Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 6/2016 Úrskurður 1. apríl 2016

Eiginnafn: Ugluspegill

Mál nr. 6/2016                       Eiginnafn: Ugluspegill

 


                                   

Hinn 1. apríl 2016 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 6/2016 en erindið barst nefndinni 11. janúar síðastliðinn.

Öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

1. mgr. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

2. mgr. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

3. mgr. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Í máli þessu reynir í fyrsta lagi á annað skilyrði 1. mgr. hér að ofan um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og í öðru lagi það skilyrði 3. mgr. að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Skilningur mannanafnanefndar á íslensku málkerfi er í samræmi við það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996 um mannanöfn en þar segir m.a.: „Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli.“

Samkvæmt færslu Jón Gunnars Þorsteinssonar, á Vísindavef Háskóla Íslands hinn 26. október 2004, var Till Ugluspegill söguhetja í þýskri arfsögn frá miðöldum en hann var hrekkjalómur og prakkari sem átti að hafa verið uppi á fyrri hluta 14. aldar. Sögurnar af Ugluspegli bárust víða um lönd og nafn hans hefur fengið merkinguna skelmir, hrekkjalómur og kjáni eins og finna má allmörg dæmi um í textasöfnum úr íslensku nútímamáli. Orðið Ugluspegill virðist því stundum í íslensku hafa fengið stöðu viðurnefnis eða uppnefnis. Að þessu leyti líkist staða nafnsins samnafni en ekki sérnafni.

Ekki er algengt að viðurnefni séu notuð sem mannsnöfn en þó finnast dæmi um það t.d. Fróði og Góði. Síðastnefnda nafnið var fært á mannanafnaskrá í samræmi við úrskurð mannanafnanefndar frá 24. apríl 2015 í máli nr. 19/2015. Allmörg dæmi eru um það í íslensku að samnöfn séu notuð sem mannanöfn, einkum þegar hefð er fyrir slíku. Í vissum tilvikum hefur nöfnum sem byggjast á samnöfnum hins vegar verið hafnað. Þannig var í úrskurði mannanafnanefndar frá 29. júlí 2013 í máli nr. 27/2013, því hafnað að færa nafnið Eldflaug í mannanafnaskrá. Þessi niðurstaða var helst studd þeim rökum að samnöfn, sem merkja manngerð tól, séu almennt ekki notuð sem mannanöfn, nema slík nöfn hafi unnið sér hefð í íslensku máli. Að sambærilegri niðurstöðu var komist í úrskurði nefndarinnar frá 24. apríl 2015 í máli nr. 25/2015 en í því máli var synjað að færa nafnið Prinsessa á mannanafnaskrá. Sú niðurstaða var aðallega reist á þeim rökum að samnöfn, sem merkja titla eða starfsheiti séu ekki notuð sem mannanöfn. Ólíkt nafninu Prinsessa var talið í úrskurði mannanafnanefndar frá 30. september 2015 í máli nr. 66/2015 að nafnið Valkyrja vísaði ekki til starfsheitis í nútímamáli og var það því samþykkt á mannanafnaskrá. Einnig hafa samnöfn, sem ekki eru óeðlislík nafninu Ugluspegli, verið samþykkt á mannanafnaskrá, t.d. nafnið Bláklukka sem fært var á mannanafnaskrá í samræmi við úrskurð mannanafnanefndar frá 5. desember 2014 í máli nr. 87/2014.  

Til þess verður einnig að líta að mannanafnanefnd hefur ekki talið það girða fyrir að nafn komist á mannanafnaskrá þótt það eigi rætur að rekja til ævintýrapersóna, sjá t.d. úrskurð nefndarinnar frá 5. júlí 2013 í máli nr. 38/2013 (Þyrnirós). 

Jafnframt er óhjákvæmilegt við úrlausn þessa máls að líta til tveggja óáfrýjaðra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, annars vegar frá 19. desember 2013 í máli nr. E–1917/2013 (Reykdal) og hins vegar frá 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014 (Gests) en telja verður að í báðum þessum dómum sé beitt rýmkandi skýringu á ákvæðum laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þessi skýringarkostur verður fyrir valinu í þessum tveim dómum m.a. með hliðsjón af grunnreglum íslensk réttar um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í ljósi þessarar dómaframkvæmdar verður ekki séð að tækt sé að beita þeirri aðferð í þessu máli að túlka skilyrði 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn þrengra en lagafyrirmælin beinlínis kveða á um. Af þessu leiðir að í vafatilvikum sem þessum skuli fremur leyfa nafn á mannanafnaskrá en hafna.

Í ljósi þess sem hér hefur verið ritað verður ekki séð að nafnið Ugluspegill brjóti í bág við íslenskt málkerfi í skilningi 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu verður að taka til skoðunar hvort nafnið geti verið nafnbera til ama í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Hér verður að horfa til þess að viðurnefni geta verið viðkvæm og niðurlægjandi og ekki er rík hefð fyrir því að greinileg viðurnefni fái stöðu eiginnafna.

Þótt dæmi séu um að nafnið Ugluspegill hafi fengið almenna neikvæða merkingu í íslensku, eins og áður er getið, er sú merking þess hins vegar ekki almennt þekkt og þar að auki ekki mjög neikvæð eða niðrandi. Þegar svo háttar að fullorðinn maður sækir um að taka upp eiginnafnið Ugluspegill er því ekki unnt að fullyrða að nafnið sé niðurlægjandi fyrir hann. Við það mat verður að hafa í huga að þegar nafn er fært á mannannafnaskrá er leyfilegt að gefa það nýfæddum börnum. Við skýringu á 3. mgr. 5. gr. laganna verður að hafa hliðsjón af áðurnefndum grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. og áðurnefndir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur. Fjarlægur eða óviss möguleiki á því að nafn verði nafnbera til ama er ekki nóg til þess að hafna því. Eiginnafnið Ugluspegill verður því látið njóta vafans.

Skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 standa því ekki í vegi fyrir því að eiginnafnið Ugluspegill (kk.) verði fært á mannanafnaskrá.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Ugluspegill (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira