Hoppa yfir valmynd

Nr. 273/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 273/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030003

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 1. mars 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. febrúar 2017, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi.

II.           Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að þann 28. desember 2016 hefði kærandi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi sem hann hafi dregið til baka þann 16. febrúar 2017. Þann sama dag hefði Útlendingastofnun veitt kæranda sjö daga frest til að yfirgefa landið, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og tilkynnt honum um hugsanlega brottvísun frá landinu yfirgæfi hann ekki landið innan frests. Fresturinn hefði verið framlengdur til 28. febrúar en þá hefði kærandi átt bókað flug frá landinu, en flutningur hefði ekki tekist. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 28. febrúar 2017, var kæranda brottvísað frá landinu og bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 1. mars 2017. Í málinu liggur fyrir greinargerð kæranda, dags. 14. mars 2017, ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að stjórnvöld hafi útvegað kæranda flugfar til heimaríkis þann 28. febrúar 2017. Kærandi hafi farið um borð í flugvélina en kvaðst hafa yfirgefið hana skömmu fyrir flugtak vegna flughræðslu, auk þess sem flugstjóri vélarinnar hafi neitað að fljúga með kæranda í ljósi aðstæðna. Í ákvörðuninni kom fram að samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni flugfélagsins hafi kærandi óskað eftir því að fara frá borði þar sem hann hafi orðið flughræddur. Þá hafi flugstjóri vélarinnar ekki neitað því að fljúga með kæranda.

Þar sem kærandi hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests var honum brottvísað á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda er byggð á því að Útlendingastofnun hafi ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr., við töku ákvörðunar í máli hans. Í greinargerðinni er rakið að eftir að kærandi hafi dregið umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka hafi hann óskað eftir því að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Hafi kærandi tjáð starfsmanni Útlendingastofnunar að hann væri mjög flughræddur en þar sem hann hafi þá verið búinn að draga umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka hafi honum ekki staðið til boða læknisaðstoð á vegum Útlendingastofnunar vegna flughræðslunnar. Þá hafi kærandi ekki haft efni á að greiða fyrir kvíðastillandi lyf. Þann 28. febrúar hafi flutningur átt að eiga sér stað en kærandi hafi fengið kvíðakast  er líða hafi tekið að flugtaki. Flugfreyja um borð hafi kallað flugstjóra vélarinnar til sem hafi, eftir skoðun á kæranda, tjáð henni að hann myndi ekki fljúga með kæranda í þessu ástandi og vísað honum frá borði.

Kærandi gerir athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi byggt á framburði starfsmanns flugfélagsins um atvikið í hinni kærðu ákvörðun, sem stangist algerlega á við frásögn hans. Í ljósi aðstæðna sé ekki réttlætanlegt að ákveða kæranda tveggja ára endurkomubann til Íslands. Kæranda hafi verið tjáð af stoðdeild ríkislögreglustjóra að hann ætti að fara með flugi til heimaríkis þann 16. mars 2017 og hafi hann ekki hreyft neinum mótmælum við því. Kærandi hafi óskað eftir því við Útlendingastofnun að fá tíma hjá lækni og fá kvíðastillandi lyf en því verið hafnað þar sem umsókn hans um alþjóðlega vernd væri ekki lengur til meðferðar hjá stofnuninni. Með hliðsjón af málavöxtum telur kærandi að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann hafi falið í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Í 102. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um vernd gegn brottvísun og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun, m.a. um að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns sé að ræða og skuli það sem barni sé fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í ákvæðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga felst, sem áður segir, skylda til að brottvísa útlendingi við þær aðstæður sem þar greinir, m.a. ef útlendingur hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests skv. 2. mgr. 104. gr., sbr. a-lið greinarinnar. Af hinni kærðu ákvörðun má ráða að kæranda hafi verið veittur frestur til 28. febrúar 2017 til að yfirgefa landið með flugi til heimaríkis en að sá flutningur hafi ekki tekist þar sem kærandi hafi fengið mikinn kvíða um borð í flugvélinni vegna flughræðslu. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun var ekki dregið í efa að kærandi hafi yfirgefið flugvélina vegna mikillar flughræðslu, þótt vafi léki á því hver hafi átt frumkvæðið að því að kærandi færi frá borði.

Í ljósi málsatvika og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telur kærunefnd að ekki hafi verið tilefni til þess að skera úr um brottvísun og endurkomubann kæranda á því stigi málsins. Hafi kærandi verið samvinnufús um að yfirgefa landið innan veitts frests allt þar til að hann fór frá borði flugvélarinnar af framangreindum ástæðum. Telur kærunefnd að sjónarmið að baki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar hafi, í tilviki kæranda, staðið til þess að honum yrði veitt frekara svigrúm til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur án þess að til brottvísunar kæmi. Samkvæmt framansögðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Kærandi hefur jafnframt krafist þess að honum verði veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi. Eins og rakið hefur verið dró kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka þann 16. febrúar 2017 án þess að Útlendingastofnun hafi tekið efnislega afstöðu til málsins. Þá liggur fyrir að kærandi var fluttur úr landi þann 16. mars sl. Í því ljósi eru ekki efni til þess að taka umrædda kröfu kæranda til greina.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                                                                       Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum