Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2009: Dómur frá 16. september 2009

Ár 2008, miðvikudaginn 16. september, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2009

                                     

Alþýðusamband Íslands fyrir hönd

Starfsgreinasambands Íslands vegna

AFLS starfsgreinafélags vegna

Guðmundar Óskars Sigjónssonar

gegn

Smiðum ehf.

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið 22. júlí sl.        

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, vegna AFLs Starfsgreinafélags, Búðareyri 1, Reyðarfirði, vegna Guðmundar Óskars Sigjónssonar, Hlíðargötu 43, Fáskrúðsfirði.      

 

Stefndi er  Smiðir ehf., Leiruvogi 4, Reyðarfirði.

 

Dómkröfur stefnanda

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að uppsögn stefnda á Guðmundi Óskari Sigjónssyni, trúnaðarmanni AFLs Starfsgreinafélags, þann 24. febrúar 2009, verði dæmd brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og ólögmæt af þeim sökum. Til vara er þess krafist að sú ákvörðun stefnda að endurráða Guðmund Óskar Sigjónsson ekki, í kjölfar uppsagnar hans þann 24. febrúar 2009, verði dæmd brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og ólögmæt af þeim sökum.

Að auki er þess krafist að Guðmundi Óskari Sigjónssyni verði dæmdar skaðabætur að fjárhæð 1.216.904 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2009 til þingfestingardags þessa máls, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Hver sem niðurstaða málsins verður er krafist málskostnaðar samkvæmt mati Félagsdóms auk virðisaukaskatts.

 

Málsatvik

Stefnandi kveður málsatvik vera eftirfarandi: Guðmundur Óskar Sigjónsson (hér eftir nefndur Guðmundur) hóf störf hjá stefnda í ágúst árið 2006 og starfaði þar þangað til árið 2009. Hann var þó í fæðingarorlofi frá 10. júlí 2007 til 1. ágúst sama ár, 15. desember 2007 til 9. janúar 2008, 28. júlí 2008 til 22. ágúst sama ár og 7. til 24. desember 2008, samtals í 90 daga. Í febrúar 2008 var Guðmundur kjörinn trúnaðarmaður AFLs Starfsgreinafélags hjá stefnda og hefur gegnt því starfi síðan. Um störf trúnaðarmanns vísast til 13. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Austurlands sem gildir frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010 og 9.-12. gr. laga nr. 80/1938.

Þann 24. febrúar 2009 var Guðmundi sagt upp störfum hjá stefnda. Hann var einn 9 starfsmanna stefnda sem mættu á fund vegna uppsagna þann dag. Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi starfsmenn, auk Guðmundar: Einar Ás Pétursson, Guðmund Þorsteinsson, Gunnar Pál Friðmarsson, Loga Stein Karlsson, Sigfús Heiðar Árdal, Stefán Rafn og Hólmar Karl Þorvaldsson, sem jafnframt er yfirmaður stefnda. Allir starfsmennirnir nema Guðmundur og Sigfús Heiðar Árdal, öryggistrúnaðarmaður, voru endurráðnir hjá stefnda strax eftir uppsögnina, annað hvort á Austurlandi eða í nýju verkefni stefnda á höfuðborgarsvæðinu. Guðmundi var boðið hvorugt.

Guðmundur vann á uppsagnarfresti í lok febrúar og í mars utan einnar viku sem hann var í orlofi. Ekki er ágreiningur um laun hans á uppsagnarfresti þótt lífeyrissjóðsiðgjöld, iðgjöld til stéttarfélags og orlof muni ekki vera að fullu uppgert. Það sé þessari málsókn þó óviðkomandi.

Guðmundur leitaði til stéttarfélags síns, AFLs Starfsgreinafélags, vegna uppsagnarinnar sem hann taldi ólögmæta vegna starfa hans sem trúnaðarmaður og þeirrar staðreyndar að hann var ekki endurráðinn til stefnda. Þann 2. apríl 2009 sendi framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags stefnda bréf vegna uppsagnarinnar. Engin viðbrögð voru við því bréfi. Þann 22. apríl 2009 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf og afrit til viðkomandi landssambanda atvinnurekenda, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Lögmaður Samtaka atvinnulífsins, Guðrún Björk Bjarnadóttir hdl., var í samskiptum við fyrirsvarsmann stefnda en þann 25. maí 2009 tilkynnti hún að Samtök atvinnulífsins myndu ekki koma að málsvörn fyrir stefnda í málinu og sé honum því stefnt beint. Þar sem engin viðbrögð hafi verið af hálfu stefnda sjálfs í málinu sé málsókn þessi nauðsynleg.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök  

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að uppsögn Guðmundar hafi verið ólögmæt. Hann hafi sem trúnaðarmaður stéttarfélags notið sérstakrar verndar gegn uppsögnum og átt að sitja fyrir um að halda vinnunni, hafi stefnda yfir höfuð verið nauðsynlegt að fækka starfsmönnum. Á stefnda hvíli að sýna fram á að ríkar ástæður hafi verið fyrir því að ráða Guðmund ekki aftur en það geti hann ekki gert. Guðmundur hafi aldrei verið aðvaraður formlega eða áminntur um misfellur eða brot í starfi og ekki hafi verið bornar á hann neinar sakir fyrir störf hans fyrir stefnda. Þar sem allir þeir starfsmenn stefnda sem voru á fundinum 24. febrúar 2009 hafi unnið áfram fyrir stefnda eftir lok uppsagnarfrests síns nema Guðmundur og áðurnefndur öryggistrúnaðarmaður og engar ástæður, er varða Guðmund beint, hafa verið tilgreindar fyrir uppsögn hans sé ekki hægt að álykta annað en að Guðmundur hafi verið látinn gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður AFLs Starfsgreinafélags hjá stefnda. Slíkt sé með öllu ólögmætt. Um lagarök vísast til 11. gr. laga nr. 80/1938, en þar komi fram að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hafi falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Jafnframt sé þar tekið fram að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

Aðalkrafa stefnanda sé því að uppsögn Guðmundar sem slík verði dæmd ólögmæt og brot á 11. gr. laga nr. 80/1938, enda hafi sú ákvörðun að segja upp öllum starfsmönnunum á fundi þann 24. febrúar 2009 einkum verið til málamynda og alltaf hafi legið fyrir að stærstur hluti þeirra myndi starfa áfram fyrir stefnda. Ekki hafi verið um það að ræða að starfsemi stefnda hafi verið lögð niður eða til hafi staðið að leggja hana niður á þessum tímapunkti og dregið sé í efa að verkefnaskortur hafi leitt til uppsagnarinnar. Þvert á móti hafi staðið til að losna við Guðmund úr starfi. Verði þetta ekki talið sannað sé þess krafist að ákvörðunin um að endurráða Guðmund ekki verði dæmd ólögmæt, enda eigi trúnaðarmenn að ganga fyrir við endurráðningu hjá vinnuveitendum ef starfsemi sé að hefjast að nýju eftir að hafa verið raunverulega lögð niður. Þess beri að geta að endurráðning annarra starfsmanna hafi farið fram strax í kjölfar uppsagnarfrestsins. Af hálfu stefnanda sé áskilinn réttur til að leiða vitni fyrir Félagsdóm, sbr. 55. gr. laga nr. 80/1938, ætli stefndi sér að mótmæla þessum staðhæfingum.

Stefnandi kveður málið eiga undir Félagsdóm, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1038, enda um að ræða mál sem varði brot á lögunum. Um aðild sóknarmegin í málinu vísast til 1. mgr. 45. gr. sömu laga, en sambönd verkalýðsfélaga reka mál meðlima sinna fyrir dóminum. Um aðild varnarmegin vísast til 2. mgr. 45. gr. sömu laga, en Samtök atvinnulífsins hafi neitað að koma að málsvörn stefnda í málinu. Lögð sé fram í málinu staðfesting á þeirri neitun, sbr. niðurlag lagagreinarinnar.

Auk þess að krefjast þess að uppsögnin, eða það að Guðmundur hafi ekki verið endurráðinn, verði dæmd ólögmæt, sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða Guðmundi skaðabætur vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Stefnandi kveður þá kröfu byggja á 1. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938 og hinni almennu skaðabótareglu. Forsendur kröfunnar séu að stefndi hafi með hinni ólögmætu uppsögn valdið röskun á stöðu og högum Guðmundar, auk þess að valda honum ófjárhagslegu tjóni, s.s. hugarangri, áhyggjum, niðurlægingu og verulegum óþægindum. Hin ólögmæta uppsögn hafi þannig fyrir það fyrsta bakað Guðmundi tjón og þá einkum í núverandi árferði og efnahagsástandi. Byggir stefnandi á því að skaðabætur til hans skuli nema launum í þrjá mánuði umfram kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest (sem stefnandi hafi unnið). Slíkt sé venjubundið í málum er varða ólögmætar uppsagnir og eðlileg og hófstillt krafa í þessu máli. Áskilur stefnandi sér rétt til að leggja fram frekari gögn og gefa aðilaskýrslu um áhrif uppsagnarinnar á persónulega hagi hans og stöðu hans í dag.

Stefnandi kveður dagvinnutímakaup Guðmundar hafa verið 1.250 krónur og að hann hafi verið ráðinn í fullt starf. Ætli stefndi sér að mótmæla því skorar stefnandi á hann að leggja fram afrit skriflegs ráðningarsamnings við Guðmund er sýni annað og lægra starfshlutfall. Fullt starf er samkvæmt greinum 1.3., sbr. grein 1.5. í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Austurlands frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010, 173,33 tímar á mánuði. Full dagvinnulaun Guðmundar í starfi hans fyrir stefnda námu því 216.663 krónum á mánuði eða 238.968 krónur með 10,17% orlofi, sbr. grein 4.1. í sama kjarasamningi. Miðað sé við brúttólaun þar sem Guðmundur hafi ekki undir höndum launaseðil sem sönnun fyrir afdreginni staðgreiðslu, sbr. 22. gr. laga nr. 45/1987. Hann sé því ábyrgur fyrir skattskilum með stefnda. Skaðabótakrafa hans nemi því 716.904 krónum vegna þriggja mánaða og sé á því byggt að það sé að lágmarki tjón hans.

Stefnandi byggir á því að stefndi beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn persónu og æru Guðmundar og beri að greiða honum miskabætur, auk hefðbundinna skaðabóta, sbr. lagaheimild í 26. gr. laga nr. 50/1993. Uppsögnin hafi valdið Guðmundi  verulegum óþægindum og megi um það vísa til sömu málsástæðna og reifuð voru fyrir almennri skaðabótakröfu hér að framan. Telur stefnandi að eðlilegar miskabætur til hans nemi 500.000 krónum og miðist krafa hans við það.

Um málskostnaðarkröfu stefnanda kveðst hann vísa til 65. gr. laga nr. 80/1938. Um vaxtakröfu vísast til 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2001.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Verður þá eftir 96. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir framlögðum skjölum og skilríkjum.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að stefnandi, Guðmundur Óskar Sigjónsson, var trúnaðarmaður AFLs Starfsgreinafélags hjá stefnda er honum var sagt upp störfum 24. febrúar 2009. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt gögnum máls að hann var ekki ráðinn til starfa hjá stefnda á ný er endurráðningar starfsmanna fóru fram eftir uppsögn þeirra, eins og rakið er í stefnu. Uppsögn stefnanda var brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og því ólögmæt. Verður því fallist á aðalkröfu stefnanda í málinu. Af þeim sökum á stefnandi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda og er fallist á kröfu stefnanda um skaðabætur að fjárhæð 716.904 krónur og með þeim vöxtum sem krafist er og nánar greinir í dómsorði. Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum fyrir miskabótum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er þeirri kröfu hafnað.

Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 100.000 krónur.

       

D Ó M S O R Ð:

Uppsögn stefnda á Guðmundi Óskari Sigjónssyni, trúnaðarmanni AFLs Starfsgreinafélags, þann 24. febrúar 2009, var brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og því ólögmæt.

Stefndi, Smiðir ehf., greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands vegna AFLS starfsgreinafélags vegna Guðmundar Óskars Sigjónssonar, 716.904 krónur  með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2009 til 22. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og  100.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum