Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 23/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

  

Miðvikudaginn 27. apríl 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna fósturráðstöfunar barna hans, C og D, nr. 23/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 22. desember 2014 skaut E hdl., fyrir hönd A, bókun barnaverndarnefndar B frá 10. desember 2014 þar sem til meðferðar var mál barna kæranda, D, og C, til kærunefndar barnaverndarmála. Á fundinum var lögð fyrir beiðni kæranda þess efnis að nefndin endurskoðaði fósturráðstöfun barnanna og samþykkti að börnin flyttu til hans. Fram kemur í bókun barnaverndarnefndarinnar að börnin séu í tímabundnu fóstri til 18. mars 2015. Fara skuli varlega í að raska högum þeirra með litlum fyrirvara en undirbúa flutning þeirra til föður síns ef könnun á högum hans bendi til þess að það sé þeim fyrir bestu. Mat nefndarinnar sé það að eðlilegt sé að stefna að slíkum flutningi þegar skóla ljúki í vor.

Kærandi krefst þess að synjun barnaverndarnefndar á því að endurskoða fósturráðstöfun barna hans og veita honum umsjá þeirra verði ógilt. Hann krefst þess jafnframt að honum verði falin umsjá barnanna eins fljótt og kostur sé, enda hafi hann uppfyllt það skilyrði sem barnavendarnefndin hafi sett fyrir því að hann gæti fengið umsjá þeirra. Í tölvupósti 23. febrúar 2015 til kærunefndar barnaverndarmála frá F hdl. kemur fram að hún hafi tekið við gæslu hagsmuna kæranda vegna fósturvistunar barna hans á vegum barnaverndarnefndar B. Í tölvupóstinum er áréttað að kærandi fari fram á að fósturvistun barnanna ljúki og að þau komi strax í hans umsjá.

Barnaverndarnefnd B krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá kærunefndinni. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað til meðferðar barnaverndarnefndarinnar að nýju. Til þrautavara krefst barnaverndarnefnd þess að ákvörðun hennar verði staðfest.

I. Málavextir

Stúlkan C er fædd í X og verður því X ára gömul á þessu ári. Drengurinn D er fæddur í X og verður því X ára á þessu ári. Þau eru börn A og G, en foreldrar slitu samvistir árið 2006. Börnin voru tekin úr umsjá móður sinnar með úrskurði barnaverndarnefndar B 12. mars 2014 sem kveðinn var upp á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og ráðstafað í fóstur til tveggja mánaða. Barnaverndarnefndin krafðist þess síðan fyrir dómi að fósturráðstöfunin héldist til eins árs og var fallist á kröfuna með dómi héraðsdóms [...] sem Hæstiréttur staðfesti með dómi [...]. Ástæða þess að börnin voru tekin úr umsjá kæranda var langvarandi og víðtæk vanræksla af hálfu forsjáraðila þeirra sem mátti meðal annars rekja til andlegrar og líkamlegrar vanlíðanar kæranda.

Kærandi krafðist þess að barnaverndarnefnd B felldi niður fósturráðstöfunina eins og fram hefur komið og samþykkti að börnin flyttu til hans. Í hinni kærðu bókun kemur fram að kærandi hafi fest kaup á einbýlishúsi á H þar sem hann hyggist búa börnum sínum heimili. Hann sé enn fremur hættur sem sjómaður á frystitogara og sé kominn með fast pláss á dagróðrarbáti. Þá bendi hann á móður sína og tvo aðra ættingja sem muni aðstoða hann við umönnun barnanna. Hafi móðir barnanna samþykkt að lögheimili þeirra yrði flutt til kæranda. Í bókuninni segir einnig að barnaverndarnefndin fagni frumkvæði kæranda og feli starfsmönnum að leita samkomulags við foreldra barnanna um framhald málsins. Fara skuli varlega í að raska högum barnanna með litlum fyrirvara, en undirbúa flutning þeirra til kæranda ef könnun á högum hans bendi til þess að það sé þeim fyrir bestu. Það sé mat nefndarinnar að eðlilegt sé að stefna að slíkum flutningi þegar skóla ljúki í vor. Með því móti verði hægt að undirbúa vandlega þessa breytingu á högum barnanna í samvinnu við þau sjálf, foreldra þeirra og fósturforeldra. Þá muni einnig gefast góður tími til flutnings barnaverndarmálsins til H þar sem barnaverndarnefnd á J muni taka við vinnslu málsins samkvæmt barnaverndarlögum. Barnaverndarnefndin fól starfsmönnum sínum að kanna vilja foreldra barnanna til samkomulags um slíka tilhögun.

II. Afstaða kæranda

Kærandi krefst þess að fóstrinu ljúki nú þegar þar sem hann hafi komið sér vel fyrir og allt sé til reiðu til þess að taka við börnunum auk þess sem vistun þeirra utan heimilis eigi aldrei að standa lengur en þörf krefji samkvæmt barnaverndarlögum. Kærandi hafi bætt stöðu sína í samræmi við kröfur barnaverndarnefndarinnar. Með áframhaldandi vistun verði að telja barnaverndarlögin brotin en ekkert hafi komið fram um að ágalli sé á þeim aðbúnaði sem kærandi geti boðið börnunum á heimili sínu eða að hann sé ekki hæfur til að taka börnin í sína umsjá.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að ljóst sé að barnaverndarnefnd B telji sjálf að í máli þessu sé um ákvörðun að ræða en ekki bókun þar sem nefndin sjálf krefjist staðfestingar ákvörðunarinnar.

III. Afstaða barnaverndarnefndar B

Af hálfu barnaverndarnefndar B kemur fram í greinargerð 5. febrúar 2015 til kærunefndar barnaverndarmála að  barnaverndarnefndin styðji aðalkröfu sína þeim rökum að ekki hafi verið tekin stjórnsýsluákvörðun um efni máls á fundi nefndarinnar 10. desember 2014. Á fundinum hafi verið fagnað frumkvæði kæranda, en undibúa þyrfti flutning barnanna til hans ef könnun á högum hans benti til þess að það væri börnunum fyrir bestu. Þá hafi komið fram að mikilvægt væri að vanda allan undirbúning, í samvinnu við börnin, foreldra þeirra og fósturforeldra. Hafi starfsmönnum nefndarinnar verið falið að leita samkomulags við foreldra barnanna um framhald málsins. Sú vinna sé hafin og niðurstaða ekki fengin. Því sé rangt að nefndin hafi hafnað því að endurskoða fósturráðstöfun barnanna eins og kærandi haldi fram í kæru sinni. Fremur beri að líta svo á að nefndin hafi frestað því að taka ákvörðun í málinu uns viðeigandi rannsókn hafi farið fram.

Þá telji barnaverndarnefnd B ekki heimilt að kæra til kærunefndar barnaverndarmála ákvarðanir um synjun endurskoðunar fósturráðstöfunar, eins og hér um ræði. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga sé heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar sé kveðið á um í barnaverndarlögum. Í kæru til nefndarinnar sé ekki getið um kæruheimild, en vísað til áðurnefndra ákvæða barnaverndarlaga. Í hvorugu ákvæðanna sé að mati nefndarinnar að finna heimildir til kæru í tilvikum sem hér um ræði.

Framangreint eigi að mati barnaverndarnefndarinnar að leiða til þess að kröfu kæranda verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála. Verði ekki fallist á það telji barnaverndarnefndin eðlilegt að málinu verði vísað til meðferðar nefndarinnar að nýju. Vísað sé til þess að yfir standi afgreiðsla á erindi kæranda. Starfsmenn nefndarinnar hafi til rannsóknar hvort flutningur barnanna til hans þjóni hagsmunum þeirra og sé þeirri rannsókn ekki lokið.

Verði ekki fallist á framangreint krefjist barnaverndarnefnd B þess að ákvörðun á fundi 10. desember 2014 verði staðfest. Við meðferð málsins, áður en nefndin tók það til úrskurðar, hafi það verið mat kæranda að hann hefði ekki aðstæður til að taka börnin að sér. Hann haldi því nú fram að aðstæður hans séu mun betri, hann hafi fasta búsetu og atvinna hans komi ekki í veg fyrir að hann geti sinnt börnunum. Að svo stöddu sé þessu ekki mótmælt af hálfu nefndarinnar, en vísað sé til þess að yfir standi könnun á staðhæfingum kæranda og mat á því hvort flutningur barnanna til hans þjóni hagsmunum þeirra. Meðan sú niðurstaða sé ekki fengin sé ekki unnt að fallast á að fella niður fósturráðstöfun. Nefndin vísi til þess að sé vafi fyrir hendi beri að skýra hann börnunum í hag. Líta verði og til þeirrar grundvallarreglu barnaréttar að hagsmunir barns skuli hafðir að leiðarljósi við úrlausn mála.

IV. Niðurstaða

Mál þetta snýst um bókun barnaverndarnefndar B frá 10. desember 2014 vegna barnanna C og D, en þau eru í tímabundnu fóstri á vegum nefndarinnar hjá fósturforeldrum. Bókunin var gerð í kjölfar beiðni kæranda um að barnaverndarnefndin felldi niður fósturráðstöfun barnanna og samþykkti að þau flyttu til hans. Barnaverndarnefndin taldi eðlilegt að stefna að slíkum flutningi þegar skóla lyki í vor en taldi hann ekki tímabæran. Starfsmönnum nefndarinnar var falið að kanna vilja foreldra barnanna til samkomulags um slíka tilhögun.

Með dómi Hæstaréttar [...] var staðfestur dómur Héraðsdóms K frá [...] sama ár þar sem fallist var á kröfu barnaverndarnefndar B um að börn kæranda yrðu vistuð utan heimilis móður þeirra í samtals tólf mánuði frá 18. mars 2014 að telja. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að barnaverndarnefndin hafi í samræmi við þetta ráðstafað börnunum í fóstur til fósturforeldra samkvæmt XII. kafla barnaverndarlaga. Í 2. mgr. 65. gr. laganna kemur fram að með tímabundnu fóstri sé átt við að fóstur vari í afmarkaðan tíma þegar ætla megi að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barn muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum þess eða þegar áætlað er að annað úrræði taki við innan afmarkaðs tíma.

Samkvæmt því sem fram hefur komið hefur barnaverndarnefndin falið starfsmönnum sínum með framangreindri bókun að kanna vilja foreldra barnanna til samkomulags um tilhögun þess að börnin fari til kæranda. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni, þar með talin krafa kæranda um að fósturráðstöfun barnanna verði endurskoðuð og að honum verði falin umsjá barnanna. Málið getur því á þessu stigi ekki sætt kæru til kærunefndar barnaverndarmála. Ber með vísan til þess að vísa málinu frá kærunefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A vegna bókunar barnaverndarnefndar B frá 10. desember 2014 er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum