Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2014

Hinn 29. október 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2014:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 284/2012

Ákæruvaldið

gegn

Rúnari Þór Jónssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 8. júlí 2014 fór Kristín Edwald hrl. þess á leit fyrir hönd Rúnars Þórs Jónssonar að hæstaréttarmál nr. 284/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 13. desember 2012, yrði endurupptekið. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 25. ágúst 2014, var endurupptökubeiðni send ríkissaksóknara til umsagnar. Umbeðin umsögn barst með bréfi, dags. 28. ágúst 2014. Endurupptökubeiðanda var kynnt sú umsögn. Engar frekari athugasemdir bárust.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 284/2012 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa ekki afhent á réttum tíma virðisaukaskattskýrslur, hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna. Brotin voru framin í rekstri einkahlutafélagsins B ehf. (áður A ehf.), en endurupptökubeiðandi var skráður stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri félagsins á tilteknu tímabili. Þóttu brotin jafnframt varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Endurupptökubeiðandi var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Endurupptökubeiðandi var einnig dæmdur til að greiða 3.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en skyldi ella sæta 80 daga í fangelsi.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að hann hafi verið ranglega sakfelldur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 284/2012 þar sem sönnunargögn og vitnaskýrslur hafi verið rangt metnar svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er talið að Hæstiréttur og héraðsdómur hafi litið framhjá mikilvægi þeirrar staðreyndar að hann hafi aldrei raunverulega gegnt störfum sem framkvæmdarstjóri eða stjórnarmaður B ehf. (áður A ehf.) þrátt fyrir að hafa verið skráður í þær stöður hjá félaginu í fyrirtækjaskrá í skamman tíma. Skráning í framangreindar stöður hafi aðeins átt að vera í skamman tíma og hafi verið af greiðasemi við […] endurupptökubeiðanda þar sem hann hafi staðið í þeirri trú að […] gæti ekki gegnt þessum störfum vegna gjaldþrota. Endurupptökubeiðandi hafi hins vegar aldrei komið að rekstri félagsins, fjármálum eða skattskilum. Jafnframt hafi hann enga fundi setið eða þegið laun. Það eina sem endurupptökubeiðandi hafi gert var að rita undir tilkynningar til fyrirtækjaskrár um að hann væri stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í félaginu. Þessi staðreynd væri óumdeild í málinu og væri ekki dregin í efa af ákæruvaldinu. Raunverulegir starfsmenn B ehf. höfðu hins vegar með höndum rekstur félagsins og skattskil þess en á sama tíma og endurupptökubeiðandi hafi verið skráður í umræddar stöður hjá félaginu hafi annar maður verið einnig skráður framkvæmdastjóri og stjórnarformaður þess.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er vísað til tveggja dóma Hæstaréttar þar sem hann kveður málsatvik vera mjög svipuð, annars vegar dóms Hæstaréttar frá 12. desember 2013, í máli nr. 354/2013, og hins vegar dóms Hæstaréttar frá 23. janúar 2014, í máli nr. 388/2013. Í málunum hafi verið ákært fyrir brot á sömu lagaákvæðum og í máli endurupptökubeiðanda. Í báðum dómunum hafi skráðir stjórnarmenn félaga verið sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins um sakfellingu vegna brota á skattalögum þar sem þeir hafi ekki komið að fjármálum eða skattskilum félaganna.

Endurupptökubeiðandi telur hið ranga mat á sönnunargögnum og vitnaskýrslum í málinu felast í því að við matið hafi ekki verið litið til þess að hann hafi verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri félagsins eingöngu að forminu til. Litið hafi verið framhjá því að hann hafi ekki gegnt framangreindum stöðum í raun og ekki komið að rekstri félagsins með neinum hætti en á þeim tíma sem endurupptökubeiðandi hafi verið skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður sáu starfsmenn félagsins um fjármál og skattskil þess. Í málinu hafi heldur ekki verið litið til þess að endurupptökubeiðandi væri í góðri trú um að búið væri að afskrá hann sem framkvæmdarstjóra og stjórnarmann félagsins.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að ekki skipti máli að hann hafi verið skráður framkvæmdarstjóri hjá félaginu til viðbótar við að vera skráður stjórnarmaður í því. Í einkahlutafélögum sé ekki skylt að ráða framkvæmdarstjóra enda séu þar ekki gerðar jafn strangar kröfur um persónulegan aðskilnað stjórnar og framkvæmdarstjóra og þegar um sé að ræða hlutafélög. Þannig hefði enginn þurft að vera skráður framkvæmdarstjóri félagsins. Þá hafi ekki verið byggt á því í dómum Hæstaréttar og héraðsdóms að það hefði haft sérstaka þýðingu að endurupptökubeiðandi væri einnig skráður framkvæmdastjóri félagsins. Endurupptökubeiðandi telur niðurstöðuna í sínu máli vera greinilega á skjön við niðurstöðu í framangreindum dómum þar sem vitnisburði aðila um aðkomu ákærðu í málunum væri gefið annað og meira vægi.

Að lokum telur endurupptökubeiðandi að vitnisburður aðila um aðkomu hans að félaginu hafi ekki fengið nægilegt vægi við mat á sekt eða sakleysi hans. Allir aðilar málsins hafi borið á sama veg um aðkomu hans að félaginu. Endurupptökubeiðandi hafi ekki notið þeirra réttinda sem framkvæmdastjóri og stjórnamenn njóta og gæti þar af leiðandi ekki heldur borið þær skyldur sem fylgja þeim stöðum.

IV. Athugasemdir ríkissaksóknara

Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 28. ágúst 2014, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.

Af endurupptökubeiðni megi ráða að endurupptökubeiðandi telji Hæstarétt ekki hafa tekið tillit til eða metið framburð hans á réttan hátt um stöðu sína sem framkvæmdarstjóri og stjórnarmaður B ehf. Hann hafi tekið að sér starfið af greiðasemi við […], og aldrei komið að rekstri, fjármálum eða skattskilum. Þessu sé ríkissaksóknari ósammála. Í málinu hafi legið fyrir og verið upplýst um stöðu endurupptökubeiðanda hjá félaginu B ehf., sbr. forsendur héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti í þessu máli. Í dóminum hafi því verið fjallað um skýringar endurupptökubeiðanda á stöðu sinni, störfum og tilgangi hans með að taka að sér starfið og hafi dómurinn lagt skýringar hans til grundvallar þótt ekki yrði niðurstaða dómsins í samræmi við vilja endurupptökubeiðanda. Tilvísun endurupptökubeiðanda til c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, um að sönnunargögn hafi verið rangt metin eigi því ekki við. Þvert á móti byggi niðurstaða héraðsdóms sem hafi verið staðfest í Hæstarétti á túlkun dómsins á skyldum framkvæmdarstjóra samkvæmt lögum um einkahlutafélög og skattalögum. Þá telji ríkissaksóknari að óánægja endurupptökubeiðanda með skýringu dómstóla á ábyrgð framkvæmdastjóra að lögum geti ekki gefið tilefni til endurupptöku enda skorti til þess lagaheimild.

Þá gerir ríkissaksóknari athugasemd við tilvísun og túlkun endurupptökubeiðanda til nýrri fordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum nr. 354/2013 og 388/2013, en það megi skilja að endurupptökubeiðandi telji að ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdarstjóra sé þar skýrð á annan veg en í máli hans. Þessi nálgun sé byggð á misskilningi auk þess sem hún varði ekki rangt mat á sönnunargögnum.

Þá vísar ríkissaksóknari í mál Hæstaréttar nr. 392/2006 til skýringar á ábyrgð framkvæmdarstjóra og stjórnarmanna á skattskilum. Í því máli hafi dómurinn túlkað lög um einkahlutafélög og umrædd skattalög þannig að ábyrgð stjórnar á skilum gjaldanna kæmi að jafnaði ekki til þegar ráðinn hafi verið framkvæmdarstjóri. Skipti þá ekki máli þótt í hlut ætti stjórnarformaður sem hafi verið ljósir erfiðleikar félagsins og leitast við að leysa úr þeim. Enn síður þótti í því máli ástæða til að sakfella almennan stjórnarmann og hafi framkvæmdarstjórinn einn verið sakfelldur. Í málinu hafi einnig verið lögð ríkari ábyrgð á stjórnarformenn í félögum, þar sem ekki hafi verið ráðinn framkvæmdarstjóri, en aðra stjórnarmenn.

Að því sögðu telur ríkissaksóknari að ábyrgð framkvæmdarstjóra á skattskilum einkahlutafélags sé samkvæmt framangreindri túlkun Hæstaréttar í máli nr. 392/2006 strangari en stjórnarmanna þar sem framkvæmdarstjóri hafi verið ráðinn. Ráðist þetta af mismunandi hlutverkum þessara aðila, þar sem félagsstjórn skuli annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Aftur á móti skuli framkvæmdarstjóri annast daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga.

Þannig sé sú forsenda sem endurupptökubeiðandi byggi á byggð á misskilningi. Hvergi megi í þessum tilvitnuðu dómum Hæstaréttar finna neitt sem leiði til þeirrar ályktunar að framkvæmdarstjóri, sem kjósi að rísa ekki undir skyldum sínum samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög þrátt fyrir formlega skráningu, geti borið það fyrir sig í sakamáli þannig að leiði til sýknu.

Ríkissaksóknari telji engar forsendur til að verða við beiðni endurupptökubeiðanda í máli þessu og það beri með vísan til 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála að hafna endurupptöku. Ljóst sé að Hæstiréttur geri mismunandi kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdarstjóra. Þeir tveir dómar sem endurupptökubeiðandi vísi til eigi ekki við um stöðu hans í þessu máli þar sem hann sé skráður framkvæmdarstjóri en tilvitnaðir dómar varði ábyrgð stjórnarmanna þar sem framkvæmdarstjóri hafi verið ráðinn. Endurupptökubeiðandi hafi verið framkvæmdarstjóri og beri ábyrgð í samræmi við 44. gr. laga um einkahlutafélög.

Að lokum sé það ljóst að endurupptökubeiðandi hafi ekki leitt að því neinar líkur að dómur yfir honum sé rangur og virðast röksemdir hans ekki eiga við c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, enda lúti rökstuðningur endurupptökubeiðanda allur að því að túlkun Hæstaréttar á lögum um einkahlutafélög og skattalögum hafi ekki verið rétt, en það geti ekki verið grundvöllur endurupptöku.

V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 15/2013. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Endurupptökubeiðandi vísar til c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála þess efnis að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Telur hann að Hæstiréttur og héraðsdómur hafi litið fram hjá því að hann hafi einungis verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í umræddu einkahlutafélagi að formi til en hann hafi aldrei raunverulega gegnt þessum störfum. Vitnisburður aðila um aðkomu hans að félaginu hafi ekki fengið nægilegt vægi við mat á sekt eða sakleysi hans.

Endurupptökubeiðandi hafði þessa vörn uppi við meðferð málsins. Í forsendum héraðsdóms kemur meðal annars fram að endurupptökubeiðandi hafi borið fyrir sig að hann hefði tekið að sér að vera framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins um skamma stund af greiðasemi við [...]. Hann hafi engin afskipti haft af rekstri félagsins, engar ákvarðanir tekið varðandi það og enga fundi setið. Í dómi héraðsdóms kemur fram að þrátt fyrir að engin ástæða sé til að efast um að tilgangurinn með þessum störfum hafi verið með þeim hætti sem lýst hafi verið sé ekki hægt að líta fram hjá því að lögum samkvæmt hvíli tilteknar skyldur á stjórnarmanni og framkvæmdastjóra einkahlutafélags. Í því felist meðal annars að sjá til þess að skilað sé réttum skattskýrslum á réttum tíma og afdregnum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu. Það sé því ekki hægt að fallast á það með ákærða að sýkna beri hann vegna þess að staða hans hjá félaginu hafi eingöngu verið til málamynda. Var hann því sakfelldur í héraði samkvæmt ákæru hvað þessi atriði varðar og var það staðfest í Hæstarétti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.

Ljóst er að fjallað var sérstaklega um þær málsástæður fyrir dómi, sem endurupptökubeiðandi ber fyrir sig sem grundvöll endurupptökubeiðni. Ekki voru bornar brigður á frásögn endurupptökubeiðanda og vitna um hvernig aðkomu hans að félaginu væri háttað, en allt að einu þóttu standa rök til að sakfella hann. Með vísan til þess verður ekki fallist á að endurupptökubeiðanda hafi tekist að leiða verulegar líkur að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.  Þá verður ekki séð að dómar Hæstaréttar í málum nr. 354/2013 og 388/2013 hafi þýðingu hvað þetta atriði varðar. Þótt endurupptökubeiðandi kunni að vera ósammála niðurstöðu dómstóla í máli hans er það eitt og sér ekki nægjanlegt til að lagaskilyrði 211. gr. laga um meðferð sakamála um endurupptöku komi til álita.

Endurupptökubeiðandi hefur með vísan til framangreinds ekki leitt líkur að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í málinu hafi verið ranglega metin, svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 284/2012 því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Rúnars Þórs Jónssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 284/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 13. desember 2012, er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum