Hoppa yfir valmynd

6/2005

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2006, föstudaginn 15.desember 2006 kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.   Mætt voru  Steinunn Guðbjartsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Gísli Gíslason.

Fyrir var tekið mál nr. 6 /2005  Dreifing ehf. kt. 490287-1599, Vatnagörðum 8, Reykjavík gegn Umhverfisstofnun.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Einars Arnar Davíðssonar hdl. f.h. Dreifingar ehf., hér eftir nefndur kærandi,  barst úrskurðarnefnd í desember 2005.  Kærð er synjun Umhverfisstofnunar, hér eftir nefnd kærði dags. 2. september  2005 á umsókn kæranda um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies. (All Flavors).   Gerir lögmaður kæranda þær kröfur að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies (All flavors) verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilt að nota umbeðin íblöndunarefni í Galaxy Veggies (All Flavors).  Þá gerir kærandi kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar verði frestað meðan kæra sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og að í niðurstöðu nefndarinnar verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Fylgiskjöl með erindi kæranda eru:

1)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Pepper Jack Flavor.

2)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost American Flavor.

3)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Mozzarella Shredded.

4)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Provolone Flavor

5)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Caesar’s Parmessan.

6)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Blue Cheese Flavor.

          7)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Veggie Parmessan.

          8)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                 Cheddar shredded.

          9)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Veggie Butter.

        10)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Cheddar Flavor sneiðar.

        

         11)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Swiss Flavor.

         12)  Afrit af umsókn kæranra um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Mozzarella Flavor.

         13)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

                Caesar´s Parmessan.

14)               Afrit af erindi Lýðheilsustöðvar daga. 9. september 2004 til Umhverfisstofnunar.

15)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 8. júlí 2005.

16)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 30.08. 2005

17)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 02.09.2005.

 

Afrit af stjórnsýslukæru og meðfylgjandi gögnum var sent kærða sem sendi greinargerð dags. 15. mars 2006.  Greinargerð sú var send kæranda.

 

            

 

II.

Í stjórnsýslukæru lögmanns kæranda kemur fram að kærandi hafi um langt skeið flutt inn til landsins og selt ýmsar vörur og matvæli.  Meðal annars hafi kærandi flutt inn jurtaostinn Galaxy Veggie Slices.  Hafi kærandi lagt inn umsóknir til kærða í nóvember 2004 sbr. fylgiskjöl 1-13.  Hafi kærði stutt ákvörðun sína við umsögn Lýðheilsustöðvar dags. 9. september 2004.  Hafi umsóknum kæranda verið hafnað sbr. fylgiskjal nr. 17.

Lögmaður kæranda kveður Galaxy Veggie Slices vera jurtaost framleiddan í Bandaríkjunum og seldan á öllum helstu mörkuðum.  Sé framleiðslan sérval þeirra sem vilji neyta jurtafæðu og sneiða hjá neyslu vöru framleiddri úr dýraríkinu. Sé varan viðurkennd af USDA og US Health Association.  Lögmaður kæranda gerir grein fyrir kröfum kæranda og vísar um frestun réttaráhrifa til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Til stuðnings kröfu þessari vísar lögmaður kæranda til þess að kæran sé í raun þýðingarlaus ef hinni kærðu ákvörðun er hrundið í framkvæmd áður en úrskurðarnefndin kemst að niðurstöðu í málinu.  Verði umræddar vörur kæranda teknar úr hillum matvörubúða sé nær tilgangslaust fyrir kæranda að nýta lögmæta heimild sína til að kæra ákvörðun kærða þar sem kærandi hafi þá þegar orðið fyrir tjóni.  Vísað er og til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Telur lögmaður kæranda að kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til.  Vísar kærandi til þess að við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ er þjónað gætu því markmiði sem að er stefnt.  Ennfremur er vísað til þess að stjórnvald gæti hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.

Lögmaður kæranda telur að kærði hafi ekki litið til allra þátta við ákvörðun sína og að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar lögmaður kæranda til umsókna sbr. fylgiskjöl nr. 1-13 um efnisinnihald og aðrar staðreyndir um vörurnar.  Hafi verið sótt um leyfi fyrir 10 íblöndunarefni í vöruna en kærði hafi aðeins tekið fyrir áhættumat fyrir A-vítamín.  Magn A-vítamíns er 500 µg í 100 gr. og teljist það að sögn kærða 63% af ráðlögðum dagsskammti RDS, hvers venjulegs manns.  Kærandi byggi á því að við ákvörðun sína hafi kærði ekki tekið tillit til þess að Galaxy Veggie Slices sé jurtaostur og að varan sé vinsæl hjá ákveðnum hópi neytenda, þ.e. neytendum með mjólkurofnæmi og neytendum sem leggi mikið upp úr heilsufæði.  Bendir lögmaður kæranda á að það hljóti að teljast mikilvægur þáttur í mati kærða hvaða þjóðfélagshópur neyti þeirra vöru sem sé í áhættumati hverju sinni.  Við ákvörðun sína hafi kærði stuðst við gögn frá Lýðheilsustöð um neyslu landsmanna á A-vítamíni.  Gerir lögmaður kæranda athugasemdir við málsmeðferð kærða.  Leggur lögmaður kæranda á það áherslu að aðferðir kærða standist ekki almenna rökhugsun.  Byggi kærði upplýsingar um heildarneyslu þjóðarinnar á þeim bætiefnum sem sótt hafi verið um, á hæpnum forsendum sbr. umfjöllun um gildi tilgreindra upplýsinga.  Einnig tilgreini kærði að hann hafi aflað upplýsinga um ákveðna þjóðfélagshópa en líti ekki til þeirra þjóðfélagshópa sem varan höfði sérstaklega til, neytenda með mjólkuróþol og neytenda sem leggi áherslu á að neyta heilsufæðis.

Lögmaður kæranda bendir á að í ákvörðun kærða dags. 2. september sé vinnuregla kærða skýrð.  Byggi kærði á því að þar sem neysla 95% þjóðarinnar sé yfir tilgreindum mörkum sé ekki svigrúm fyrir vörur kæranda á markaði.  Samkvæmt vinnureglu kærða komi ákveðnir þjóðfélagshópar ekki einu sinni til skoðunar.  Bendir lögmaður kæranda á að formreglur kærða, sem að öllum líkindum séu innanhússreglur settar með það að markmiði að auðvelda störf, séu í þessu tilfelli að hamla eðlilegri efnislegri niðurstöðu. Byggi kærandi á að svo íþyngjandi regla þurfi í fyrsta lagi að byggjast á tilvísuðum réttarheimildum og í öðru lagi verði kærði að horfa til þess að við svo íþyngjandi ákvörðun verði að gera strangari kröfur til áreiðanleika þeirra heimilda sem ákvörðunin byggi á.  Kærði vísaði í ákvörðun sinni ekki til heimilda fyrir vinnureglum sínum og hafi því ekki byggt ákvörðun sína á áreiðanlegum heimildum. 

Lögmaður kæranda dregur gildi upplýsinga sem kærði vísar til í efa og einnig þær ályktanir sem dregnar séu af þeim.  Telur lögmaður kæranda tilvitnaða  könnun “ Könnun á mataræði Íslendinga 2002” ekki uppfylla almenn skilyrði til þess að vera traustur grundvöllur fyrir svo veigamikilli ákvörðun.  Sér í lagi þegar íþyngjandi ákvörðun eins og hér um ræði sé á henni byggð. 

Lögmaður kæranda vísar til eftirfarandi atriða.

1)  Áreiðanleiki könnunar og gildi upplýsinga hennar sé takmarkað sbr. bls. 12 í könnuninni sjálfri.  Könnunin sé eins konar nálgun á sannleikann, geti aldrei sýnt fullkomna mynd af raunverulegri neyslu fólks.

 a)  Fólk muni ekki endilega allt sem það lætur ofan í sig.

           b)  Upplýsingar skolast til í viðtali.

 c)  Gagnagrunnar séu ekki fullkomnir.

 d)  Ekki séu allir jafn fúsir að láta upplýsingar.

  e) Engin viðmiðunarkönnun eða samanburðarrannsókn hafi veirð gerð. Ekki hafi sama aðferðarfræði verið notuð í könnun sem gerð hafi verið árið 1999 og því ekki sambærileg.

2.  Kærandi vísi einnig til þess sem áður greinir, að ekki sé við ákvörðun kærða litið til þeirra þjóðfélagshópa sem vara kæranda höfði til.

Vísar lögmaður kæranda til þess að gera þurfi strangari kröfur til áreiðanleika heimilda þegar svo íþyngjandi ákvörðun sé tekin.  Könnun Lýðheilsustöðvar uppfylli engan veginn kröfur til áreiðanleika og alls ekki þegar litið sé til þess að um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og að niðurstaðan varði kæranda miklu.

Lögmaður kæranda byggir á því að einstaklingar sem hafi mjólkuróþol neyti Galaxy Veggie Slices og að rangt sé að setja neytendur með mjólkuróþol í sama flokk og þann hóp manna sem ekki hafi mjólkuróþol.  Neytendur með mjólkuróþol verði ástands síns vegna að sneiða hjá öllum mjólkurvörum og komi vara kæranda í stað venjulegs osts í mörgum tilfellum.  Sama megi segja um einstaklinga sem hugi almennt að heilsu sinni.  Þeir neyti vöru kæranda meðvitaðir um kosti hennar framar venjulegum mjólkurosti.

Lögmaður kæranda byggir á því að kærði geti ekki horft fram hjá því við ákvörðun sína, hverjum vara kæranda beinist sérstaklega að.  Einstaklingar sem hafi mjólkuróþol svo og einstaklingar sem hugi mjög að heilsu sinni geti notið Galaxy Veggie Slices meðvitaðir um kosti hennar framar venjulegum mjólkurosti.

Kærandi telur kærða ekki hafa litið til allra þátta við ákvörðun sína og að kærði hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá vísar lögmaður til þess að kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til.  Skuli við framkvæmd velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ, er þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt.  Þá telur lögmaður kæranda að gæta skuli hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.  Kærandi telji ennfremur með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga sér í lagi 1. liðar 2. mgr. að kærði hafi ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega.

Lögmaður kæranda gerir þá kröfu að kærði beri kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.  Farið sé fram á að nefndin ákvarði upphæð greiðslu kærða til kæranda við að hafa kæruna uppi og að fjárhæð verði tiltekin í niðurstöðu nefndarinnar.

Lögmaður kæranda telur kærða hafa með ákvörðun sinni brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til og við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ.

Lögmaður kæranda vekur sérstaka athygli á að ekki sé um mjólkurost að ræða heldur jurtaost.  Varan sé fyrst og fremst valkostur þeirra sem ekki geti eða ekki vilji neyta afurða úr dýraríki.

 

III.

Í greinargerð kærða dags. 15.mars, 2006 vísar kærði til þess að borist hafi umsókn frá kæranda, á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum, um leyfi til íblöndunar í Galaxy Veggie Slices (All Flavours).  Sótt hafi verið um leyfi fyrir íblöndun  á 10 bætiefnum í vöruna og hafi kærði lagt megináherslu á að framkvæma áhættumat fyrir A-vítamín sem sé í formi retínóls í vörunni.  Það hafi verið gert vegna þess að A-vítamín í umframmagni sé talið valda meira heilsutjóni en önnur bætiefni.  Magn A-vítamíns í vörunni sé 500 µg í 100 grömmum (63% af ráðlögðum dagskammti RDS). Kveður kærði að upplýsingar um neyslu landsmanna á A-vítamíni hafi verið sendar umsækjanda þann 8. júlí 2005 og honum kynnt það áhættumat sem notað er við umfjöllun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli.  Hafi umsækjanda verið gefinn frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til 11. ágúst 2005.  Engar athugasemdir hafi borist kærða.  Kærði hafi  tekið ákvörðun á grundvelli 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 um aukefni í matvælum sbr. einnig 10. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, að heimila ekki íblöndun A-vítamíns í Galaxy Veggie Slices og hafi sú ákvörðun verið kynnt umsækjanda með bréfi dags. 2. september 2005.  Í bréfinu hafi verið vakin athygli á því að þegar ljóst var að ekki yrði hægt að veita heimild fyrir íblöndun á A-vítamíni í vöruna hafi verið ákveðið að taka ekki afstöðu til hinna bætiefnanna nema að þess yrði sérstaklega óskað af hálfu umsækjanda.  Engar athugasemdir hafi borist.  Kærði bendir á að kærandi leggi fram með kærunni 13 útfylltar umsóknir um heimild til notkunar á bætiefnum í ýmsar gerðir jurtaosta frá Galaxy.  Þessar umsóknir hafi aldrei borist kærða og ekki sé ljóst hvers vegna þær séu fylgiskjöl með kærunni.  Í greinargerð þessari einskorðaði kærði sig við umsóknina sem borist hafi henni þann 11. nóvember 2004 fyrir Galaxy Veggie Slices og hafi verið hafnað eins og áður er sagt þann 2. september 2005.  Kærði vekur athygli á því að séu einhverjar þessara 13 vara á íslenskum markaði sé það ólögmætt þar sem ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir íblöndun bætiefna í vörurnar til kærða. 

Kærði bendir á að í kæru kæranda komi fram að að Galaxy Veggie Slices sé framleiddur í Bandaríkjunum og að varan sé viðurkennd af United States Department of Agriculture (USDA) og US Health Associations (USHA).  Kærði telur það málinu óviðkomandi að varan sé framleidd í Bandaríkjunum og viðurkennd af ofangreindum þarlendum stofnunum, þar sem í ríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku gildi aðrar reglur en á Íslandi. 

Kærði hafnar því að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað með vísan til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þar sem neytendum stafi hætta af neyslu vörunnar.  Við ákvörðun í málinu hafi að sjálfsögðu verið litið til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, 12. gr. stjórnsýslulaga.  Niðurstaða úr áhættumati stofnunar hafi verið að varan væri hættuleg til neyslu fyrir neytendur á Íslandi og því ekki um annað að ræða en að hafna umsókninni.  Engin vægari úrræði séu möguleg sem nái sama markmiði, þ.e. því lögmæta markmiði að vernda neytendur gegn skaðlegum matvælum.  Enda leggi kærandi ekkert til sem gæti náð sama markmiði, en með vægara úrræði. 

Kærði vísar til umfjöllunar um hvernig staðið sé að áhættumati þegar ákvörðun sé tekin um að heimila eða synja íblöndun bætiefna í matvörur.  Jafnframt sé vísað til þess að leitað hafi verið umsagnar Lýðheilsustöðvar og kæranda gefið tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina áður en endanleg ákvörðun var tekin í málinu.  Því hafi málið verið nægilega rannsakað og því ekki um brot á 10. gr. stjórnsýslulaga að ræða.  Þá vísar kærandi ennfremur í umsóknir, sbr. fylgiskjöl 1-13 máli sínu til stuðnings, þar sem því sé haldið fram að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga.  Kærði hafnar þessu og bendir á að ofangreindar umsóknir hafi ekki verið sendar stofnuninni og hafi því ekki komið til álita við ákvarðanatöku. 

Kærði bendir á að kærandi fjalli um að umrædd vara sé jurtaostur og því vinsæl vara hjá ákveðnum hópum neytenda m.a. hjá neytendum með mjólkurofnæmi.  Í sömu kæru sé einnig vísað í öðrum tilvikum til einstaklinga með mjólkuróþol.    Til að forðast allan misskilning vill kærði taka fram að mjólkuróþol og mjólkurofnæmi sé alls ekki sami hluturinn.  Einstaklingar með mjólkurofnæmi þoli alls ekki ákveðin mjólkurprótein en við neyslu þeirra komi ofnæmiseinkenni í ljós.   Fólk með ofnæmi þoli nær ekkert magn af ofnæmisvaldi til að fá einkenni.  Samkvæmt innihaldslýsingu fyrir tilgreinda vöru séu mjólkurprótein í henni og einnig komi fram viðvörun á henni þar sem segi m.a. að varan innihaldi innihaldsefni mjólkur.  Umrædd vara sé því ekki ætluð einstaklingum með mjólkurofnæmi.  Hvað varði mjólkuróþol þá geti einstaklingar með mjólkuróþol ekki brotið niður mjólkursykur vegna skorts á ensími (laktasi).  Meiri möguleiki sé á því að það sé laktósi í jurtaostinum en hefðbundnum mjólkurosti þar sem mjókurpróteinum sé bætt í jurtaostinn og með mjólkurpróteinum fylgi oft leifar af mjólkursykri.

Ekki eigi við nein rök að styðjast að einstaklingar með mjólkuróþol hafi ekki neinn annan valkost en jurtaost ef viðkomandi vill neyta osts sem áleggs og neytendur með mjólkurofnæmi séu beinlínis varaðir við neyslu sbr. tilgreinda aðvörun.  Þá kemur og fram í kæru að kærði hafi ekki litið til þess að varan sé vinsæl hjá neytendum sem leggi mikið upp úr heilsufæði.  Við meðhöndlun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli sé aðeins litið til þess að varan valdi ekki heilsutjóni sbr. 10. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og þannig séu allar umsóknir meðhöndlaðar, þ.e. á grundvelli mögulegrar hættu gagnvart neytendum sbr. dóma Evrópudómstóls.

Kærði bendir á að kærandi geri athugasemdir við gögn sem kærði noti frá Lýðheilsustöð sem komi frá landskönnun um mataræði frá 2002.  Til að geta framkvæmt áhættumat fyrir matvæli sem sótt sé um að blanda bætiefnum í sé nauðsynlegt að hafa neyslutölur og noti kærði einungis upplýsingar sem fengnar eru með vísindalegum viðurkenndum aðferðum og af hinu opinbera sem hafi engra hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður slíkra rannsókna.  Vegna athugasemda kæranda óskaði kærði eftir greinargerð frá Lýðheilsustöð um hvernig neyslutölur séu fengnar.  Sjá meðfylgjandi bréf frá Lýðheilsustöð dags. 6. mars 2006 þar sem finna megi mótrök gegn athugasemdum kæranda.

Kærði nefnir að kærandi vísi í vinnureglur sem kærði noti og sé lýst í ákvörðun kærða dags. 2. september s.l.  Þessar vinnureglur sem vísað sé í, séu í raun áhættumat sem stofnunin notar og er lýst ítarlega á heimasíðu kærða ásamt heimildum.  Til að fara yfir staðreyndir málsins ítrekar kærði hvernig allar umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli eru meðhöndlaðar hjá kærða.

1)       Sækja þurfi um leyfi fyrir íblöndun bætiefna (þ.e. vítamín, steinefni og lífsnauðsynlegar fitusýrur og amínósýrur) í matvæli til kærða skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni.  Í sömu grein segir einnig að stofnuninni sé heimilt að afturkalla leyfi til notkunar bætiefnis ef fram komi upplýsingar um að sú notkun efnisins sem leyfið tekur til geti valdið heilsutjóni.

Kærði kveðst meðhöndla allar umsóknir á sama máta hvort sem dreifingaraðili telur að vara sé vinsæl eða ekki.

2)       Grundvallaratriði við umfjöllun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli sé einmitt það að íblöndunin valdi ekki heilsutjóni og vísar kærði til 3. gr. l. nr. 93/1995 um matvæli svo og 10. gr. sömu laga.

3)       Þegar fjallað sé um umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli sé ávallt framkvæmt áhættumat, þ.e. mat á þeirri áhættu sem neytendum eða ákveðnum neytendahópum kann að stafa af neyslu vörunnar sem um ræði.  Ákveðin bætiefni séu skaðmeiri en önnur og því mikilvægt að úr því sé skorið hvort neysla geti skapað hættu fyrir neytendur.  A-vítamín í formi retínóla sé dæmi um bætiefni sem talið sé meiri skaðvaldur í umframmagni en önnur bætiefni.

4)       Við áhættumatið noti kærði upplýsingar um bætiefnin sjálf sem finna megi í niðurstöðum fjölda rannsókna.  Þá hafi ýmis samtök, rannsóknarstofnanir og yfirvöld tjáð sig um hin ýmsu bætiefni og séu þessar upplýsingar einnig nýttar við áhættumatið.  Upplýsingar sem kærði noti komi  frá hinum ýmsu stofnunum sem nánar eru tilgreindar í upptalningu.  Auk þess að skoða hvort bætiefnin sem sótt er um séu skaðlaus eða skaðleg í því magni sem sótt er um, fær kærði upplýsingar um heildarneyslu þjóðarinnar eða ákveðinna þjóðfélagshópa á þessum efnum.

5)       Kærði kveður að til að undirstrika að ekki sé unnt að gefa í skyn að opinber stofnun eins og kærði vinni í samræmi við það sem kærandi heldur fram að séu innanhússreglur með það að markmiði að auðvelda störf, er bent á að áhættumatið sem farið er eftir er byggt á vísindalegum aðferðum sem birst hafa í viðurkenndum vísindatímaritum.  Til að tryggja öryggi neytenda þurfi að meta hvort svigrúm sé til íblöndunar.  Með því að skoða neyslu 95 hundraðshluta þjóðarinnar og bera saman við efri mörk sem sett séu fyrir neyslu á viðkomandi bætiefni, sé verið að tryggja öryggi neytenda.  Kærði hafnar því alfarið að í þessu tilviki hafi þessi aðferð hamlað eðlilegri efnislegri niðurstöðu.

6)       Til að geta framkvæmt áhættumat fyrir umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli kveðst kærði þurfa að hafa neyslutölur.  Þessar tölur séu fengnar hjá Lýðheilsustöð sem hýsi gögn frá landskönnun um mataræði sem hafi verið framkvæmd árið 2002 af Manneldisráði Íslands.  Þetta séu einu gögnin sem unnt sé að nota fyrir neyslu á næringarefnum og matvælum meðal Íslendinga en fólk á aldrinum 15-80 ára hafi verið valið til þátttöku.  Engin önnur nýlegri rannsókn sé til sem byggi á úrtaki sem sé lýsandi fyrir alla þjóðina og mismunandi samfélagshópa innan hennar.  Þá sé ennfremur staðreynd að varan sé seld í helstu matvöruverslunum landsins þar sem allir geti keypt hana.  Ef vera skyldi að um væri að ræða vöru sem nauðsynleg væri einstaklingum með ákveðinn sjúkdóm, þá þyrfti hún að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 605/2000 um matvæli til nota í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi.  Matvæla sem falla undir þá reglugerð skal einungis neyta samkvæmt læknisráði.  Í þessu tilviki hefur verið rökstutt að Veggie Slices er ekki nauðsynleg einstaklingum með ákveðinn sjúkdóm eða sjúkdóma.

  

Kærði kveður að það sem sé mikilvægast í þessu tilviki sé að A-vítamíni sé bætt í vöruna.  Kærði bendir svo á staðreyndir um A-vítamín. Kveður kærði að A-vítamín sé samheiti yfir efni sem hafa sömu virkni og retínól.  Retínóleitrun sé mikið áhyggjuefni á Norðurlöndunum og þá sérstaklega á Íslandi þar sem neysla á A-vítamíni (í formi retínóls) sé tiltölulega há.  Þá kveður kærði vitað að A-vítamín í fæðubótarefnum og A-vítamín sem notað sé til íblöndunar hafi meiri eitrunaráhrif en A-vítamín sem komi náttúrulega fyrir hinum ýmsu matvælum.  Enn bendir kærði á að vísindanefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu hafi sett efri mörk fyrir neyslu á A-vítamíni (í retínól formi) við 3000 µg á dag.  Fari neysla yfir þessi skilgreindu efri mörk sé hætta á óæskilegum áhrifum á heilsu manna.  Í þessu tilviki eru þessi mörk lág miðað við ráðlagðan dagsskammt sem er 800 µg fyrir fullorðna en rannsóknir hafa sýnt að fari neysla yfir efri mörkin veldur það fósturskaða hjá barnshafandi konum og við enn meiri neyslu sé hætta á lifrarskemmdum.  Efri mörkin eru lægri fyrir börn og unglinga.  Efri mörk fyrir konur eftir tíðarhvörf eru einungis 1500 µg á dag vegna aukinnar hættu á beinþynningu og þar af leiðandi á beinbrotum. Kærði vekur athygli á að efri mörk vísindanefndar Matvælaöryggisstofnunar Evrópu fyrir A-vítamín séu miðuð við það sem kemur samanlagt úr fæðu og úr fæðubótarefnum.  Neyslutölur sem kærði notar við áhættumatið innihalda ekki upplýsingar um neyslu á A-vítamíni t.d. frá fjölvítamínum og öðrum fæðubótarefnum að lýsi undanskildu.  Því kveður kærði nær öruggt að neysla á A-vítamíni sé mun meiri en það sem fram kemur í áhættumatinu.

Kærði bendir á að dómar Evrópudómstólsins geri ráð fyrir þvi að miða skuli við neyslumynstur þjóða en ekki vöruna sem verið sé að meta eina og sér þegar meta skuli hættu fyrir neytendur.  Neysla á A-vítamíni er mikil á Íslandi og skv. útskýrðu áhættumati er ekkert svigrúm til A-vítamínbætingar í matvæli hér á markaði.

Kærði hafnar kröfu kæranda um að hann verði látinn bera kostnað vegna málarekstursins og vísar máli sínu til stuðnings til úrskurðar nefndarinnar frá október 2005.  Kærði hafnar þvi að ákvörðun hafi ekki verið nægilega rökstudd í erindi kærða frá 2. september 2005.  Hafi kærandi talið að eitthvað skorti á rökstuðning stofnunarinnar hefði kærandi átt að óska eftir frekari rökstuðningi, en það gerði hann ekki.

Kærði kveðst í greinargerð hafa sýnt fram á að íblöndun A-vítamíns í vöruna Veggie Slices sé skaðleg neytendum geti neysla vörunnar m.a. valdið fósturskaða, lifrarskemmdum og beinþynningu.  Í ljósi þessa og á grundvelli 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sbr. einnig 10. gr. laga nr. 93/1995 hafi kærði tekið þá ákvörðun að hafna umsókn kæranda um íblöndun.  Kærði kveðst hafa gert kæranda grein fyrir áhættumati í bréfi dags. 8. júlí 2005 og kynnt honum gögn sem stofnunin leggur til grundvallar við mat á umsóknum um heimild til notkunar bætiefna í matvæli. Hafi honum þá verið gefinn kostur á að tjá sig um aðferðafræðina og gögnin en hann hafi kosið að gera það ekki.  Kærði segir að áhættumatið sem hann noti við umfjöllun á tilgreindum umsóknum byggi á vísindalegum aðferðum þar sem nota skuli neyslu 95 hundraðshluta neytenda sem viðmiðun þannig að ef stærstur hluti neytenda (95%) sé undir efri mörkum í neyslu á umræddu bætiefni þá sé talið óhætt að bæta því í matvæli.  Hafi Lýðheilsustöð einnig stuðst við þessa aðferðafræði þegar hún gefi umbeðnar umsagnir.  Auk þessa hafi Danir notað áhættumat fyrir íblöndun í tæp 2 ár sem einnig byggi á skoðun neyslu 95 hundraðshluta landsmanna fyrir bætiefnið sem um ræði.

Í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar það hafi fyrir neytendur að fá of mikið af A-vítamíni, og í samanburði við áhættumat kærða, sé ljóst að ef vara kæranda er á markaði er raunveruleg hætta á heilsutjóni fyrir neytendur.  Byggði því kærði á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum við ákvörðun sína og gerir þá kröfu að niðurstaða úrskurðarnefndar verði sú að ákvörðun kærða verði metin gild að lögum.     

 

 

IV.

Deilt er í máli þessu um synjun kærða á íblöndun aukefna í vöruna Galaxy Veggies (All Flavors).  Kröfur kæranda eru þær að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilt að nota umbeðin íblöndunarefni í Galaxy Veggies (All Flavors). Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar verði frestað meðan kæra er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og enn krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi. Kærði kannast einungis við að hafa fengið eina umsókn um íblöndun.  

Niðurstaða verður því bundin við þá umsókn kæranda.

Í 3. gr. reglugerðar um íblöndun bætiefna í matvæli nr.526/2006 kemur fram að íblöndun bætiefna sé háð leyfi Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun sína skuli stofnunin einkum meta hvort neysla vörunnar, með viðkomandi bætiefni eða bætiefnum, sé til þess fallin að valda heilsutjóni.  Umhverfisstofnun er heimilt að skilyrða leyfi til íblöndunar bætiefna, svo sem um sérstaka merkingu vörunnar.  Reglugerð þessi er dagsett 14. júní 2006.  Með tilvísan til þessa svo og 10. gr laga nr. 93/1995 verður talið að synjun kærða um íblöndun A-vítamíns í Galaxy Veggies (All Flavors) hafi verið lögmæt.   Ekki er því fallist á kröfu kæranda í málinu um að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies verði felld úr gildi.

Ekki er á valdsviði úrskurðarnefndar að úrskurða um kostnað vegna mála fyrir nefndinni.  Er þeirri kröfu því vísað frá. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfu  kæranda í máli þessu.  Kröfu kæranda um úrskurð um málskostnað er vísað frá.

 

 

___________________________________

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

 

                                                                                             __________________________         ___________________________

                                                                                                                 Gísli Gíslason                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum