Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 5. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við son hennar, B, nr. 25/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við son sinn, B. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni kæranda við son hennar, B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Skilyrði fyrir umgengni er að móðir sé edrú í umgengni og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir.

Kærandi krefst rýmri umgengni við son sinn en greinir í hinum kærða úrskurði. Fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafðist kærandi þess að umgengnin yrði einu sinni í mánuði, önnur hver jól og alltaf á jóladag og aðra hverja páska. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra B, þeirra C og D, til krafna kæranda varðandi umgengni hennar við drenginn. Drengurinn er í varanlegu fóstri hjá þeim. Í tölvupósti frá fósturoreldunum til kærunefndarinnar 20. maí 2015 kemur fram að kærandi hafi ekki sinnt umgengni við drenginn síðastliðið ár. Fósturforeldrarnir hafi farið fram á það við Barnavernd Reykjavíkur að umgengni yrði komið á og fagni þeir því að nú loks muni drengurinn hitta kæranda. Þeir telji best að sjá hvernig sú umgengni gangi áður en ákveðin verði breytt tilhögun.

II. Málavextir

B fæddist X og er því X ára gamall. Kærandi er X ára gömul. Hún var svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014. Hún er í sambúð með föður drengsins, E, tæplega fertugum manni. B á yngri bróður, F, sem er X ára gamall. Báðir bræðurnir hafa verið vistaðir utan heimilis að mestu frá því í X vegna vanrækslu og áfengisvanda kæranda og vanhæfi föður eins og fram kemur í gögnum málsins. Auk áfengisvanda kæranda hefur hún einnig sýnt innsæisleysi í þarfir drengjanna og verið í afneitun á vanda sinn og vanda þeirra. Hún hefur ekki tekið á áfengisvanda sínum. Faðir B glímir við líkamlegar og andlegar hamlanir. Drengurinn er í varanlegu fóstri og flutti á fósturheimilið 20. október 2013 og hóf skólagöngu í grunnskólanum í G.

B er viðkvæmur og glímir við margvíslegan vanda. Hann er greindur með ódæmigerða einhverfu, Tourette-heilkenni, aðrar raskanir á félagsvirkni í bernsku, truflun á virkni og athygli, ótilgreinda þroskaröskun á námshæfni og tilfinningalega vanrækslu. Drengurinn gengur í grunnskólann í G. Í gögnum málsins kemur fram að skólagangan hafi gengið frekar illa. B standi illa félagslega og námslega og hafi átt það til að bíta nemendur og starfsfólk. Fram kemur í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 11. mars 2015 til kærunefndarinnar að drengurinn sé með manninn með sér í skólanum og sé núna í H, sérstöku úrræði fyrir börn með röskun á einhverfurófi, sem virtist henta honum betur en að vera í almennum bekk. Fram kemur í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar Reykjavíkur 10. nóvember 2014 að B sé sjarmerandi og skemmtilegur strákur sem hafi margt til að bera. Hann glími þó við miklar raskanir sem hái honum mikið í daglegu lífi. Hann þurfi mikla rútínu og skýran ramma og sé það undirstaða þess að honum líði vel. Í greinargerðinni kemur enn fremur fram að starfsmenn barnaverndarnefndar Reykjavíkur telji kröfur kæranda um umgengni í kjölfar forsjársviptingar óraunhæfar. Drengurinn sé viðkvæmur og nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann fari úr jafnvægi sem auki álagið á fósturforeldrana sem séu stöðugt undir miklu álagi. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengnina var málið tekið til úrskurðar hjá barnaverndarnefnd.

Í gögnum málsins er ítarlega rakið hvernig umgengni kæranda við A hefur gengið síðan hann var vistaður utan heimilis. Fram kemur að umgengnin hafi gengið misjafnlega eftir að drengurinn fór í fóstur á fósturheimili. Framan af hafi hún farið fram á heimili foreldra og verið í sex klukkustundir aðra hverja helgi. Hafi umgengnin gengið ágætlega. Eftir að tilkynning hafi borist 17. apríl 2014 um að lögregla hafi komið á heimili kæranda þar sem hún hafi verið undir áhrifum og hafi lamið sig í höfuðið með rörabút hafi umgengni verið takmörkuð. Umgengni hafi farið fram 3. maí 2014 og gengið vel en kærandi hafi afboðað sig í umgengni sem átt hafi að fara fram 18. maí 2014 og 1. júní 2014. Fór umgengni síðan fram 14. júlí 2014 og fram kemur að hún hafi gengið ágætlega. Umgengni 2. september 2014 hafi gengið mjög illa, en bræðurnir hafi farið að rífast um spjaldtölvu og hafi foreldrum gengið illa að ráða við þá. Loks hafi verið haft samband við fósturforeldra sem hafi komið og sótt bræðurnar og hafi þeir báðir farið með fósturforeldrum sínum án þess að kvarta. Kærandi varð ósátt við áætlanir um umgengni sem átti að vera í september 2014 og hafi því verið hætt við hana. Fram kemur að umgengnin hefur verið undir eftirliti vegna þess að kærandi ræddi við drengina um óviðeigandi hluti sem haft hafi neikvæð áhrif á þá. Hafi hún meðal annars rætt um að þeir myndu flytja til hennar á ný.

III. Afstaða B

Fram kemur í gögnum málsins að starfsmaður barnaverndarnefndar hafi nokkrum sinnum rætt við B vegna umgengni við kæranda. Drengurinn hafi verið skýr í svörum sínum með það að hann langi til þess að hitta hana.

Í skýrslu talsmanns drengsins, J félagsráðgjafa, 6. júní 2014 kemur fram að henni hafi meðal annars verið falið að fá afstöðu drengsins til umgengni við foreldra sína og föðurömmu. Í skýrslunni er því lýst að drengurinn hafi verið hjá fósturforeldrum í G þann vetur. Hann hafi sagt að honum fyndist gaman í G. Honum hafi samt ekki líkað vel í skólanum. Hann hafi sagst vilja hitta foreldra sína reglulega.

IV. Afstaða kæranda

Fram kemur af hálfu kæranda að hún hafi óskað þess fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur að fá sem mesta umgengni við drenginn eða einu sinni í mánuði, önnur hver jól og alltaf á jóladag og aðra hverja páska. Hafi þetta verið ýtrustu umgengniskröfur hennar við barn sitt eftir að hafa verið svipt forsjá þess með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá X.

Kærandi vilji ekki una þeirri takmörkuðu umgengni sem felist í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Telji hún að slík takmörkun muni fela í sér tilfinninga- og fjölskyldurof á milli móður og barns. Markmið umgengni við barn í fóstri samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 sé að gæta þess að ekki rofni með öllu tengsl móður og barns og sé það gert í þágu þarfa og hagsmuna barnsins með þeim rökum að eftirsóknarvert þyki að barnið þekki bakgrunn sinn og foreldri. Því sé vandséð hvaða rök standi til þess að barnið fái aðeins að umgangast kæranda í fjögur skipti á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti og utan heimilis hennar. Megi ætla að svo strjál umgengni muni valda spennu í tilfinningalífi barnsins. Enn fremur að sú eftirvænting sem magnist vegna langrar biðar milli umgengni muni hafa truflandi áhrif á líf barnsins og raski ró þess frekar en ef umgengnin væri tíðari.

Fyrir liggi í skýrslu talsmanns drengsins að hann vilji hitta foreldra sína, þyki vænt um þá og beri taugar til þeirra. Þá komi fram í úrskurðinum að fósturforeldrar hafi ekki gert sérstakar athugasemdir við umgengni kæranda við B.

Drengurinn hafi verið greindur með einhverfu og því sé enn mikilvægara að umgengni við kæranda verði meiri en úrskurðað hafi verið. Börn greind með raskanir á einhverfurófi eigi oftast nær í erfiðleikum með félagsleg samskipti og það alveg eins við sína nánustu. Því sé hætt við að persónuleg tengsl við kæranda tapist við þessa takmörkuðu umgengni.

Þau sjónarmið sem leitt hafi til forsjársviptingar kæranda eigi aðeins að nokkru leyti við þegar fjallað sé um umgengni forsjársvipts foreldris við barn í varanlegu fóstri. Með því að fallast á rétt barns og kæranda til umgengni við hvort annað, hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur viðurkennt að umgengnin, þótt takmörkuð sé, teljist vera í þágu þarfa og hagsmuna drengsins. Því sé vandséð hvaða rök skuli leiða til þess að takmarka umgengnina svo rækilega eins og gert sé, en með því sé verið að vinna gegn helstu markmiðum umgengni, þeim sem áður hafi verið rakin, þ.e. að tengsl milli barna og foreldra rofni ekki. Þyki veruleg hætta á að það gerist með þeirri skertu umgengni sem úrskurðuð hafi verið.

Bent sé á að kröfugerð kæranda sé þannig fram sett fyrir kærunefndinni að taka megi tillit til meiri umgengni en í hinum kærða úrskurði greini þó ekki verði fallist á ýtrustu kröfur kæranda eins og þær hafi verið settar fram fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

V. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 11. mars 2015 kemur fram að B hafi verið vistaður í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að B sé viðkvæmur drengur sem glími við fjölþættar greiningar. Mikilvægt sé að hann hafi skýran ramma og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að hann fari úr jafnvægi sem auki álagið á fósturforeldrana sem séu stöðugt undir miklu álagi.

Ítrekuð er sú afstaða fósturforeldra að þau séu sátt við að umgengni verði fjórum sinnum á ári. Segi þau umgengni erfiða fyrir drenginn en hann vilji þó hitta foreldra sína. Fósturforeldrar taki alvarlega hótanir sem kærandi hafi viðhaft í þeirra garð fyrr í haust og telji að umgengni drengsins við hana sé honum ekki fyrir bestu. Drengurinn glími við mikinn vanda og til að halda stöðugleika í lífi hans sé að þeirra mati mikilvægt að umgengni verði stillt í hóf.

Drengurinn hafi aðlagast vel á fósturheimilinu og hafi náð að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína. Hann hafi verið greindur með ódæmigerða einhverfu, Tourette-heilkenni, aðrar raskanir á félagsvirkni í bernsku, truflun á virkni og athygli, ótilgreinda þroskaröskun á námshæfni og tilfinningalega vanrækslu. Drengurinn hafi notið þjónustu BUGL sem mælt hafi með því að öll þjónusta við hann taki mið af þeim sérþörfum sem hann hafi út frá röskun á einhverfurófi. Hann taki lyf vegna þessa. Skólaganga hans hafi gengið fremur illa. Hann standi illa félagslega og námslega og hafi átt það til að bíta nemendur og starfsfólk. Drengurinn þurfi manninn með sér í skólanum og hann fái sérstakt úrræði fyrir börn með röskun á einhverfurófi.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan drengins og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 25. nóvember 2014 að mikilvægt væri að skapa honum áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hann fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hann búi við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Þá hafi verið ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti í ljósi þess að kærandi hafi verið að ræða við drenginn og bróður hans um óviðeigandi hluti sem hafi haft neikvæð áhrif á þá. Hafi hún meðal annars rætt við þá um að þeir myndu flytja til hennar aftur.

VI. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram að kærandi hafi ekki haft neina umgengni við drenginn í u.þ.b. eitt ár. Fósturforeldrarnir hafi farið fram á það við Barnavernd að koma á umgengni. Það hafi því miður ekki gengið eftir þar sem kærandi hafi ekki sinnt umgengninni. Þeir fagni því að nú loks muni drengurinn hitta kæranda. Hann eigi rétt á umgengni fjórum sinnum á ári og telji fósturforeldrarnir best að sjá hvernig það gangi áður en ákveðið verði um breytta tilhögun. B og F, bróðir hans, hittist nú einu sinni í mánuði á heimili fósturforeldra B og hafi það mikil og góð áhrif á B og báða drengina að mati fósturforeldranna.

VII. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við X ára gamlan son sinn, B, en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Drengurinn er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum en kærandi var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X.

Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að drengurinn sé viðkvæmur og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að hann fari úr jafnvægi sem auki álagið á fósturforeldrana sem séu stöðugt undir miklu álagi. Þegar litið er til þess sem fram hefur komið um það að drengurinn hafi verið greindur með ódæmigerða einhverfu, Tourette-heilkenni, aðrar raskanir á félagsvirkni í bernsku, truflun á virkni og athygli, ótilgreinda þroskaröskun á námshæfni og tilfinningalega vanrækslu er augljóst að fósturforeldrarnir hafa tekið að sér það vandasama hlutverk að ala drenginn upp sem gerir miklar kröfur til þeirra, þar á meðal að þau séu fær um að vera stöðugt undir miklu álagi í uppeldishlutverkinu. Við þessar aðstæður þykir enn fremur augljóst að því beri að forða að drengurinn fari úr jafnvægi.

Kærandi vísar til þess að hún vilji ekki una þeirri takmörkuðu umgengni sem felist í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Slík takmörkun muni fela í sér tilfinninga- og fjölskyldurof milli móður og barns. Markmið umgengni við barn í fóstri samkvæmt barnaverndarlögum sé að gæta þess að ekki rofni með öllu tengsl móður og barns og sé það gert í þágu þarfa og hagsmuna barnsins með þeim rökum að eftirsóknarvert þyki að barnið þekki bakgrunn sinn og foreldri. Rök standi ekki til þess að barnið fái aðeins að umgangast kæranda í fjögur skipti á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti og utan heimilis hennar. Svo strjál umgengni muni valda spennu í tilfinningalífi barnsins. Sú eftirvænting sem magnist vegna langrar biðar milli umgengni muni hafa truflandi áhrif á líf barnsins og raski ró þess frekar en ef umgengnin væri tíðari. Drengurinn hafi verið greindur með einhverfu og því sé enn mikilvægara að umgengni við kæranda verði meiri en úrskurðað hafi verið en hætta sé á að persónuleg tengsl við kæranda tapist við þessa takmörkuðu umgengni.

Af gögnum málsins er ljóst að drengurinn á við mikil og alvarleg vandamál að glíma. Barn með einhverfu hefur mikla þörf fyrir stöðugleika og skipulag. Drengurinn hefur einnig þörf fyrir þau nánu tengsl sem fósturforeldrar hafa veitt honum. Mikilvægt er fyrir hann að halda áfram að byggja þau upp og hlúa að þeim eins og frekast er unnt. Einnig er drengnum mikilvægt að finna það öryggi sem hann hefur þörf fyrir. Hann þarf mikla rútínu og skýran ramma en það er undirstaða þess að honum líði vel. Ekki verður séð að rýmri umgengni, við aðstæður drengsins eins og þær eru í dag, þjóni hagsmunum hans.

Umgengni kæranda við drenginn ber samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga að ákveða í samræmi við hagmuni og þarfir drengsins svo og þau markmið sem stefnt er að með hinu varanlega fóstri sem drengurinn er í. Með vísan til þess sem að framan er rakið varðandi þá stöðu sem drengurinn er í, þarfir hans og hagmuni ber að takmarka umgengni drengsins við kæranda. Með vísan til sömu sjónarmiða ber einnig að ákveða umgengni þannig að hún verði með reglubundnum hætti eftir því sem frekast er unnt. Þykir umgengni kæranda við drenginn réttilega ákveðin í hinum kærða úrskurði og að hún fari fram með þeim hætti sem í úrskurðinum greinir. Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni A, við son sinn B, er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum