Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2000: Úrskurður frá 16. nóvember 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 16. nóvember, var í Félagsdómi í málinu nr. 11/2000.


Bifreiðastjórafélagið Sleipnir

(Jónas Haraldsson hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg og

(Hjörleifur Kvaran hrl.)

Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar

(Gestur Jónsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur


Ú R S K U R Ð U R:


Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu hinn 6. nóvember sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Gísli Gíslason og Gunnar Sæmundsson.


Stefnandi er Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, kt. 600269-2409, Mörkinni 6, Reykjavík.

Stefndu eru Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, kt. 620269-2989, Grettisgötu 89, Reykjavík.


Dómkröfur stefnanda:

l. Að viðurkennt verði með dómi að stefnandi, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, fari með samningsaðild fyrir þá 27 bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, sem gengu úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og í Bifreiðastjórafélagið Sleipni, við gerð næstu kjarasamninga við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem bifreiðastjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur.

2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Reykjavíkurborg, sé skylt frá og með 1. júlí 2000 að halda eftir og greiða til stefnanda félagsgjöld þeirra 27 bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, er gengu úr Starfsmannafélagi Reykjavíkur og í félag stefnanda, Bifreiðastjórafélagið Sleipni.

3. Að stefndu verði dæmdir til að greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.


Dómkröfur stefnda, Reykjavíkurborgar:

Stefndi krefst aðallega að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi.

Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.


Dómkröfur stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar:

Þess er krafist að málinu verði vísað frá Félagsdómi.

Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati Félagsdóms.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað. Jafnframt gerir hann kröfu til málskostnaðar í þessum þætti málsins.


Málavextir

Með bréfi dags. 30. mars 2000 til stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sögðu 57 bifreiðastjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur sig úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar frá og með 3l. mars 2000 að telja. Er í bréfinu vísað til þess skilyrðis starfsmannalaganna, þ.e. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að uppsögn þurfi að berast með þriggja mánaða fyrirvara, en samkvæmt því telur stefnandi að þessir bifreiðastjórar séu lausir undan skuldbindingum við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar þann l. júlí 2000. Í bréfinu segir að frá og með sama tíma, þ.e. l. júlí 2000, teljist þeir fullgildir félagsmenn í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, þar sem þeir hafi sótt um inngöngu. Með bréfi þessu fylgdi listi með undirskriftum 57 strætisvagnabifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur (SVR)

Með bréfi stefnanda til Strætisvagna Reykjavíkur, dags. 11. júlí 2000, var þess óskað að félagsgjöld umræddra starfsmanna yrðu greidd til stefnanda frá 1. júlí 2000 að telja.

Með bréfi SVR til stefnanda dags. 20. júlí 2000 var beiðni um innheimtu félagsgjalda hafnað með vísan til umsagnar kjaraþróunardeildar stefnda, Reykjavíkurborgar.

Með bréfi stefnanda til stefnda, Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2000, var fyrri beiðni stefnanda áréttuð og þess krafist að stefndi innheimti félagsgjöld fyrir stefnanda vegna hins tiltekna hóps félagsmanna. Jafnframt fór stefnandi fram á það við stefnda að viðurkenndur yrði samningsréttur félagsins fyrir hönd umræddra bifreiðastjóra.

Með bréfi stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, til stefnanda dags. 23. ágúst 2000 var tilkynnt að af þeim 57 bifreiðastjórum SVR, sem sagt höfðu sig úr starfsmannafélaginu, þá séu eingöngu 27 eftir í þeim hópi, en hinir 30 hafi ýmist hætt störfum eða dregið úrsagnir sínar úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar til baka. Með bréfi þessu fylgdi listi yfir nöfn þeirra 27 bifreiðastjóra hjá SVR, sem sagt höfðu sig úr starfsmannafélaginu og gengið í félag stefnanda og héldu fast við þá ákvörðun sína, en þessir sömu 27 aðilar eru þeir aðilar sem mál þetta snýst um.

Með bréfi stefnda, Reykjavíkurborgar, til stefnanda dags. l. september 2000 var ítrekuð synjun á báðum kröfum stefnanda, þ.e. að halda eftir félagsgjöldunum og viðurkenna samningsaðild stefnanda.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, Reykjavíkurborgar, dags. 15. september 2000 voru sett rök fyrir þeirri skyldu stefnda, Reykjavíkurborgar, að halda eftir félagsgjöldunum. Einnig var ítrekuð krafa um viðurkenningu samningsréttar stefnanda.

Stefndi, Reykjavíkurborg, hefur hafnað beiðni stefnanda um innheimtu félagsgjalda og um viðurkenningu á samningsrétti vegna umræddra bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur.

Stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sem er aðili að kjarasamningi við meðstefnda, Reykjavíkurborg, um störf bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkurborgar hefur einnig hafnað dómkröfum stefnanda í málinu.


Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar að viðurkennt verði með dómi að stefnandi fari með samningsaðild fyrir nafngreinda 27 bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur við gerð næstu kjarasamninga við stefnda, Reykjavíkurborg. Hins vegar að viðurkennt verði með dómi, að stefnda, Reykjavíkurborg, verði gert skylt að halda eftir félagsgjöldum þessara 27 bifreiðastjóra og félagsmanna stefnanda frá l. júlí 2000 að telja.


Viðurkenning á samningsaðild

Stefnandi telur að stefnda, Reykjavíkurborg, sé skylt að viðurkenna formlega að stefnandi, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, fari með samningsaðild fyrir áðurnefnda 27 bifreiðastjóra sem starfa hjá SVR við gerð næstu kjarasamninga við stefnda, Reykjavíkurborg. Stefndi, Reykjavíkurborg, hafi hafnað kröfu stefnanda í þessum efnum, þar sem stefnandi "uppfylli ekki ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna", eins og segir í bréfi stefnda dags. l. september 2000.

Stefnandi bendir á að félagsmenn hans fullnægi ákvæðum 5. gr. starfsmannalaganna um formlega menntun og lögformleg starfsréttindi, en sérstaka menntun og starfsréttindi þurfi til að keyra fólksflutningabifreiðir, auk þess sem ýmis sérákvæði gildi um þessa starfsstétt, svo sem varðandi vinnutímatilskipun o.fl. Félagssvæði stefnanda nái til stærsta hluta landsins, sbr. l. gr. laga stefnanda.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings í dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að víkja beri fjöldatakmörkunum 3. töluliðs 5. gr. laga nr. 94/1986 til hliðar, þar sem ákvæði þetta brjóti í bága við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem staðfestur sé með lögum nr. 62/1994. Stefnandi telur að þessi dómur Félagsdóms taki alfarið til tilviks stefnanda. Með þessum dómi hafi Félagsdómur skorið úr um þetta ágreiningsefni, sem liggi fyrir í máli þessu.


Innheimta félagsgjalda

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé atvinnurekanda skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Hvað teljist viðkomandi stéttarfélag komi fram m.a. í H.1988:1464 (1470), en í niðurstöðum héraðsdómsins komi fram þessi skilgreining, sem Hæstiréttur gerir ekki athugasemdir við. "Ætla verður að með viðkomandi stéttarfélagi sé í skilningi nefndrar lagagreinar átt við það stéttarfélag sem starfsmenn atvinnurekandans eiga aðild að." Ekki sé umdeilt að umræddir 27 aðilar séu frá 1. júlí 2000 félagsmenn stefnanda, en ekki stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Stéttarfélag þessara 27 bifreiðastjóra hjá SVR sé Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, en ekki Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Ekki hafi verið ágreiningur um það að félagsgjald teljist til iðgjalds í merkingu 6. gr. laga nr. 55/1980.

Stefnandi áréttar að í 15. gr. laga stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, segi eftirfarandi: "Til að standa straum af kostnaði við starfsemi félagsins, greiða félagsmenn árgjald til þess, samkvæmt ákvörðun aðalfundar, og skal miðast við hundraðshluta fastra launa. Félagsmönnum ber að greiða sérstakt árgjald til B.S.R.B. samkvæmt ákvörðun bandalagsþings. Árgjaldið takist hlutfallslega af launum í hverjum mánuði." Þeir 27 bifreiðastjórar hjá SVR, sem um ræðir séu ekki félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Lög félagsins heimili ekki að innheimta félagsgjöld af öðrum en félagsmönnum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Félagið geti ekki gert ríkari kröfur um greiðslur til sín, en lög félagsins heimila því, eins og það hafi gert og stefnandi sé að krefjast breytinga á. Verði ekki séð að lögþvingun breyti ákvæðum laga starfsmannafélagsins.

Varðandi það að öðru leyti, hvort starfsmanni hjá Reykjavíkurborg sé skylt að greiða félagsgjald til stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, þrátt fyrir að viðkomandi hafi sagt sig formlega og löglega úr starfsmannafélaginu og gengið í annað stéttarfélag, sem hann greiði félagsgjald til, og stéttarfélag starfsmannsins þannig orðið annað, í þessu tilviki félag stefnanda, er einnig vísað til eftirfarandi félagsdóms í máli nr. 4/1998: Sjúkraliðafélag Íslands gegn íslenska ríkinu og Starfsmannafélagi ríkisstofnana.

Í dómsniðurstöðunni segir m.a. þetta: "Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 ber Sigurbjörgu Grétarsdóttur að greiða gjöld til Starfsmannafélags ríkisstofnana eins og hún væri félagsmaður, en engin skylda er til aðildar að félagi þessu. Skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann brýtur hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, né 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr, lög nr. 62/1994 eða 4. gr. laga nr. 80/1938."

Með gagnályktun frá þessum orðum sé ljóst á hinn bóginn, að fari stéttarfélag ekki lengur með samningsaðild fyrir viðkomandi launþega, þá mun gjaldtaka þess stéttarfélags ekki vera lögmæt gjaldtaka.

Stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, fari ekki lengur með samningsaðild fyrir þá 27 félagsmenn stefnanda, sem starfa hjá SVR og höfðu sagt sig með lögmætum hætti úr starfsmannafélaginu. Breyti engu þótt starfsmannafélagið hafi áður farið með samningsréttinn. Verði að telja að þessi niðurstaða Félagsdóms í máli nr. 4/1998 með gagnályktun leiði til bindandi túlkunar á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 þess efnis að það brjóti m.a. í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar íslensku og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að innheimta félagsgjöld af fyrrverandi félagsmönnum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, sem gengið hafa löglega úr félaginu og í annað stéttarfélag, þ.e. stéttarfélag stefnanda, sem hafi þann tilgang samkvæmt lögum sínum, sbr. 2. gr., að sameina alla launþega sem starfa við stjórn fólksflutningabifreiða og eiga heimili á félagssvæðinu í eitt stéttarfélag.

Í áðurnefndum félagsdómi í máli nr. 9/1999 milli Vélstjórafélags Íslands og stefnda segir m.a. þetta í dómsniðurstöðunni:

"Reglan um samningsfrelsið er ein af meginstoðum samningaréttarins, enda þótt hún sæti ýmsum undantekningum. Við mat á frávikum frá reglunni verður að hafa í huga að samningsfrelsið er meginregla og frávikin frá henni ber að skýra þröngt. Augljóst er að það er undantekning frá þeirri reglu að þvinga félagsmenn eins stéttarfélags til að fá öðru stéttarfélagi, sem þeir hafa sagt sig úr og vilja ekki vera í, umboð sitt til kjarasamninga, en til þess kemur ef kröfur stefndu í máli þessu verða teknar til greina. Þetta verður að hafa í huga við túlkun á tilgreindu ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986.

Samkvæmt tilvitnuðu stjórnarskrárákvæði og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eiga menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Sá réttur nær ekki aðeins til þess að vera félagsmaður heldur einnig til þess að láta til sín taka starfsemi félagsins, þar með að fela stéttarfélagi sínu umboð til að gera kjarasamning."

Þótt hér sé vísað til og fjallað um 5. gr. starfsmannalaganna nr. 94/1986, enda snérist ágreiningur þess máls eingöngu um samningsaðild, en ekki greiðslu félagsgjalda, þá hljóti sömu sjónarmið að gilda hvað snertir ákvæði l. og einkum 2. mgr. 7. gr. sömu laga, sem fjallar um greiðslu félagsgjalds eða ígildi þess. Í því sambandi má benda á eftirfarandi:

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, kemur fram efnislega, að starfsmaður hjá Reykjavíkurborg skuli greiða félagsgjald til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, þótt hann hafi sagt sig úr því félagi og gengið í annað stéttarfélag, eins og segir í 2. mgr. "greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra", sem væntanlega í þessu tilviki hér sé Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Hér er greinilega verið að tala um þvingaða skylduaðild að stéttarfélagi innan opinbera geirans eða a.m.k. þvingaða greiðsluskyldu, sem stefnandi telur að standist heldur ekki, enda hluti af því sama. Hér sé í raun um skattlagningu að ræða, sem renni til að fjármagna félagsstarfsemi, sem skattgreiðandinn eigi ekki aðild að.

Þessi tvígreiðsla félagsgjalda þýði í raun að mönnum sé nánast gert ókleift að segja sig úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar á gildistíma kjarasamnings, sem geti þess vegna verið nokkur ár, þar sem viðkomandi launþegi verði hvort sem er að greiða félagsgjald til starfsmannafélagsins, þótt hann sé farinn úr félaginu og greiði í annað stéttarfélag, félag sem hann vill vera félagi í. Hann verði að greiða tveimur stéttarfélögum stéttarfélagsgjald.

Með þessu fyrirkomulagi sé viðkomandi gert að fjármagna rekstur þess stéttarfélags, sem hann vildi ekki vera í, og muni ekki leita lengur til og njóti heldur engrar fyrirgreiðslu hjá eða réttinda í, svo sem atkvæðaréttar, kjörgengis eða eins eða neins, sbr. 4. gr. laga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Með ákvæði 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna sé verið að leggja stein í götu þeirra launþega, sem vilji nýta sér ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi með því að gera mönnum það fjárhagslega erfitt að skipta um stéttarfélag, þar sem þeir þurfi þá að greiða tveimur aðilum félagsgjald, þ.e. stéttarfélagi sem þeir vilji vera í og stéttarfélagi, sem þeir vilji alls ekki vera í.

Þetta fyrirkomulag brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í 65. gr., þar sem tilgreindir 27 bifreiðastjórar hjá SVR og félagsmenn stefnanda, sem mál þetta fjalli um, þurfi að greiða tvöfalt félagsgjald, þegar aðrir félagsbundnir launþegar þurfi eingöngu að greiða félagsgjald til eins stéttarfélags og þá þess stéttarfélags, sem þeir séu aðilar að. Hér sé um fjárhagslega og félagslega mismunun að ræða, sem brjóti berlega í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem vitnað sé til í eftirfarandi kafla um lagarök.

Það fái ekki staðist að vera gert að greiða félagsgjald til að fjármagna stéttarfélag, sem viðkomandi geti ekki hugsað sér að starfa í og hafi sagt sig úr, njóti engra réttinda í og hafi engin áhrif á starfsemina, sæki ekki um neina þjónustu til og fái því enga fyrirgreiðslu lengur hjá o.s.frv. o.s.frv. Það liggi í augum uppi að viðkomandi fyrrum stéttarfélag, í þessu tilviki Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, muni þar fyrir utan ekki mylja undir þá aðila, sem sýnt hafi hug sinn í verki til félagsins með því að yfirgefa það og ganga í annað stéttarfélag.

Þá bendir stefnandi á að í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar fjalli gr.11.2.1 í kjarasamningnum um félagsgjöld. Þar komi fram að óski félagið eftir því að Reykjavíkurborg innheimti félagsgjöld, skuli starfsmannafélagið afhenda borginni lista yfir gjaldskylda félagsmenn. Jafnframt geti Reykjavíkurborg sem launagreiðandi fellt niður af listanum starfsmenn, "ef vafi þykir leika á, hvort um aðild að félaginu er að ræða." Af þessu megi ráða að kjarasamningurinn sjálfur gerir ekki ráð fyrir því, að Reykjavíkurborg greiði félagsgjöld til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar frá starfsmönnum, sem ekki séu lengur í starfsmannafélaginu. Samkvæmt þessu ákvæði sé Reykjavíkurborg óheimilt að greiða félagsgjöld af þeim tilgreindu 27 bifreiðastjórum hjá SVR til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Lögð er áhersla á það, að hvorki lög Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar né kjarasamningur félagsins við Reykjavíkurborg geri ráð fyrir því að þeir starfsmenn borgarinnar, sem ekki séu félagsmenn í starfsmannafélaginu skuli greiða félagsgjöld. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna séu í engu samræmi við þann grundvöll, sem þau ættu að byggjast á og hér hafi verið rakið. Af þeim sökum telur stefnandi að þau standist ekki tilvitnuð ákvæði stjórnarskrárinnar eða þeirra mannréttindasáttmála, sem vitnað sé til.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. sé atvinnurekanda skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags, þ.m.t. töldu félagsgjaldi. Viðkomandi stéttarfélag þessara 27 bifreiðastjóra hjá SVR sé stefnandi, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir. Þangað beri stefnda, Reykjavíkurborg, að greiða félagsgjaldið, en ekki til stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Með því að neita að greiða félagsgjaldið til stefnanda hafi stefndi, Reykjavíkurborg, brotið m.a. í bága við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980.

Stefnandi telur að ákvæði nefndrar 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna fái ekki staðist og brjóti í bága við ákvæði 2. mgr. 74. gr. ísl. stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr., 72. gr. og 75. gr., og 10. gr. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi, sem ekki síst megi leiða af niðurstöðum í dómum Félagsdóms og hér hafi verið vitnað til í máli nr. 4/1998 og máli nr. 9/1999. Einnig brjóti 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna gegn 15. gr. laga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og gr. 11.2.1 í kjarasamningi milli stefndu. Með vísan til þess telur stefnandi, að ólögmætt sé að stefndi, Reykjavíkurborg, haldi eftir og greiði til stefnda Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar félagsgjald af tilgreindum 27 bifreiðastjórum hjá SVR, sem hafi sagt sig úr starfsmannafélaginu og gengið í Bifreiðastjórafélagið Sleipni. Jafnframt sé stefnda, Reykjavíkurborg, skylt að halda eftir og greiða til stefnanda umkrafin félagsgjöld af þessum aðilum, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. um jafnræði þegnanna, 72. gr. um friðhelgi eignarréttarins og 75. gr. um atvinnufrelsi. Þá er vísað í 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979 réttindi og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Einnig er vísað til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. Vísað er til dóma Félagsdóms í málunum nr. 4/1998 og nr. 9/1999. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.


Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunarkröfu

Af hálfu stefnda, Reykjavíkurborgar, er þess krafist að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi. Stefndi byggir á því að stefnandi uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 að því er fjölda félagsmanna varðar. Samkvæmt skýru ákvæði þessarar lagagreinar sé gerð krafa um að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna, sem undir lögin heyra og séu í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri. Í stefnu komi fram að 27 vagnstjórar hjá stefnda hafi sagt sig úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og gengið í Bifreiðastjórafélagið Sleipni. Fjöldinn nái því ekki tilskildu lágmarki og sé langt frá því að vera 2/3 vagnstjóra hjá stefnda. Þrátt fyrir dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að krafa um tiltekinn fjölda félagsmanna stríddi gegn ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, standi umrætt lagaákvæði enn og löggjafinn hafi, þrátt fyrir dóm Félagsdóms, ekki séð ástæðu til breytinga á lögum nr. 94/1986.

Stefnandi byggi á því í stefnu að ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 fái ekki staðist og brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár, mannréttindasáttmála, lög Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar o.fl.

Framangreindar málsástæður lúti báðar að valdsviði Félagsdóms og hvort dómurinn sé bær til þess að fjalla um gildi almennra laga gagnvart stjórnarskránni. Af hálfu stefnda er því alfarið mótmælt að það sé á valdsviði Félagsdóms að fjalla um hvort lög, sem Alþingi hefur samþykkt, samrýmist ákvæðum stjórnarskrár. Löggjafinn ætlist eingöngu til þess að dómendur Félagsdóms dæmi á grundvelli þeirra laga sem undir hann heyra, sbr. lög nr. 80/1938 og 94/1986. Framangreinda túlkun megi m.a. leiða af ákvæði 42. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt nefndu ákvæði sé krafa um embættispróf í lögfræði einungis gerð til minnihluta dómenda. Félagsdómur sé sérdómstóll sem hafi afmarkað verkefni á sviði vinnuréttar. Meginreglan í íslenskum rétti sé sú að mál verði borin undir tvö dómstig. Það sé því andstætt meginreglunni að mál sem varði gildi laga gagnvart stjórnarskrá verði ekki borið undir æðsta dómsstig, Hæstarétt Íslands. Að mati stefnda verði þau úrlausnarefni stefnanda, sem hér hafa verið rakin, ekki borin undir úrlausn Félagsdóms enda utan valdssviðs hans. Ekki verði á það fallist að Félagsdómur sé til þess bær að skera úr um hvort ákvæði stjórnarskrár hafi verið brotin við setningu laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna enda hlutverk dómsins þröngt afmarkað skv. ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986.

Um frávísunarkröfu vísar stefndi til grundvallarreglna um málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum svo og 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þá vísar stefndi til laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum 5. og 6. gr. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Frávísunarkrafa stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, byggist á því að það sé ekki á valdi Félagsdóms að kveða upp dóma þar sem settum lagareglum sé vikið úr sessi með tilvísun til stjórnarskrár. Vísast um þessa kröfu til rökstuðnings fyrir frávísunarkröfu í greinargerð meðstefnda, Reykjavíkurborgar.

Til viðbótar er vakin athygli á að krafa stefnanda nr. 2 sé um viðurkenningu á því að stefnda, Reykjavíkurborg, sé skylt frá og með 1. júlí 2000 að halda eftir og greiða til stefnanda stéttarfélagsiðgjöld 27 vagnstjóra. Það geti undir engum kringumstæðum fallið undir lögsögu Félagsdóms að dæma um þessa kröfu. Stefnandi hafi ekki gert kjarasamning við meðstefnda. Af því leiðir að ekki verði leyst úr ágreiningi um kröfuna með skýringu á kjarasamningi málsaðila. Það falli því utan lögsögu Félagsdóms að kveða upp efnisdóm um kröfuna, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986, en lögsögu dómsins beri að skýra þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum.

Að öðru leyti er tekið undir málsástæður, lagarök og tilvísun til réttarreglna, sem fram koma í greinargerð meðstefnda, Reykjavíkurborgar.


Rökstuðningur stefnanda gegn frávísunarkröfum stefndu

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað. Hann byggir á því að andmæli stefndu gegn kröfu stefnanda um félagsgjöld sé málsástæða sem varði efni máls, en ekki frávísun þess. Þá byggir stefnandi á því að Félagsdómur sé til þess bær að taka á öllum atriðum varðandi lagatúlkun vinnulöggjafar þ.á.m. hvort lög standist stjórnarskrá. Þessu til stuðnings var vísað til dóms Félagsdóms í málinu nr. 9/1999, þar sem dómurinn hefði þurft að taka afstöðu til þessháttar álitaefnis. Því máli hefði upphaflega verið stefnt til héraðsdóms, en vísað frá héraðsdómi með úrskurði uppkveðnum 15. júní 1999 á þeim grundvelli að ágreiningur aðila ætti undir dómsvald Félagsdóms. Sá úrskurður hefði verið staðfestur með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 23. ágúst 1999 í málinu nr. 270/1999.


Niðurstaða

Samkvæmt 1. tl. kröfugerðar stefnanda er krafist viðurkenningar á því að stefnandi fari með samningsaðild fyrir tilgreinda 27 bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur við gerð næstu kjarasamninga við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem bifreiðastjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Sú krafa stefnanda á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefnandi málsins hefur af því lögvarða hagsmuni að fá úrlausn um þá kröfu fyrir dóminum. Við þá efnisúrlausn koma til umfjöllunar þær málsástæður sem stefnandi byggir kröfur sínar á m.a. hvort fullnægt sé skilyrðum 3. tl. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga 94/1986 um samningsaðild stefnanda. Þær málsástæður sem stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á að þessu leyti geta því ekki valdið frávísun málsins, eins og stefndu gera kröfu til.

Samkvæmt 2. tl. kröfugerðar stefnanda er krafist viðurkenningar á því að stefnda, Reykjavíkurborg, sé skylt frá og með 1. júlí 2000 að halda eftir og greiða til stefnanda félagsgjöld fyrrgreindra 27 bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Samkvæmt kröfugerð stefnanda er þessi kröfuliður í þeim tengslum við 1. kröfulið um samningsaðild að ekki eru efni til að vísa honum sérstaklega frá dómi.

Ber því að hafna kröfum stefndu um frávísun málsins.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum stefndu um frávísun málsins er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum