi frítökurétt Sverris vegna greindrar vinnu hans þar sem stofnunin var innt eftir því hvort hún ætlaði að virða þessi ákvæði kjarasamnings.

Með bréfi Flugvirkjafélag Íslands til Landhelgisgæslunnar, dags. 11. ágúst sl., var þess krafist að Sverri yrði veittur réttur til frítöku vegna vinnu hans til kl. 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 16. apríl sl., samtals 9 klst. í samræmi við greind kjarasamningsákvæði.

Þar sem ekkert svar hafi borist frá Landhelgisgæslunni um þetta telur stefnandi sig tilneyddan til að leita til Félagsdóms um ágreining varðandi túlkun á tilgreindum ákvæðum kjarasamnings.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á ákvæðum kjarasamnings stefnanda og ríkissjóðs f.h. Landhelgisgæslunnar, dags. 16. maí 1997, sem og kjarasamningi stefnanda og VSÍ f.h. Flugleiða, dags. 29. janúar 1998. En um kaup og kjör að öðru leyti en greinir í kjarasamningi aðila sjálfra, hafi á umræddum tíma farið eftir síðarnefndum kjarasamningi, samanber 1. gr. kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Flugvirkjafélagsins vegna félagsmanna þess í starfi hjá Landhelgisgæslunni og dóm Félagsdóms í málinu nr. 1/1995: Alþýðusamband Íslands f.h. Flugvirkjafélags Íslands gegn fjármálaráðherra f.h. ríkisins vegna Landhelgisgæslu Íslands.

Samkvæmt kjarasamningi flugvirkja, grein 04.-8.3. sbr. 04.-8.4., hafi Sverrir Erlingsson átt rétt til 11 tíma hvíldar fyrir venjubundið upphaf næsta vinnudags þar sem unnið hafi verið á undan frídegi eða helgi. Þar sem upphaf venjulegs vinnudags sé kl. 08.00 hafi hann aðeins náð 5 tíma hvíld miðað við upphaf venjulegs vinnudags, sem þýði að hann eigi rétt á 1,5 tíma í frítökurétt fyrir hvern tíma sem hvíldin skerðist. Vegna vinnu sinnar frá kl. 21.00 til kl. 03.00 hafi Sverrir þar með áunnið sér rétt til 9 klukkustunda í frítökurétt, þ.e. 6 x 1,5 klst. = 9 klst.

Stefnandi fullyrðir að framkvæmd kjarasamninga gagnvart öðrum viðsemjendum en stefnda, aðallega Flugleiðum hf., hafi verið í samræmi við þetta.

Í gr. 04.-8.3. í kjarasamningi stefnanda og VSÍ vegna Flugleiða hf. frá 29. janúar 1998, sbr. 9. gr. kjarasamnings sömu aðila dags. 16. apríl 1997, sé kveðið á um að sé starfsmönnum gert að mæta til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld sé náð, sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt sé að greiða út ½ klst. af frítökuréttinum, ef starfsmaður óski þess. Uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli og vera veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi Landhelgisgæslunnar í samráði við starfsmenn, enda sé uppsafnaður frítökuréttur a.m.k. fjórar klukkustundir, sbr. grein 04.-8.5.

Í 1. mgr. gr. 04.-8.4., sbr. 9. gr. kjarasamnings aðila frá 16. apríl 1997, sé kveðið á um að ef starfsmaður vinni það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda lágmarkshvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, þ.e. að öllu jöfnu kl. 08.00, skuli fara með það á sama hátt og í grein 04.-8.3. og að framan er lýst. Skapist þá frítökuréttur, 1½ klst., eins og áður greinir.

Stefnandi kveður að af hálfu stefnda, Landhelgisgæslu Íslands, hafi verið litið svo á, að umræddur frítökuréttur skapaðist ekki, þegar unnið væri aðfaranótt sunnudags. Af því leiði, að nái starfsmaður ekki 11 klst. hvíld fyrir kl. 08.00 á sunnudegi, skapist ekki frítökuréttur. Hins vegar hafi þeir greitt út frítökurétt athugasemdalaust ef unnið væri á undan laugardegi. Af hálfu stefnanda sé þessum skilningi stefndu alfarið mótmælt. Skýlaust sé kveðið á um það í tilvitnuðum ákvæðum kjarasamnings FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 1. gr. kjarasamnings FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, að frítökuréttur skapist þegar unnið sé á "á undan frídegi eða helgi" og sé sunnudagur þar ekki undanskilinn. Ekki verði því séð að túlkun stefndu eigi sér stoð í greindum ákvæðum kjarasamnings aðila, heldur gangi hún þvert á móti gegn almennri túlkun samningsins. Þá bendir stefnandi á að í grein 04.-8.7 kjarasamnings FVFÍ og VSÍ, sem eigi við um ágreining aðila, segi að eftir því sem því verði við komið skuli vikulegur frídagur vera á sunnudegi og skuli þá allir sem starfa hjá Landhelgisgæslunni eiga frí þann dag. Sé grein 04.-8.4. skýrð með hliðsjón af þessari grein staðfesti það að "frídagur", samkvæmt greininni sé í flestum tilfellum sunnudagur.

Ekki verði fallist á að máli skipti að Sverrir hafi notið bakvaktargreiðslna, enda raski þær í engu öðrum greiðslum samkvæmt kjarasamningi. Tilgangurinn með þessum ákvæðum kjarasamningsins sé sá að bæta mönnum upp skerðingu á lögmæltum hvíldartíma, sem og frítíma, og þá röskun sem af því hljótist.

Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á kjarasamningi aðila frá 16. maí 1997, aðallega 1. gr., sbr. grein 1.1. í kjarasamningi aðila frá 1. ágúst 1995, sem og kjarasamningi stefnanda og VSÍ, dags. 29. janúar 1998, sérstaklega gr. 04.-8.3., 1. mgr. gr. 04.-8.4., sbr. gr. 04.-8.5. og gr. 04.-8.7., sbr. og 9. gr. kjarasamnings sömu aðila frá 16. apríl 1997.

Stefnandi vísar einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar og til hliðsjónar til dóms Félagsdóms sem uppkveðinn var þann 27. apríl 1995, í máli nr. 1/1995. Þá er vísað til laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, IV. kafla um Félagsdóm, þ.m.t. 44. gr. að því er varðar lögsögu dómsins til þessa máls.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er tekið fram að umræddur samningur FVFÍ og VSÍ sé í raun ekki almennur kjarasamningur þar sem hann takmarkast við einn vinnustað, þ.e. Flugleiðir hf. Frá því að dómur Félagsdóms í málinu nr. 1/1995 hafi gengið hafi FVFÍ gert fleiri slíka vinnustaðasamninga. Hafi félagið samið beint við Atlanta ehf. annars vegar og Íslandsflug hins vegar. Þá hafi FVFÍ samið við VSÍ vegna Flugfélags Íslands.

Í máli þessu sé deilt um grein 04.-8.3. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ er fjalli meðal annars um svonefndan frítökurétt. Hafi þau ákvæði komið til með 9. gr. kjarasamnings VSÍ og FVFÍ 16. apríl 1997, sbr. 1. gr. kjarasamnings FVFÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 16. maí 1997. Með þeirri grein hafi þágildandi ákvæði 04.-8. um lágmarkshvíld í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ verið breytt. Séu nefnd ákvæði óbreytt í núgildandi kjarasamningi FVFÍ og Samtaka atvinnulífsins frá 27. apríl 2000, sbr. kjarasamning FVFÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 8. júní 2000. Til einföldunar vísi stefndu því til efnisgreina í grein 04.-8. eins og þeim hafi verið breytt með 9. gr. kjarasamningis VSÍ og FVFÍ. Við úrlausn ágreiningsins skipti mestu nefndur samningur frá 16. maí 1997 og enn fremur skipti máli síðasti heildarkjarasamningur aðila frá 19. september 1989, einkum 6. kafli samningsins, er fjalli um bakvaktir, en þau ákvæði hafi gilt á þeim tíma sem kröfur stefnanda taki til enda hefði kjarasamningur aðila ítrekað verið framlengdur.

Hjá Landhelgisgæslunni séu að jafnaði tíu starfsmenn sem sinni viðgerðum og viðhaldi á þyrlum og öðrum flugvélakosti Landhelgisgæslunnar og fái greidd laun samkvæmt framangreindum kjarasamningum FVFÍ. Þeir séu allir ráðnir til starfa í dagvinnu, svo sem ráðningarsamningur Sverris beri með sér. Nokkrir þeirra gangi bakvaktir, nú fjórir tilteknir starfsmenn úr þeirra hópi. Að lokinni sérstakri þjálfun sé Sverrir nú einn þeirra sem undir kjarasamninginn falla og gangi einnig bakvaktir til viðbótar við dagvinnuna. Bakvaktirnar séu gengnar eina viku í senn hjá hverjum, þ.e. eftir að dagvinnu ljúki frá mánudegi þar til dagvinna hefjist næsta mánudag. Flugvirkjarnir, sem taki bakvaktir, séu jafnframt áhafnarmeðlimir í þyrluflugi á vegum Landhelgisgæslunnar og sé einn flugvirki ávallt um borð. Starfsskyldur þessara flugvirkja séu tvenns konar. Annars vegar felist þær í viðgerðum og viðhaldi á þyrlum og öðrum flugvélakosti og hins vegar í spilvinnu um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Sinni þeir þyrluvinnunni eftir því sem atvikist hverju sinni, þ.e. ýmist í dagvinnu eða útköllum af bakvöktum. Hjá flugvirkjum Flugleiða hf., er taka laun sín eftir kjarasamningi FVFÍ og Samtaka atvinnulífsins, sé vinnufyrirkomulagið annað þar sem unnið sé á vöktum, en bakvaktir tíðkist ekki. Stefndu byggi á því að ákvæði um hvíldartíma og vinnutíma í kjarasamningum verði að skoða í því ljósi að vinnufyrirkomulag sé ekki hið sama milli vinnustaða.

Ákvæði 9. gr. í samningi frá 16. maí 1997 hafi komið til viðbótar vinnutímasamningi stefnanda, ASÍ og VSÍ um ákveðna þætti er varði skipulag vinnutíma, dags. 23. janúar 1997. Með vinnutímasamningnum hafi aðilar hrint í framkvæmd vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, þ.e. tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. nóvember 1993. Sé tilskipunin hluti EES samningsins samkvæmt samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar, dags. 28. júní 1996. Í tilskipuninni hafi falist ýmis nýmæli, einkum að því er varðar skilgreiningar á daglegri og vikulegri lágmarkshvíld. Megintilgangurinn með nefndum ákvæðum sé að tryggja starfsmönnum ákveðna lágmarkshvíld. Sé tekið fram að starfsmaður skuli fá a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Að auki sé gert ráð fyrir að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist daglegum hvíldartíma, sbr. grein 4.-8.1 og 4.-8.6. Með frídegi í grein 4.-8.4. hljóti að vera átt við hinn vikulega frídag í skilningi greinar 4.-8.6.

Í þessu sambandi árétta stefndu að það sé ekki sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að þessi frídagur skuli tengjast helgi. Við tilteknar aðstæður sé heimilt að víkja frá þessum meginreglum um daglega og vikulega lágmarkshvíld, þ.e. jafnan með því að fresta hvíldinni þar til síðar. Í þeim tilvikum, sem daglegri lágmarkshvíld sé frestað vegna þess að viðkomandi sé beðinn sérstaklega að mæta aftur til vinnu áður en daglegri lágmarkshvíld sé náð, skapist frítökuréttur, þ.e. 1,5 klukkustund í dagvinnu safnast upp fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist, sbr. ákvæði 04.-8.3. í 9. gr. Sams konar frítökuréttur skapist einnig þegar unnið sé það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, sbr. 1. málslið 1. mgr. ákvæðis 4.8.4. í 9. gr.

Svo sem áður sé lýst sé Sverrir ráðinn í dagvinnu, en sé einn þeirra sem gengist hafi undir það að vera á bakvöktum. Hafi sú vinnutilhögun verið með samkomulagi hans og Landhelgisgæslunnar. Alla þessa viku og fram til kl. 08.00 að morgni mánudagsins 17. apríl hafi Sverrir Erlingsson verið á bakvakt, svo sem framlagður vinnuseðill beri með sér. Ljóst sé að áður en útkallið hófst kl. 18.00 hinn 15. apríl síðastliðinn hafi Sverrir náð meira en 11 klst. samfelldri hvíld, þótt hann væri á bakvakt, en hann hafi lokið vinnu sinni kl. 17.00 föstudaginn 14. apríl. Eftir að henni var lokið kl. 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 16. apríl og uns hann mætti til starfa á mánudegi hafi hann fengið meira en 11 tíma hvíld.

Ákvæði 4.-8.3. í nefndri 9. gr. eigi aðeins við þegar aðstæður geri það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma. Í engu hafi verið vikið frá daglegum hvíldartíma Sverris Erlingssonar og hann ekki beðinn sérstaklega að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld hafi verið náð í skilningi þess ákvæðis. Ákvæði þetta geti því með engu móti átt við til að styðja kröfur stefnanda í málinu.

Ekki sé rétt að skýra ákvæðið án þess að líta til samhengis þess við önnur ákvæði í grein 04.-8., einkum greinar 4.-8.1. og 4.-8.2. Þá verði að skýra ákvæðið með hliðsjón af því að vinna flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni fari fram á dagvinnutíma, mánudaga til föstudaga þar sem komið hafi verið á ákveðnu bakvaktarfyrirkomulagi. Tilvitnuð ákvæði kjarasamningsins taki á hinn bóginn fyrst og fremst mið af vaktavinnu. Sé það t.d. ljóst af niðurlagi greinar 4.-8.4. í kjarasamningi aðila.

Orðin "sérstakar aðstæður ..." í grein 4.-8.2. verði að skýra svo að átt sé við undantekningartilvik og sama skýring verði augljóslega ráðin af sömu orðum í grein 4.-8.3., þ.e. að verið sé að bjarga verðmætum. Þá verði einnig að leggja áherslu á orðin "sérstakar beiðnir". Samkvæmt orðanna hljóðan verði þau vart skýrð á annan hátt en að sérstök atvik leiði til þess að óskað sé eftir vinnuframlagi starfsmannsins. Vinna á grundvelli fyrir fram ákveðinna bakvakta geti ekki fallið þar undir. Þá eigi framangreind ákvæði eingöngu við þegar starfsmaður vinni það lengi á undan næsta vinnudegi að hann nái ekki 11 klst. lágmarkshvíld miðað við upphaf næsta vinnudags, enda felist þá í vinnutilhögun að lágmarkshvíld sé frestað.

Sem fyrr segir hafi Sverrir Erlingsson verið á bakvakt sem hófst eftir að dagvinnu lauk þann 10. apríl 2000. Bakvaktinni hafi síðan lokið þegar dagvinna hófst að morgni mánudagsins 17. apríl 2000. Um bakvaktir sé fjallað í 6. kafla kjarasamnings stefnda, fjármálaráðherra, við FVFÍ vegna starfa flugvirkja frá 19. september 1989. Segi þar í grein 6.2 að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en sé reiðubúinn að sinna útkalli og að bakvakt hefjist þegar dagvinnu ljúki og ljúki þegar dagvinna hefst. Í bakvakt felist því ákveðin viðveruskylda, sem einnig mætti lýsa sem skilyrtri vinnuskyldu, þ.e. honum sé skylt að vinna ef á hann sé kallað. Fyrir þessa skilyrtu vinnuskyldu hafi Sverrir átt rétt á að fá greitt og hafi hann fengið bakvaktargreiðslur og einnig yfirvinnukaup fyrir unnar stundir. Leiði af því að hann eigi ekki frí frá störfum á meðan bakvakt standi. Af þessari ástæðu geti vinna á undan eða á bakvaktarhelgi ekki fallið undir ákvæði 4.-8.4 þar sem sú helgi sé ekki fríhelgi í tilviki þess sem standi bakvakt. Hvorki laugardagurinn 15. né sunnudagurinn 16. apríl hafi því getað verið frídagur eða helgi í skilningi ákvæðisins þegar svo háttaði að Sverrir var á bakvakt. Með sömu rökum geti vinna á undan heilum bakvaktardegi, þ.e. þegar dagvinnufólk á frí í miðri viku, ekki fallið undir fyrrnefnt ákvæði.

Frítökuréttur samkvæmt ákvæði 4.-8.3. eigi eingöngu við um þau tilvik þegar viðkomandi vinni það lengi á undan næsta vinnudegi að hann nái ekki 11 klst. lágmarkshvíld, enda hafi hann verið sérstaklega beðinn um að fresta lágmarkshvíldinni. Frítökuréttur samkvæmt ákvæði 4.-8.4. eigi hins vegar eingöngu við um þau tilvik þegar viðkomandi vinni það lengi á undan vikulegum frídegi eða fríhelgi að hann nái ekki 11 klst. hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags.

Með orðalaginu frídegi eða helgi í grein 4.-8.4. sé í öllum tilvikum átt við þá aðstöðu þegar um eiginlegt frí sé að ræða, hvort sem það sé frídagur eða helgi, laugardagur eða sunnudagur, en almennt sé gert ráð fyrir að vikulegur frídagur skuli vera á sunnudegi eftir því sem við verði komið. Ákvæðin geti eftir orðan sinni ekki átt við þegar viðkomandi sé ekki í fríi, þann tíma sem annars hefði skoðast sem frídagur eða helgi (fríhelgi), heldur á bakvakt. Með því að taka að sér bakvaktir hafi flugvirkjar Landhelgisgæslunnar skuldbundið sig til að taka að sér vinnu ef á þá sé kallað. Verði að skýra orðin frídagur eða helgi saman, en við skýringu ákvæðanna sé óhjákvæmilegt að hafa í huga mismunandi skipulag vinnu, þ.e. hvort unnið sé í dagvinnu eða hvort unnin sé vaktavinna, en einnig það að um sé að ræða frítökurétt. Ákvæði 4.-8.4. vísi til þess að vinni maður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, skuli farið með það "á sama hátt", og sé þá vísað til þess hvers konar frítökuréttur stofnist og hvernig megi með hann fara. Hugtakið frítökuréttur sé því einn hluti af grein 4.-8.4. sem væntanlega sé ekki ágreiningur um, en orðið "helgi" vísi þá eins og orðið "frídagur" til þess að um eiginlegt frí sé að ræða sem frítökuréttur bæti upp, sé hvíldartíminn á undan því skertur. Sverrir Erlingsson hafi ekki átt frí frá störfum meðan á bakvakt hans stóð og þegar af þeirri ástæðu hafi vinna hans, eins og hér um ræðir, ekki getað fallið undir ákvæði 4.-8.4. þar sem helgin geti ekki talist hafa verið fríhelgi og sunnudagurinn 16. apríl 2000 hafi ekki verið frídagur í hans tilviki.

Ekki sé gerður sérstakur ágreiningur af hálfu stefnanda um rétt Sverris til vikulegs frídags, sbr. ákvæði 4.-8.6. í kjarasamningi aðila, enda sé sú framkvæmd kunn af hálfu Landhelgisgæslunnar að í tilvikum sem þessum sé vikulegum hvíldartíma frestað, sbr. ákvæði 2. mgr. d-liðar 13. gr. samnings um skipulag vinnutíma frá 23. janúar 1997. Aðilar hafi því í raun samið um skipulag vinnutímans innan þeirra heimilda sem vinnutímasamningur geri ráð fyrir. Í þessu sambandi er ítrekað að ekki hafi verið um fríhelgi að ræða hjá Sverrir þegar hann var á bakvakt.

Af hálfu stefndu er því mótmælt sem ósönnuðu að framkvæmd kjarasamninga gagnvart öðrum viðsemjendum en stefndu hafi verið í samræmi við málatilbúnað stefnanda. Sé fullyrðing af hálfu stefnanda í þessa veru engum gögnum studd. Beri í þessu sambandi að ítreka að skipulag flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni og t.d. hjá Flugleiðum hf. sé með ólíkum hætti.

Stefndu benda á að lokum að óþarft hafi verið að stefna Landhelgisgæslunni fyrir Félagsdóm enda snúist málið að því er virðist um túlkun á kjarasamningi FVFÍ og stefnda, fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs. Í raun beri að vísa frá kröfum á hendur Landhelgisgæslunni enda heyri ekki undir lögsögu Félagsdóms aðild annarra en aðila kjarasamnings eins og mál þetta sé lagt fyrir.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er vísað til 65. gr. laga nr. 80/1938, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði "að Sverrir Erlingsson, flugvirki, hafi öðlast 9 klukkustunda frítökurétt vegna vinnu sinnar hjá stefnda frá kl. 21.00, hinn 15. apríl 2000, til kl. 03.00, hinn 16. apríl 2000."

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands, skulu laun og kjör þeirra starfsmanna Landhelgisgæslunnar, sem vinna að staðaldri í landi, vera samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða stéttarfélagssamningum viðkomandi starfsmanna.

Í stefnu kemur fram að stefnandi byggir fyrrgreinda dómkröfu sína fyrst og fremst á kjarasamningi aðila frá 16. maí 1997, sbr. kjarasamning frá 16. apríl 1997 milli Flugvirkjafélags Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands vegna Flugleiða hf. hins vegar. Með 1. gr. kjarasamningsins frá 16. maí 1997 var þágildandi kjarasamningur aðila framlengdur til 15. febrúar 2000 með þeim breytingum og fyrirvörum sem fólust í kjarasamningnum frá 16. apríl 2000 og skyldi hann þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Með síðastgreindum kjarasamningi var síðastgildandi kjarasamningur milli Flugvirkjafélags Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands vegna Flugleiða hf. hins vegar framlengdur til 15. febrúar 2000 og skyldi þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Með 9. gr. þess samnings voru í grein 04.-8. tekin upp ákvæði um hvíldartíma og frídaga sem á reynir í máli þessu, sbr. einkum greinar 4.8.3. og 4.8.4., er fjalla um frávik frá lágmarkshvíldartíma, og stefnandi vísar einkum til.

Þess er að geta að hinn 8. júní 2000 var undirritaður kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og og Flugvirkjafélags Íslands vegna starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands hins vegar. Samkvæmt grein 8.1 í samningnum gildir hann frá 1. maí 2000 til og með 15. september 2003 og fellur þá úr gildi án frekari fyrirvara. Í grein 1.1 í samningnum er tekið fram að á meðan kjarasamningur Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins og Flugleiða hf. frá 27. apríl 2000 sé í gildi fari um kaup og kjör fyrir flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt honum að öðru leyti en greinir í fyrstnefnda samningnum.

Ljóst er samkvæmt framansögðu að á þeim tíma, sem um ræðir í máli þessu, var fallinn úr gildi samkvæmt eigin ákvæðum umræddur kjarasamningur aðila frá 16. maí 1997 án þess að hinn nýi og núgildandi samningur frá 8. júní 2000 hefði tekið gildi. Á hinn bóginn er ágreiningslaust að málsaðilar hafi farið eftir samningnum frá 16. maí 1997, sbr. og þá venjuhelguðu reglu að um réttindi og skyldur aðila fari eftir eldri samningi, þótt gildistími hans sé liðinn, meðan nýr samningur hefur ekki tekið gildi.

Af hálfu stefnanda hefur komið fram varðandi tilvísanir til greina 4.8.3. og 4.8.4., sbr. 9. gr. í fyrrgreindum kjarasamningi frá 16. apríl 1997 að í sjálfu sér sé ekki byggt á grein 4.8.3., en þar sem grein 4.8.4. hafi ekki að geyma tæmandi efnisreglu um frítökurétt verði að vísa í báðar greinarnar.

Grein 4.8.4. er svohljóðandi:

"Vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt. Komi starfsmaður til vinnu á frídegi eða helgi greiðist yfirvinnukaup fyrir unninn tíma án frekari aukagreiðslna af þessum sökum.

Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst."

Í grein 4.8.3. er tekið fram að í þeim tilvikum þegar sérstakar aðstæður geri það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma, gildi eftirfarandi:

 

"Séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 1/2 klst. (dagvinna) safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út 1/2 klst. (dagvinna) af frítökuréttinum óski starfsmaður þess. Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða 8 klst. samfellda hvíld."

Atvikum málsins er lýst svo að starfsmaður stefnda, Landhelgisgæslu Íslands, Sverrir Erlingsson flugvirki, hafi laugardaginn 15. apríl 2000 verið kallaður til vinnu frá kl. 18.00 til kl. 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 16. s.m. Af hálfu stefnanda er því haldið fram, sbr. fyrrgreind ákvæði greina 4.8.3. og 4.8.4., að nefndur Sverrir hafi átt rétt á 11 tíma hvíld fyrir venjubundið upphaf næsta vinnudags þar sem unnið hafi verið á undan frídegi eða helgi. Miðað við upphaf venjulegs vinnudags kl. 08.00 hafi hann aðeins fengið 5 tíma hvíld er þýði samkvæmt fyrrgreindum reglum að hann eigi rétt á 1 1/2 klst. í frítökurétt fyrir hverja klst., eða 9 klst. í frítökurétt.

Fram er komið að vinnutími Sverris Erlingssonar var samkvæmt dagvinnufyrirkomulagi, sbr. ráðningarsamning, dags. 17. mars 1999, sem liggur fyrir í málinu. Á greindum tíma sinnti hann og bakvakt. Um bakvaktir er fjallað í 6. kafla í kjarasamningi aðila frá 19. september 1989 sem óumdeilt er að beita beri í samskiptum aðila.

Að hálfu stefndu er á því byggt að ákvæði greinar 4.8.4. í kjarasamningnum frá 16. apríl 1997 eigi ekki við í tilviki Sverris Erlingssonar, enda verði að telja að með orðalaginu frídegi eða helgi í grein þessari sé átt við eiginlegt frí. Því sé ekki til að dreifa þegar um bakvakt sé að ræða, enda hafi starfsmaðurinn verið bundinn skilyrtri vinnuskyldu á bakvaktinni, sem greidd hafi verið með bakvaktarálagi, auk yfirvinnukaups vegna útkalls. Verður að telja að ágreiningurinn í máli þessu sé þýðing umrædds bakvaktarfyrirkomulags með tilliti til frítökuréttar samkvæmt grein 4.8.4. í kjarasamningi milli Flugvirkjafélags Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands vegna Flugleiða hf. hins vegar, sbr. 9. gr. kjarasamnings sömu aðila frá 16. apríl 1997, sbr. 1. gr. kjarasamnings aðila máls þessa frá 16. maí 1997.

Í grein 6.1. í kjarasamningi aðila frá 19. september 1989 er tekið fram að með bakvakt sé átt við "að starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn að sinna útkalli." Þá er tekið fram að bakvakt hefjist þegar dagvinnu lýkur og ljúki þegar dagvinna hefst. Í grein 6.2. er mælt svo fyrir að heimilt sá að láta flugvirkja ganga bakvakt eina viku í senn. Hvorki er í kjarasamningum milli aðila né lögum, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, fjallað um það hvernig virða beri bakvakt með tilliti til vinnutíma og hvíldartíma.

Ljóst er að bakvakt felur í sér viðveruskyldu, sbr. m.a. H 1993:2147, og setur viðkomandi starfsmanni skorður. Eins og fram er komið er greitt sérstaklega fyrir bakvakt samkvæmt kjarasamningi aðila frá 19. september 1989. Sé starfsmaður á bakvakt kallaður til starfa ber honum yfirvinnukaup fyrir þann tíma sem unninn er.

Þegar eðli umræddra bakvakta samkvæmt framangreindum kjarasamningi aðila er virt og þegar litið er til óljóss orðalags kjarasamningsákvæða þeirra sem stefnandi byggir á, þar sem ekkert er að bakvöktum vikið, verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að Sverrir Erlingsson hafi öðlast frítökurétt þann sem krafist er viðurkenningar á í máli þessu. Ber því að sýkna stefndu af kröfu stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, íslenska ríkið og Landhelgisgæsla Íslands, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Flugvirkjafélags Íslands, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum