Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 11/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 11/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 652/2015; kæra A og B, dags. 23. desember 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi A sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 20. maí 2014, en ágreiningur er um hvort hann hafi jafnframt sótt um leiðréttingu fyrir kæranda B. Kæranda A var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 1.626.048 kr. og var sú fjárhæð birt honum 11. nóvember 2014.

Kærandi A gerði þann 14. nóvember 2014 athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar kom fram að í ljós hefði komið að umsókn um leiðréttingu hefði verið reiknuð eingöngu fyrir kæranda A en ekki kæranda B, þrátt fyrir að þau hafi verið gift allt tímabilið sem leiðréttingin hafi náð til. Kærandi A benti á að móttökukvittun frá 20. maí 2014 yrði vart skilin öðruvísi en svo að sótt hafi verið um fyrir heimilisfólkið. Þess var farið á leit við ríkisskattstjóra að þetta yrði leiðrétt.

Athugasemd kæranda A var svarað þann 2. desember 2015. Í svarinu kom fram að samkvæmt lögum nr. 35/2014 tæki leiðréttingin til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Jafnframt var tekið fram að leiðréttingin tæki til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn væri skráður fyrir lánunum á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands hefði kærandi A verið í hjúskap með kæranda B frá árinu 2003. Þann 6. maí 2009 hafi þau hafi þau slitið samvistum og tekið aftur saman í desember 2010. Þar sem þau hafi ekki verið í samvistum í árslok 2009 hafi þau ekki skilað inn sameiginlegu skattframtali 2010 vegna tekjuársins 2009. Því hafi umsókn kæranda A ekki geta gilt fyrir hann og kæranda B.

Með kæru, dags. 23. desember 2015, er kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kemur fram að kæran stafi frá báðum kærendum og þess er krafist að viðurkennt verði að umsóknir beggja kærenda séu gildar. Einnig er þess krafist að viðurkennt verði að kærandi B eigi rétt á leiðréttingu í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Tekið er fram að kærendur hafi byrjað sambúð sína árið 2003 og verið í sambúð við upphaf leiðréttingartímabilsins. Þau hafi slitið samvistum hinn 6. maí 2009 og það ástand varað fram yfir lok leiðréttingartímabilsins eða þar til í desember 2010. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 hafi hjónum og sambúðarfólki, sem uppfylltu skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, í árslok 2013, verið heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á tímabilinu og annað eða bæði voru ábyrg fyrir. Í svari ríkisskattstjóra frá 3. desember 2015 segi; „þar sem sambúð ykkar hefur ekki varað óslitið frá upphafi leiðréttingartímabils til umsóknardags og þið skiluðuð ekki sameiginlegum skattframtölum 2010, gat umsókn ykkar ekki gilt fyrir ykkur bæði“. Þessu mótmæla kærendur. Framangreindu fylgi enginn frekari rökstuðningur eða tilvísanir til lagaákvæðis sem styðji grundvöll ákvörðunarinnar. Í lögum nr. 35/2014 eða tilheyrandi reglugerðum sé ekki að finna ákvæði þess efnis að ef breytingar hafi orðið á sambúð tveggja einstaklinga frá upphafi leiðréttingartímabilsins til umsóknardags geti þau ekki sótt sameiginlega um leiðréttingu á grundvelli 4. gr. laganna. Þvert á móti geri ákvæði laganna ráð fyrir að slíkar breytingar hafi getað átt sér stað innan leiðréttingartímabilsins. Ekki sé heldur að finna í lögunum skilyrði um að aðilarnir verði að hafa skilað sameiginlegum skattframtölum árið 2010. Ágreiningslaust sé að kærendur hafi verið í sambúð á tímabilinu 1. janúar 2008 til 6. maí 2009, sem sé um 71% af leiðréttingartímabilinu. Verði ekki talið að kærandi B eigi rétt á fullri leiðréttingu fyrir tímabilið sé á því byggt að hún eigi rétt á leiðréttingu vegna þess hluta tímabilsins sem hún uppfyllti skilyrði laganna. Fái það stuðning í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 og 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, þar sem fram kemur að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún hafi verið á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins. Í síðarnefnda ákvæðinu komi enn fremur fram að ef breytingar hafi orðið á högum umsækjenda, einu sinni eða oftar á tímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miðast við að breytingin taki gildi frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hún átti sér stað. Í tilviki kærenda hafi breytingin því tekið gildi 1. júní 2009. Í öllu falli sé því mótmælt að kærandi B verði svipt lögvörðum rétti sínum til leiðréttingar á þeim grundvelli að formskilyrði óskýrra lagaákvæða hafi ekki verið uppfyllt af ítrustu nákvæmni. Að öllu framangreindu virtu telji kærendur að ákvörðun ríkisskattstjóra eigi sér ekki lagastoð, að umsóknir þeirra um leiðréttingu séu gildar og að þau eigi bæði rétt á leiðréttingu í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014.

Úrskurðarnefndin óskaði þann 5. janúar 2016 eftir umboði því til staðfestingar að kæran stafaði einnig frá kæranda B. Umboð þess efnis var móttekið þann 12. janúar 2016.

 

II.

 

Með tölvupósti, dags. 5. janúar 2016, leitaði úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána umsagnar ríkisskattstjóra, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Tekið var fram að miðað við skráningu heimilissögu virðist kærendur hafa verið saman árið 2008, ekki árið 2009, saman 2010 og fram til 27. ágúst 2014. Raunveruleg samvistarslit virðist hafa verið frá maí 2009 til desember 2010. Kærendur virðast hafa verið í sambúð bæði 31. desember 2013 og á umsóknardegi. Var óskað upplýsinga um það á hvaða lagaákvæðum ríkisskattstjóri byggði þá ákvörðun sína að umsókn kærenda gæti ekki verið sameiginleg. Tekið var fram að í svari ríkisskattstjóra við athugasemd kærenda væri aðeins vísað til laga nr. 35/2014 en ekki sérstaks lagaákvæðis.

Í umsögn ríkisskattstjóra, sem barst úrskurðarnefnd þann 18. janúar 2016, kemur fram að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 komi fram að einstaklingum sé heimilt að sækja um leiðréttingu lána. Þar komi ennfremur fram að hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í árslok 2013 væri heimilt að sækja sameiginlega um slíka leiðréttingu. Í sameiginlegri umsókn hafi umsækjendur getað séð upplýsingar um skráð lán beggja umsækjenda og stöðu þeirra frá árunum 2008 og 2009, en upplýsingar þessar séu sóttar í skattframtöl umsækjenda 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009. Í samræmi við almenna trúnaðarskyldu sé ríkisskattstjóra ekki heimilt að veita aðilum sem ekki séu framteljendur á viðkomandi skattframtali upplýsingar úr því. Því hafi einungis þeir sem höfðu verið í sambúð eða hjúskap óslitið frá því fyrir ársbyrjun 2008 og uppfylltu skilyrði samsköttunar í árslok 2013 getað sótt sameiginlega um leiðréttingu. Kærendur hafi ekki talið fram sameiginlega árið 2010 vegna tekjuársins 2009, enda skráð skilin að borð og sæng í Þjóðskrá í árslok 2009. Á kvittun fyrir móttöku umsóknar komi nafn umsækjanda fram efst á skjalinu og þar fyrir neðan komi upplýsingar um heimilisfólk miðað við. 31. desember 2013. Í tilviki kæranda A komi einungis nafn hans fram sem umsækjanda en við nafn kæranda B standi maki en ekki umsækjandi. Ekki verði því fallist á að móttökukvittun hafi borið með sér að þau væru bæði aðilar að umsókninni. Að framangreindu virtu hafi ekki verið unnt að fallast á athugasemd kæranda A frá 14. nóvember 2014, þ.e. ekki hafi verið unnt að fallast á að umsókn hans gæti gilt fyrir báða kærendur. Að lokum var tekið fram að ekki væri séð að ríkisskattstjóra hafi borist athugasemdir frá kæranda B þess efnis að umsókn hafi ekki tekið til hennar og hafi embættið því ekki tekið afstöðu til athugasemdar hennar ef um hana sé að ræða.

Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar til ríkisskattstjóra, dags. 21. janúar 2016, var embættið upplýst um að úrskurðarnefndin hafi þann 12. janúar 2016 móttekið umboð kæranda B því til staðfestingar að kærandi A hefði haft heimild hennar til að kæra leiðréttinguna og koma fram fyrir hönd hennar við meðferð málsins. Í ljósi þess og með vísan til 5. mgr. 14. gr. væri óskað eftir umsögn ríkisskattstjóra um kröfur kæranda B sérstaklega. Einnig var ítrekuð beiðni um tilvísun til lagaheimildar fyrir því að kærendum hafi ekki verið heimilt að sækja um saman.

Með tölvupósti, dags. 3. febrúar 2016, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að málið yrði sent til hans að nýju til ákvörðunar þar sem nú lægi fyrir framangreint umboð og ríkisskattstjóri hafi ekki tekið afstöðu til athugasemdar kæranda B á fyrri stigum málsins.

 

III.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, þá sótti kærandi B ekki um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Álitamál er hvort umsókn kæranda A gilti fyrir hana líka, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, en ríkisskattstjóri hefur hafnað málatilbúnaði kæranda A þess efnis en lítur svo á að ekki hafi verið tekin afstaða til kröfu kæranda B þar um. Þar sem ágreiningur í málinu snýst um hvort kærendur hefðu sótt sameiginlega um þykir ekki óvarlegt að fjalla um mál þeirra sameiginlega þrátt fyrir að þau hafi skilið að borði og sæng í ágúst 2014 og lögskilnaði í október 2015.

Um leiðréttingarfjárhæð er fjallað í 9. gr. laga nr. 35/2014. Í 1. mgr. þeirrar greinar kemur fram að leiðréttingarfjárhæð umsækjanda samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er samtala fjárhæðar einstaklinga samkvæmt 7. gr. sömu laga að teknu tilliti til frádráttarliða einstaklinga samkvæmt 8. gr. laganna og er að hámarki 4.000.000 kr. á hvert heimili hvort sem um er að ræða einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar í árslok 2013 heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008–2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir.

Eins og fyrr greinir kveðst kærandi A hafa sótt um leiðréttingu fyrir heimili hans og þ.á m. kæranda B. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að ef niðurstaða útreiknings samkvæmt 9. gr. laganna byggist á röngum upplýsingum skuli umsækjanda heimilt að óska eftir leiðréttingu til ríkisskattstjóra. Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána segir jafnframt að umsækjandi geti gert athugasemdir til ríkisskattstjóra vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um lán, hjúskaparstöðu eða frádráttarliði.

Í málinu liggur fyrir að ríkisskattstjóri hefur hafnað kröfu kæranda A um að umsókn hans gildi einnig fyrir fyrrverandi eiginkonu hans, kæranda B. Vísað var til þess að kærendur hefðu ekki verið í sambúð á hluta leiðréttingartímabilsins og af þeirri ástæðu gæti umsókn ekki tekið til beggja. Ekki er skýrt á hvaða lagagrundvelli ákvörðun ríkisskattstjóra byggir. Samkvæmt framansögðu var ákvörðun ríkisskattstjóra ekki rökstudd að neinu leyti með tilliti til 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014. Tekið skal fram að telja verður að óumdeilt sé að kærendur uppfylltu skilyrði samsköttunar í árslok 2013. Sjónarmið ríkisskattstjóra um framsetningu móttökukvittunar umsóknar gat ekki leyst embættið undan því að rökstyðja á viðhlítandi hátt hina umdeildu ákvörðun. Samkvæmt þessu var rökstuðningi ríkisskattstjóra áfátt, sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður að telja að um verulegan annmarka á rökstuðningnum hafi verið að ræða. Verður því að ómerkja hina kærðu ákvörðun.

Það athugast að þrátt fyrir ákvörðun ríkisskattstjóra um að umsókn A hafi ekki getað verið sameiginleg kærendum hefur í umsögn embættisins, dags. 3. febrúar 2016, komið fram að ekki hafi verið tekin afstaða til athugasemda B. Kæranda A var heimilt að gera athugasemdir um rangar upplýsingar svo sem um hjúskaparstöðu, sbr. 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Hafi embætti talið þörf á umboði frá B eða að afstaða hennar lægi fyrir til að unnt væri að taka tillit til athugasemda A hefði verið rétt að leita eftir afstöðu hennar áður en ákvörðun var tekin í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af þeim lagarökum, umsögn ríkisskattstjóra og beiðni embættisins um endursendingu málsins þykir rétt að vísa kæru með þeim rökstuðningi sem fram er kominn af kærenda hálfu til ríkisskattstjóra til umfjöllunar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum