Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2000: Dómur frá 8. júní 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 8. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2000:

Samtök atvinnulífsins vegna

Ísfélags Vestmannaeyja

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Alþýðusambandi Íslands vegna

Verkamannasambands Íslands fyrir hönd

Einingar-Iðju

(Björn L. Bergsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 26. maí sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, vegna Ísfélags Vestmannaeyja hf., kt. 660169-1219, Strandvegi 28, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16, Reykjavík vegna Verkamannasambands Íslands, kt. 680269-5219, Skipholti 50c, Reykjavík fyrir hönd Einingar-Iðju, kt. 570599-2599, Skipagötu 14, Akureyri.

  

Dómkröfur stefnanda

Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi, að í banni því sem Eining-Iðja hefur beint til félagsmanna sinna um að þeir hvorki landi né vinni afla úr 28 tilgreindum loðnu- síldar- og kolmunnaveiðiskipum og tilkynnt var Ísfélagi Vestmannaeyja hf. með bréfi dags. 16. maí 2000 felist brot á ákvæðum kjarasamnings félagsins frá 24. mars 1997 og það sé því ólögmætt.

Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi, að löndun og vinnsla afla í fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. á Akureyri, úr þeim 28 skipum sem tilgreind eru í áðurnefndu bréfi Einingar-Iðju dags. 16. maí 2000 feli hvorki í sér brot gegn löglega hafinni vinnustöðvun Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, Verkalýðsfélags Raufarhafnar, Verkalýðs- og sjómannafélags Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps, Verkalýðsfélagsins Fram á Seyðisfirði, Verkalýðsfélags Norðfirðinga, Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði og Vökuls stéttarfélags á Hornafirði, né 18. gr. laga nr. 80/1938 þrátt fyrir yfirstandandi verkfall þessara félaga.

Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda

Krafist er sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

  

Málavextir

Málavextir eru þeir að á miðnætti aðfararnótt þriðjudagsins 16. maí sl. hófst verkfall verkamanna í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæði eftirtalinna sjö stéttarfélaga: Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, Verkalýðsfélags Raufarhafnar, Verkalýðs- og sjómannafélags Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps, Verkalýðsfélagsins Fram á Seyðisfirði, Verkalýðsfélags Norðfirðinga, Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði og Vökuls stéttarfélags á Hornafirði. Öll eru þessi félög á Austfjörðum, utan Vöku.

Á upphafsdegi verkfalls beindi samninganefnd Alþýðusambands Austurlands eftirgreindri orðsendingu til eftirtalinna verkalýðsfélaga:

Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Einingar-Iðju Akureyri, Verkalýðsfélags Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélags Fáskrúðsfjarðar, Verkalýðsfélags Vestmannaeyja, Verkalýðsfélagsins Boðans í Þorlákshöfn, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Eflingar stéttarfélags Reykjavík:

"Verkfall hófst á miðnætti hjá starfsmönnum í fiskimjölsverksmiðjum hjá eftirtöldum verkalýðsfélögum: Verkalýðsfélaginu Vöku á Siglufirði, Verkalýðsfélagi Raufarhafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps, Verkamannafélaginu Fram á Seyðisfirði, Verkalýðsfélagi Norðfirðinga, Verkamannafélaginu Árvakri á Eskifirði og Vökli stéttarfélagi. Tvær samninganefndir stýra þessum félögum, þ.e. SR-hópnum og ASA-hópnum.

Það eru vinsamleg tilmæli samninganefndanna að þau verkalýðsfélög sem hafa hafnarverkamenn innan sinna raða sem starfa við löndun úr loðnu- síldar- eða kolmunnaveiðiskipum, fari þess á leit við þá að þeir landi ekki úr eftirgreindum skipum, sem landa að jafnaði hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum, sem verkfallið beinist gegn"

Upphaflega voru tilgreind 28 skip á þessum lista en vegna framkominna athugasemda varðandi einstök skip var þeim fækkað í 17. Þau skip sem hér um ræðir eru þessi:

Sunnuberg NS-70, Börkur NK-122, Beitir NK-123, Hólmaborg SU-11, Jón Kjartansson SU-111, Guðrún Þorkelsdóttur SU-211, Jóna Eðvalds SF-20, Húnaröst SF-550, Þórshamar GK-75, Sveinn Benediktsson SU-77, Ísleifur VE-63, Guðmundur Ólafur ÓF-91, Hákon ÞH-250, Gullberg VE-292, Grindvíkingur GK-606, Björg Jónsdóttir ÞH-321 og Þórður Jónasson EA-350

Með bréfi stéttarfélagsins Einingar-Iðju dags. 16. maí 2000 til Ísfélags Vestmannaeyja hf., sem rekur Krossanesverksmiðjuna á Akureyri, var tilkynnt sú ákvörðun stéttarfélagsins að banna félagsmönnum sínum að landa og vinna afla úr skipum þessum. Í bréfinu er ákvörðunin sögð byggð á 18. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem segir að óheimilt sé að ganga inn í störf þeirra sem í verkfalli eru.

Með bréfi dags. 17. maí sl. til Einingar-Iðju mótmæltu Samtök atvinnulífsins banni þessu sem ólögmætu og skoruðu á stjórn félagsins að draga það til baka. Því bréfi var svarað samdægurs af hálfu félagsins, þar sem sjónarmiðum Samtaka atvinnulífsins var vísað á bug.

Stefnandi kveður nauðsynlegt að fá skorið úr um lögmæti banns þessa.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er tekið fram að um störfin í Krossanesverkssmiðju Ísfélags Vestmannaeyja gildi sérkjarasamningur sem síðast hafi verið undirritaður 24. mars 1997. Gildissviði hans sé lýst í upphafsákvæðum þar sem fram komi að hann gildi um störf verkamanna í fiskimjölsverksmiðjum Krossaness hf. á Akureyri og Ólafsfirði. Auk hans gildi hinn almenni kjarasamningur aðildarfélaga Verkamannasambands Íslands um störfin. Með samruna Krossaness hf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf. sem miðist við 1. september 1999, hafi síðarnefnda félagið yfirtekið réttaraðild fyrrnefnda félagsins.

Stefnandi tjáir málið höfðað á grundvelli 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 8. gr. sömu laga og segist byggja kröfur sínar á málsástæðum og lagarökum sem hann lýsir svo:

Samkvæmt reglum vinnumarkaðsréttar sé það meginskylda starfsmanna að inna af hendi þau störf sem þeir séu ráðnir til og skila starfi sínu með tilhlýðilegum hætti. Þá sé hlýðni starfsmanna við lögleg fyrirmæli vinnuveitanda ein af meginskyldum þeirra. Framangreindu fái ekki samrýmst það hátterni forystu Einingar-Iðju að banna félagsmönnum að inna af hendi hluta þeirra starfa sem þeir samkvæmt ráðningarsamningi séu skuldbundnir til að vinna í fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. á Akureyri, en þar starfi félagsmenn í Einingu-Iðju og samið sé um störf þeirra í kjarasamningum hlutaðeigandi félags við vinnuveitendur. Fyrirmæli forystu félagsins til félagsmanna um að bregðast hlýðniskyldu sinni við vinnuveitanda og neita að landa og vinna afla tiltekinna skipa feli í sér samningsrof, sem stéttarfélagið beri ábyrgð á skv. 8. gr. laga nr. 80/1938 og séu brot á friðarskyldunni.

Friðarskyldan grundvallist á því meginsjónarmiði að samninga beri að halda. Kjarasamningar séu gagnkvæmir samningar sem þjóðhagslega sé brýnt að séu haldnir það tímabil sem þeim er ætlað að gilda. En gildissvið friðarskyldureglunnar sé jafnvel enn víðtækara. Sú venjuhelgaða regla gildi um kjarasamninga sem sagt hefur verið upp og séu útrunnir að um réttindi og skyldur samningsaðila fari í öllum meginatriðum eftir gamla samningnum meðan enn sé ósamið og verkfall af hálfu hlutaðeigandi félags ekki skollið á. Það eitt að kjarasamningur renni út upphefji ekki friðarskylduna og skapi stéttarfélögum ekki þann íhlutunarrétt í ráðningarsambönd einstakra félagsmanna við vinnuveitanda, sem stefndi í máli þessu hafi tekið sér og verði ekki talið annað en kjarasamningsbrot og brot á friðarskyldunni.

Íhlutunin sem felist í banni Einingar-Iðju sé að mati stefnanda brot sem slík og það eigi ekki að hafa sérstaka þýðingu um úrlausn ágreiningsins í málinu þótt á bann félagsins til félagsmanna hafi ekki reynt við höfðun máls þessa.

Stefnandi vill sérstaklega benda á, að sérkjarasamningi aðila frá 24. mars 1997 fylgi sérstök yfirlýsing þar sem friðarskyldan sem sé forsenda samningsins sé áréttuð.

Þá er því eindregið mótmælt, að ákvæði 18. gr. laga nr. 80/1938 geti talist heimild fyrir hinu umstefnda banni stéttarfélagins til félagsmanna sinna. Þá sé fiskimjölsverksmiðja Ísfélags Vestmannaeyja hf. á Akureyri utan félagssvæða allra þeirra stéttarfélaga sem hafið hafi vinnustöðvun og vinnustöðvun verði ekki komið við á Akureyri án þeirra formskilyrða sem lög setji slíkum ákvörðunum. Vinna í verksmiðjunni geti því ekki með neinu móti talist verkfallsbrot né brot á 18. gr. laga nr. 80/1938. Þá er því einnig mótmælt sem röngu að öll þau 17 skip sem stéttarfélagið hefur sett á bannlista sinn, landi að jafnaði hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum sem verkfallið á Austfjörðum og Siglufirði beinist gegn. Skip sigli milli hafna og mörg landi á ýmsum stöðum svo sem alkunna sé.

Loks áréttar stefnandi að réttarreglur um samúðarvinnustöðvanir geti ekki talist heimild banns Einingar-Iðju til félagsmanna um að þeir vinni tiltekin störf, enda hvorki tekin um það ákvörðun samkvæmt þeim reglum sem um slíkar vinnustöðvanir gilda, né það tilkynnt með boðnum hætti. Sé lögum fylgt, verði heldur engar vinnustöðvanir án undangenginnar almennrar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna,.

Stefnandi vísar einkum til kjarasamnings þess milli aðila sem undirritaður var þann 24. mars 1997 og bréfs stéttarfélagsins til Ísfélags Vestmannaeyja hf. dags. 16. maí 2000.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Kröfu sína um sýknu styður stefndi eftirfarandi rökum:

Í fyrsta lagi er krafist sýknu vegna aðildarskorts stefnanda og í öðru lagi af því að boðað bann stefnda sé fullkomlega lögmætt.

1. Aðild stefnanda

Boðað bann stefnda við að landað verði úr 17 skipum, sem landað hafa hjá atvinnurekendum þeim sem standa í kjaradeilu við verkalýðsfélögin sjö, beinist ekki að stefnanda þ.e. Ísfélagi Vestmannaeyja hf.

Skýrt komi fram í bréfum stefnda að bannið beinist að útgerðum tilgreindra skipa. Með því að landa á Akureyri væru útgerðir þeirra að reyna að stuðla að því, í andstöðu við 18. gr. laga nr. 80/1938, að afstýra vinnustöðvuninni. Útgerðir þessara skipa væru að leita fulltingis félagsmanna stéttarfélags sem sé innan sama sambands og þau félög sem standa að verkfallinu til að koma sér undan áhrifum þess. Slíkt sé óheimilt samkvæmt nefndu lagaákvæði.

Stefnandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., sé ekki á meðal þeirra fyrirtækja sem verkfallið beinist gegn né heldur beinist aðgerðir stefnda að því. Bannið beinist gegn útgerð skipanna en stefnandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., geri ekkert þeirra út. Ekki standi til á þessu stigi af hálfu stefnda að veita þeim stéttarfélögum sem standa að verkfallinu lið með samúðarvinnustöðvun, sem heimil sé með gagnályktun frá 3. mgr. 17. gr. laga nr. 80/1938, og lama starfsemi stefnanda, Ísfélags Vestmannaeyja hf. Slík aðgerð væri enda bæði miklu víðtækari en bann það sem stefndi hafi lagt við því að gengið verði í störf verkfallsmanna og einnig eðlisólík því að stefndi hlýti ákvæðum vinnulöggjafarinnar og komi í veg fyrir að löglega boðað verkfall sé brotið á bak aftur með tilstyrk félagsmanna hans. Sérstaklega er áréttað, einkum vegna missagna stefnanda í stefnu, að bann stefnda við að gengið sé í störf verkfallsmanna byggir ekki á réttarreglum um samúðarvinnustöðvanir enda sé það í eðli sínu ekki vinnustöðvun í skilningi laga nr. 80/1938. Bann stefnda sé bann við því að einstakir félagsmenn stefnda aðstoði við að afstýra löglega hafinni vinnustöðvun í andstöðu við 18. gr. laga nr. 80/1938.

Það að Ísfélagi Vestmannaeyja hf. hafi verið sent bréf fól ekki í sér aðgerðir gegn fyrirtækinu. Bréf stefnda fól einvörðungu í sér tilkynningu í þeim tilgangi að tryggja grandsemi fyrirtækisins um hvað í vændum væri til að firra fyrirtækið óþægindum þar sem löndun gæti ekki átt sér stað þar sem hún færi í bága við verkfall. Það er sérstaklega áréttað að stefnda mun að sjálfsögðu ekki amast á neinn hátt við venjubundinni vinnslu og hráefnisöflun hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Félaginu sé að sjálfsögðu frjálst að semja um kaup á afla af hverju því skipi sem ekki sé á flótta undan verkfalli.

Skortir þannig í raun á að stefnandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., geti átt aðild að máli þessu sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Réttur aðili að kröfum þeim sem uppi séu hafðar væru útgerðir einstakra fiskiskipa sem nafngreind séu í bréfi samninganefnda verkalýðsfélaganna sjö. Stefnandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., geti á hinn bóginn ekki haft lögvarða hagsmuni af ólögmætu athæfi annarra aðila þ.e. útgerða þeirra skipa sem landa myndu á Austfjörðum, Raufarhöfn eða Siglufirði ef verkfall væri ekki yfirstandandi þar.

Með vísan til ofanritaðs er því þannig eindregið mótmælt sem röngu að með banni stefnda sé brotið gegn hlýðniskyldu, friðarskyldu og að það feli í sér samningsrof gagnvart stefnanda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Stefndi sé sammála stefnanda um mikilvægi tilgreindra skyldna en mótmælir því harðlega að þær skyldur feli í sér skyldu til lögbrota. Stefnandi sé grandsamur um yfirstandandi verkfall og sé fullkunnugt um það að hvaða verkefnum verkfallið beinist. Verkfallið eigi ekki að leiða til aukinna verkefna fyrir stefnanda og það feli ekki í sér brot gagnvart honum að stefndi komi í veg fyrir ólögmæta tilfærslu verkefna til hans.

2. Lögmæti aðgerða

Í 14. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé lögfest heimild til handa stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum. Þeim sem vinnustöðvun beinist gegn sé óheimilt að brjóta gegn henni, sbr. 18. gr. laga nr. 80/1938. Þeim sé óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa. Með því að ætla félagsmönnum í Verkalýðsfélaginu Einingu-Iðju í Eyjafirði að ganga í störf félagsmanna Stéttarfélagsins Vökuls, Verkamannafélagsins Árvakurs, Verkalýðsfélags Norðfirðinga, Verkalýðsfélagsins Fram, Verkalýðs- og sjómannafélags Vopnafjarðar og Skeggjastaðarhrepps, Verkalýðsfélags Raufarhafnar og Verkalýðsfélagsins Vöku hyggist stefnandi, Samtök atvinnulífsins, brjóta gegn fortakslausu banni 18. gr. laga nr. 80/1938. Öll þessi stéttarfélög eigi aðild að Alþýðusambandi Íslands sem standi að vinnustöðvuninni í þessum skilningi, sbr. 4. gr. laga Alþýðusambands Íslands og 13. laga nr. 80/1938.

Löng venja sé fyrir því að þeim aðila sem standi að lögmætum verkfallsaðgerðum sé heimilt að verja aðgerðir sínar gegn því að gagnaðilinn brjóti þær á bak aftur með ólögmætum hætti. Stéttarfélögum sé heimilt að tryggja að starfseminni sem verkfall beinist gegn sé hætt. Málsókn þessi beri vitni um að atvinnurekendur ætli að brjóta gegn löglega boðuðu verkfalli verkalýðsfélaganna með því að reyna að fá aðra til þeirra verka sem verkfallsmenn sinna að jafnaði. Þetta virðist þannig vera ætlan útgerða þeirra 17 tilgreindu skipa en engin þeirra hafi fært fram rök fyrir því að verkfallið eigi ekki að hafa áhrif á landanir skipanna. Feli ráðagerðir útgerðanna þannig nákvæmlega það sama í sér eins og ef þær myndu t.d. fá félagsmenn í Verkalýðsfélaginu Vöku á Siglufirði til annast um löndun á Siglufirði, í trássi við verkfallið.

Slíkt sé brýnt brot gegn rétti þeirra sem séu í verkfalli. Í þessu sambandi myndi engu breyta þó svo að skipin væru stödd utan Austfjarða- og Raufar- og Siglufjarðarhafna. Kjarni málsins sé að þar væru þau ekki stödd ef ekki stæði yfir verkfall í löndunarhöfn þeirra. Með bréfum samninganefnda þeirra stéttarfélaga, sem standa að verkfallinu, hafi öllum misskilningi verði eytt, hafi hann verið til staðar. Útgerðir skipanna séu þannig grandsamar um að þær væru að komast hjá áhrifum verkfallsins með því að flytja verkefni verkfallsmanna annað.

Kjarni vinnustöðvunar sé að tiltekin starfsemi sé stöðvuð í þeim tilgangi að knýja á um kröfur í vinnudeilu. Mjög algengt sé, ef ekki sé um allsherjarverkfall að ræða, að vinnustöðvunin hafi áhrif á aðra starfsemi sem þannig lamast þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki í verkfalli eða verkbanni. Skapi sú staðreynd að skipverjar skipanna séu ekki í verkfalli, útgerðum þeirra engan rétt. Sú staðreynd skapi stefnanda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., heldur engan sjálfstæðan rétt.

Það sé eitt megineinkenni verkfalls að það eigi ekki að leiða til aukinna verkefna hjá aðilum sem standa utan við það og sinna vinnu af sama tagi og verkfallið beinist að. Væri slíkt heimilt myndi verkfall, sem er lögmætt þvingunarúrræði skv. 14. gr. laga nr. 80/1938, missa marks og hætta jafnframt skapast á að kjaradeila dragist óhóflega á langinn, í andstöðu við tilgang II. og III. kafla laga nr. 80/1938.

Kjarni þessa máls sé að stefndi, Verkalýðsfélagið Eining-Iðja hafi einvörðungu beitt sér innan leyfilegra marka 18. gr. laga nr. 80/1938 og hafi hvergi farið offari. Slíkt sé fullkomlega heimilt og geti aldrei leitt til bótaskyldu. Bann stefnda nái enda einvörðungu til þess að ganga í störf verkfallsmanna.

Með vísan til ofanritaðs alls sé ótvírætt að stefndi hafi fulla heimild til og sé raunar skylt að verja rétt hinna sjö stéttarfélaga til að vera í verkfalli í þeim tilgangi að knýja á um kjarakröfur sínar í deilu við atvinnurekendur á viðkomandi stöðum og neita að brjóta gegn banni 18. gr. laga nr. 80/1938.

Málsvörn stefnda styðst við reglur vinnuréttar um verkföll sbr. lög nr. 80/1938.

Þá vísast til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um málskostnað en um álag vegna virðisaukaskatts vísast til laga nr. 50/1987; stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag sem skatti þessum nemur úr hendi stefnanda.

 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um það hvort í banni því, sem hið stefnda stéttarfélag lagði fyrir félagsmenn sína við því að landa og vinna afla úr tilgreindum fiskiskipum í tilefni af umræddu verkfalli greindra sjö verkalýðsfélaga hjá fiskimjölsverksmiðjum, er stjórn stéttarfélagsins samþykkti á fundi sínum 16. maí sl., og tilkynnti stefnanda með bréfi dagsettu sama dag, felist brot á kjarasamningi aðila frá 24. mars 1997 og friðarskyldu sem af honum leiðir. Er tekist á um það hvort bann þetta sé innan þeirrar heimildar og skyldu sem stéttarfélag hefur til að koma í veg fyrir að félagsmenn þess gangi inn í störf annarra sem eru í verkfalli. Þannig reynir sérstaklega á það hvort umrædd ákvörðun stéttarfélagsins um bann eigi sér stoð í og samrýmist 18. gr. laga nr. 80/1038 um stéttarfélög og vinnudeilur. Grein þessi er svohljóðandi:

"Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin er þeim sem hún að einhverju leyti beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem að vinnustöðvuninni standa."

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umrædd fyrirmæli stjórnar hins stefnda stéttarfélags feli í sér samningsrof sem stéttarfélagið beri ábyrgð á samkvæmt 8. gr. laga nr. 80/1938, enda geti ákvæði 18. gr. laganna á engan hátt réttlætt þessa ákvörðun. Því er sérstaklega mótmælt sem röngu og ósönnuðu að öll umrædd 17 fiskiskip landi að jafnaði hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum, sem verkfallið beinist gegn, og að fyrir sé að fara samningsskyldum til að landa þar en ekki annars staðar. Þá er á það bent að tilmæli samninganefndar Alþýðusambands Austurlands til tilgreindra verkalýðsfélaga, þ. á m. stefnda, dags. 16. maí sl., varði löndunarstörf, en þau störf hafi ekki verið lögð niður í verkfallinu. Þá sé sá hængur á ákvörðun stefnda að hún gangi lengra en tilmælin, enda taki ákvörðunin bæði til löndunar og vinnu í verksmiðju stefnanda.

Af hálfu stefnda er sýknukrafan, auk viðbáru um aðildarskort, á því byggð að umrætt bann stéttarfélagsins, er taki einvörðungu til vinnu félagsmanna þess í verksmiðju stefnanda í Krossanesi við löndum og vinnslu bræðslufisks úr umræddum 17 fiskiskipum, feli eingöngu í sér að ekki sé gengið inn í störf verkfallsmanna, og sé þannig fullkomlega í samræmi við 18. gr. laga nr. 80/1938. Leiði raunar beint af lagagrein þessari að svo skuli vera þannig að í raun hafi hvorki verið þörf á tilmælum verkalýðsfélaganna, sem standa að vinnustöðvuninni, né sérstaks atbeina stefnda. Er til þess vísað að fyrir liggi, sbr. framlögð yfirlit yfir landanir, að í þeim mæli sé landað úr umræddum fiskiskipum hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum, sem verkfallið beinist að, að löndun og vinna við aflann annars staðar þýddi að gengið væri inn í störf verkfallsmanna.

Stefndi byggir málsástæðu sína um aðildarskort á því að umrætt bann stefnda beinist ekki að stefnanda heldur útgerðum hinna tilgreindu fiskiskipa, en stefnandi geri ekkert þeirra út. Af þessu tilefni skal tekið fram að stjórn stefnda samþykkti að banna félagsmönnum sínum, þ. á m. þeim sem eru starfsmenn stefnanda, að vinna umrædd störf og tilkynnti stefnanda um þá ákvörðun með bréfi, dags. 16. maí sl. Eins og atvikum er háttað samkvæmt þessu verður að telja að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um sakarefnið í máli þessu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að fyrir hendi sé aðildarskortur.

Í hinni umdeildu samþykkt stefnda kom fram að stjórnin bannaði félagsmönnum stéttarfélagsins að landa og vinna afla úr loðnu-, síldar- og kolmunnaskipum sem landa "að jafnaði" hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum sem verkfallið beinist gegn, meðan verkfall umræddra sjö verkalýðsfélaga stendur, sbr. bréf stefnda til stefnanda, dags. 16. maí sl. Eru 28 fiskiskip tilgreind í bréfinu í samræmi við tilmæli samninganefndar Alþýðusambands Austurlands, sbr. bréf hennar, dags. sama dag. Síðan gerðist það að skipunum var fækkað úr 28 í 17 eða um 11 skip, sbr. bréf samninganefndarinnar, dags. 24. maí sl., til tilgreindra verkalýðsfélaga, þ. á m. stefnda, vegna athugasemda og ábendinga sem fram höfðu komið. Var þess farið á leit að ekki yrði landað úr hinum tilgreindu 17 fiskiskipum "sem ótvírætt hefðu landað hjá fiskimjölsverksmiðjunum sem verkfallið beinist gegn". Í svarbréfi samninganefndar Alþýðusambands Austurlands, dags. 24. maí sl., við bréfi lögmanns stefnda, dags. 23. maí sl., kemur fram að skipin á upphaflega listanum "voru valin með hliðsjón af því hvort þau lönduðu hjá þeim verksmiðjum sem verkfallið tekur til auk þess sem sérstaklega var horft til þess hvort þau hefðu landað þar í maí og júní 1999 þegar veiðar stóðu yfir á kolmunna og síld úr norsk-íslenska síldarstofninum" eins og þar segir. Tekið er fram að tilmælin taki "eingöngu til löndunar á bræðslufiski". Ennfremur kemur fram að ráðgerð sé fækkun skipanna á listanum í tilefni af athugasemdum og ábendingum.

Vörn stefnda er einkum byggð á almennum staðhæfingum um það að útgerðir umræddra skipa séu að koma sér undan áhrifum verkfallsins með því að láta skipin landa annars staðar en hjá fiskimjölsverksmiðjunum, sem verkfallið beinist gegn, og flytji þannig verkefni verkfallsmanna annað. Þannig sé brotið gegn löglegu verkfalli með því að reyna að fá aðra til þeirra verka sem verkfallsmenn sinna að jafnaði. Þessu til staðfestingar er vísað til framlagðra gagna um landanir fiskiskipanna, auk þess sem almennt er vísað til eignarhalds og fastra viðskiptasamninga. Hefur stefndi skipt umræddum 17 skipum í tvo flokka. þar sem í fyrri flokknum eru 11 skip, er samkvæmt gögnum séu með yfir 80% af löndunum á verkfallsstöðunum, og í síðari flokknum 6 skip er hafi fasta samninga og hátt hlutfall í heild og nánast undantekningarlausar landanir á verkfallsstöðunum í maí/júní 1999.

Þrátt fyrir það að framlögð gögn um landanir umræddra 17 fiskiskipa gefi almennt vísbendingu um að þau landi að jafnaði afla sínum á verkfallssvæðunum sýna sömu gögn að það er engan veginn einhlítt. Þá eru, gegn mótmælum stefnanda, ósannaðar staðhæfingar stefnda um fasta viðskiptasamninga og áhrif eignarhalds á skipunum, en takmörkuð grein hefur verið gerð fyrir því hvernig eignarhaldi á þeim er háttað. Samkvæmt því verður að telja að stefndi hafi ekki sýnt fram á að grundvöllur hins umdeilda banns hafi að þessu leyti verið það traustur að á honum yrði byggt.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður að fallast á það með stefnanda að hið umdeilda bann stefnda, sem birt var stefnanda með bréfi, dags. 16. maí sl., hafi verið ólögmætt.

Síðari krafa stefnanda felur í sér að viðurkennt verði að löndun og vinnsla afla í fiskimjölsverksmiðju stefnanda úr þeim 17 skipum sem deilan snýst um feli hvorki í sér brot gegn löglega hafinni vinnustöðvun greindra stéttarfélaga né 18. gr. laga nr. 80/1938. Af niðurstöðu um fyrri lið í kröfu stefnanda leiðir ekki sjálfkrafa að síðari liður kröfugerðar hans verði tekinn til greina. Stefnandi hefur hvorki rökstutt þessa kröfu nægilega né lagt fram viðhlítandi gögn henni til stuðnings. Ber því með vísan til e og g liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 að vísa þessari kröfu sjálfkrafa frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður

D Ó M S O R Ð :

Bann það, sem Eining-Iðja hefur beint til félagsmanna sinna um að þeir hvorki landi né vinni afla úr 17 tilgreindum loðnu- síldar- og kolmunnaveiðiskipum og tilkynnt var Ísfélagi Vestmannaeyja hf. með bréfi dags. 16. maí 2000, er ólögmætt.

Síðari viðurkenningarkröfu stefnanda er vísað sjálfkrafa frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum