Hoppa yfir valmynd

Nr. 452/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 452/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060043

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. júní 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. júní 2017, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. júní 2017, þar sem ákveðið var að kæranda skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi í þrígang lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd en að hann hafi dregið allar umsóknirnar til baka. Kærandi hafi síðast lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 6. júní 2017, en dregið umsóknina til baka hinn 15. júní sl. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 15. júní 2017, var kæranda vísað brott frá landinu og bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 16. júní 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 18. september 2016, sem hann hafi dregið til baka þann 29. september sama ár, og lagt fram aðra umsókn um alþjóðlega vernd þann 21. október 2016. Kærandi hafi dregið þá umsókn til baka þann 23. nóvember 2016. Útlendingastofnun hafi, þann sama dag, tilkynnt kæranda um að honum yrði ákvörðuð brottvísun og endurkomubann ef hann færi ekki af landinu innan tilgreinds frests. Greint er frá því að kærandi hafi framvísað flugmiða tveimur dögum eftir að fresturinn hafi runnið út og hafi því ekki virt þann frest sem honum hafi verið veittur til að yfirgefa landið.

Fram kemur að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi þann 9. febrúar 2017, sem hafi verið synjað þann 31. maí 2017. Þá hafi hann lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í þriðja sinn þann 6. júní 2017, en dregið umsóknina til baka þann 15. júní sl. Í viðtali þann sama dag hafi Útlendingastofnun veitt kæranda færi á að mótmæla ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann. Kvaðst kærandi óttast um líf sitt í heimaríki. Í viðtalinu óskaði kærandi eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför sem var synjað þar sem hann hefði ekki virt frest sem honum hefði verið veittur til að fara frá landinu með tilkynningu, dags. 23. nóvember 2016. Með vísan til framangreinds og a-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga taldi Útlendingastofnun að tilefni væri til að brottvísa kæranda, án þess að veita honum frekari frest til að yfirgefa landið. Í gögnum málsins hefði ekkert komið fram sem benti til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda jafnframt ákveðið endurkomubann til Íslands í tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt ákvæða laga nr. 80/2016 um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunar í máli hans, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. laganna. Kærandi vísar til þess að honum hafi verið veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið eftir að hann hafi dregið umsókn um alþjóðlega vernd til baka þann 23. nóvember 2016. Kærandi hafi yfirgefið landið af sjálfsdáðum tveimur dögum eftir að fresturinn hafi runnið út og framvísað farmiðum því til staðfestingar. Að mati kæranda gefi framangreint ekki nægilegt tilefni til að ákvarða honum brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár, líkt og Útlendingastofnun hafi ákveðið. Kærandi hafi aldrei reynt að komast hjá brottflutningi eða sýnt nokkurn mótþróa við boði um að eiga að yfirgefa landið. Hann hafi yfirgefið landið af sjálfsdáðum og í framhaldinu lagt fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi, en snúið aftur hingað til lands þegar umsókn hans hafi verið synjað. Kærandi kveðst ekki vera staddur á landinu. Telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. 1. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Á grundvelli 1. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef honum er ekki veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 104. gr. vegna þess að hætta er á að hann muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar.

Í 104. gr. laga um útlendinga er fjallað um framkvæmd ákvörðunar, en þar segir m.a. að í þeim tilvikum þar sem útlendingur hafi ekki rétt til dvalar hér á landi eða ákvörðun feli í sér að útlendingur skuli sjálfur yfirgefa landið skuli lagt skriflega fyrir hann að hverfa á brott, sbr. 2. mgr. 104. gr. Að jafnaði skuli Útlendingastofnun veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur, en samkvæmt a-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita styttri frest eða fella hann niður, svo sem ef hætta er á að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. a-lið 3. mgr. 105. gr. Í síðastnefndu ákvæði er vísað til þess að útlendingur hafi áður komið sér undan framkvæmd ákvörðunar sem hafi falið í sér að hann skyldi yfirgefa landið, t.d. með því að virða ekki veittan frest, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Eins og rakið hefur verið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 21. október 2016, sem hann dró til baka 23. nóvember 2016. Þann sama dag veitti Útlendingastofnun kæranda sjö daga frest til að yfirgefa landið, en í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi framvísað flugmiða tveimur dögum eftir að fresturinn hafi runnið út. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi yfirgefið landið þann 2. desember 2016. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað brott frá landinu án þess að honum hafi verið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. a-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, þar sem hann var talinn líklegur til að koma sér undan framkvæmd ákvörðunarinnar. Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd hefur undir höndum yfirgaf kærandi landið 27. júní 2017.

Ákvæði 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga á rætur að rekja til 7. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Í athugasemdum um 2. mgr. 104. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að í ákveðnum tilvikum sé, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, útlendingi ekki veittur frestur til að yfirgefa landið að eigin frumkvæði, t.a.m. ef útlendingur hefur gefið mjög rangar upplýsingar, hætta sé á að hann reyni að fara í felur eða að viðkomandi teljist hættulegur.

Að mati kærunefndar er ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi komið sér undan ákvörðun Útlendingastofnunar frá 23. nóvember 2016 um að yfirgefa landið í skilningi a-liðar 3. mgr. 105. gr. laga um útlendinga, enda liggur fyrir að kærandi yfirgaf landið sjálfviljugur þótt það hafi verið tveimur dögum eftir að frestur til þess rann út. Í því ljósi er það jafnframt mat kærunefndar að ekki hafi verið hætta á því að kærandi myndi reyna að koma sér undan framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar eftir að hann dró umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka þann 15. júní sl. Hafi því ekki verið skilyrði til að fella niður frest kæranda til að yfirgefa landið að eigin frumkvæði, sbr. a-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og brottvísa honum á grundvelli 1. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Kærandi hefur jafnframt krafist þess að honum verði veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi. Eins og rakið hefur verið dró kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka þann 15. júní sl. án þess að Útlendingastofnun hafi tekið efnislega afstöðu til málsins. Verður sú krafa kæranda því ekki tekin til greina.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                  Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum