Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 12/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Úrskurður er kveðinn upp 13. nóvember 2014 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 12/2014: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dóttur kæranda, B. Á fundi kærunefndarinnar 5. nóvember síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærð er ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. bréf 8. september 2014, þar sem því var hafnað að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.

Kveðinn var upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A, vegna dóttur hennar, B. A og faðir stúlkunnar, C, afsöluðu sér forsjá hennar í október 2009, móðirin með dómsátt [...]október 2009 og faðirinn með yfirlýsingu [...] ágúst 2009. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fór með forsjá B frá þeim tíma. Stúlkan var í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni og stjúpafa, en í apríl 2013 óskaði móðir stúlkunnar eftir því að verða falin forsjá hennar að nýju. A hafði glímt við vímuefnavanda en virtist hafa náð tökum á honum. Hún er gift D og búa þau við góðar aðstæður. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. júní 2014 var ákveðið að fela A forsjá B, en það var mat nefndarinnar að það þjónaði hagsmunum stúlkunnar best miðað við stöðu málsins og óskir þeirra beggja.

Kæra E hdl., fyrir hönd A, var móttekin hjá kærunefnd barnaverndarmála 23. september 2014. Þar var kærð ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 8. september 2014 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga. Eftirfarandi kemur fram í hinni kærðu ákvörðun:

 „Í 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar skv. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem samþykktar voru á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 27. maí 2008 kemur eftirfarandi fram: ,,Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns.“

Í því máli sem hér er til umfjöllunar kom ekki til greina að beitt yrði þvingunarúrræðum skv. barnaverndarlögum eins og 1. gr. reglnanna gerir ráð fyrir. Þá liggur ekki fyrir í gögnum málsins að óskað hafi verið eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Í ljósi framangreinds er því hér með hafnað að veita móður styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar skv. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kærunefnd barnaverndarmála ákveði styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar eða geri Barnavernd Reykjavíkur að ákveða slíkan styrk.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hin kærða ákvörðun, sem kynnt var með bréfi 8. september 2014, verði staðfest af hálfu kærunefndar barnaverndarmála.

II. Sjónarmið kæranda

Af hálfu lögmanns kæranda er vísað til 1. og 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga. Bent er á að hvergi komi fram í lagagreininni heimild barnaverndarnefndar til þess að takmarka eða setja frekari reglur um fjárhagsaðstoð með stoð í þessari grein. Löggjafinn hafi ekki takmarkað fjárhagsstyrk til foreldra vegna lögmannsaðstoðar að öðru leyti en því sem komi fram í 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Reglur barnaverndarnefndar Reykjavíkur séu því ekki með stoð í neinum lögum og takmörkun nefndarinnar gangi þvert á lögin og tilgang þeirra. Hljóti það að teljast varhugavert að barnaverndarnefnd Reykjavíkur takmarki rétt skjólstæðinga sinna með regluverki sem sé með öllu óheimilt.

 Sé það gefið að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi heimild til að setja svo íþyngjandi reglur andstæðar lögum þá verði að gagnálykta að ef kærandi eigi rétt á fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar þegar til komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum, þá hafi hann sama rétt þegar barnaverndarnefnd taki til ákvörðunar hvort aflétta eigi slíkum úrræðum þar sem barnaverndarnefnd hefði getað tekið þá ákvörðun að framlengja þvingunarúrræðin.

Rök barnaverndarnefndar um að 2. mgr. 47. gr. eigi einungis við um styrk vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar óski þeir sérstaklega eftir því, eigi ekki við nein rök að styðjast og hafi enga lagastoð. Lögmannsaðstoðin sé ekki hugsuð fyrir starfsmenn barnaverndarnefndar heldur umbjóðendur nefndarinnar. Hafi barnaverndarnefndir heimild til þess að ákveða hvenær umbjóðendur fái að hafa lögmann viðstaddan sé lögmannsaðstoð einungis styrkt í þeim tilfellum sem barnaverndarnefnd ákveði hverju sinni. Enn fremur komi fram í 1. mgr. 47. gr. laganna að aðilar skuli fá að njóta aðstoðar lögmanns áður en barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð. Allir fundir lögmannsins með kæranda hafi verið fundir sem undirbúningur fyrir ákvörðun barnaverndarnefndar og séu allir fundir hans með kæranda og starfsmönnum barnaverndarnefndar innan marka laganna.

Í viðbrögðum lögmanns kæranda við andmælum Barnaverndar Reykjavíkur í bréfi 30. október 2014 er því harðlega mótmælt að ákvarðanir barnaverndarnefndar séu ekki íþyngjandi. Fyrir barnaverndarnefnd hafi legið krafa kæranda um að fá til baka forsjá barnsins síns, sem hún hafi sjálf látið af hendi til barnaverndarnefndar þegar aðstaða hennar hafi verið sú að geta ekki verið með barnið. Krafa kæranda um að fá forsjána til baka hafi verið lögð undir barnaverndarnefnd til samþykktar. Það sé óumdeilt í málinu að barnaverndarnefnd hefði getað hafnað kröfu kæranda. Að halda því fram í andmælum að það sé ekki íþyngjandi ákvörðun af hálfu barnaverndarnefndar að hafna því að kærandi fái forsjá barns síns til baka, bara vegna þess að hún gæti sótt rétt sinn fyrir dómstólum, sé illa ígrunduð. Vissulega sé ekki um að ræða nýjan úrskurð af hálfu barnaverndarnefndar en það breyti því ekki að ákvörðunarvaldið sé hjá barnaverndarnefnd og ákvarðanir sem barnaverndarnefnd taki séu íþyngjandi bæði fyrir móður og barn. Hefði barnaverndarnefndin tekið ákvörðun um að móðir hefði ekki fengið forsjá barnsins til baka hefði það talist ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis eða áframhaldandi beiting slíks úrræðis. Þá sé það ekki skilyrði fyrir því að málsaðilar fái greitt fyrir lögmannsaðstoð að starfsmenn barnaverndarnefndar hafi óskað eftir því að þeir fengju slíka aðstoð.

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndar barnaverndarmála 13. október 2014 segir að í kæru lögmanns kæranda komi fram að hvergi komi fram heimild barnaverndarnefnda til þess að takmarka eða setja fram reglur um fjárhagsaðstoð með stoð í 47. gr. barnaverndarlaga. Löggjafinn hafi ekki takmarkað fjárhagsstyrk til foreldra vegna lögmannsaðstoðar að öðru leyti en því sem komi fram í 2. mgr. áðurnefndrar greinar. Lögmaðurinn telji því að reglur nefndarinnar séu ekki með stoð í neinum lögum og takmörkun nefndarinnar sé þvert á lögin og tilgang þeirra. Barnavernd Reykjavíkur bendir á að um sé að ræða skyldu til styrkveitingar en hvergi í lögum sé kveðið á um að barnaverndarnefndum sé skylt að greiða reikninga lögmanna án athugasemda enda um styrk að ræða. Þvert á móti sé gert ráð fyrir því í barnaverndarlögum að barnaverndarnefnd setji reglur þar sem meðal annars skuli taka tillit til efnahags foreldra og eðlis og umfangs málsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi samþykkt reglur á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga og hafi þær ítrekað verið kynntar fyrir kærunefnd barnaverndarmála sem hafi ekki gert athugasemdir við þær. Framangreindum rökum lögmanns kæranda sé því hafnað.

Þá segi í kæru lögmannsins að ef barnaverndarnefnd hafi heimild til að setja svo íþyngjandi reglur andstætt lögum þá verði að gagnálykta að ef kærandi eigi rétt á fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndar­lögum þá hafi kærandi sama rétt þegar barnaverndarnefnd taki ákvörðun um það hvort aflétta eigi slíkum úrræðum, þar sem barnaverndarnefnd hefði getað tekið ákvörðun um að framlengja þvingunarúrræði. Af hálfu barnaverndarnefndar er bent á að í 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga komi fram að aðilar máls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lúti að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð. Samkvæmt lagagreininni sé í 1. gr. reglnanna kveðið á um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar vegna málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur áður en nefndin kveði upp úrskurð.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga geti foreldri, sem hafi afsalað sér forsjá barns eða verið svipt með dómi, gert kröfu á hendur barnaverndarnefnd fyrir dómi um að samningi verði hnekkt eða dómi um sviptingu breytt og að foreldri verði falin forsjá eða umsjá barns að nýju. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi afsalað sér forsjá stúlkunnar með dómsátt. Í greinargerð starfsmanna 18. júní 2014 hafi verið lagt til að kæranda yrði falin forsjá hennar að nýju. Ekki hafi því verið lagt til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum og úrskurða í málinu enda hafi það ekki komið til greina.

Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndarinnar að litið hafi verið svo á að barnaverndarnefndir geti samþykkt að fela foreldri, sem hafi afsalað sér forsjá, forsjá barns að nýju. Sé það ekki íþyngjandi ákvörðun enda bæði nefnd og foreldri sammála um þá niðurstöðu og sú ákvörðun talin barninu fyrir bestu. Í ljósi þess að hlutverk dómstóla sé að leysa úr ágreiningi hafi ekki verið litið svo á að foreldri þurfi að fara með mál fyrir dóm þar sem aðilar séu sammála um lyktir þess. Ítrekað sé að í máli þessu hafi aðilar verið sammála um þá niðurstöðu sem komist hafi verið að. Ef nefndin hefði ekki komist að fyrrgreindri niðurstöðu hefði ekki verið beitt þvingunaraðgerðum. Forsjárskipan hefði haldist óbreytt, þ.e. forsjáin hefði legið áfram hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Ekki hefði verið úrskurðað að nýju. Í framhaldinu hefði kærandi hins vegar þurft að höfða mál fyrir dómstólum til að freista þess að fá forsjána að nýju.

Hafa beri í huga að barnaverndarnefnd Reykjavíkur skuli gæta jafnræðis við ákvarðanatöku varðandi styrkveitingar sem og annað og sé því ekki unnt að halda því fram að barnaverndarnefndinni beri að greiða án athugasemda þá reikninga sem berist frá lögmannsstofum. Í sambærilegum málum hafi ekki verið greitt fyrir lögmannsaðstoð fyrir foreldra enda ekki talin vera til staðar heimild til þess.

Í kæru lögmannsins sé því einnig haldið fram að rök barnaverndarnefndar um að 2. mgr. 47. gr. laganna eigi einungis við um styrk vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar, óski þeir sérstaklega eftir því, eigi ekki við nein rök að styðjast og hafi enga lagastoð. Þá komi fram að allir fundir lögmanns með kæranda hafi verið undirbúningur fyrir ákvörðun barnaverndarnefndar og því séu allir fundir lögmannsins með kæranda með starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur innan marka laganna.

Af framangreindu tilefni er ítrekað af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur að nefndin hafi sett reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar sem samþykktar hafi verið 27. maí 2008. Eigi þær reglur sér lagastoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið sé á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem aðila máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð eftir reglum sem nefndin setji. Hafi reglurnar verið kynntar kærunefnd barnaverndarmála ítrekað sem hafi ekki gert athugasemdir við efni þeirra. Í 1. gr. reglnanna komi fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanna. Hér sé ekki verið að ræða um fundi með barnaverndarnefndinni heldur aðra þá fundi sem haldnir séu út af málum sem séu til vinnslu. Í 1. gr. reglnanna komi fram að veita skuli fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur áður en nefndin kveði upp úrskurð. Veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Í máli þessu hafi ekki staðið til að beita þvingunarúrræðum og hafi starfsmenn nefndarinnar aldrei óskað eftir aðkomu lögmanns að málinu. Hafi það verið val kæranda.

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst þess að kærunefnd barnaverndarmála felli úr gildi hina kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt bréfi frá 8. september 2014 þar sem því var hafnað að greiða styrk vegna lögmannsaðstoðar og ákveði styrk til kæranda eða geri barnaverndarnefnd að ákveða umbeðinn styrk. Með ákvörðuninni hafnaði Barnavernd Reykjavíkur því að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið til meðferðar í tilefni af því að kærandi hafði óskað eftir forsjá dóttur sinnar en nefndin hafði farið með forsjá hennar frá því að kærandi hafði með dómsátt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur X 2009 fallist á kröfur nefndarinnar fyrir dóminum um að hún yrði svipt forsjá stúlkunnar samkvæmt 29. gr. barnaverndarlega eins og fram kemur í gögnum málsins. Dómsáttin var gerð samkvæmt því sem fram kemur í endurriti úr þingbók í ljósi yfirlýsingar kæranda frá 7. sama mánaðar þess efnis að kærandi óskaði eftir því að barnaverndarnefnd tæki við forsjá dóttur hennar og vistaði hana hjá móðurforeldrum stúlkunnar frá þeim degi til 15. mars 2020 samkvæmt 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga.

Í lagaákvæðinu kemur fram að barnaverndarnefnd geti, eftir því sem nánar sé ákveðið í áætlun samkvæmt 23. gr. laganna, með samþykki foreldra tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur eða tekið við forsjá eða umsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða sem vísað er til í lagaákvæðinu. Um áætlun um meðferð máls segir í 1. mgr. 23. gr. laganna að þegar mál hafi verið nægilega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst sé niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta sé þörf og setja fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því sé að skipta. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að ef könnun leiði í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögunum skuli barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hafi 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls.

Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins kom ekki til þess að beiðni kæranda um að fá forsjá dóttur sinnar á ný kallaði á að barnaverndarnefnd beitti þvingunarráðstöfunum í málinu. Eins og fram kemur í 1. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd gripið til ráðstafana samkvæmt 26., 27., 28. og 29. gr. laganna, sem allar teljast þvingunar­ráðstafanir, ef foreldri afturkallar samþykki sitt fyrir tímabundnu úrræði samkvæmt 25. gr. laganna ef skilyrðum lagagreinanna er að öðru leyti fullnægt. Í tilefni af því að kærandi hafði óskað þess að fá forsjá dóttur sinnar á ný var af hálfu barnaverndarnefndarinnar tekin saman greinargerð 18. júní 2014 um málið sem lögð var fyrir barnaverndarnefndina 24. júní sama ár. Í greinargerðinni kemur meðal annars fram að Barnavernd Reykjavíkur hefði í tvígang óskað eftir mati sálfræðings á hagsmunum stúlkunnar. Niðurstöður matsgerðanna eru raktar í greinargerðinni. Aflað var upplýsinga um stúlkuna frá skóla. Þá kemur fram í greinargerðinni að málið verði lagt fyrir barnaverndarnefndina með tillögu um að kæranda yrði falin forsjá stúlkunnar á ný.

Samkvæmt því sem að framan greinir eiga röksemdir kæranda, þess efnis að til hafi staðið að beita íþyngjandi úrræðum eða þvingunarúrræðum eða framlengja þvingunarúrræði gagnvart kæranda og dóttur hennar, ekki við um þá úrlausn og málsmeðferð sem málið sætti af hálfu barnaverndarnefndarinnar. Í fyrsta lagi gat ekki komið til þess að barnaverndarnefndin framlengdi þvingunarúrræði þar sem kærandi fól barnaverndarnefndinni forsjá stúlkunnar þegar hún var vistuð hjá fósturforeldrum án þess að barnaverndarnefndin beitti þvingunarúrræðum. Í öðru lagi kom samkvæmt því sem að framan greinir ekki til þess að barnaverndarnefndin hefði nokkrar fyrirætlanir um að grípa til þvingunarráðstafana í tilefni af ofangreindri beiðni kæranda en af greinargerðinni frá 18. júní sl. og öðrum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að taka skyldi afstöðu til beiðni kæranda um að hún fengi forsjá dóttur sinnar á ný. Í þriðja lagi er því hafnað að jafnvel þótt niðurstaða barnaverndar­nefndarinnar varðandi beiðni kæranda hefði getað orðið íþyngjandi fyrir hana hefði leitt til þess að skylt væri samkvæmt lögum að kveða upp úrskurð í málinu. Í því sambandi er meðal annars litið til þess að í athugasemdum við 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga í greinargerð með frumvarpi til laganna er gert ráð fyrir því að aðeins sé þörf á því að foreldri geri kröfu fyrir dómi ef það vill draga samþykki sitt til baka fyrir ráðstöfun samkvæmt 25. gr. laganna þegar barnaverndarnefndin fellst ekki á slíka málaleitan. Var því nauðsynlegt að barnaverndar­nefndin tæki afstöðu til þessarar beiðni kæranda og er því hafnað að hver sem niðurstaða þess hefði orðið hefði falist í því þvingunarúrræði eins og haldið er fram af hálfu kæranda. Engar skyldur eru lagðar á barnaverndarnefnd samkvæmt lögum í slíkum tilvikum að kveða upp úrskurð um málaleitan þess efnis að foreldri fái forsjá barns að nýju eftir að hafa samþykkt að barnaverndarnefnd færi með forsjá þess.

Að þessu virtu verður ekki fallist á að mál kæranda fyrir barnaverndarnefndinni hafi verið þar til meðferðar á grundvelli þess að kveða þyrfti upp úrskurð í því. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð vegna andmælaréttar eins og lýst er í 1. mgr. sömu lagagreinar sem veitt er um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferð áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Eins og að framan er lýst sneri hvorki málsmeðferð barnaverndar­nefndarinnar né efni málsins að neinni þeirri úrlausn sem barnaverndarnefndin skyldi kveða upp úrskurð um samkvæmt lögum. Skylda nefndarinnar til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga er því ekki fyrir hendi. Með vísan til þess ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur samkvæmt bréfi frá 8. september 2014 um að synja kæranda um greiðslu styrks vegna lögmannsaðstoðar er staðfest.


Sigríður Ingvarsdóttir  formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum