Hoppa yfir valmynd

6/2006

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006 föstudaginn  15. desember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.    Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006  Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK) kt. 520269-2669, Rauðarárstíg 10, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi  gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST) Búðareyri 7, Reyðarfirði, hér eftir nefnt kærði.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Indriða Þorkelssonar hdl. f.h. RARIK er dags. 7. mars, 2006.  Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) frá 18. janúar 2006, sem kynnt var kæranda með bréfi dags. 26. janúar 2006.  Ákvörðun sú sem kærð er var þannig bókuð á fundi kærða: “ Rarik- kyndistöð í Neskaupstað.  ÁJÓ gerir grein fyrir málinu.  Unnið er að úrbótum í kjölfar hávaðamengunar í nóvember en greinargerðir hafa ekki borist í samræmi við kröfur HAUST.  Gögn verða send fljótlega.  Starfsemin er að mati HAUST starfsleyfisskyld, en RARIK ósammála.  Heilbrigðisfulltrúar vinni málið áfram í samræmi við ákvæði hollustuháttalaga”.

Krafa lögmanns kæranda er að ákvörðun kærða um að kærandi þurfi að sækja um starfsleyfi fyrir “kyndistöð” kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað verði felld úr gildi.

Fylgiskjöl með stjórnsýslukærunni eru :

1)      Afrit af skýrslu kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005.

2)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005, kröfur um úrbætur.

3)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 16. 11.2005.

4)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 26. janúar 2006.

 

 

II.

Lögmaður kæranda kveður málavexti þá að kærandi starfræki varaaflsstöð að Stekkjargötu 6, Neskaupstað.  Þar séu staðsettar 5 díselvélar þar af 3 gangfærar.  Starfsemi kæranda hafi falið í sér tilfallandi rekstur þessara díselvéla.  Vélarnar séu varaafl, þ.e. þær séu ekki í stöðugum rekstri heldur séu þær einungis gangsettar, ein eða fleiri, þegar nauðsyn krefji.  Það eigi einkum við ef skortur verði á framleiðslu raforku með hefðbundnum hætti og/eða skortur frá flutnings- og dreifikerfum Landsnets hf. og kæranda sem einkum geti orsakast af bilun eða vinnu við kerfið.   Við slíkar aðstæður sé möguleiki á að ræsa eina eða fleiri díselvélar eftir þörfum hverju sinni. 

Lögmaður kæranda bendir á að í bréfi framkvæmdastjóra kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005 komi fram sú skoðun, að starfsemi kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli undir a-lið í gr. 9.1 í fylgiskjali 2 með reglugerð 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.  Hafi það verið skoðun framkvæmdastjóra kærða að kæranda bæri að sækja um starfsleyfi fyrir þessa starfsemi.  Hafi kæranda verið gefinn 10 daga frestur til andmæla.  Hafi kærandi mótmælt þessu með bréfi dags. 16. nóvember 2005 og í bréfi fyrirtækisins komi m.a. fram að kærandi hafi óskað eftir frekari rökstuðningi kærða vegna þeirrar skoðunar að starfsemin væri starfsleyfisskyld.  Á fundi kæranda þann 18. janúar 2006 hafi ágreiningsmál þetta verið tekið fyrir og sé þá m.a. bókað að kærði telji starfsemi kæranda starfsleyfisskylda.  Hafi bókun þessi verið kynnt kæranda með bréfi dags. 26. janúar 2006.  Lögmaður kæranda kveður kæranda ekki fallast á þessa ákvörðun kærða sem fram komi í þeirri bókun sem gerð hafi verið á fundi þann 18. janúar 2006 og kæri því framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Lögmaður kæranda bendir á að kærandi telji að starfsemi þess að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli ekki undir þá skilgreiningu reglugerðarákvæðisins að vera “virkjun og/eða orkuveita” af stærðinni 2-10 MW.  Að mati kæranda er hvorki unnt að flokka rekstur díselvéla undir virkjun né orkuveitu.  Bendir lögmaður kæranda á að hugtakið “orkuveita” sé reyndar hvergi skilgreint en hafi verið notað sem sameiginlegt hugtak yfir starfsemi sem feli í sér rafveitu og hitaveitu.  Rekstur díselstöðvanna falli heldur ekki undir hugtakið “kyndistöð” en í einhverjum tilvikum virðist sem að það gæti einhvers misskilnings varðandi notkun þess orðs. 

Bendir lögmaður kæranda á að í skýrslu kærða til kæranda fskj. nr. 1. komi fram að þann 8. nóvember 2005 hafi kyndistöð kæranda verið skoðuð.  Við þá skoðun hafi komið í ljós að af alls 5 díselvélum sem þar voru hafi 2 verið bilaðar.  Hafði önnur þeirra verið biluð lengi og ósennilegt að hin bilaða vél yrði gangsett að nýju.  Var því um að ræða þrjár gangfærar díselvélar þar af séu tvær innandyra.  Geti önnur þeirra afkastað 1450 KW en hin 1500-1900 KW.  Fimmta díselvélin sem sé utandyra sé olíukynnt færanleg gastúrbína sem sé í gámi á hjólum.  Standi gámurinn á lóð kæranda og sé vélin notuð þegar á þurfi að halda.  Eigi þessi vél að geta afkastað 1200 KW en að sögn forsvarsmanns kæranda sé hún aldrei keyrð á meira afli en 1000KW.  Þessi færanlega díselvél sé ekki bundin við starfsstöð kæranda á Neskaupstað, heldur sé unnt að færa hana eftir þörfum hvert sem er.  Sé um að ræða svokallað færanlegt varaafl.  Samkvæmt þessu nái engin díselvélanna því viðmiði sem fram komi í reglugerðarákvæðinu þ.e. að vera 2-10 MW.  Bendir lögmaður kæranda á að umrætt reglugerðarákvæði sé íþyngjandi ákvæði.  Leiki minnsti vafi á því hvort starfsemi kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli undir reglugerðarákvæðið beri að hafna því að kæranda beri að sækja um starfsleyfi.  Slík skylda verði ekki lögð á kæranda nema að fyrirmæli í lögum og reglugerð séu skýr og afdráttarlaus.

. 

 

 

III.

Greinargerð kærða,  Heilbrigðisefitirlits Austurlands, er dags. 31. mars 2006.  Bendir framkvæmdastjóri kærða á að rökstuðningur kæranda um að ekki sé um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða byggi fyrst og fremst á því að mat kæranda sé að hvorki sé unnt að flokka rekstur díselvélanna undir virkjun né orkuveitur og að samkvæmt þessu nái engin díselvélanna því viðmiði sem fram komi í reglugerðarákvæðinu þ.e. að vera 2-10 MW.

Kveður kærði og að nauðsynlegt sé að fram komi, að í kjölfar bréfs kæranda dags. 16.11.2005 þar sem mótmælt sé kröfu kærða um að sótt verði um starfsleyfi og óskað frekari rökstuðnings kærða vegna kröfunnar, hafi kærði sent bréf til Umhverfisstofnunar dags. 30.11.2005 og óskað túlkunar á reglugerðarákvæðinu.  Kveður kærði að svar hafi ekki borist frá Umhverfisstofnun og því hafi kærði ekki enn sent frekari rökstuðning. 

Kærði óskar eftir að koma því á framfæri að hugtakið “kyndistöð” noti Norðfirðingar í daglegu tali í bland við hugtakið “rafstöð” um starfsstöð kæranda að Stekkjargötu í Neskaupstað og því sé ekki óeðlilegt að orðið sé notað í eftirlitsskýrslu burtséð frá skilgreiningum í laga- og reglugerðartexta.

Kærði bendir á að ekki verði komst hjá því að skilgreina varaaflstöðina sem orkuveitu, enda sé um framleiðslu á rafmagni að ræða og dreifingu þess inn á dreifikerfi Landsnets hf. og Rarik.  Kveður kærði að óumdeilt sé að í starfsstöðinni séu þrjár starfhæfar díselvélar auk tveggja sem nú séu bilaðar.  Afkastageta vélanna sé þannig að engin vélanna ein og sér afkasti meira en 2 MW. Samtals hafi vélarnar framleitt 4.5 MW þ.e. orkuframleiðslan hafi verið á bilinu 2-10 MW. 

Um markmið starfsleyfis og eftirlitsskyldu vísar kærði til 1. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en af því ákvæði megi ljóst vera að markmið með því að unnin séu starfsleyfi og viðhaft eftirlit, sé að koma í veg fyrir eða draga úr mengun t.d. þar sem hávaði af völdum véla eða magn olíu í starfsstöð geti haft í för með sér mengun í umhverfi. Kærði bendir á að ástæða þess að virkjanir og orkuveitur séu taldar upp í fylgiskjali 2 með rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun sé sú, að við starfsemina sé hætta á mengun, m.a. frá olíu sem notuð sé við vélakost. Kærandi bendir á að skv. upplýsingum frá RARIK séu á lóð starfsstöðvarinnar í Neskaupstað tveir 30.000 lítra olíugeymar og einn úrgangsolíugeymir auk dagtanks sem sé inni í aðstöðuhúsinu.  Jafnvel þótt aðeins annar stærstu tankanna sé að jafnaði notaður sé að jafnaði umtalsvert magn olíu í starfsstöðinni.  Telur kærði að óumdeilt sé að geymsla og meðhöndlun olíu í miklu magni geti haft í för með sér mengun.  Vegna þessa sé í gildi sérstök reglugerð þar um þ.e. rgl. nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.  Í 82. gr. reglugerðarinnar komi fram að þar sem olíugeymar stærri en 10 m3 séu tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sem heilbrigðiseftirlit vinni starfsleyfi fyrir skuli heilbrigðiseftirlit fara með eftirlit með tönkunum.  Séu tankar ekki tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sé eftirlit með þeim í höndum Umhverfisstofnunar.  Kærandi bendir á að nú standi yfir vinna við endurskoðun reglugerðar um meðferð olíu.  Í drögum þeirrar reglugerðar sé gert ráð fyrir að allar olíugeymslur verði háðar starfsleyfi, annað hvort Umhverfisstofnunar eða heilbrigðiseftirlits.  Telur kærandi að ljóst sé af framansögðu að burtséð frá skilgreiningu starfsstöðvar kæranda í Neskaupstað sem orkuveitu eða ekki, geri löggjafinn ráð fyrir að eftirlit sé með starfsstöð vegna magns olíu sem sé á lóð starfsstöðvarinnar.

Ítrekar kærði að rök hafi verið færð fyrir því að starfsstöð kæranda við Stekkjargötu 6 í Neskaupstað sé orkuveitustöð með meira en 2ja MW framleiðslugetu.  Í samræmi við það beri kæranda að sækja um starfsleyfi fyrir starfsstöðina sbr. lið 9,1 í fylgiskjali 2 í reglugerð nr. 784/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.

  

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort starfsleyfi þurfi fyrir varaaflsstöð í Neskaupstað.  Krafa lögmanns kæranda er að ákvörðun kærða um að kærandi þurfi að sækja um starfsleyfi fyrir “kyndistöð” kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað verði felld úr gildi. Krafa kærða er að staðfest verði að kæranda beri að sækja um starfsleyfi.  Í reglugerð nr. 784/1999, lið 9,1 í fylgiskjali 2 kemur fram að sækja þurfi um starfsleyfi fyrir orkuveitur.  Líta verður svo á að þrátt fyrir þá orðnotkun að varaaflstöðin sé nefnd “kyndistöð” sé hér um að ræða orkuveitu í skilningi liðar 9,1 í reglugerð 784/1999.  Þá ber og að líta til þess að þrátt fyrir að hver díselvél nái ekki því viðmiði sem fram kemur í reglugerð þá er samanlögð afkastageta díselvélanna töluvert yfir þeim viðmiðum.   Með tilvísun til þessa er það niðurstaða nefndarinnar að starfsemi RARIK að Stekkjargötu 6, Neskaupstað sé starfsleyfisskyld. 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Starfsemi RARIK að Stekkjargötu 6, Neskaupstað er starfsleyfisskyld samkvæmt reglugerð 784/1999.

 

 

  ___________________________________

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

 

 

                                                                                              __________________________         ___________________________

                                                                                                                 Gunnar Eydal                                 Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum