Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Mál nr. 107/2012

Þriðjudaginn 22. október 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 31. desember 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. desember 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. desember 2012, um að synja kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda móður á meðgöngu.

Með bréfi, dags. 3. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 14. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. janúar 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um lengingu á greiðslum vegna þess að hún hafi þurft að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag af meðgöngutengdum ástæðum og í samræmi við V. kafla laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Kæranda hafi borist höfnun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn sinni með bréfi, dags. 11. desember 2012, í formi staðlaðs bréf án nokkurs rökstuðnings. Í bréfinu segi að af læknisvottorði yrði ekki ráðið að kærandi hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum. Því sé kærandi ósammála.

Sérfræðilæknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem annast hafi kæranda á meðgöngu hafi ítrekað mælt með því að kærandi hætti störfum og að hún tæki sér veikindafrí fram að fæðingu. Ástæður þessa hafi fyrst og fremst verið þrenns konar. Kærandi hafi þjáðst af talsverðri grindargliðnun sem sé meðgöngutengdur sjúkdómur. Grindargliðnunin hafi verið svo slæm síðasta hluta meðgöngunnar að kærandi hafi átt erfitt með gang, réttstöðu og setu upprétt sem eitt og sér hafi orðið þess valdandi að kærandi hafi orðið óvinnufær meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þá hafi kærandi einnig þjáðst af miklum bjúg á fæti. Bjúgurinn hafi eitt sinn orðið svo slæmur að kærandi hafi verið send með hraði á sjúkrahús til skoðunar og ómunar á hægri fótlegg þar sem læknar fæðingardeildar LSH hafi talið að um verulega hættu á blóðtappa væri að ræða og því hafi orðið að bregðast skjótt við. Kærandi hafi í kjölfarið verið hvött til að halda kyrru fyrir, drekka mikinn vökva og hafa hátt undir fæti svo hann lægi hærra en hjarta til að vinna á móti bjúgnum. Umrædd bjúgmyndun orsakist af meðgöngunni og sé því ótvírætt meðgöngutengdur sjúkdómur. Þá sé kærandi að lokum með vefjagigt sem hafi versnað mikið á meðgöngunni þar sem kærandi hafi ekki geta tekið lyf við henni auk þess sem meðganga, og þá sérstaklega seinni hluti hennar, hafi reynt mjög á bak kæranda. Kærandi hafi því orðið óvinnufær.

Læknar á fæðingardeild LSH hafi metið það svo eftir 20 vikna meðgöngu að nauðsynlegt væri að senda kæranda í sjúkraþjálfun til að reyna að vinna á móti grindargliðnun. Kærandi hafi hafið meðferð hjá sjúkraþjálfara um mánaðamótin ágúst/september. Þar hafi tekist að vinna talsvert á móti grindargliðnuninni sem hafi gert kæranda mögulegt að stunda vinnu mun lengur en annars hefði orðið.

Því telji kærandi að ekki sé nokkur vafi á að hún eigi rétt á lengingu fæðingarorlofs þar sem hún hafi þurft að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Kærandi hafi þurft að leggja niður störf frá 16. nóvember vegna grindargliðnunar og mikillar bjúgmyndunar, en hafði áður þurft að lækka starfshlutfall sitt niður í 50% frá og með 1. nóvember. Þá hafi kærandi einnig orðið mun verri af vefjagigt, líkt og áður segir. Kærandi hafi reynt að vinna eins lengi og nokkur kostur hafi verið en þó ávallt fylgt læknisráði.

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 19. september 2012, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar þann 23. desember 2012.

Auk umsóknar kæranda hafi borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 10. september 2012, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 11. september 2012, og launaseðlar fyrir júní, júlí og ágúst 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám RSK og Þjóðskrár.

Þann 4. desember 2012 hafi borist umsókn kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda móður á meðgöngu, dags. 29. nóvember 2012, starfslokavottorð, dags. 23. nóvember 2012, og læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs, dags. 29. nóvember 2012.

Með bréfi til kæranda, dags. 11. desember 2012, hafi henni verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem hún hafi ekki lagt niður launuð störf vegna veikinda sinna meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns auk þess sem ekki hafi verið ráðið að kærandi hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segi: „Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Í 5. mgr. komi fram að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.-4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Í 6. mgr. komi fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við eigi. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur hafi fallið niður.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma og í 2. mgr. komi fram að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a.       sjúkdóma sem upp komi vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni,

b.      sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni,

c.       fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og sé stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur hafi fallið niður.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 23. desember 2012 en barn kæranda hafi fæðst þann Y. desember 2012. Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum hefði kærandi þurft að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag vegna heilsufarsástæðna í skilningi 9. gr. reglugerðarinnar til að geta öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Á starfslokavottorði, dags. 23. nóvember 2012, komi fram að kærandi hafi fallið af launaskrá þann 30. nóvember 2012 og að veikindaréttur hafi þá verið fullnýttur. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK sé kærandi með laun frá vinnuveitanda sínum út nóvember 2012. Þá hafi verið minna en einn mánuður í áætlaðan fæðingardag barnsins þann 23. desember 2012. Þegar af þeirri ástæðu geti kærandi ekki átt rétt á greiðslum skv. 4. mgr., sbr. 6. mgr. 17. gr. ffl., sbr. og úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 29/2012.

Í læknisvottorði, dags. 23. nóvember 2012, komi fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu agranulocytosis D70, kvíði 146 og vandamál tengt félagslegu umhverfi, ótilgreint Z60.9. Við lýsingu á sjúkdómi kæranda segi orðrétt: „36 vikur gengin með sitt 1. Barn. Með agrunulocytosis og er neytropenisk. Verið á lyfi, zarzio, sem hvetur merginn, tekur það vikulega. Hætta á sýkingu vegna þessa, því ekki ráðlegt að vinna nú síðustu vikur fyrir fæðingu. Er snyrtifræðingur og í nánu sambandi við það fólk sem hún er að sinna hverju sinni sem eykur á sýkingarhættu.“ Í læknisvottorði komi síðan fram að kærandi sé óvinnufær frá 19. nóvember 2012.

Af framangreindu læknisvottorði verði heldur ekki ráðið að kærandi sé óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf sem kæranda hafi verið sent þann 11. desember 2012.

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi þurft að leggja niður launuð störf vegna heilsufarsástæðna þann 16. nóvember 2012.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ffl. skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. ffl. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær greiðslur féllu niður.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. ffl. skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks, segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a.       sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b.      sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c.       fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Þá segir í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram kemur hvenær greiðslur féllu niður.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 10. september 2012, var áætlaður fæðingardagur barns 23. desember 2012. Samkvæmt orðalagi 4. mgr. 17. gr. ffl. ber að miða við áætlaðan fæðingardag barns þegar metinn er réttur til lengingar fæðingarorlofs. Til þess að eiga rétt á lengingu þarf þunguð kona þannig að hafa lagt niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í tilviki kæranda þurfti hún því að hafa lagt niður launuð störf eigi síðar en Y. nóvember 2012. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 29. nóvember 2012, lagði kærandi niður störf þann 19. nóvember 2012. Samkvæmt starfslokavottorði, dags. 23. nóvember 2012, lét kærandi af störfum vegna veikinda þann 23. nóvember 2012 en féll af launaskrá með fullnýttan veikindarétt þann 30. nóvember 2012.

Ljóst er að kærandi hætti vinnu hjá vinnuveitanda sínum þann 23. nóvember 2011 og fékk greiðslur frá vinnuveitanda sínum út nóvembermánuð en þann 30. nóvember 2012 hafði hún nýtt sér alla sína veikindadaga. Því liggur fyrir að þegar kærandi hætti að njóta launagreiðslna frá vinnuveitanda sínum var minna en mánuður í áætlaðan fæðingardag barns hennar. Við túlkun á tímamarki 4. mgr. 17. gr. ffl. verður að mati nefndarinnar jafnframt að líta til 6. mgr. ákvæðisins þar sem mælt er fyrir um staðfestingu vinnuveitanda á því hvenær greiðslur til foreldris féllu niður. Þá er ljóst að tilgangur heimildar 4. mgr. 17. gr. er sá að foreldri fái bætt það tekjutap sem það verður fyrir af því að þurfa að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Með vísan til framangreinds verður að mati nefndarinnar, við túlkun á 4. mgr. 17. gr. ffl., að miða við það tímamark þegar kærandi hafi hætt að fá greiðslur frá vinnuveitanda, þ.e. 30. nóvember. Af því leiðir að kærandi telst ekki hafa lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar þann 23. desember 2012. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. fyrir lengingu fæðingarorlofs. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum