Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

  

Miðvikudaginn 4. mars 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A vegna dóttur hennar, B, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna úrskurðar barnaverndarnefndarinnar um að eftirlit verði haft með heimili dóttur kæranda, B, nr. 18/2014. Úrskurðurinn gildir í tvo mánuði.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar ákvörðun barnaverndarnefndar, sem tekin var með úrskurði 14. október 2014, um að eftirlit verði haft með heimili dóttur A, B, til heimilis á sama stað. Úrskurðurinn gildir í tvo mánuði. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að eftirlit verði haft með heimili B, sbr. a liður 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Úrskurður þessi gildir í allt að 2 mánuði.

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði felldur úr gildi þar sem hann hafi mjög íþyngjandi áhrif á stúlkuna sem haldi að verið sé að taka sig af heimilinu þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur komi. Það hljóti að vera nægilegt fyrir Barnavernd Reykjavíkur að fylgjast með stúlkunni í gegnum skóla. Á fundi kærunefndarinnar var tekin afstaða til þess að kæran hefði borist innan kærufrests.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

II. Málavextir

Kærandi er fædd árið ...... Hún hefur ekki verið á vinnumarkaði og er öryrki. B er fædd ..... og tvíburasystir hennar er C. Faðir tvíburasystranna er D og fara foreldrarnir saman með forsjá stúlknanna. Fram kemur að hann hefur ekki haft mikil afskipti af þeim. Auk tvíburasystranna á kærandi dóttur, E, sem er hálfsystir þeirra, og son, sem er langelstur, F, fæddur árið ..... á G. Kærandi bjó þar þegar hann fæddist og í gögnum málsins kemur fram að miklar stuðningsaðgerðir hafi verið reyndar af félagsmálayfirvöldum á G til að aðstoða kæranda við að annast drenginn. Þegar kærandi skildi við föður drengsins fól hún honum forsjá hans en í kjölfarið fól hann foreldrum sínum uppeldi drengsins. Kærandi er nú í hjúskap með H. E hefur að mestu verið vistuð utan heimilis frá árinu ......

Í gögnum málsins kemur fram að regluleg barnaverndarafskipti hafi verið af kæranda vegna tvíburasystranna frá árinu ...... Borist hafi tilkynningar um áhyggjur af getu kæranda til að annast og halda utan um stúlkurnar og sinna þörfum þeirra auk óþrifnaðar á heimilinu. Mörg úrræði hafi verið í boði og hafi fjölskyldan fengið Stuðninginn heim, stuðningsfjölskyldu, tilsjón auk margvíslegs stuðnings við tómstundir stúlknanna og mikinn fjárhagsstuðning.

Árið ..... hafi Greining og ráðgjöf farið á heimilið og hafi niðurstaða þeirra verið sú að úrræðið hafi ekki verið nógu sterkt fyrir kæranda í ljósi sérþarfa stúlknanna. Þær hafi þurft örvun, stuðning og reglu sem kærandi hafi ekki virst geta veitt þeim. Kærandi væri upptekin af eigin veikindum og hafi viljað varpa ábyrgð á heimili og uppeldi á dæturnar. Í framhaldi af þessu hafi kærandi farið í forsjárhæfnimat. Í því mati hafi komið fram að geta kæranda væri að miklu leyti takmörkuð en að hæfni hennar væri nægjanleg og að reyna ætti áfram að styðja fjölskylduna með viðeigandi úrræðum. Síðan þá hafi málið verði unnið í samráði milli skóla og þjónustumiðstöðvar.

Sumarið 2012 hafi starfsmenn Barnaverndar farið á heimilið og hafi aðbúnaður þar verið talinn algerlega óviðunandi vegna óþrifnaðar og skorts á innsæi kæranda til að taka á vandanum. Í kjölfarið var tekið á vanda stúlknanna með viðeigandi úrræðum eins og rakið er í gögnum málsins.

Stúlkurnar voru vistaðar utan heimilis í janúar 2014 með samþykki kæranda. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. júní 2014 var samþykkt að B yrði áfram í vistun á sama stað til 15. júní 2015. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi samþykk því en í tölvupósti 28. júlí 2014 frá I hdl., sem gætti hagsmuna kæranda, til Barnaverndar Reykjavíkur, kom fram að kærandi væri ekki lengur samþykk því að dætur hennar yrðu vistaðar utan heimilis. Þær myndu því ekki fara aftur á fósturheimilið með hennar samþykki eftir að þær höfðu verið í leyfi hjá henni.

Málið var tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 6. október 2014 og bókað að staðan væri sú að kærandi hafnaði samvinnu við Barnaverndina. Hafi það verið mat starfsmanna að allt benti til þess að stuðningur á grundvelli barnaverndarlaga væri fullreyndur. Starfsmennirnir töldu engu að síður að rannsaka þyrfti málið betur og reyna til þrautar næstu vikur að ná samvinnu við kæranda.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014 og síðan tekið til úrskurðar sama dag. Kærandi mætti á fundinn ásamt lögmanni sínum, I hdl., og eiginmanni, H. Kærandi hafnaði þeirri tillögu Barnaverndar Reykjavíkur að fylgst yrði með líðan og aðbúnaði B á heimilinu en samþykkti að talsmaður ræddi við hana. Það var niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur að full ástæða væri til að hafa verulegar áhyggjur af aðstæðum á heimilinu og líðan tvíburasystranna í umsjá kæranda og stjúpa síns. Tilefni væri til þess að efast um að kærandi hefði nægjanlega hæfni til að vera með umsjá stúlknanna og veita þeim viðunandi aðbúnað en kærandi virtist hafa lítið innsæi í aðstæður sínar og þarfir stúlknanna. Mat barnaverndarnefndarinnar var að fullreyna skyldi samvinnu við kæranda á næstu tveimur mánuðum. Gerð skyldi áætlun um meðferð málsins í samvinnu við kæranda og stjúpföður þar sem meðal annars yrði kveðið á um að endurmat yrði gert á forsjárhæfni kæranda, eiginmaður hennar leitaði sér meðferðar vegna áfengisfíknar og að B yrði veittur stuðningur auk þess sem fylgst yrði með líðan hennar og aðbúnaði á heimilinu.

Eftir að hinn kærði úrskurður var kveðinn upp fór fram endurmat á forsjárhæfni kæranda samkvæmt beiðni Barnaverndar 15. júlí 2014 en sami sálfræðingur hafði áður metið forsjárhæfni hennar 30. maí 2011. Í skýrslu sálfræðingsins frá 24. nóvember 2014 kemur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafði óskað eftir mati sálfræðings á kæranda þar sem fram kæmu upplýsingar um sálræna hagi hennar, með sérstöku tilliti til hæfni eða skorti á hæfni til að axla forsjárskyldur sínar. Í skýrslunni kemur fram að taka verði tillit til alvarlegra þroska- og tilfinningaerfiðleika systranna og að erfitt geti verið fyrir flesta foreldra að takast á við slíka erfiðleika. Jafnframt verði að huga að almennri getu kæranda til að takast á við erfiðleikana og sinna uppeldisskyldum sínum í ljósi aðstæðna. Það sé ljóst að kærandi hafi skert tengsl við dætur sínar og óeðlileg, hún virtist ekki setja þarfir þeirra í forgang, hún sinni lítið daglegum þörfum þeirra varðandi almenna umönnun, félagslega, heilsufarslega, heimilisaðstæður o.fl., og hafi litla sem enga getu til að takast á við vandamál þeirra. Vandamál fjölskyldunnar hafi aukist með hækkandi aldri stúlknanna og ekki verði séð að það ástand muni lagast ef þær verði áfram á heimili kæranda. Matsmaðurinn telji því að kærandi sé ekki með nægjanlega hæfni til að sinna forsjárskyldum sínum og telji að stuðningur til að auka hæfni hennar sé fullreyndur.

III. B

B er fædd ..... og er því X ára gömul. Hún lýtur forsjár beggja kynforeldra sinna. Stúlkan á tvíburasystur, C, og eldri hálfsystur, E, sem hefur að mestu verið vistuð utan heimilis frá árinu ..... auk eldri bróður. Faðir tvíburasystranna hefur ekki haft mikið samband við þær. B hefur búið í J með kæranda og tvíburasystur sinni auk stjúpföður síns. B er með greiningu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá 2008 þar sem fram kemur að hún sé með ódæmigerða einhverfu, þroskastöðu á stigi tornæmis, blandnar sértækar þroskahamlanir, hreyfiþroskahömlun-dyspraxia, stam, ofvirkni og athyglisbrest, sjónlagsfrávik og álag tengt félagslegu umhverfi.

Stúlkan var vistuð utan heimilis frá ..... með samþykki kæranda til ...... Kærandi dró samþykki sitt til baka ..... þegar stúlkan var hjá henni í leyfi og fór hún því ekki aftur á fósturheimilið. Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur frá 7. október 2014 kemur fram að B þurfi aðhald og stuðning við að halda rútínu og hafi þurft á talþjálfun að halda en því hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Stúlkan hafi ekki haft nein sérstök áhugamál utan þess að henni finnist gaman í tölvunni og hafi hún ekki verið í neinum tómstundum. B sé slök í námi miðað við jafnaldra og hafi verið með aðlagaða stundaskrá. Hún hafi verið í K-skóla vorönnina 2014 þegar hún var vistuð utan heimilis og hafi hún verið ánægð þar. Fram kemur að henni hafi gengið vel og hafi hún sýnt náminu áhuga og samviskusemi. Hún hafi hagað sér vel og verið ljúf og náð til samnemenda sinna. Hún hafi tekið virkan þátt í því sem unglingarnir hafi tekið sér fyrir hendur.

IV. Afstaða kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði felldur úr gildi þar sem hann hafi mjög íþyngjandi áhrif á stúlkuna sem haldi að verið sé að taka sig af heimilinu þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur komi. Það hljóti að vera nægilegt fyrir Barnaverndina að fylgjast með stúlkunni í gegnum skóla.

Í greinargerð lögmanns kæranda sem lögð var fram á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014 kemur meðal annars fram að kærandi hafi komið tvíburasystrunum í regluleg vikuleg viðtöl hjá geðlækni sem hafi ávísað lyfinu ..... og það taki tíma fyrir lyfið að sýna árangur. Auk viðtala hjá geðlækni hafi stúlkurnar verið byrjaðar á sérstöku námskeiði sem sérstaklega sé ætlað þeim sem greindir hafi verið eins og þær. Einnig hafi hún komið þeim báðum í líkamsrækt.

Fram kemur að kærandi sé tilbúin í viðbótarforsjárhæfnismat hjá þeim sálfræðingi sem gert hafi fyrra matið en hann hafi komist að því að hæfni kæranda væri nægjanleg en geta hennar takmörkuð. Kærandi beri ekki á móti því að hún eigi við líkamleg veikindi að stríða og ætti í raun að vera í hjólastól, en fötlun eigi ekki að skerða forsjárhæfni foreldra. Vegna veikinda sinna hafi kærandi átt erfitt með að þrífa heimilið en hún sé nú komin í hjónaband og sjái eiginmaðurinn um þrif og þvotta á heimilinu. Ekki þurfi því að fá aðstoð inn á heimilið vegna þess.

Kærandi samþykkir að B verði skipaður talsmaður, helst að til þess verði fenginn fjölskylduráðgjafi og að hann verði valinn í samráði við lögmann hennar.

V. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 9. desember 2014. Þar segir að í samræmi við bókun barnaverndarnefndar 24. júní 2014 hafi verið ráðgert að tvíburasysturnar yrðu áfram vistaðar utan heimilis í eitt ár en þá höfðu þær verið í tímabundnu fóstri frá því í ársbyrjun 2014. Kærandi hafi hins vegar afturkallað samþykki sitt fyrir vistun stúlknanna þegar þær hafi verið í umgengni hjá henni í lok júlí ..... eins og fram hefur komið. Kærandi hafi sagt að telpurnar hefðu sjálfar óskað eftir því að vera áfram heima hjá henni en heimilisaðstæður væru breyttar þar sem hún hefði gengið í hjónaband. Kærandi hafi hafnað allri samvinnu við starfsmenn nefndarinnar og alfarið vísað á lögmann sinn. Frá þeim tíma hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar um aðstæður og líðan stúlknanna en fylgst hafi verið með líðan þeirra í skóla og rætt við þær í byrjun september í skólanum. B hafi látið vel af sér og lýst vilja til að vera áfram hjá kæranda. C hafi hins vegar komist í mikið uppnám og neitað að ræða við starfsmenn.

Málið hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 14. október og tekið til úrskurðar. Vísað er til þess af hálfu barnaverndarnefndarinnar að á fundinum hafi nefndin tekið undir það mat starfsmanna og talið ljóst að full ástæða væri til þess að hafa verulegar áhyggjur af aðstæðum á heimilinu og líðan stúlknanna í umsjá kæranda og eiginmanns hennar. Tilsjón, heimaþjónusta og geðteymi hafi verið kæranda til stuðnings fyrri hluta ársins á meðan stúlkurnar hafi verið í tímabundnu fóstri en kærandi hafi ekki haft úthald í að nýta sér þann stuðning. Því til viðbótar hafi kærandi gifst virkum alkóhólista sem sé búsettur á heimilinu og hún hafi hafnað allri samvinnu um stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga. Fullt tilefni sé til að efast um að kærandi hafi nægjanlega hæfni til að annast stúlkurnar og veita þeim viðunandi aðbúnað. Virtist kærandi nú sem áður hafa lítið innsæi í aðstæður sínar og þarfir dætra sinna. Að teknu tilliti til alvarleika málsins og afstöðu stúlknanna hafi það verið mat nefndarinnar að fullreyna skyldi samvinnu við kæranda á næstu tveimur mánuðum en á því tímabili yrði C vistuð utan heimilis. Gerð skyldi áætlun um meðferð málsins í samvinnu við kæranda og stjúpföður þar sem meðal annars yrði kveðið á um að endurmat yrði gert á forsjárhæfni kæranda, eiginmaðurinn leitaði sér meðferðar vegna áfengisfíknar og að B yrði veittur stuðningur auk þess sem fylgst yrði með líðan hennar og aðbúnaði á heimilinu. Þá skyldi C njóta geðlæknismeðferðar á tímabilinu vegna andlegs ástands hennar.

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er síðan greint frá því að ekki hafi reynst unnt að framfylgja úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. október 2014 um eftirlit. Ítrekað hafi verið farið á heimilið en kærandi hafi neitað starfsmönnum um að koma inn. Það hafi ekki verið fyrr en 1. desember 2014 sem kærandi hafi hleypt starfsmönnum inn á heimilið. B hafi einnig neitað að tala við starfsmann sem hafi farið í skólann til að ræða við hana, þar til fyrir stuttu. Ekki hafi tekist að fylgjast með líðan hennar eða veita henni stuðning á tímabilinu.

VI. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem tekin var með úrskurði 14. október 2014 um að eftirlit skyldi vera með heimili kæranda í tvo mánuði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi úrræði skv. 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði:

a. kveðið á um eftirlit með heimili.“

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi í lok júlí 2014 afturkallað samþykki sem hún hafði veitt fyrir því að B og tvíburasystir hennar yrðu vistaðar tímabundið utan heimilis á vegum barnaverndarnefndarinnar. Kærandi hafi jafnframt hafnað allri samvinnu við starfsmenn barnaverndarnefnarinnar og frá þeim tíma hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar um aðstæður og líðan stúlknanna. Fylgst hafi verið með líðan þeirra í skóla og í september sama ár hafi verið rætt við þær í skólanum. Í fundargerð barnaverndarnefnarinnar frá 14. október s.á. kemur fram að kærandi hefði á fundinum verið spurð um afstöðu hennar til eftirlits með heimilinu vegna B. Hún hafi sagst samþykk því að talsmaður ræddi við stúlkuna og að starfsmaður hitti hana en ekki of oft þar sem kærandi teldi það geta haft truflandi áhrif á stúlkuna vegna greiningar hennar. Hún hafi aðspurð sagst vera tilbúin til samvinnu við starfsmenn nefndarinnar. Ekki virðist hafa komið til álita á fundinum að gerð yrði áætlun um meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga en í samantekt af meðferðarfundi Barnaverndar frá 6. október s.á. segir að gerð verði meðferðaráætlun samkvæmt lagagreininni í samvinnu við kæranda og stjúpföður þar sem meðal annars verði kveðið á um að endurmat verði gert á forsjárhæfni kæranda, óboðað eftirlit verði á heimilinu, eiginmaður kæranda leiti sér meðferðar vegna áfengisfíknar, stuðningur verði vegna B og fylgst verði með líðan og aðbúnaði hennar.

Í ítarlegri greinargerð L, félagsráðgjafa hjá Barnavernd Reykjavíkur, 7. október 2014 er aðstæðum stúlkunnar lýst, greiningu á vandamálum sem hún á við að glíma og félagslegum erfiðleikum hennar. Í greinargerðinni eru málsatvik rakin frá 13. júní s.á og erfiðleikum lýst varðandi samvinnu við kæranda. Fram kemur að hún hafi komið í viðtal 30. september s.á. og hafi hún lýst því að hún vildi ekki stuðning frá Barnavernd og að hún vildi að máli stúlknanna þar yrði lokað. Í greinargerðinni kemur enn fremur fram að mikill stuðningur hefði verið veittur. Staðan sé þannig að kærandi hafi hafnað samvinnu og mat starfsmanna Barnaverndar sé að allt bendi til þess að stuðningur á grundvelli barnaverndarlaga sé fullreyndur. Nauðsynlegt sé að eftirlit verði haft með líðan og aðbúnaði stúlkunnar en verði kærandi ekki til samvinnu um það er lagt til að úrskurðað verði um eftirlit á grundvelli 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga.

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði felldur úr gildi þar sem hann hefði mjög íþyngjandi áhrif á stúlkuna sem héldi að verið væri að taka sig af heimilinu þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur kæmu. Það hlyti að vera nægilegt fyrir Barnaverndina að fylgjast með stúlkunni í gegnum skóla. Kærunefndin telur, með vísan til þess sem að framan greinir, óhjákvæmilegt að kveða á um eftirlit með heimilinu. Eftirlit í gegnum skóla kæmi ekki að nægjanlegu gagni við þær aðstæður sem stúlkan býr við. Hún á rétt á viðeigandi vernd enda hafa vægari úrræði ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt af hálfu Barnaverndarinnar.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður að telja að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi eftir því sem aðstæður leyfðu beitt viðeigandi stuðningsaðgerðum og úrræðum sem mælt er fyrir um í 24. og 25. gr. barnaverndarlaga í máli kæranda. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi var ekki samþykk því að eftirlit yrði haft með líðan og aðbúnaði stúlknanna en samkvæmt 2. mgr. 24. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd beitt úrræðum samkvæmt 26. gr. laganna með samþykki foreldra og án sérstaks úrskurðar.

Þegar kærandi var ekki lengur til samvinnu um viðeigandi og lögbundin úrræði, eins og að framan er lýst, verður að telja að þau hafi verið fullreynd. Þegar aðstæður stúlkunnar eru metnar og litið til þeirra erfiðleika sem hún á samkvæmt gögnum málsins við að glíma verður að telja nauðsynlegt að Barnavernd fylgist með og hafi eftirlit með því að öryggi hennar og velferð sé tryggð. Samkvæmt því var Barnaverndinni rétt að ákveða, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, að eftirlit skyldi haft með heimili stúlkunnar í tvo mánuði samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga. Ber með vísan til þess að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. október 2014 þess efnis að eftirlit verði haft með heimili B í tvo mánuði er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum