Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 9/2003:

 

A

gegn

Samskipum hf.

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. janúar 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dagsettri 16. júlí 2003, óskaði kærandi A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn kæranda úr starfi hennar hjá Samskipum hf. bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Samskipum hf. með bréfi dagsettu 20. ágúst 2003. Í bréfinu var, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, óskað eftir afstöðu Samskipta hf. til kærunnar. Með bréfi Samtaka atvinnulífsins f.h. Samskipa hf., dagsettu 7. september 2003, og meðfylgjandi greinargerðar Samskipa hf., dagsett 1. september 2003, sem barst kærunefndinni þann 11. september 2003, komu fram sjónarmið Samskipa hf. til erindis kæranda.

Með bréfi, dagsettu 22. september 2003, var kæranda kynnt afstaða Samskipa hf. til kærunnar og var kæranda gefin kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 9. október 2003.

Með bréfi, dagsettu 16. október 2003, var Samskipum hf. gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda. Í bréfi, dagsettu 3. nóvember 2003, gerðu Samskip hf. grein fyrir afstöðu sinni vegna athugasemda kæranda.

Með bréfi dagsettu 13. nóvember 2003 var kæranda sent afrit af bréfi Samskipa hf. og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Með ódagsettu bréfi sem barst kærunefndinni þann 26. nóvember 2003 gerði kærandi grein fyrir afstöðu sinni vegna athugasemda Samskipa hf. Það bréf var sent Samskipum hf. og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri, en engar frekari athugasemdir hafa borist.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  

II

Málavextir

Málsatvik eru þau að kærandi hóf störf sem bílstjóri hjá Samskipum hf., landflutningum, þann 3. júní 2002. Í upphafi mun hafa verið um tímabundið starf að ræða, en á haustmánuðum 2002 var kærandi ráðin í fast starf hjá Samskipum hf. Aðila greinir á um tildrög þeirrar ráðningar, en þeim ber þó saman um að ráðningin hafi átt sér stað í kjölfar þess að leitað var álits Jafnréttisstofu. Kærandi mun þá hafa ekið á flutningsleiðum utan Reykjavíkur, en í febrúar 2003 tók kærandi við starfi sem aukabílstjóri í akstri innanbæjar.

Í byrjun september 2002 barst Samskipum hf. kvörtun vegna aksturslags kæranda og var kæranda veitt skrifleg áminning í kjölfar kvörtunarinnar. Í áminningunni kemur fram að kærandi hafi í umrætt sinn, hinn 28. ágúst 2002, ekið á u.þ.b. 30 km hraða í nokkurn tíma og hafi með því haldið húsbíl fyrir aftan bifreið sína. Þá kemur fram í áminningunni að bifreið kæranda hafi sveigt tvisvar sinnum í veg fyrir húsbílinn er hann reyndi að skipta um akrein eftir að komið var til Reykjavíkur og akreinar orðnar þrjár. Áminningin er dagsett og móttekin af kæranda hinn 6. september 2002, en kærandi heldur því fram að hún hafi við móttöku áminningarinnar gert athugasemdir við þann hluta áminningarinnar.

Þá er því haldið fram af hálfu Samskipa hf. að kærandi hafi ekki sinnt viðhaldi og þrifum á bifreiðum fyrirtækisins á fullnægjandi hátt og að kærandi hafi hlotið tvær munnlegar áminningar vegna þessa. Þeim ávirðingum hefur kærandi hins vegar andmælt.

Með bréfi dagsettu þann 20. maí 2003 var kæranda sagt upp störfum hjá Samskipum hf. Uppsögnin kom í kjölfar þess að kærandi neytti áfengis á skyndihjálparnámskeiði, sem haldið var fyrir starfsmenn á vegum Samskipa í vinnutíma. 

  

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Samskip hf. hafi við uppsögn hennar brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Kærandi kveður að frá því að hún hafi verið ráðin til Samskipa hf. hafi hún ekki fengið sömu meðferð og karlkyns vinnufélagar hennar. Hún telur að meðferð kvörtunar, sem barst vegna aksturslags hennar í ágúst 2002 og skrifleg áminning í kjölfar hennar, hefði verið önnur og vægari hefði karlkyns ökumaður átt í hlut, enda viti kærandi engin dæmi þess að ökumenn hjá fyrirtækinu fái skriflega áminningu við fyrstu kvörtun. Kærandi getur þess jafnframt að ítrekað hafi verið gengið fram hjá henni í vinnu eftir að hún fór að vinna sem bílstjóri á almennum vöktum hjá fyrirtækinu í febrúar 2003.

Þá tekur kærandi fram að henni hafi verið sagt upp störfum í maí 2003 eftir að hún gekkst við því að hafa neytt áfengis þegar hún sótti skyndihjálparnámskeið sem haldið var á vegum Samskipa hf. Kærandi heldur því fram að hún viti þess dæmi að áður hafi verið boðið upp á áfengi á námskeiðum á vegum fyrirtækisins og hafi aðrir starfsmenn neytt þess við þau tækifæri án þess að hafa verið sagt upp störfum. Hins vegar hafi henni verið sagt upp störfum umsvifalaust á grundvelli þessa atviks og á grundvelli skriflegu áminningarinnar frá því í ágúst 2003.

Þá kveður kærandi sig hafa orðið fyrir margvíslegu einelti og áreiti á vinnustað, sem hafi falist í háðsglósum og tilvísunum til kynferðis kæranda. Þá kveðst kærandi hafa, eftir móttöku áminningarinnar í ágúst 2002, sinnt starfi sínu fyrir Samskip hf. á óaðfinnanlegan hátt og sinnt viðhaldi og þrifum á þeim bifreiðum sem henni voru látnar í té, á fullnægjandi hátt.

Kærandi telur því að hún hafi fengið aðra og strangari meðferð í starfi sínu sem bílstjóri fyrir Samskip hf. sem hafi grundvallast á kynferði hennar og því hafi verið brotin ákvæði 24. og 3. mgr. 25.gr. laga um jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, við uppsögn úr starfi hennar hjá Samskipum hf.

   

IV

Sjónarmið Samskipa hf.

Fram kemur í greinargerð Samskipa hf., dagsettri 1. september 2003, að kærandi hafi í upphafi verið ráðin til sumarafleysinga í júní 2002. Fyrst hafi kærandi verið ráðin til starfa við innanbæjarakstur, en síðar hafi hún verið flutt til í starfi og sinnt akstri utan Reykjavíkur. Á haustmánuðum 2002 hafi verið ákveðið að bjóða kæranda áframhaldandi starf, m.a. eftir að Samskip hf. hafi ráðfært sig við Jafnréttisstofu. Þá hafi kærandi sinnt áfram akstri utan Reykjavíkur, en hafi síðar tekið við starfi aukabílstjóra innanbæjar, í febrúar 2003.

Samskipum hf. barst kvörtun vegna aksturslags kæranda í byrjun september 2002 og var málið kannað af öryggisstjóra fyrirtækisins. Af hálfu fyrirtækisins var haft samband við þá aðila sem höfðu lagt fram kvörtunina og í framhaldi af því var haldinn fundur með kæranda þar sem kæranda var gefin kostur á að skýra sína hlið mála. Í kjölfar þess hafi kæranda verið veitt skrifleg áminning enda brotið talið alvarlegt af hálfu fyrirtækisins. 

Í greinargerð Samskipa hf. kemur einnig fram að kærandi hafi neytt áfengis á skyndihjálparnámskeiði sem haldið var á vegum fyrirtækisins þann 3. maí 2003. Samskip hf. kveða þá ófrávíkjanlegu reglu gilda hjá fyrirtækinu að öll neysla áfengra drykkja í vinnutíma sé bönnuð. Umrætt skyndihjálparnámskeið hafi farið fram í vinnutíma og hafi starfsmenn verið á launum á meðan á námskeiðinu stóð. Af þeim sökum hafi fyrirtækið talið brot kæranda alvarlegt og í ljósi fyrri áminningar ákveðið að segja kæranda upp störfum. Þá taka Samskip hf. fram að á umræddu námskeiði hafi annar (karlkyns) starfsmaður einnig orðið uppvís að neyslu áfengis, og hafi hann fengið skriflega áminningu vegna þess. Viðkomandi starfsmanni hafi hins vegar ekki verið sagt upp störfum þar sem hann hafi ekki áður brotið af sér áður í starfi. 

Þá kannast Samskip hf. að öðru leyti ekki við að kæranda hafi verið mismunað í starfi. Samskip hf. hafi orðið við óskum kæranda um að hún tæki að sér akstur sem aukabílstjóri innanbæjar í febrúar 2003, en kynnt henni að yfirvinna væri minni hjá aukabílstjórum en föstum bílstjórum. Þá kannast Samskip hf. ekki við að kærandi hafi kvartað undan einelti á vinnustað fyrr en eftir að henni var sagt upp störfum í maí 2003.

Í greinargerð Samskipa hf. kemur jafnframt fram að í september 2002 og í janúar 2003 hafi kærandi hlotið munnlegar áminningar vegna lélegrar umgengni um bifreiðar fyrirtækisins. Í bæði skiptin hafi verið um að ræða áminningar vegna slæmra þrifa og viðhalds viðkomandi bifreiða. 

   

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við uppsögn kæranda úr starfi sem bílstjóri fyrir Samskip hf., einkum ákvæði 24. gr. og 3. mgr. 25. gr. laganna.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að meginástæða ákvörðunar Samskipa hf. um uppsögn kæranda hafi verið annars vegar kvörtun sem laut að aksturslagi kæranda í tiltekið sinn og hins vegar neysla kæranda á áfengi á námskeiði sem haldið var fyrir starfsmenn í vinnutíma. Kærandi kannast við umrædd umkvörtunarefni, þó svo að hún hafi að nokkru litið þau öðrum augum en Samskip hf. 

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem bendi til annars en að ákvörðun vinnuveitanda um uppsögn í umrætt sinn hafi að meginstefnu til verið að rekja til framangreindra tilvika, svo og annarra atvika, sem ekki lutu að kynferði kæranda. Þá er það einnig álit kærunefndar að ekki verði séð, sbr. það sem greinir hér að framan, að leiðréttingakrafa kæranda til Jafnréttisstofu á árinu 2002 hafi legið til grundvallar uppsögninni í skilningi 3. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að Samskip hf. hafi ekki brotið gegn IV. kafla laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar kæranda, A, var sagt upp störfum í maí 2003.

  

  

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Ása Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum