Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 8/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 8/2019

 

 

Vegagerðin

gegn

Akurnesbúinu ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 6. júní 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landi tveggja landspildna undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð, sem í beiðninni er lýst með svofelldum hætti: „[L]and í eigu jarðanna Árnaness 2 (159456), Árnaness 3 (159457), Árnaness 4 (159458) og Hríseyjar (209751) í Hornafirði.“

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþoli er Akurnesbúið ehf., kt. 540714-0880, Akurnesi 2, 781 Höfn í Hornafirði. Fyrirsvarsmaður eignarnámsþola er Sveinn Rúnar Ragnarsson, stjórnarformaður, [...]. Eignarnámsþoli er eigandi 50% hluta í Árnanesi 2, landnúmer 159456 (á móti 25% hluta Hjalta Egilssonar, [...], og 25% hluta Eiríks Egilssonar, [...], sem báðir eru til heimilis að[...]), 100% hluta í Árnanesi 3, landnúmer 159457 og 40% hluta í Árnanesi 4, landnúmer 159458 (á móti 20% hluta Ásgeirs Núpan Ágústssonar, [...], 20% hluta Hjalta Egilssonar og 20% hluta Eiríks Egilssonar). Þá er í matsbeiðni eignarnema við það miðað að eignarnámsþoli sé eigandi 100% hluta í Hrísey, landnúmer 200751. Undir meðferð málsins fyrir matsnefndinni hefur á hinn bóginn verið upplýst af hálfu málsaðila að eignarnámsþoli sé eigandi 47,5% hluta í Hrísey, landnúmer 200751 (á móti 5% hluta Ásgeirs Núpan Ágústssonar, 23,75% hluta Hjalta Egilssonar og 23,75% hluta Eiríks Egilssonar) og er við það miðað við úrlausn málsins eins og nánar greinir hér á eftir. Um áðurgreinda eignarhluta Hjalta og Eiríks Egilssona er fjallað í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 6/2019 og eignarhluta Ásgeirs Núpa í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 7/2019, sem kveðnir voru upp í dag. Þá gerði eignarnámsþoli undir meðferð málsins fyrir nefndinni tilkall til landspildu Árnaness 1 milli vegstöðva 12200 og 12820 að undanskilinni spildu milli vegstöðva 12500 og 12600, eins og nánar greinir hér á eftir.

 

Matsandlagið samkvæmt uppfærðu tilboði eignarnema 8. október 2019 er nánar tiltekið:

1.         112.286 fermetra landspilda í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar milli vegstöðva 9390 og 12200, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.

 

2.         28.599 fermetra landspilda í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 milli vegstöðva 12820 og 13527, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.

 

3.         Samtals 19.867 fermetra landspilda Árnaness 3 milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 18. júní 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 23 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Miðvikudaginn 26. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 26. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum, greinargerð eignarnámsþola ásamt 13 tölusettum fylgiskjölum og athugasemdir eignarnema við greinargerð eignarnámsþola ásamt tveimur tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola voru lögð fram tvö ný skjöl, annars vegar kaupsamningur 6. janúar 2012 um sölu á spildu úr landi fasteignarinnar Lindabakka/Lóðar 2, Hornafirði, ásamt fjárhúsi með áburðarkjallara og hlöðu, og hins vegar vinnuskýrsla lögmanns eignarnámsþola. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað: „Aðspurður um það hvort lögmaður eignarnámsþola teldi frekari gagna þörf um bótakröfu hans vegna ætlaðs tjóns, taldi hann að þörf væri frekari rannsóknar af hálfu eignarnema í samræmi við 8. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eiganrnáms, ella verði eignarnemi að bera hallann af því við ákvörðun um bætur.“ Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

 

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

 

Með tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola 29. september 2019 til matsnefndar eignarnámsbóta gerði eignarnámsþoli tilkall til lands á milli vegstöðva 12200 og 12820, að undanskilinni landspildu á milli vegstöðva 12500 og 12600, sem eignarnámsþoli kvað í eigu Hjalta og Eiríks Egilssona. Með tölvubréfi lögmanns Hjalta og Eiríks 4. október 2019 var upplýst að þeir gerðu ekki athugasemdir við þetta.

 

Með tölvubréfi 4. október 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við eignarnema að hann uppfærði tilboð sitt til eignarnámsþola með tilliti til breytts eignarhalds á Hrísey og á landspildu milli vegstöðva 12200 og 12820.  Með tölvubréfi lögmanns eignarnema 8. október 2019 til matsnefndar barst uppfært tilboð eignarnema. Með tölvubréfi lögmanns Hjalta og Eiríks Egilssona sama dag til matsnefndar voru gerðar athugasemdir við uppfært tilboð eignarnema vegna landspildu milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara. Þannig nemur uppfært tilboð eignarnema 8. október 2019 vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar milli vegstöðva 9390 og 12200 1.600.075 krónum. Tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 milli vegstöðva 12820 og 13527 nemur 407.535 krónum. Endanlegt tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 19.867 fermetra landspildu Árnaness 3 milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820, nemur 596.010 krónum.

 

Við mat á bótum vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014,[...]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði. Eignarnemi hafnar því að kaupsamningur um Lindabakka, sem liggi fyrir í málinu, eigi við í þessu máli, þar sem ekki sé um hliðstæð landsvæði að ræða ásamt því að þar hafi aðstaða kaupsamningsaðila verið sérstæð. Eignarnemi hafnar því einnig að söluverð sumarhúsalóða í Stafafellsfjöllum geti átt við í málinu og að fráleitt sé að miða við það, því matsandlagið sé hvorki hentugt til sumarhúsabyggðar né geri skipulag sveitarfélagsins ráð fyrir slíkri byggð. Þá telur eignarnemi að sú staðreynd að ekki hafi verið lagðir fram aðrir kaupsamningar um land í Hornafirði gefi til kynna að tilboð eignarnema sé ekki fjarri lagi.

 

Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat matsandlagsins gefi nokkra vísbendingu um verðmæti þess, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Nemi fasteignamat 2019 vegna 16,1 hektara ræktaðs lands Árnaness 2 1.665.000 krónum eða 103.416 krónum á hektara, fasteignamat 4,5 hektara ræktaðs lands Árnaness 3 455.000 krónum eða 101.111 krónum á hektara, fasteignamat 3,3 hektara ræktaðs lands Árnaness 4 330.000 krónum eða 100.000 krónum á hektara og fasteignamat 3,0 hektara lands Hríseyjar 309.000 krónum.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara.

 

Eignarnemi hafnar því loks að verðmat Snorra Snorrasonar, löggilts fasteignasala, sem eignarnámsþoli byggir á í málinu, verði lagt til grundvallar við úrlausn þess. Verðmatið sé hvorki sundurliðað á fullnægjandi hátt né stutt gögnum og því sé ófært að byggja á því. Hið sama gildi raunar um fjárkröfu eignarnámsþola í heild, sem eignarnemi mótmælir.

 

Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspildur í óskiptu landi annars vegar Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) og hins vegar Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) af sjávarflæðagróðri, deiglendi, mýrlendi og litlum skika af flóa. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt, sé óhentugt til landbúnaðar og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþolar haldi eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins.

 

Eignarnemi telur fráleitt að fyrirhuguð vegaframkvæmd muni rýra verðgildi þess lands sem eignarnámsþoli heldur eftir, svo og að tilkoma vegar muni hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og upplifun á landinu öllu. Um stóra jörð sé að ræða. Í því samhengi heldur eignarnemi því fram að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 4/2014, þar sem úrskurðað hafi verið um eignarnámsbætur fyrir spildu úr landi Hvassahrauns á Vatnsleysuströnd, eigi ekki við í þessu máli, því þar hafi verið um að ræða há möstur með rafmagnslínur og mikla sjónræna mengun, að fólk hræðist slík mannvirki af heilsufarsástæðum og að þar hafi verið tekið tillit til væntinga manna um áhrif skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu á markaðsverð hlutaðeigandi lands. Þá mótmælir eignarnemi fullyrðingum eignarnámsþola þess efnis að fyrirhuguð vegaframkvæmd muni spilla beitilandi hans og verða valdur að almennum óþægindum og raski í hans garð. Þá hafi þegar í fyrstu bréflegu samskiptum eignarnema við forvera eignarnámsþola, þáverandi eiganda matsandlagsins, 29. febrúar 2016, verið upplýst um þær fyrirætlanir eignarnema að girt yrði af hans hálfu við nýtt vegstæði.

 

Loks telur eignarnemi að ekkert bendi til þess að eignarnámsþoli verði fyrir stórkostlegu tjóni vegna kartöfluræktar sinnar eða annars búrekstrar. Hið sama gildi um fuglalíf og æðarvarp á landi þeirra. Því til stuðnings vísar eignarnemi til matsskýrslu frá því í apríl 2009 vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur eignarnemi að fullyrðingar eignarnámsþola um neikvæð áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landbúnað á jörðum þeirra, einkum kartöflurækt, vegna hækkandi grunnvatsstöðu og aukinnar flóðahættu, séu í ósamræmi við matsskýrsluna og minnisblað sérfræðings eignarnema 10. október 2017 um mat á flóðum, sem fyrir liggi í málinu. Í matsskýrslunni hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir vatnafari á svæðinu, hönnun mannvirkja miðuð við það og að þrátt fyrir aftakaflóð á svæðinu haustið 2017 hafi forsendur matsskýrslu ekki breyst. Eignarnemi hafnar einnig fullyrðingum eignarnámsþola um að framkvæmdirnar muni spilla æðarvarpi í Hrafnsey og að líklegt sé að það leggist af með öllu. Í matsskýrslunni vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar komi meðal annars fram að engar íslenskar rannsóknir séu til um áhrif vegalagningar á fuglalíf en að ljóst sé að áhrif bílaumferðar einnar séu fremur lítil. Vísar eignarnemi og til bréfs Náttúrufræðistofnunar Íslands 22. ágúst 2019 í þessu samhengi, sem eignarnemi hafi aflað.

 

Í því samhengi bendir eignarnemi á lögbundið matsferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem eignarnemi hafi uppfyllt vegna fyrirhugaðrar vegalagningar og að um sé að ræða langt og strangt ferli þar sem fjöldi sérfræðinga komi að málum og þar séu leidd í ljós þau umhverfisáhrif sem talið sé að framkvæmd muni hafa í för með sér. Vísar eignarnemi því á bug málatilbúnaði eignarnámsþola um galla á áðurgreindu ferli og að umhverfisáhrif af framkvæmdinni verði önnur og meiri en getið sé um í matsskýrslunni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 20. nóvember 2017 í máli nr. 1/2017, þar sem málatilbúnaði þessa efnis hafi verið hafnað, og úrskurð nefndarinnar 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017, þar sem hafnað hafi verið erindi annarra landeigenda á svæðinu um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur eignarnemi að matsskýrslan frá því í apríl 2009 sé í fullu gildi.

 

Að síðustu telur eignarnemi óhjákvæmilegt að við ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþolum taki matsnefnd eignarnámsbóta tillit til þess að lögmenn þeirra reki auk þessa máls tvö hliðstæð mál fyrir nefndinni, þar sem málatilbúnaður sé að miklu leyti sá hinn sami.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur honum til handa verði ákveðnar 300.000.000 krónur. Er bótakrafa eignarnámsþola ekki sundurgreind eftir einstökum kröfuliðum og af hans hálfu er fram komið að á honum hvíli engin skylda til að sundurliða fjárkröfu sína frekar. Í málatilbúnaði eignarnámsþola hafi á fullnægjandi hátt verið sett fram fjárkrafa með skírskotun til dæma um útreikninga sem staðið geti til þeirrar fjárkröfu.

 

Tekur kröfugerð eignarnámsþola til matsandlagsins sem áður var lýst, það er landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar milli vegstöðva 9390 og 12200 og landspildu í  óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 milli vegstöðva 12820 og 13527, en einnig gerir eignarnámsþoli eins og áður greinir tilkall til lands á milli vegstöðva 12200 og 12820, að undanskildu landi á milli vegstöðva 12480-12600. Þá tekur kröfugerð eignarnámsþola mið af því að greiða beri bætur fyrir hið eignarnumda land, það er matsandlagið, en einnig bætur fyrir áhrif fyrirhugaðs vegar á verðmæti annars landssvæðis í þeirra eigu, þ. á m. áhrif á búrekstur, beitiland, æðarvarp og það hvernig hinn nýi vegur klýfur það land sem eignarnámsþoli heldur eftir svo óhagræði hlýst af, svo og bætur fyrir almennt rask og óþægindi vegna framkvæmda, viðhalds, eftirlits og endurnýjunar. Áréttar eignarnámsþoli í því samhengi að honum beri fullt verð fyrir hina eignarnumdu eign og að „[h]ryggjarstykkið í bótakröfunni [felist] í almennu verðfalli jarðarinnar og þeim gríðarlegu áhrifum sem áformuð framkvæmd [sé] líkleg til að hafa á kartöfluframleiðslu eignarnámsþola.“ Þá tiltekur eignarnámsþoli að heildarstærð þess lands sem heyri undir eignarhald hans, og fyrirhuguð veglína fari um, sé um 320 hektarar og að fjölbreytilegra landgerða gæti innan merkja landsvæðisins því þar sé meðal annars fjalllendi, melar, mýrar, valllendi, áreyrar, votlendi, leirur og sjávarfitjar, ásamt eignarhluta í strandlóni Hornafjarðar og eyjum þar. Innan merkja landsvæðisins séu þannig ósnortin víðerni og náttúruminjar sem njóti sérstakrar verndar og gjöful landbúnaðarlönd. Á landsvæðinu sé stundaður blandaður búskapur, þ. á m. sé þar rekið eitt stærsta kartöflubú landsins, þar standi þrjú íbúðarhús auk mannvirkja í þágu búskapar og að bæjarstæðið standi við þjóðveginn í um 7 km fjarlægð frá þéttbýli á Höfn í Hornafirði. Er bótakrafa eignarnámsþola ekki sundurgreind eftir áðurgreindum kröfuliðum eins og áður greinir, en þeir rökstuddir á svofelldan hátt:

 

Í fyrsta lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir land sem tekið er eignarnámi. Bendir hann í því samhengi einkum á að verðmæti hins eignarnumda lands sé bundið við einstaka staðsetningu þess, landgæði og náttúruverðmæti. Fyrirhuguð veglína fari meðal annars yfir land sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, svo sem votlendi, sjávarfitjar og leirur, og að vegurinn muni spilla landinu og auka aðgengi að svæðum sem til þessa hafi verið ósnert af mönnum.  Þá hafi neikvæð umhverfisáhrif verið staðfest í áliti Skipulagsstofnunar 7. ágúst 2009 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, þar sem segi meðal annars að áhrif leiðar 3b á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður verði óhjákvæmilega verulega neikvæð, að leiðin hafi talsverð neikvæð áhrif á fugla og að áhrifin á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verði varanleg og óafturkræf. Telur eignarnámsþoli nauðsynlegt að líta til þess við mat á fjárhæð eignarnámsbóta að hagræn og fjárhagsleg rök standi til þess að meta háu verði fjárhagslegt gildi óspilltrar náttúru og náttúrufegurðar og vísar í því samhengi t.d. til jarðarinnar Fells við Jökulsárlón sem sé í um 70 km fjarlægð frá landi eignarnámsþola og hafi verið seld fyrir á annan milljarð króna. Þá telur eignarnámsþoli að veglagningin um land hans muni óhjákvæmilega skerða möguleika hans til útivistar, útsýnis og verulegrar tekjuöflunar í þágu ferðaþjónustu með tilliti til ósnortinnar náttúru svæðisins, því Hornafjörður sé eitt stærsta leirulón landsins og stærsta samfellda skeraleiran og hafi ferðaþjónustuaðilar haft fyrirætlanir um og óskað eftir leyfum til að sigla um fjörðinn með ferðamenn. Vekur eignarnámsþoli einnig athygli á vitundarvakningu um verðmæti votlendis og styrki sem landeigendur geti aflað til varðveislu og endurheimtu votlendis. Áréttar hann í þessu samhengi að eignarnám sé þvingunaraðgerð og að eignarnámsþoli sé við það sviptur möguleika á framtíðarhagnýtingu og rétti til að koma landi sínu í verð við heppilegar markaðsaðstæður. Taka beri tillit til nýtingarmöguleika hins eignarnumda lands til framtíðar við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 4/2014 um Hvassafell á Vatnsleysuströnd þar sem litið var til hugmynda um flugvallarkosti og áhrif þeirra á markaðsverð á hlutaðeigandi landsvæði og hektaraverð ákveðið 2.250.000 krónur. Eignarnámsþoli vísar einnig til úrskurðar matsnefndarinnar í máli nr. 4/2009 um Kapelluhraun, þar sem hektaraverð hafi verið ákveðið að fjárhæð 38.000.000 krónur. Þá vísar eignarnámsþoli til kaupsamnings 6. janúar 2012, þar sem [...] keypti Lindabakka/Lóð 2 í Hornafirði, [...], en hektaraverð hafi þar verið að fjárhæð 6.250.000 krónur. Loks vísar eignarnámsþoli til þess að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar í dómi réttarins 7. mars 2005 í máli nr. 349/2004 sé áhrifasvæði eignarnámsins í reynd mun stærra en miðað hafi verið við af hálfu eignarnema. Eignarnámsþoli mótmælir í þessu samhengi að byggt verði á kaupsamningi 15. desember 2014 um Árnanes 1, líkt og eignarnemi heldur fram í málinu, því fasteignaverð hafi hækkað frá því sem var 2014 og þess utan dragi eignarnámsþoli í efa fullyrðingu eignarnema um stærð hins selda lands. Nærtækara sé að líta til sumarbústaðalóða í Stafafellsfjöllum sem til sölu séu um þessar mundir. Þá byggir eignarnámsþoli kröfu sína á verðmati Snorra Snorrasonar, löggilts fasteignasala, frá 2. ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði og liggur fyrir í málinu og tekur til alls landsvæðisins í eigu eignarnámsþola og íbúðarhúsa þar, ekki aðeins hins eignarnumda lands. Í verðmatinu sé tekið mið af staðsetningu landsvæðisins, ástandi fasteigna og nýtingarmöguleikum, auk fyrirliggjandi upplýsinga um framboð og eftirspurn fasteigna í Hornafirði, og heildarverðmæti landsvæðisins í eigu eignarnámsþola og íbúðarhúsa þar áætlað um 345.000.000 krónur.

 

Í öðru lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir verðrýrnun og áhrif á landnotkun, þ. á m. áhrif á búrekstur, beitiland, æðarvarp og það hvernig landinu er skipt upp með tilkomu nýs vegar. Almennt sé viðurkennt að eignarnámsþoli eigi ekki aðeins rétt á bótum fyrir hina eignarnumdu eign heldur og allt það fjárhagslega tjón sem rakið verði til eignarnáms, t.d. verðrýrnun á eign sem eignarnámsþoli heldur eftir þegar hluti eignar hefur verið tekinn eignarnámi. Krefst eignarnámsþoli kröfu um bætur vegna verðrýrnunar sem rekja megi til skemmda og sjónmengunar á náttúru landsins sem leiði vafalaust til þess að land sem hann heldur eftir verði verðminna en áður og vísar í því samhengi til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og dóms Hæstaréttar 7. mars 2005 í máli nr. 349/2004. Krefst eignarnámsþoli einnig bóta fyrir almennt verðfall sem verði á þeim hluta fasteignar hans sem hann heldur eftir eignarnámið og vísar í því samhengi til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta vegna nýrrar háspennulínu sem áformað sé að leggja frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar, t.d. úrskurð matsnefndarinnar í máli nr. 4/2014 um Hvassahraun á Vatnsleysuströnd. Þar hafi bætur fyrir hið eignarnumda land aðeins numið 2,3% af heildarbótum til handa eignarnámsþola í hlutaðeigandi máli, því meirihluti eignarnámsbótanna hafi tekið til aðliggjandi belta sem bannað er að reisa mannvirki á og lands í næsta nágrenni við fyrirhugaða háspennulínu. Í samræmi við þetta verði við ákvörðun eignarnámsbóta í máli eignarnámsþola að líta til líklegra áhrif fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar á land hans í heild og þann búskap sem ábúendur á landinu byggi afkomu sína á. Vísar eignarnámsþoli og til 8. gr. laga nr. 11/1973 í þessu samhengi.

 

Þess utan gerir eignarnámsþoli eins og áður greinir kröfu um bætur vegna sértækra áhrifa á landnotkun: Í fyrsta lagi áhrif á búrekstur til kartöflu- og sauðfjárræktar. Hvað kartöfluræktina varðar hafi landgæði landsvæðis eignarnámsþola tryggt ábúendum þar forskot gagnvart kartöfluframleiðendum í öðrum landshlutum. Þar sem landið sé lægst í Árhólmum séu einstakar aðstæður til kartöfluræktunar, því þar fari klaki fyrst úr jörðu að vori og hægt sé að sá þar kartöflum snemma, lítil hætta sé á næturfrosti og góð vaxtarskilyrði. Núverandi kartöfluakrar séu staðsettir á bökkum Laxár og Hoffellsár, því nálægð við vatnsfallið tryggi nægan raka og minnki líkur á næturfrosti. Aðeins lítill hluti landsvæðis eignarnámsþola sé ákjósanlegur fyrir kartöflurækt og að vaxtamöguleikar til kartöfluræktar á svæðinu í framtíðinni séu bundnir við áhrifasvæði nýs vegstæðis. Innan þess séu 50 hektarar af garðlandi og þar af um 20-25 hektarar þegar í notkun. Kartöflur af svæðinu hafa undanfarin ár verið fyrstar á markaðinn og þar með skilað háum verðum, þar sem velta á hvern hektara hafi ár hvert numið á bilinu 3,5-4 milljónum króna. Telur eignarnámsþoli að landsvæðið sem um ræði sé afar viðkvæmt fyrir breytingum á vatnafari sökum þess hve lágt það liggi. Vísar hann til upplýsinga frá Veðurstofu Íslands, sem liggja fyrir í málinu, um hvernig Gilsfjörð hafi farið að leggja við lægra hitastig eftir vegþverun fjarðarins og hvernig þverun Hornafjarðar muni hafa veruleg áhrif á hitastig á svæðinu ef sambærileg áhrif ættu sér stað þar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á kartöflurækt á svæðinu sem hefði það meðal annars í för með sér að ábúendur myndu tapa markaðsforskoti sínu í kartöflurækt. Heldur eignarnámsþoli því fram að þrátt fyrir þetta hafi eignarnemi vanrækt að rannsaka möguleg áhrif fyrirhugaðrar vegalagningar á kartöflugarða og atvinnuhagsmuni á svæðinu. Eignarnámsþoli telur sýnt að flóðahætta muni aukast verulega með tilkomu nýs vegar frá því sem verið hefur og vísar í því samhengi meðal annars til fyrirliggjandi skýrslu um vatnafar í Hornafirði, flóða á svæðinu í desember 2015, september 2017 og apríl 2019 og þess að hæðarkvóti vegarins hafi verið hækkaður frá upphaflegum áformum. Þá sé hreyfing á seti mikil í Hornafirði, mjög litlar rannsóknir hafi farið fram á setflutningum á Íslandi og erfitt sé að ráðgera hver áhrif af þeim verði innan þverunar í Hornafirði þar sem óvenjumikið sé af seti. Telur eignarnámsþoli líklegt að það geti til lengri tíma litið haft áhrif á vatnsskipti og þar með valdið meiri óvissu um áhrif þverunar á garðlönd sín og atvinnuhagsmuni. Um ætlað tjón af völdum áhrifa fyrirhugaðrar vegalagningar á búrekstur byggir eignarnámsþoli meðal annars á matsgerð Runólfs Sigursveinssonar, rekstrarráðgjafa hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, frá 9. ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði, þar sem lagt var mat á rekstrarreikninga eignarnámsþola vegna fjárhagsáranna 2017 og 2018. Þar komi meðal annars fram að rekstur eignarnámsþola sé blandaður, þar sem kartöflurækt skili 80% af tekjum, rekstur sauðfjárbús 18% tekna og að afkoma að öðru leyti verði rakin til annarrar jarðræktar og hlunninda. Niðurstaða matsgerðarinnar um verðmat á atvinnurekstri eignarnámsþola sé sú að verðmæti hans nemi fimmfaldri meðal EBITDA áranna 2017 og 2018, sem svari til 113.339.270 króna. Loks áréttar eignarnámsþoli að hækkandi grunnvatnsstaða og flóðahætta geti eyðilagt núverandi kartöfluakra og komið í vegi fyrir að frekara land við Hornafjarðarfljót sé tekið undir ræktun kartafla, þótt erfitt sé að áætla nákvæmlega hver áhrif vegalagningarinnar verði á atvinnurekstur og tekjuöflun eignanrámsþola. Í öðru lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir áhrif á beitiland. Telur eignarnámsþoli að fyrirhuguð vegaframkvæmd muni skerða beitarland og óvíst sé hvaða áhrif hún muni hafa á sjávarfitjar, sem fyrirsjáanlega verði eftirleiðis meira og minna undir vatni, þar sem þær séu nýttar til beitar. Þá verði lausafjárganga búfjár fyrirsjáanlega bönnuð nærri nýju vegstæði og því þurfi að girða það af með tilheyrandi kostnaði fyrir eignarnámsþola, þar sem á sumrum gangi í Árnanesi um 300 fjár og sé þá ótalinn sá fjöldi sem gangi í Hrísey. Taka verði tillit til þessa kostnaðar, því ekkert liggi fyrir um hvernig girðingum verði háttað. Í þriðja lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir áhrif á æðarvarp í Hrafnsey og Hrísey, sem hann kveður munu spillast við vegalagninguna. Æðarvarp og dúntekja hafi ekki verið nýtt til þessa, þar sem ábúendur hafi einbeitt sé að annarri nýtingu jarðarinnar, en fyrirhuguð vegalagning muni fyrirsjáanlega valda tjóni á kartöflu- og sauðfjárrækt og þá samhliða útiloka möguleika eignarnámsþola til að nýta dúntekju og takmarka þar með tjón sitt í kartöflu- og sauðfjárrækt af völdum vegalagningarinnar. Í fjórða lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir áhrif af völdum uppskiptingar landsins með tilkomu nýs vegar, sem valdi óhagræði varðandi umferð og nýtingu landsins sem eignarnámsþoli heldur eftir og nýtist verr en ella. Vísar eignarnámsþoli til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 2/2009, 3/2009 og 2/2008 í þessu samhengi.

 

Í þriðja lagi krefst eignarnámsþoli bóta fyrir almennt rask og óþægindi vegna framkvæmda, viðhalds, eftirlits og endurnýjunar. Eignarnámsþoli heldur því meðal annars fram að ljóst sé að fyrirhuguð vegaframkvæmd muni taka langan tíma og til þess þurfi fjölda vinnuvéla og vinnumanna, efnisflutning, námugröft o.fl. með tilheyrandi raski og ónæði fyrir sig, svo og að líta verði til fyrirsjáanlegs rasks eftir lok framkvæmdatíma, því eignarnemi beri lögum samkvæmt skylda til að viðhafa reglulegt eftirlit og viðhald með vegum sem muni óhjákvæmilega hafa í för með sér truflun fyrir eignarnámsþola. Áætlar eignarnámsþoli að tjón hans vegna þessa nemi um 5.000.000 krónum.

 

Eignarnámsþoli vísar til þess að umhverfismat fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar sé bæði úrelt og ófullnægjandi, enda sé matið orðið meira en 10 ára gamalt og reist á enn eldri gögnum. Telur eignarnámsþoli að aðstæður á framkvæmdasvæðinu í Hornafirði hafi breyst hratt á síðustu árum og að mikil óvissa ríki um raunveruleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Heldur eignarnámsþoli því fram að hann hafi með rökstuddum hætti sýnt fram á að áformuð veglína ógni atvinnumöguleikum sínum, einkum kartöflurækt og ferðaþjónustu, og að ótækt sé að hann verði látinn bera hallann af því að fyrirliggjandi rannsóknir séu úreltar og ófullnægjandi. Telur eignarnámsþoli að taka verði tillit til þessa við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta og að það sé á ábyrgð og áhættu eignarnema að styðjast við svo gamalt umhverfismat enda hafi honum verið í lófa lagið að láta meta áhrif framkvæmdarinnar á ný.

 

Að síðustu krefst eignarnámsþoli málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema í samræmi við 11. gr. laga nr. 11/1973, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 2.569.903 krónum vegna lögfræðiþjónustu. Eignarnámsþoli áætlar að heildarkostnaður eignarnámsþola af rekstri matsmálsins nemi um 3.000.000 krónum.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 26. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og fyrirsvarsmanni eignarnámsþola og kynnti sér aðstæður. Samkvæmt matsbeiðni tekur eignarnámið til áðurgreindra tveggja landspildna, þar sem um ræðir 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) og 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527), sem samkvæmt gögnum málsins einkennast báðar af sjávarflæðagróðri, deiglendi, mýrlendi og litlum skika af flóa. Vettvangsathugun leiddi í ljós gróðursælt og fjölbreytt landslag fyrir landi eignarnámsþola, þ. á m. beitiland, ræktað land og eyjur.

 

Er stærð og hlutdeild eignarnámsþola í landspildunum tveimur lýst hér á undan og óumdeild, þ. á m. eignarhlutdeild þeirra í Hrísey. Eins og áður greinir kom á hinn bóginn upp ágreiningur um eignarhlutdeild eignarnámsþola í landspildu Árnaness 1 milli vegstöðva 12200 og 12820 undir meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Af hálfu eignarnema var í matsbeiðni gengið út frá því að eignarnámsþoli ætti ekki eignarhlutdeild í þessari landspildu, heldur væru það Hjalti og Eiríkur Egilssynir, eignarnámsþolar í máli matsnefndar eignarnámsbóta nr. 6/2019. Eignarnámsþoli þessa máls gerði tilkall til landspildunnar í greinargerð sinni til matsnefndarinnar, með svofelldum hætti: „Eignarnámsþoli vill í upphafi árétta að andlag umbeðins [eignarnáms] fæst ekki staðist. Eignarnámsbeiðni lýtur að því að tekið sé eignarnámi land sem liggur á milli punkta 9390-12200 og síðan 12820-13527. Eignarnámsþoli á hins vegar land á milli punkta 12200-12820 að undanskildu landi á milli ca. punkta 12.500-12.600.“ Þessu mótmælti eignarnemi í athugasemdum sínum við greinargerð eignarnámsþola með þeim rökum að eignarnámsþoli hefði í áðurgreindri greinargerð í fyrsta sinn haldið því fram að hann ætti tilkall til landspildunnar, án þess að sú fullyrðing væri studd haldbærum gögnum. Þá væri fullyrðingin um eignartilkallið í ósamræmi við upplýsingar sem fram hefðu komið í tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola 6. júní 2016 til eignarnema þar sem landspildan væri sögð tilheyra jörðinni Árnanesi 1, í eigu áðurgreindra eignarnámsþola í máli matsnefndarinnar nr. 6/2019. Hefði sú tilhögun verið lögð til grundvallar síðan án athugasemda af hálfu eignarnámsþolans í þessu máli og því yrði ekki byggt á áðurgreindu eignartilkalli hans til landspildunnar Árnaness 1 milli vegstöðva 12200 og 12820. Með tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola 29. september 2019 til matsnefndarinnar var áréttað tilkall eignarnámsþola til lands á milli vegstöðva 12200 og 12820, að undanskilinni landspildu á milli vegstöðva 12500 og 12600, sem eignarnámsþoli kvað í eigu áðurgreindra Hjalta og Eiríks Egilssona. Þeir Hjalti og Eiríkur samþykktu svo breytta tilhögun eignarhalds með tölvubréfi 4. október 2019. Matsnefndinni barst 8. október 2019 uppfært tilboð eignarnema um bætur til handa eignarnámsþolum að teknu tilliti til áðurgreindra breytinga á eignarhaldi. Þar er miðað við, í samræmi við upplýsingar úr fasteignaskrá, að eignarnámsþoli eigi land á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820, en að Hjalti og Eiríkur Egilssynir eigi land á milli vegstöðva 12480 og 12600. Sama dag mótmæltu síðastgreindir Hjalti og Eiríkur eignartilkalli eignarnámsþola til landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480, sem þeir kveða nú í sameign. Hér er til þess að líta að valdsvið matsnefndarinnar einskorðast við úrlausn ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, og það er þannig ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á því landi sem tekið er eignarnámi. Þar sem ágreiningur um eignarhald áðurgreindrar landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480 varðar eignarnámsþola í máli þessu og Hjalta og Eirík Egilssyni, sem einnig eiga aðild að máli fyrir nefndinni sem eignarnámsþolar í máli nr. 6/2019, verður fjárhæð eignarnámsbóta vegna landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820, samtals 19.867 fermetrar, ákveðin eins og nánar greinir hér á eftir og fjárhæðin innt af hendi á geymslureikning.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskildum kröfum eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns á atvinnuhagsmunum þeirra í formi búrekstrar og æðarvarps. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir þær landspildur sem fara undir nýtt vegstæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að hvorki verðmat löggilts fasteignasala, sem eignarnámsþoli lagði fram, né önnur viðmiðunarverð sem greinir í málatilbúnaði eignarnámsþolans, gefi rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna austan fljótsins. Fyrir 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 3.200.151 krónur (112.286x0,475x60) og fyrir 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 815.072 krónur (28.599x0,475x60). Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessara landspildna 4.015.223 krónur. Fyrir 19.867 fermetra landspildu Árnaness 3 (milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820), sem Hjalti og Eiríkur Egilssynir gera tilkall til, þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 1.192.020 krónur (19.867x60).

 

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþola beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefur á það land sem hann heldur eftir, það er verðrýrnun þar sem vegurinn skiptir landspildunum þannig að óhagræði hlýst af, án þess þó að til álita komi að beita heimildum 12. gr. laga nr. 11/1973. Matsnefndin telur rétt að miða verðrýrnun þessa við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra eða 300.000 krónur á hektara. Er það álit nefndarinnar að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun verði á landi sjávarmegin vegar sem nemi 130 hekturum í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) og 3,1 hektara í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527). Hæfilegar eignarnámsbætur vegna landspildnanna sjávarmegin vegar sem eignarnámsþolar halda eftir, í sömu röð og þar greinir, þykja vera 18.525.000 krónur (130x0,475x300) og 441.750 krónur (3,1x0,475x300). Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessara landspildna 18.966.750 krónur. Er stærð þessara landspildna reist á mælingum matsnefndarinnar. Hvað land Árnaness 3 (milli vegstöðva 12200 og 1248 og vegstöðva 12600 og 12820) varðar er til þess að líta að sjór er sunnan megin nýs vegstæðis og því koma þar ekki til hliðstæð fjárhagsleg áhrif nýs vegstæðis og við á um tvær fyrstgreindu spildurnar.

 

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess einnig krafist að honum verði úrskurðaðar bætur vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum sínum við búrekstur, það er kartöflurækt, sauðfjárrækt og beitiland, svo og bætur vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á æðarvarpi fyrir landi hans.

 

Hvað bótakröfu eignarnámsþola fyrir áhrif á búrekstur hans og beitiland varðar er til þess að líta að á vegum eignarnema fór fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar í Hornafirði, þ. á m. á vatnafari. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017 var hafnað erindi annarra landeigenda á svæðinu um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Það er álit matsnefndarinnar að óvissan um áhrif vegalagningarinnar á búrekstur eignarnámsþola og beitiland sé slík að ekki sé að svo stöddu unnt að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og hann hefur krafist. Hefur matsnefndin þá meðal annars í huga heimildir 16. gr. laga nr. 11/1973 til endurupptöku bótaákvörðunar. Er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað.

 

Hvað bótakröfu eignarnámsþola fyrir áhrif á æðarvarp varðar er til þess að líta að nýting í tengslum við æðarvarp og dúntekju er ekki hafin af hálfu eignarnámsþola og hann hefur því ekki haft neinar tekjur af slíkri nýtingu til þessa, þrátt fyrir ætlaða möguleika til þessa fyrir landi hans í Hrafnsey, þar sem slík nýting mun þegar vera hafin af hálfu annarra en eignarnámsþola, og í Hrísey, þar sem eignarnámsþoli telur að unnt væri að viðhafa slíka nýtingu. Um ætlað tjón af völdum fyrirhugaðs eignarnáms á varplendið og möguleika til æðarræktar fyrir landi eignarnámsþola, hefur hann vísað til meðalverðs æðardúns samkvæmt upplýsingum frá Æðarræktarfélagi Íslands. Í gögnum málsins liggur fyrir álit Náttúrufræðistofnunar Íslands 22. ágúst 2019, sem eignarnemi aflaði. Þar greinir meðal annars að fullyrða megi að fyrirhuguð vegalagning og mikil bílaumferð um nýjan veg í framtíðinni þurfi ekki að standa æðarvarpi í Hrafnsey fyrir þrifum að gefnum nánar tilgreindum forsendum, það er að girt sé milli vegar og eyjar og þannig tryggt að óviðkomandi umferð gangandi fólks sé ekki möguleg, að öll æðarvörp á fastalandi Íslands séu í nánu sambýli við manninn, að litlar líkur séu á því að vegalagningin muni hafa áhrif á æðarvarpið til hins verra sé tryggt að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að varpinu, svo og að byggja megi upp varplendi og hafa áhrif á hvar fuglar hreiðra um sig í eynni. Þótt réttur eignarnámsþola til eignarnámsbóta sé ekki takmarkaður við tjón á verðmætum landgæðum sem þeir hafa þegar byrjað að hagnýta, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 21. júní 1955 í máli nr. 51/1955 sem birtur er í dómasafni réttarins á bls. 431 og 18. október 2012 í máli nr. 233/2011, verða eignarnámsbætur einungis ákveðnar fyrir fjárhagslegt tjón eignarnámsþola á grundvelli sjónarmiða skaðabótaréttar sem í því samhengi áskilja að lágmarki sönnun um tjón, fjárhæð þess og orsakatengsl milli tjónsins og eignarnámsins. Eins og áður greinir liggja ekki fyrir fjárhagsupplýsingar um tekjur eignarnámsþola af æðarvarpi. Þá er samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Æðarræktarfélagi Íslands ófært að fullyrða að fyrirhuguð vegalagning muni koma í veg fyrir æðarvarp í Hrafnsey og þar með valda tjóni á slíkum atvinnuhagsmunum eignarnámsþola í framtíðinni. Er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað.

 

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþoli naut áður en til samningaviðræðna um matsandlagið og ákvörðun um eignarnám lágu fyrir, allt frá 10. febrúar 2014 að telja, en yfirlitið tekur t.d. til hagsmunagæslu fyrir skipulagsyfirvöldum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þessi kostnaður eignarnámsþola verður ekki í heild sinni talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins áttu fyrstu bréflegu samskipti málsaðila sér stað með bréfi eignarnema 29. febrúar 2016 til eignarnámsþola og að eignarnemi hafi fyrst boðið fram bætur til handa eignarnámsþola með bréfi 19. október 2016. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþola þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til þess að lögmaður eignarnámsþola hefur samkvæmt áðurgreindu rekið annað mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á malarefni úr námum, sbr. úrskurð í máli nr. 9/2019 sem kveðinn er upp í dag, í þágu sömu framkvæmdar eignarnema. Þriðja málið, mál nr. 10/2019, kemur á hinn bóginn ekki til úrlausnar matsnefndarinnar, þar sem það mál var fellt niður fyrir nefndinni að beiðni málsaðila þess 8. og 9. október 2019 sökum þess að um rangan eignarnámsþola var að ræða, því jafnframt var af þeirra hálfu fallið frá kröfum um kostnað vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola samtals vera 23.981.973 krónur (4.015.223+18.966.750+1.000.000). Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola 2.645.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Eignarnámsbætur vegna landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820, þar sem eignarnámsþoli og Hjalti og Eiríkur Egilssynir gera tilkall til spildu milli fyrrgreindu vegstöðvanna, þykja hæfilega ákveðnar 1.192.020 krónur.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 23.981.973 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og eignarnámsþola, Akurnesbúinu ehf., samtals 2.895.000 krónur í málskostnað.

 

Eignarnámsbætur vegna landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820 sem eignarnámsþoli og Hjalti Egilsson og Eiríkur Egilsson gera tilkall til ákveðast 1.192.020 krónur sem lagðar skulu á geymslureikning.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira