Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2015

Hinn 3. mars 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 17/2015:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 269/2015;

Dragon eignarhaldsfélag ehf.

gegn

Bryndísi Guðmundsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 16. desember 2015, fóru Hlédís Sveinsdóttir formaður stjórnar og Gunnar Árnason stjórnarmaður fyrir hönd Dragon eignarhaldsfélags ehf. þess á leit að hæstaréttarmál nr. 269/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 20. apríl 2015, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu endurupptökubeiðanda um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá gagnaðila. Var fjárnámsbeiðni endurupptökubeiðanda studd við skuldabréf sem gagnaðili hafði gefið út til Gunnars Árnasonar, sem hafði síðan áritað skuldabréfið um framsal til endurupptökubeiðanda. Deildu aðilar um hvort gagnaðili og Gunnar hefðu samið um að gera skuld samkvæmt skuldabréfinu endanlega upp með tiltekinni greiðslu en skuldabréfið var ekki áritað um hana. Hélt endurupptökubeiðandi því fram að enginn slíkur samningur hefði verið gerður og gagnaðili stæði því enn í skuld vegna skuldabréfsins. Talið var að fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti milli Gunnars og gagnaðila gæfu til kynna að þau hefðu litið svo á að skuldabréfið hefði með umræddri greiðslu verið að fullu greitt. Þá var talið að vegna tengsla forsvarsmanns endurupptökubeiðanda við Gunnar Árnason, en framkvæmdastjóri og stjórnarmaður endurupptökubeiðanda væri maki Gunnars, yrði að leggja grandsemi endurupptökubeiðanda til grundvallar um atvik sem Gunnari hafi verið kunnugt um. Yrði félagið því að sæta mótbárum gagnaðila. Kröfu endurupptökubeiðanda um að ákvörðun sýslumanns um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá gagnaðila var hafnað með vísan til þessa. Lagt var til grundvallar að slíkur vafi væri um réttmæti kröfu endurupptökubeiðanda á hendur gagnaðila samkvæmt nefndu skuldabréfi að ekki væri fært að gera fjárnám á grundvelli þess án undangengins dóms eða sáttar.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins. Í fyrsta lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að sönnunargagn gagnaðila fyrir lokagreiðslu skuldabréfsins hafi verið falsað og umrædd greiðsla sem skjalið hafi í raun lotið að verið óviðkomandi fasteignaviðskiptum milli gagnaðila og Gunnars Árnasonar, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Í öðru lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að tveir dómarar málsins í Hæstarétti hafi verið vanhæfir til úrlausnar þess, sbr. b-lið 1. mgr. 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Gögn er lutu að ágreiningsmáli sem Hlédís Sveinsdóttir formaður stjórnar endurupptökubeiðanda átti persónulega hlut að fyrir Persónuvernd gæfu tilefni til að draga óhlutdrægni eins dómara Hæstaréttar í efa vegna persónulegra tengsla við formann stjórnar Persónuverndar. Þá mætti draga óhlutdrægni annars dómara réttarins í efa þar sem hann hefði vikið að samskiptum við Gunnar Árnason í tengslum við rekstur dómsmáls sem viðkomandi dómari átti hlut að í fyrra starfi sem lögmaður. Með vísan til þess væru lögð fram sem ný gögn er lutu að málsástæðum varðandi hæfi dómaranna tveggja, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Að lokum byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína á því að innheimta skuldar samkvæmt eftirstöðvum skuldabréfs endurupptökubeiðanda á hendur gagnaðila varði hann miklu þar sem um sé að ræða stórfellda hagsmuni félagsins samanborið við árlegar tekjur þess, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að dómstólar hafi dregið rangar ályktanir af gögnum sem lögð hafi verið fram af hálfu gagnaðila sem hafi jafnframt rangfært þær upplýsingar sem gögnin voru talin fela í sér. Greiðsla samkvæmt útskrift úr heimabanka hafi ranglega verið talin hluti af uppgjöri vegna þess skuldabréfs sem lá til grundvallar kröfu endurupptökubeiðanda um fjárnám hjá gagnaðila. Byggir endurupptökubeiðandi á því að það sé gagnaðila að færa sönnur á að umrædd greiðsla hafi átt að vera hluti af uppgjöri milli gagnaðila og Gunnars og þar sem slík sönnun liggi ekki fyrir hefði átt að heimila umþrætt fjárnám. Bæði í dómi Hæstaréttar sem og dómi héraðsdóms var tekin afstaða til þeirra gagna sem endurupptökubeiðandi fjallar um í beiðni um endurupptöku sem og annarra gagna og upplýsinga sem lágu fyrir þegar málið var til úrlausnar fyrir dómi. Tekin var afstaða til málsástæðna endurupptökubeiðanda er lutu meðal annars að þessum gögnum og þeim hafnað. Í því ljósi verður ekki talið að fullnægt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar.

Þau gögn sem endurupptökubeiðandi teflir fram og telur uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, lúta fyrst og fremst að meintu vanhæfi tveggja hæstaréttardómara. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður í máli þessu sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa í skilningi 5. gr. laga um meðferð einkamála. Nefnd gögn fullnægja því ekki áskilnaði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna, að vera líkleg til að leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Er beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 269/2015 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð

Beiðni Dragon eignarhaldsfélags ehf. um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 269/2015, sem kveðinn var upp 20. apríl 2015, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

 

Elín Blöndal

 

Þórdís Ingadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum