Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 21/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 8. apríl 2015 var tekið fyrir mál nr. 21/2014, A gegn barnaverndarnefnd B vegna fóstursonar hans og C, D.

Með kæru 17. desember 2014 var kærð ákvörðun barnaverndarnefndar á B frá 13. nóvember 2014, þar sem ákveðið var að fella úr gildi fóstursamning, sem gerður var við kæranda og C, um fóstur drengsins D. Á fundi kærunefndarinnar 8. apríl síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

Ú R S K U R Ð U R

I. Málavextir

Mál þetta varðar uppsögn barnaverndarnefndar B á fóstursamningi sem gerður var við hjónin A, og C, vegna drengsins D.   

Í bréfi barnaverndarnefndar á B til A, 30. október 2014, segir m.a.:

,,Barnaverndarnefnd B segir frá og með 31. október 2014 upp fóstursamningi við fósturforeldrana C og A vegna barnsins D.“

Á fundi barnaverndarnefndar B 13. nóvember 2014 var tekin svohljóðandi ákvörðun:

,,Tekið fyrir mál nr. X. Lagt fram bréf dags. 30. október 2014 varðandi uppsögn á fóstursamningi við fósturforeldrana C og A vegna barnsins D.

Barnaverndarnefnd B staðfestir afgreiðslu starfsmanna.“

Í greinargerð barnaverndarnefndar B til kærunefndarinnar 9. janúar 2015 kemur fram að drengurinn D hafi verið vistaður hjá hjónunum A og C frá 6. nóvember 2003. Þau hafi nú slitið samvistum og hafi sannanlega ekki búið saman undanfarið ár. Hjónunum hafi verið sent bréf um riftun fóstursamningsins 30. október 2014. Riftunin hafi verið gerð á þeirri forsendu að hjónin búi ekki lengur saman þrátt fyrir að þau hafi enn sama lögheimili. A búi áfram á fyrra heimili þeirra en C  D búi að E. Fram kemur að hjónin séu að ganga frá lögskilnaði sem sé þó ekki að fullu frágenginn.

Í ljósi framangreindra aðstæðna þyki barnaverndarnefndinni eðlilegt að rifta samningnum og gera nýjan samning um vistun barnsins. Í vinnslu sé nýr samningur við C þar sem kveðið sé á um umgengni drengsins við A.

Í kærunni kemur fram að kærandi lýsi yfir skýlausu sakleysi sínu vegna ásakana um [...]

II. Forsendur og niðurstaða

Kærandi kærir þá ákvörðun barnaverndarnefndar B að rifta fóstursamningi hans og eiginkonu hans varðandi drenginn D vegna skilnaðar þeirra hjóna. Fram kemur í málinu að hjónin búi ekki lengur saman og hafi eiginkona kæranda flutt af heimilinu með drenginn. Á fundi nefndarinnar 13. nóvember 2014 var bókað að lagt væri fram bréf 30. október 2014 varðandi uppsögn á fóstursamningi við fósturforeldrana, C og A, vegna barnsins D og tekið fram að barnaverndarnefndin staðfesti afgreiðslu starfsmanna nefndarinnar.

Í 77. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um endurskoðun fóstursamnings. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal endurskoða fóstursamning ef ástæða þykir til, svo sem vegna skilnaðar, andláts, búferlaflutninga eða heilsubresta. Í 3. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að ef ekki náist samkomulag við fósturforeldra um breytingu á fóstursamningi geti barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Slíkur úrskurður sé kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

Reglugerð um fóstur nr. 804 frá 2004 var sett samkvæmt heimild í 1. og 3. mgr. 66. gr., 75. gr. og 78. gr. barnaverndarlaga og tók hún gildi 27. september 2004. Í 31. gr. reglugerðarinnar er fjallað um breytingar á högum fósturforeldra og í 1. mgr. þeirrar greinar segir að ef aðstæður fósturforeldra breytast meðan fóstur varir, svo sem vegna skilnaðar, andláts, búferlaflutninga eða heilsubrests, beri fósturforeldrum að tilkynna það þeirri barnaverndar­nefnd sem ráðstafaði barni í fóstur. Í 3. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar kemur fram að barnaverndarnefnd meti hvort þörf sé á að endurskoða fóstursamning vegna breytinga á högum fósturforeldra. Ef ekki náist samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra geti barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Úrskurðurinn sé kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

Hin kærða ákvörðun var tekin með bókun barnaverndarnefndar B eins og hér að framan er lýst. Bókunin fullnægir ekki fyrirmælum í 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig 3. mgr. 31. gr. reglugerðar um fóstur, um að ef ekki náist samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra geti barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi.

Samkvæmt 2. mgr. 49. gr. barnaverndarlaga skal úrskurður vera skriflegur og rökstuddur. Þar skal rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöðu. Í 22. gr. stjórnsýslulaga segir hvert skuli vera efni rökstuðnings en í honum skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Þar sem ástæða sé til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í máli þessu liggur ekki fyrir hvort reynt hafi verið að ná samkomulagi við fósturforeldra um breytingu á fóstursamningi. Í hinni kærðu ákvörðun er ekki vísað til réttarreglna sem ákvörðun um að breyta fóstursamningnum er byggð á. Málsatvikum er þar ekki lýst og ekki greint frá þeim meginsjónarmiðum sem höfðu áhrif á niðurstöðu málsins.

Hin kærða ákvörðun, sem tekin var með bókun, er samkvæmt þessu ekki í samræmi við fyrirmæli framangreindra laga- og reglugerðarákvæða um að barnaverndarnefnd skuli úrskurða í málinu. Bókunin er heldur ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til forms og efnis úrskurðar samkvæmt lögum eins og þeim er lýst hér að framan. Ber með vísan til þess að fella ákvörðunina úr gildi og er málinu vísað til barnaverndarnefndar B til meðferðar að nýju samkvæmt heimild í 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, sbr. 4. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2011.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 13. nóvember 2014 varðandi uppsögn á fóstursamningi A og C vegna drengsins D, er felld úr gildi og er málinu vísað til meðferðar barnaverndarnefndarinnar að nýju.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum