Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 17/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 17/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 6/2016; kæra A og B, dags. 28. janúar 2016. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda grundvallaðist á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtali þeirra árið 2010 vegna tekjuársins 2009, nánar tiltekið á lánum lífeyrissjóðs X nr. 1, banka Y nr. 2 og Lífeyrissjóðs Z nr. 3 og 4.

Með fyrri kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, dags. 9. apríl 2015, var kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kærunni kom fram að kærendur kærðu fjárhæð leiðréttingar á þeirri forsendu að ekki væri reiknuð leiðrétting á lán sem hefðu verið viðurkennd sem grundvöllur vaxtabóta og sannanlega hafa verið tekin vegna húsnæðis til eigin nota. Vegna tímabundinnar dvalar erlendis komi ekki allt tímabilið sem leiðréttingin nái til í endurútreikningi kærenda. Kærendur hafi átt rétt á vaxtabótum á öllu þessu tímabili og hafi erindi þess efnis verið sent til ríkisskattstjóra. Því var farið fram á að leiðréttingin yrði endurskoðuð miðað við að réttur til vaxtabóta hafi verið til staðar á öllu tímabilinu sem leiðrétting náði yfir.

Í fyrri kæru, dags. 9. apríl 2015, kom fram að málavextir hafi verið þeir að kærendur hafi keypt fasteign árið 2004 sem framtíðar íbúðarhúsnæði til eigin nota fyrir fjölskyldu þeirra. Þau hafi tekið til þess lán. Árið 2008 hafi kærendur verið búsett í Bandaríkjunum vegna vinnu og talið fram til skatts þar. Þau hafi flust heim aftur eftir það. Kærendur sögðust þá búa ennþá í sama húsnæðinu, enda hafi það ávallt verið markmiðið. Jafnframt muni kærendur greiða af lánum vegna húsnæðiskaupanna næstu 20 árin. Kærendur hafi talið fram í Bandaríkjunum árið 2008, skattframtal 2009, og því hafi framtali vegna ársins 2008 ekki verið skilað á Íslandi. Kærendur sögðust hafa átt rétt á vaxtabótum þar sem um tímabundna búsetu erlendis hafi verið að ræða og bentu m.a. á 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001 í því samhengi. Kærendur sögðust hafa sent erindi til ríkisskattstjóra vegna ársins 2008 (vegna skattframtals 2009) um að reiknaðar verði vaxtabætur fyrir árið 2008. Það sé í samræmi við árin fyrir 2008 og öll ár síðan, en þá hafi viðkomandi lán verið viðurkennd sem grundvöllur til vaxtabóta. Kærendur fóru fram á að leiðrétting yrði  reiknuð fyrir allt tímabil sem höfuðstólsleiðrétting tók til fyrir eftirfarandi lán: Lán nr. 1, lífeyrissjóður X. Lán nr. 2, banki Y. Lán nr. 3, lífeyrissjóður Z. Lán nr. 4, lífeyrissjóður Z.

Auk annarra sjónarmiða tóku kærendur fram að leiðréttingin snerist um höfuðstólslækkun sem hefði áhrif á lán út allan lánstímann. Það gæti varla talist jafnræði að næstu 20 árin muni kærendur þurfa að greiða meira af lánum sínum en aðrir, eingöngu vegna skammrar dvalar erlendis. Ef það yrði niðurstaðan hefðu kærendur orðið fyrir tjóni og ójafnræði. Um þetta sögðu kærendur að í athugasemdum við frumvarp það sem hafi orðið að lögum nr. 35/2014 segi að markmiðið með aðgerðunum hafi verið að leiðrétta þá forsendubresti sem komið hafi fram í verðtryggingarvísitölum á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Yrði ekki fallist á kröfur kærenda hljóti stjórnvöld að þurfa að rökstyðja hvernig framangreindur forsendubrestur eigi ekki við um kærendur. Einnig sögðu kærendur vert að benda á 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Kærendur segjast hafa orðið fyrir sama tjóni og aðrir vegna hruns og verðbólgu og vilji því að jafnræðis sé gætt við leiðréttinguna. Það sé óumdeilt að húsnæðið sem um ræðir hafi verið til eigin nota. Lánin hafi verið til staðar á tímabilinu og hafi verið viðurkennd sem grundvöllur vaxtabóta. Því fóru kærendur fram á að leiðréttingarfjárhæð þeirra yrði endurskoðuð.

Með úrskurði 495/2015, uppkveðnum 14. september 2015, var kæru kærenda vísað frá úrskurðarnefndinni og hún áframsend ríkisskattstjóra þar sem ekki höfðu borist svör frá embættinu við því hvort kærendur hefðu áður sent erindi til ríkisskattstjóra um breytingu á skattframtali sínu.

Þann 26. janúar 2016 sendi ríkisskattstjóri tilkynningu til kærenda. Þar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 tæki leiðrétting til verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá segi í framangreindri 1. mgr. 3. gr. laganna að skilyrði sé að lán hafi verið nýtt, að hluta eða að öllu leyti, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á Íslandi og að þau hafi verið til staðar í heild eða að hluta, á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Vaxtagjöld af sömu lánum skuli hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.

Tekið var fram að samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands hafi kærendur verið búsett erlendis á tímabilinu 8. janúar 2007 til 10. október 2009. Af brottflutningi leiði að skattskylda kærenda hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafi fallið niður og að íbúðarhúsnæði kærenda hér á landi teljist ekki hafa verið nýtt til eigin nota. Þar sem hvorugu framangreindra grundvallar skilyrða hafi verið fullnægt hafi forsenda þess að eiga rétt á vaxtabótum vegna vaxtagjalda af fasteignalánum samkvæmt B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ekki verið til staðar og vaxtabætur því ekki ákvarðaðar fyrir tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2008. Tekið var fram að með erindi dags. 15. apríl 2015 hafi kærendur farið þess á leit að réttur þeirra til vaxtabóta yrði viðurkenndur vegna gjaldársins 2008. Erindinu hafi verið synjað þann 22. apríl 2015. Það liggi fyrir að umrædd lán hafi ekki verið lögð til grundvallar útreiknings vaxtabóta á tekjuárinu 2008, enda hafi kærendur þá ekki borið ekki fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Því hafi skilyrði laga nr. 35/2014 ekki verið uppfyllt vegna ársins 2008. Leiðréttingarfjárhæð kærenda var því ekki breytt.

Kærendum var tilkynnt þann 28. janúar 2016 að frestur þeirra til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar, sem og til að kæra til úrskurðarnefndarinnar, rynni út þann 29. janúar 2016. Kærendur sendu nýja kæru til úrskurðarnefndarinnar samdægurs, reyndar í formi athugasemdar til ríkisskattstjóra sem áframsendi úrskurðarnefndinni erindið þann 1. febrúar 2016. Í erindi kærenda sagði aðeins að í ljósi þess að fyrri kæra hafi ekki fengið efnislega meðferð nema að mjög takmörkuðu leyti myndu kærendur senda inn frekari gögn og/eða nýja kæru eins fljótt og unnt væri. Þann 1. febrúar 2016 staðfesti úrskurðarnefndin móttöku erindisins. Tekið var fram að væri ætlun kærenda að kæra að nýju til nefndarinnar, þ.m.t. senda gögn, nýja kröfugerð eða frekari rökstuðning, væri þess óskað að það yrði gert eigi síðar en 5. febrúar 2016. Jafnframt var sérstaklega áréttað að fram hafi komið í síðasta úrskurði að úrskurðarnefndin tæki ekki afstöðu til þess hvort lán teldust hafa uppfyllt skilyrði vaxtabóta vegna búsetu erlendis og hafi málum er það varða verið vísað frá úrskurðarnefndinni.

Þann 22. febrúar 2016 sendu kærendur nýtt erindi til úrskurðarnefndarinnar. Í því kom fram að kærð væri fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Tekið var fram að fjárhæð leiðréttingar væri kærð á þeirri forsendu að ekki sé reiknuð leiðrétting á lán sem sannanlega hafi verið tekin vegna húsnæðis til eigin nota. Kærendur hafi greitt af lánum á öllu leiðréttingartímabilinu, borið af því vaxtagjöld og muni greiða af lánunum og bera af þeim kostnað næstu áratugina. Kærendur verði fyrir sama tjóni og aðrir vegna hruns og verðbólgu. Kærendur kváðust fara fram á að jafnræðis sé gætt við leiðréttinguna.

Kröfur kærenda eru þær að leiðrétting verði endurskoðuð miðað við allt tímabil sem leiðrétting nái til. Verði ekki fallist á kröfur kærenda hljóti stjórnvöld að þurfa að rökstyðja hvernig sá forsendubrestur sem leiðrétting taki á eigi ekki við um kærendur. Í ljósi úrskurðar nr. 495/2015, þar sem úrskurðarnefndin hafi framsent erindi kærenda til ríkisskattstjóra, og í ljósi þess að erindi dagsettu þann 15. apríl 2015, þar sem kærendur hafi farið þess á leit að réttur þeirra til vaxtabóta yrði viðurkenndur, var synjað, sendi kærendur inn nýja kæru vegna leiðréttingar. Þau telji sig hafa orðið fyrir tjóni og ójafnræði og að þau eigi réttmæta kröfu á leiðréttingu. Tekið er fram að kærð sé fjárhæð leiðréttingar lána á þeirri forsendu að ekki sé reiknuð leiðrétting á lán sem sannanlega hafa verið tekin vegna húsnæðis til eigin nota. Vegna tímabundinnar dvalar erlendis sé allt tímabilið sem leiðréttingin nái til ekki tekið í endurútreikning kærenda. Kærendur hafi hinsvegar greitt af lánum á sama tíma, borið af þeim vaxtagjöld á sama tíma og muni greiða af lánunum og bera af þeim kostnað næstu áratugina. Því fóru kærendur fram á að leiðréttingin yrði endurskoðuð m.v. allt tímabilið sem leiðrétting nái til.

Kærendur lýstu síðan málsatvikum með nokkuð sambærilegum hætti og í upphaflegri kæru og vísuðu til sömu sjónarmiða og áður. Til viðbótar vísuðu kærendur þó til 19. gr. laga nr. 35/2014 þar sem segi að lán sem “ekki veittu rétt til vaxtabóta af vaxtagjöldum er engu síður heimilt að óska eftir því að slík lán verði lögð til grundvallar útreikningi skv. 7. gr., enda hafi lán þessi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði á því tímabili sem leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til.”. Kærendur tóku fram að öll fyrrgreind lán þeirra hafi verið notuð til kaupa á fasteign til eigin nota.

 

II.

 

Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Upphafleg kæra kærenda var skilin sem svo að hún fæli í raun í sér kröfu um að lán lífeyrissjóðs X nr. 1, banka Y nr. 2 og lífeyrissjóðs Z nr. 3 og 4 yrðu talin hafa uppfyllt skilyrði um ákvörðun vaxtabóta árið 2009 vegna tekjuársins 2008, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Núverandi kæra felur í sér sömu kröfu, enda ekki ágreiningur vegna tekjuársins 2009.

Að því er snertir skilyrði, í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um að lán hafi verið viðurkennt sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, skal tekið fram að ríkisskattstjóri ákveður vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Ákvæðið verður ekki túlkað með þeim hætti að í því felist heimild til að taka tillit til lána sem kunna að uppfylla skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 án þess að skattframtali ársins 2009 hafi verið sérstaklega breytt til samræmis. Tilvísun kærenda til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014 á ekki við, enda því ekki haldið fram af kærenda hálfu að umrædd lán hafi verið tekin til endurbóta á fasteign þeirra heldur til kaupa á henni. Af framangreindu leiðir að krafa kærenda á ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 35/2014 og úrskurðarnefnd starfar samkvæmt. Kröfu um að lán verði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta bar því í tilviki kærenda að beina til ríkisskattstjóra, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af svari ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 28. janúar 2016, má ráða að það hafi verið gert þann 15. apríl 2015 og erindi kærenda verið hafnað 22. sama mánaðar. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði úrskurðarnefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kærenda varðandi breytingu lána í lið 5.2 í skattframtali þeirra og er kærunni af þeim sökum vísað frá.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum