Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

  

Miðvikudaginn 3. desember 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 13/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 23. september 2014 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 16. september 2014, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, þrjár klst. í senn einu sinni í mánuði undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur eða undir eftirliti utandyra í samráði við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Móðursystur er heimilt að fylgja móður í fyrrgreinda umgengni. Umgengni verður með þessum hætti þar til niðurstaða í forsjársviptingarmáli liggur fyrir.

 Kærandi krefst þess að umgengni við dóttur hennar, B, verði óbreytt frá fyrri úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2014 eða í hverri viku í fjórar klukkustundir í senn.

Fósturforeldrar stúlkunnar eru D og E, en þau eru föðurforeldrar hennar. Af þeirra hálfu kemur fram að þau telji það ekki þjóna hagsmunum B að umgengnin verði rýmri en hún er samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I. Málavextir

B lýtur forsjá kæranda, en barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafðist þess fyrir dómstólum [...] september 2014 að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Barnavernd Reykjavíkur hefur haft afskipti af málefnum stúlkunnar frá því í maí 2011 en þar áður var málið til meðferðar í F nánast frá fæðingu hennar. Ástæður barnaverndarafskiptanna voru vegna efasemda um getu og færni kæranda til að annast stúlkuna eins og ítarlega er rakið í gögnum málsins. Þar er gerð grein fyrir afskiptum barnaverndaryfirvalda, stuðningi við kæranda og þvingunarúrræðum sem beitt var við meðferð málsins. G sálfræðingur gerði sálfræðimat á kæranda að beiðni Barnaverndar Reykjavíkur og er það dagsett 7. júlí 2014. Þar kemur fram að hann hafi áður metið kæranda með tilliti til forsjárhæfni hennar árið 2011.

Í mati á forsjárhæfni kæranda frá 7. júlí 2014 er bent á að vegna fyrri hegðunar kæranda sé nauðsynlegt að ef ákveðið verði að kærandi hafi umgengni við dóttur sína þurfi slík umgengni að vera undir ströngu eftirliti bæði vegna vangetu kæranda til að aðgreina eigin viðhorf og tilfinningar frá tilfinningum stúlkunnar en einnig vegna hættu á að hún fari með stúlkuna og láti ekki ná í sig. Enn fremur kemur fram í mati sálfræðingsins að hegðun kæranda frá síðasta mati staðfesti fyrri greiningu um alvarlega persónuleikaröskun sem og erfiðleika í almennum skilningi og dómgreind. Í fyrra mati á persónuleika hafi komið fram að kærandi væri lokuð, fáskiptin, tortryggin og viðkvæm og hefði líklegast ekki áhuga á að vinna með sjálfa sig og hafi séð litla þörf á breytingum. Í mati á persónuleika hafi hún uppfyllt viðmið fyrir hliðrunarpersónuleikaröskun sem hafi meðal annars lýst sér í erfiðleikum viðað mynda tengsl, tortryggni út í fyrirætlanir annarra, hún ætti erfitt með að fyrirgefa fólki og hefði tilhneigingu til að einangra sig. Samkvæmt lýsingum úr skýrslum málsins hafi hegðun kæranda verið á þessa vegu, hún hafi sýnt mjög óeðlilega hegðun, bæði varðandi það þegar dóttir hennar hafi verið tekin sem og við fleiri aðstæður. Kærandi hafi undarlegar hugmyndir og neikvæðar varðandi fólk og virðist eiga mjög erfitt með að treysta fyrirætlunum fólks. Hún hafi sterka tilhneigingu til að einangra sig og um leið dóttur sína. Hegðun hennar gagnvart starfsfólki leikskólans og barnaverndar sé mjög lýsandi fyrir persónuleika hennar. Hegðun kæranda við matsmanninn í umgengninni hafi einnig verið mjög óeðlileg þar sem hún hafi ekki virt matsmanninn viðlits, ekki heilsað eða kvatt og hafi ekki litið í áttina til matsmannsins þó að umgengni hafi verið í tvær klukkustundir.

Í fyrrgreindri sálfræðiskýrslu segir einnig að í fyrra forsjármati komi fram að á Vistheimili barna hafi kærandi þurft að læra að tengjast dóttur sinni sem bendi til að geðtengsl komi ekki með eðlilegum hætti hjá henni. Þetta staðfestist einnig varðandi greiningu á hliðrunarpersónuleikaröskun. Hún hafi því virst geta lært tímabundið ákveðna ,,rétta“ hegðun varðandi tengsl, sem að mati sálfræðingsins hafi verið vélræn og lærð, og að vantað hafi upp á eðlilega og meðfædda getu til tengslamyndunar. Kærandi eigi því í erfiðleikum með tengslamyndun, ekki eingöngu varðandi dóttur sína heldur við fólk almennt. Hún eigi fáa vini og eigi erfitt með að treysta fólki. Í viðtölum sé hún mjög svipbrigðalaus og vanti töluvert upp á að hún geti myndað tengsl, til dæmis við sálfræðinginn. Einnig hafi erfiðleikar hennar komið þannig fram að hún hafi virst eiga mjög erfitt með að setja sig í spor B og aðgreina eigin tilfinningar frá tilfinningum dóttur sinnar. Hafi það komið fram bæði við skoðun á umgengni sem og í skýrslum Barnaverndar Reykjavíkur. Í síðasta mati hafi sálfræðingurinn talið að tengslamyndun kæranda við dóttur sína væri skert og sé það staðfest. Sálfræðingurinn benti á að varðandi tengsl stúlkunnar við kæranda að stúlkan sýndi engin viðbrögð þegar hún kæmi í umgengni eða færi úr umgengni og hafi stúlkan í raun ekki sýnt nein neikvæð viðbrögð við að vera ekki í umsjá kæranda.

B var vistuð utan heimilis á grundvelli úrskurðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 1. apríl 2014 samkvæmt b lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hún er vistuð á heimili föðurforeldra sinna. Vistunin var staðfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ... 2014 og fyrir Hæstarétti ... 2014.

Ekki náðist samkomulag um umgengni stúlkunnar við kæranda eftir að stúlkan hafði verið vistuð utan heimilis og kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur því upp úrskurð um umgengnina 13. maí 2014. Ákveðið var að umgengnin yrði einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda. Úrskurðurinn gilti til 1. júní 2014 og þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengnina var að nýju úrskurðað um umgengni hennar við stúlkuna 24. júní 2014. Ákveðið var að umgengni yrði fjórar klukkustundir í senn einu sinni í viku undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur eða undir eftirliti utandyra í samráði við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Í annað hvort skipti var heimilað að systir kæranda fylgdi með í umgengni en að öðru leyti væri kærandi ein í umgengni við stúlkuna þessar stundir. Fram kom í úrskurðinum að umgengnin gæti verið á virkum dögum eða um helgar og skuli það metið út frá hagsmunum stúlkunnar. Falli umgengnin niður vegna sumarleyfis stúlkunnar skyldi kæranda bætt upp sú umgengni. Í bókun frá meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 10. september 2014 kemur fram að umgengni hafi verið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2014 og hafi hún að mestu leyti gengið vel. Þó hafi þurft að stoppa kæranda af þegar hún ræddi óviðeigandi hluti við stúlkuna. Enn fremur hafi borið á því að kærandi væri óþolinmóð við hana þegar hún hlýddi ekki strax.

Í gögnum málsins kemur fram að þegar ákveðið var að krefjast þess fyrir dómstólum að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar og því ekki lengur stefnt að því að hún færi aftur til kæranda hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur talið að ekki væru lengur forsendur fyrir því að umgengni yrði áfram með þeim hætti sem verið hafði. Málið var því tekið til úrskurðar 16. september 2014 eins og fram hefur komið.

Í bréfi leikskólastjóra í leikskóla stúlkunnar til Barnaverndar Reykjavíkur 18. júní 2014 er því lýst að kærandi hafi verið á vappi fyrir utan leikskólann 13. júní 2014, t.d. þegar fósturforeldrar komu að sækja stúlkuna. Hún hafi verið beðin að fara og henni gerð grein fyrir því að vera hennar hefði truflandi áhrif á stúlkuna þegar hún væri úti að leika sér. Fram kemur að kærandi virtðist ekki gera sér grein fyrir því hvað hún trufli barnið mikið með þessari nærveru sinni við leikskólann.

II. Afstaða kæranda

Af hálfu kæranda kemur fram að hún telji þá umgengni sem hinn kærði úrskurður kveði á um vera of takmarkaða. Umgengni sé alltof sjaldan og í of skamman tíma í senn. Þá mótmælir kæarandi þeirri ályktun barnaverndarnefndar að af gögnum málsins og atvikum öllum megi telja að það þjóni ekki hagsmunum dóttur hennar að hún eigi við kæranda þá miklu umgengni sem kærandi óski eftir. Kærandi telji að staða málsins sé óbreytt frá því að fyrri úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið kveðinn upp en þar hafi kæranda verið heimiluð umgengni við dóttur sína í fjórar klukkustundir í hverri viku. Eins og fram hafi komið hafi umgengni kæranda við stúlkuna gengið vel og vísist þar m.a. í bókun barnaverndarnefndar frá 2. september 2014. Kærandi hafi sýnt getu sína og hæfni í að sinna dóttur sinni og verið fús til samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Hún hafi m.a. farið í greiningar- og kennsluvistun hjá Vistheimili barna og samþykkt og fylgt þeim meðferðaráætlunum sem gerðar hafi verið. Hún hafi sýnt frumkvæði í að leita sér aðstoðar og sæki nú tíma hjá ráðgjafa Geðhjálpar auk þess sem hún sé á foreldranámskeiðinu Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar.

Kærandi byggi á því að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem þeim eru nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Slíkt eigi svo sannarlega ekki við í máli kæranda og hafi jafnframt ekki verið sýnt fram á af hálfu barnaverndaryfirvalda – heldur þvert á móti megi sjá af gögnum málsins að stúlkan uni sér vel í samverustundum hennar og kæranda. Sú takmörkun á umgengni, sem kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði, brjóti því í bága við rétt kæranda sem sé verndaður í fyrrgreindu lagaákvæði.

Í bréfi lögmanns kæranda til kærunefndar barnaverndarmála 5. nóvember 2014 komi fram að kærandi sé ósammála því mati barnaverndarnefndar Reykjavíkur að rýmri umgengni geti raskað ró stúlkunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem verið sé að reyna að tryggja henni. Kærandi telur það ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar að slíta nánast á öll samskipti hennar við kæranda. Slíkt sé þvert á móti andstætt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga sem tryggi börnum í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra sína. Sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Það eitt að barnaverndarnefnd hafi ákveðið að óska eftir forsjársviptingu geti ekki réttlætt að umgengnin sé takmörkuð líkt og hinn kærði úrskurður kveði á um enda óvíst hvernig málið muni fara fyrir dómstólum. Kærandi telji að enn meira rót muni þá verða á lífi stúlkunnar. Líta verði til þess að óvíst sé að fallist verði á kröfu nefndarinnar sem gerð sé fyrir dómi og hafi þá umgengni stúlkunnar við kæranda verið takmörkuð svo gífurlega að slíkt geti ekki annað en skapað ójafnvægi í lífi hennar og svo sannarlega ekki þjónað hagsmunum hennar á nokkurn hátt.

III. B

Í bréfi leikskóla B, H, 28. febrúar 2014 kemur fram að hún sé glöð og ánægð að koma í leikskólann. Hún virðist vera í góðu jafnvægi og líða vel. Hún sýni frumkvæði og áhuga á flestum sviðum og sé það einna helst þegar athyglinni væri beint að henni að hún lokist og svari ekki. Hún sé fljót að læra og tileinka sér það sem gert sé. Samskipti barnsins við aðra séu góð og hún sé vel stödd félagslega og leiti eftir samskiptum við önnur börn.

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 25. ágúst 2014 kemur fram að áður en leikskóli stúlkunnar hafi farið í sumarfrí hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur haft samband þangað og þar hafi verið staðfest að jákvæðar breytingar hefðu orðið á stúlkunni frá því að hún fór í vistun til fósturforeldra sinna.

Í bréfi leikskóla B til Barnaverndar Reykjavíkur 1. september 2014 kemur fram að stúlkan sé mjög glöð og ánægð og að aðbúnaður hennar sé til fyrirmyndar. Hún taki þátt í öllu starfi af gleði og áhuga. Leikskólakennarar sem hafi unnið með B segi að það sé mikill munur á tjáningu hjá henni eftir að hún hafi farið til fósturforeldra sinna, hún sé opnari, virkari og glaðari í samræðum og samskiptum, bæði við börn og fullorðna. Þá segir að fósturforeldrar séu í miklum og góðum samskiptum við leikskólann og láti sig velferð stúlkunnar og líðan miklu varða.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 23. október 2014 til kærunefndar barnaverndarmála er bent á að fram komi í hinum kærða úrskurði að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Markmiðið í máli þess sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur.

Þá kemur einnig fram í tilvitnuðu bréfi að það hafi verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur í ljósi allra gagna máls þessa og þess sem fram hafi komið á fundi nefndarinnar 16. september 2014 að það þjóni ekki hagsmunum stúlkunnar að eiga við kæranda þá miklu umgengni sem kærandi óski eftir. Hæfilegt sé að umgengni stúlkunnar við kæranda verði einu sinni í mánuði í allt að þrjár klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmálið sé rekið fyrir dómstólum. Sé kæranda heimilt að hafa systur sína með í umgengni. Hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur talið þörf á því að umgengni yrði undir eftirliti í húsnæði á vegum nefndarinnar eða utandyra í samráði við starfsmenn.

Ítrekað er að markmiðið í máli þessu sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra raski í flestum tilfellum ró þeirra, jafnvel þótt sátt ríki um umgengnina. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og hafi það verið mat nefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró barnsins og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu.

V. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram að þeir telji það ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar að umgengnin verði rýmri en er samkvæmt hinum kærða úrskurði þar sem það hafi sýnt sig að það valdi henni vanlíðan og óöryggi. Rýmri umgengni væri ekki góð með velferð stúlkunnar í huga.

VI. Niðurstaða

B er tæplega X ára gömul. Hún lýtur forsjár kæranda en var vistuð utan heimilis með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. apríl 2014 í tvo mánuði. Sú vistun hefur síðan verið framlengd með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...] sama ár sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar [..]. Stúlkan hefur verið vistuð hjá föðurforeldrum samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Með hinum kærða úrskurði frá 16. september 2014 var ákveðið hvernig umgengni stúlkunnar við kæranda skyldi háttað í ljósi þess að gerð hefur verið krafa fyrir dómstólum um að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Barnaverndarnefnd getur samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar ef sérstök atvik eru talin valda því að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum. Barnaverndarnefnd hefur úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttar eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber við úrlausn málsins að ákveða umgengni kæranda við dóttur hennar í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til um­gengni og umfang umgengnis­réttar er takmarkaður að þessu leyti og háður mati á hagsmunum og þörfum stúlkunnar þar sem meðal annars ber að taka tillit til markmiðanna sem stefnt er að með fósturráðstöfuninni og þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara.

Með vísan til þess sem fram er komið er ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur til kæranda. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að forsendur hefðu breyst frá því að umgengni kæranda við dóttur hennar var ákveðin með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. júní 2014 þar sem nefndin hefði ákveðið [...] s.á. að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúkunnar. Í úrskurðinum kemur enn fremur fram að markmiðið með þeim ráðstöfunum sem stefnt sé að sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur. Staða málsins getur því ekki talist óbreytt eins og vísað er til af hálfu kæranda og kemur fram í kæru hennar.

Að mati kærunefndar barnaverndarmála ber að taka mið af því sem fram kemur í gögnum málsins um líðan stúlkunnar og aðstæður hennar í dag. Stúlkan virðist hafa tekið framförum frá því hún kom á fósturheimilið og vera í góðu andlegu jafnvægi. Mikilvægt er að halda þeim stöðugleika og raska ekki ró hennar fremur en nauðsyn krefur.

Enn hefur ekki fallið dómur í forsjársviptingarmáli kæranda þannig að óvissa mun ríkja um nokkurn tíma þar til endaleg niðurstaða fæst í því máli. Miðað við góðar aðstæður stúlkunnar nú þykir ekki rétt að taka ákvörðun um meiri umgengni við kæranda en gert var með hinum kærða úrskurði þar sem slíkt gæti raskað þeirri ró sem nú ríkir og valdið stúlkunni truflun. Í því sambandi verður að líta til þess sem fram kemur í niðurstöðu matsmanns, G sálfræðings, en hann telur að velferð og þroski barnsins sé ekki tryggður í umsjá kæranda. Að þessu virtu og með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga verður að telja að umgengni kæranda við dóttur sína hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskuði.

Með vísan til framanskráðs ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 16. september 2014 um umgengni kæranda, A við dóttur sína, B, er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum