Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 408/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júlí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 408/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050017

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. apríl 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Spánar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 12. september 2016. Þann 13. september 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem hann var með gilda vegabréfsáritun útgefna af spænskum yfirvöldum. Þann 29. september 2016 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 4. nóvember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Spánar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 30. nóvember 2016 til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði kærunefndar, dags. 31. janúar 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda fyrir að nýju. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda þann 7. apríl 2017. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 9. maí 2017. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 22. maí 2017, ásamt viðbótargögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Spánar. Lagt var til grundvallar að Spánn virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hefði í viðtölum hjá stofnuninni m.a. greint frá því að hann hefði [...]. Var kærandi talinn vera í sérstaklega í viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í niðurstöðu stofnunarinnar var farið yfir aðstæður og málsmeðferð á Spáni og m.a. vísað í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum A.M.E. gegn Hollandi frá 13. janúar 2015 og A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015. Þá kom fram að á Spáni færi fram mat á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ekkert benti til þess að móttökuskilyrðum á Spáni væri ábótavant, allir umsækjendur gætu leitað sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu auk þess sem sérstaklega viðkvæmir einstaklingar fengju viðunandi aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu var það mat Útlendingastofnunar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður í máli kæranda sem leiddu til þess að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Enn fremur var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Spánar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá [...]. Kærandi hefur lagt fram gögn í máli sínu til stuðnings þessari málsástæðu, [...].

Kærandi byggir á því í greinargerð að ótækt sé að beita c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hans og að taka eigi mál hans til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 sem breyttu þágildandi lögum um útlendinga. Með hinum nýju lögum sé leiddur í ljós vilji löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í þágildandi lögum um útlendinga.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu og beri stjórnvöldum því skylda til að meta hvaða áhrif það hafi á kæranda að endursenda hann til Spánar og þá sérstaklega með það í huga hvað taki á móti honum þar og hvort hann þoli slíka endursendingu. Vísar kærandi til skýrslu Asylum Information Database (AIDA) en þar komi fram að ekki sé til staðar sérstakur verkferill vegna greiningar á viðkæmum einstaklingum þó framkvæmdin sé sú að þeir einstaklingar sem séu augljóslega í viðkvæmri stöðu fái greiningu á fyrstu stigum málsins. Leggur kærandi áherslu á að hér sé einungis verið að fjalla um greiningu á því hvort einstaklingur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu en mikilvægt sé að afla upplýsinga um hver aðgangur einstaklinga [...] sé að viðeigandi málsmeðferð á Spáni. Umboðsmaður almennings á Spáni hafi þannig gagnrýnt að ekki séu til staðar verkferlar né nægileg aðstoð fyrir einstaklinga sem séu sérstaklega viðkvæmir. Vísar kærandi að öðru leyti til fyrri greinargerðar sinnar frá 19. desember 2016 varðandi ástand hælismála á Spáni.

Enn fremur vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli kæranda frá 31. janúar 2017. Kærandi telji, með vísan til þess úrskurðar, að rannsókn á því hvort að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu geti að mati kærunefndar haft úrslitaáhrif á það hvort beita skuli heimild 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og senda hann til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurðinum sé í raun ýjað að því að slíkt geti ekki talist réttlætanlegt leiði rannsókn á aðstæðum kæranda í ljós að hann, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna, hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls eða geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið sé á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits. Kærandi telji að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og aðstæður hans séu slíkar að ekki geti talist réttlætanlegt að senda hann til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ljóst sé að sérstakar aðstæður séu uppi í máli kæranda og allt bendi til þess að hann þoli ekki endursendingu til Spánar og þær aðstæður sem bíði hans þar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun af spænskum yfirvöldum.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hefur kærandi greint frá því að hann hafi [...]. Þá þjáist hann af [...]. Samkvæmt framlögðum læknisfræðilegum gögnum hefur kærandi [...]. Þá hafi hann [...]. Jafnframt hafi kærandi [...].

Heilsufar er einn þeirra þátta sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars. Þegar stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd kunni að vera af því alvarleikastigi að aðstæður hans geti talist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna ber þeim að bregðast sérstaklega við því með því að gera reka að því að upplýsingum um heilsufar verði bætt við málið, sbr. jafnframt 7. gr. stjórnsýslulaga. Þetta á til dæmis við ef stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að umsækjandi hafi leitað eftir bráðri læknismeðferð.

Samkvæmt framansögðu bera gögn málsins með sér að kærandi [...]. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að í kjölfar viðtals sem fram fór við kæranda þann 10. febrúar sl. hafi hann, fyrir milligöngu Útlendingastofnunar, [...]. Auk þessa kom í ljós í viðtalinu að kærandi [...]. Af þeim læknisfræðilegu gögnum sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd má sjá að [...].

Það er mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi borið að afla framangreindra gagna [...] eða leiðbeina kæranda um þýðingu þess að leggja upplýsingarnar fram áður en stofnunin tók ákvörðun í máli kæranda, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafði stofnunin upplýsingar um tilvist þeirra. Kærunefndin hefur ítrekað í úrskurðum sínum lagt áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður sé ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls auk þess sem fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um aðstæður á Spáni og þ.á m. þá heilbrigðisþjónustu sem þar er í boði. Þá var kærandi metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu og rakið að hann hafi [...]. Hins vegar er hvergi tekin afstaða til heilsufars kæranda varðandi flutning til viðtökuríkis eða hvort framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar [...]. Eins og áður sagði gerði Útlendingastofnun ekki reka að því að afla gagna [...] við málsmeðferð í máli hans þrátt fyrir að hann hafi lýst [...].

Kærunefnd telur rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem stofnunin hafi ekki aflað allra nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga til þess að málið teldist upplýst. Kærunefnd telur að tilefni hafi verið til að afla gagna um [...] til þess að rannsóknin í máli kæranda gæti verið fullnægjandi grundvöllur undir ákvörðun Útlendingastofnunar.

Með hliðsjón af ofansögðu, ásamt þeirri niðurstöðu kærunefndar að ágalli hefur nú verið á rannsókn Útlendingastofnunar á máli kæranda í tvígang, telur kærunefnd að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli kæranda sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum