Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2012

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, föstudaginn 28. september 2012, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við dóttur hennar, C, mál nr. 11/2012.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

 

Með bréfi dagsettu 14. júní 2012 skaut Steinunn Erla Kolbeinsdóttir hdl. fyrir hönd A, „úrskurði barnaverndarnefndar B frá 9. maí 2012“ um umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Þar er umgengni ákveðin þrisvar sinnum á ári, í mars, júní og nóvember, í sex klukkustundir í senn og nánar tilgreint hvar umgengni skuli fara fram. Einnig er þar tilgreint hvernig haga skuli símhringingum, myndsendinum af barninu, gjöfum til barnsins og kostnaði af umgengni. Fram kemur að „samningur“ þessi gildi frá 1. júní og sé ótímabundinn. Hann skuli endurskoðaður árlega, næst 1. júní 2013. Við endurnýjun „samningsins“ skuli taka tillit til aðstæðna foreldra, C, fósturforeldra og reynslu af framkvæmd þessa samnings.

 

Kærandi krefst þess að hinn kærði „úrskurður“ verði felldur úr gildi þannig að fyrirkomulag umgengni verði óbreytt frá því sem áður var.

 

Fósturforeldrar stúlkunnar, E og F, krefjast þess að ákvörðun barnaverndarnefndar B verði staðfest.

 

Félagsþjónusta F telur að það valdi stúlkunni raunverulegri truflun í daglegu lífi að fá svo tíð símtöl frá kynmóður sinni eins og fyrri samningur kveður á um og krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

 

 

I.

Helstu málavextir

 

C hefur verið í fóstri hjá hjónunum D og E, frá því hún var tveggja ára gömul, eða í sex ár. Umgengni var fyrst ákveðin með umgengnissamningi frá 21. mars 2007. Samkvæmt honum var umgengnin ákveðin tvisvar á ári í sex klukkustundir í hvort sinn. Í samningnum var ákveðið hvernig haga skyldi símhringingum móður við barnið og myndsendingum af barninu til móðurinnar.

 

Í gögnum málsins kemur fram að móðir hafi nýtt mjög vel umgengnisrétt sinn og hafi hún einnig átt þess kost að hitta stúlkuna þegar fósturforeldrarnir hafi verið í grennd við heimili hennar.

 

Þáverandi félagsmálastjóri F fór í lögbundið eftirlit til C og fósturforeldranna vorið 2011. Í skráningu félagsmálastjórans kemur fram að stúlkunni hafi liðið vel á G, fósturforeldrarnir væru natnir við hana og að hún talaði um börn þeirra sem systkini sín. Fram hafi komið hjá fósturforeldrunum að þeir hafi lengi verið óánægðir með fjölda símatíma og telji að kynmóðir hafi ekki náð að höndla þá með þeim hætti að hentaði þroska stúlkunnar.


 

II.

Sjónarmið kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að umgengni hennar við dóttur sína hafi verið í föstum skorðum frá því að samningur hafi verið gerður við hana 21. mars 2007. Hafi það fyrirkomulag gengið nokkuð vel og hafi samskipti verið góð milli kæranda, barnsins og fósturforeldranna. Það hafi því komið kæranda í opna skjöldu þegar henni hafi borist upplýsingar um að endurskoða ætti samninginn og einnig að minnka ætti umgengni hennar við barnið. Kærandi telji að ekki hafi verið tilefni til þess að gera svo stórvægilegar breytingar á umgengninni og hún telji það ekki samrýmast hagsmunum barnsins. Barnið eigi rétt á að þekkja móður sína og hafa umgengni við hana skv. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Kærandi telji að með því að minnka umgengni við hana svo verulega sé verið að rjúfa þau tengsl sem hafi myndast milli barnsins og hennar. Kærandi hafi unnið í sínum málum undanfarin ár og hafi geðheilsa hennar batnað til muna. Hún sé í hlutastarfi á H og sé hún í góðu andlegu jafnvægi. Kærandi telji að engin ástæða hafi verið til þess að minnka umgengni barnsins við hana á þessu stigi enda hafi ekki verið í ljós leitt að umgengnin hafi verið andstæð hagsmunum barnsins.

 

Af hálfu kæranda kemur einnig fram að meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd B hafi verið haldin annmörkum og að ekki hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Málið sé ekki nægilega upplýst þannig að hægt sé að leggja mat á hvort úrskurður barnaverndarnefndar þjóni hagsmunum barnsins. Ekki hafi verið leitast við að komast að samkomulagi við kæranda um fyrirkomulag umgengni áður en úrskurður hafi verið kveðinn upp í málinu eins og skylt sé skv. 74 gr. barnaverndarlaga. Þá sé úrskurðurinn ekki rökstuddur með neinum hætti og beri hann því ekki með sér á hvaða grundvelli ákvörðun um verulega minnkaða umgengni barnsins við móður sína byggi. Úrskurðurinn geti því ekki talist fullnægjandi í skilningi 49. gr. barnaverndarlaga.


 

III.

Sjónarmið fósturforeldra

 

Af hálfu fósturforeldra kemur fram að C hafi verið hjá þeim í fóstri frá rúmlega tveggja ára aldri og verði í fóstri til sjálfræðisaldurs. Það sé því ekki fyrirséð að hún fari aftur til kynmóður eða kynföður. Fósturforeldrar telji það vera stúlkunni fyrir bestu að hún fái að alast upp hjá þeim sem ein af þeim og að það sé henni fyrir bestu að vera ekki sífellt minnt á að hún sé fósturbarn heldur hluti af þeirri fjölskyldu sem hún búi með í dag.

 

Fósturforeldrar telji að fjöldi símatíma valdi róti og hugarangri hjá barninu, þar sem móðirin sé oft að ræða hluti við barnið sem barnið hafi ekki þroska eða skilning á.

 

Aðalrök fósturforeldra fyrir því að núverandi umgengnissamningur, dagsettur 9. maí 2012, gildi, séu þau að fósturforeldrar telji kynmóður ekki hafa þroska til að ræða við barnið á forsendum þess. Það sé barninu fyrir bestu að njóta sín í fóstrinu án of mikilla samskipta við kynmóður sem geti valdið óróleika og jafnvel vanlíðan.

 

 

 

IV.

Sjónarmið barnaverndarnefndar B

 

Af hálfu barnaverndarnefndar B kemur fram að 17. október 2011 hafi fósturforeldrar stúlkunnar sent bréf til barnaverndarnefndar B þar sem þeir hafi óskað eftir breytingum á umgengni. Hafi þau lagt til að símatímum yrði fækkað í 2–4 sinnum á ári og einnig lagt til að umgengni yrði tvisvar á ári í sex klukkustundir í hvort sinn. Þá yrði myndsendingum einnig fækkað í fjögur skipti á ári. Þá hafi fósturforeldrar einnig óskað eftir að felld yrði niður dvöl með móður og bræðrum yfir helgi eins og hafi verið.

 

Fram kemur að kæranda hafi verið kynnt símleiðis hverjar óskir fósturforeldranna væru til breytinga á umgengni og hafi hún ekki samþykkt þær. Rætt hafi verið að óskir hennar annars vegar og óskir fósturforeldranna hins vegar yrðu lagðar fyrir fund barnaverndarnefndar. Óskir kæranda hafi lotið að rýmkun umgengni frá því sem fyrri samningur hafi kveðið á um. Hún hafi þannig óskað eftir að samvera yrði fjórum sinnum á ári og gisting í tvær nætur í tveimur skiptanna. Þá hafi hún óskað eftir að fá að hringja í barnið í hverjum mánuði auk þess að fá að hringja í það um jól og afmæli.

 

Barnaverndarnefnd ákvað að umgengni barnsins við móður sína yrði þrisvar á ári í sex klukkustundir í hvert skipti en dvöl yfir nótt felld niður. Nefndin kveður að með þessu sé ekki verið að fækka skiptum umgengni, heldur sé dvöl yfir nótt sleppt. Símtölum hafi verið fækkað um helming, frá því að vera í hverjum mánuði í það að vera sex sinnum á ári. Þá hafi verið ákveðið að myndsendingar yrðu fjórum sinnum á ári frá fósturforeldrum og öfugt.

 

Fram kemur að barnaverndarnefndin hafi ekki orðið við óskum móður um aukna umgengni og heldur ekki við óskum fósturforeldranna um enn minni umgengni og færri símtöl. Nefndin telji þó að tíð samskipti, sérstaklega símhringingar, hafi truflandi áhrif á daglegt líf stúlkunnar og hafi þannig tekið tillit til hagsmuna hennar fyrst og fremst. Fyrir liggi að stúlkunni líði vel á G, foreldrarnir séu natnir við hana og að hún tali um börn hjónanna á G sem systkini sín.

 

 

V.

Niðurstaða

 

Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir og hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

 

Samkvæmt 5. mgr. 74. gr. laganna geta þeir sem umgengni eiga að rækja óskað breytinga á ákvæðum samnings um umgengnisrétt. Náist ekki samkomulag um slíka breytingu tekur barnaverndarnefnd ákvörðun með úrskurði.

 

Í málinu liggur fyrir samningur um umgengni kæranda og barnsins frá 21. mars 2007, en fósturforeldrar óskuðu eftir endurskoðun þess samnings. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi samþykkti ekki þá breytingu sem óskað var eftir og óskaði sjálf eftir rýmri umgengni en kveðið er á um í samningnum frá 2007. Ekki var orðið við þeim óskum af hálfu barnaverndarnefndar B. Þegar ljóst var að ekki næðist samkomulag um breytingu á þeim samningi sem í gildi var, bar barnaverndarnefnd skv. 5. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga að taka ákvörðun um umgengni með úrskurði.

 

Í barnaverndarlögum er kveðið á um ályktunarhæfi og form úrskurða í 49. gr. laganna. Þar segir að barnaverndarnefnd sé ályktunarhæf þegar fullur helmingur nefndarmanna situr fund enda sé formaður eða varaformaður á fundi og skuli fjórir nefndarmenn hið fæsta standa að úrskurði. Úrskurður skal vera skriflegur og rökstuddur og skal þar rekja forsendur og niðurstöður. Þá er þar meðal annars einnig kveðið á um hvernig tilkynna skuli úrskurð og að vekja skuli athygli á kæruheimild.

 

Í máli þessu er engan úrskurð barnaverndarnefndar B að finna. Einungis liggur fyrir það sem kallað er „Samþykkt nefndar, 9. maí 2012, að umgengni foreldra við C, skv. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“. Fyrrgreind „samþykkt“ er ekki samkomulag nefndarinnar og kæranda, jafnvel þótt fram komi í texta samþykktarinnar að um samning sé að ræða. „Samþykkt“ þessi er einungis undirrituð af einum starfsmanni barnaverndarnefndar B. Ekki liggur fyrir að krafa kæranda um rýmri umgengni hafi verið tekin á fundi þar sem fullur helmingur barnaverndarnefndar sat fund, sbr. 49. gr. barnaverndarlaga, og að formaður eða varaformaður hafi verið á þeim fundi.

 

Þegar allt framangreint er virt er ljóst að málsmeðferð barnaverndarnefndar B brýtur verulega í bága við ákvæði barnaverndarlaga um það hvernig fara beri með kröfur þeirra sem umgengni eiga að rækja um rýmri umgengni. Málsmeðferðin stríðir og gegn ákvæðum barnaverndarlaga um ályktunarhæfi barnaverndarnefnda og form úrskurða. Því er óhjákvæmilegt er að vísa málinu aftur til meðferðar nefndarinnar, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

 

 

Úrskurðarorð

 

 Máli kæranda, A vegna óskar hennar um rýmri umgengni við dóttur sína, C, er vísað aftur til meðferðar barnaverndarnefndar B, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Gunnar Sandholt

Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum