Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 485/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 485/2016

Föstudaginn 24. febrúar 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 12. desember 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndar-nefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C. Er þess krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni kæranda við stúlkuna verði fjórum sinnum á ári á heimili systur kæranda.

I. Málsatvik og málsmeðferð

C er fædd árið X og er rúmlega X ára og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi, sem er móðir stúlkunnar, var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X2012 en kærandi fór ein með forsjána. Faðir stúlkunnar er D.

Stúlkan hefur verið í fóstri hjá núverandi fósturforeldrum frá því í X 2010 er hún var X mánaða. Hún hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá því í X 2012 og er fóstrinu ætlað að standa til 18 ára aldurs stúlkunnar. Á heimilinu býr einnig dóttir fósturforeldranna sem er fædd X.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað fyrst upp úrskurð um umgengni 19. júní 2012. Samkvæmt þeim úrskurði var umgengnin fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í þrjár klukkustundir í senn. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað aftur upp úrskurð í málinu 25. nóvember 2014 þar sem kærandi óskaði eftir rýmri umgengni en umgengni var ákveðin sú sama og í fyrri úrskurði. Kærunefnd barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) staðfesti úrskurðinn 18. febrúar 2015. Umgengni hefur að mati fósturforeldra gengið vel. Ekkert eftirlit hefur verið með umgengninni að öðru leyti en því að fósturforeldrar eru heima og tiltækir fyrir stúlkuna. Það liggja því ekki fyrir aðrar upplýsingar um umgengnina en frá fósturforeldrum.

Með bréfi 3. mars 2016 óskaði kærandi eftir því að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn án eftirlits á heimili hennar. Í bréfi kæranda kemur fram að beiðnin væri fyrst og fremst fólgin í því að umgengni yrði á heimili hennar en ekki á heimili fósturforeldra. Í X 2016 upplýsti kærandi að hún væri að flytja út á land þá um sumarið ásamt kærasta sínum. Hún óskaði þá eftir því að umgengni færi fram á heimili systur sinnar. Einnig óskaði hún þess að fá að fara með stúlkuna í sund eða ísbíltúr í umgengni.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 25. maí 2016 var fjallað um beiðni kæranda. Var það mat starfsmanna að það væri andstætt hagsmunum stúlkunnar að breyta umgengni á þann hátt sem kærandi óskaði. Stúlkan hefði alla tíð þolað illa breytingar og hefðu fósturforeldrar þurft að hafa skýran ramma og rútínu til að tryggja vellíðan hennar og öryggi. Markmiðið með varanlegu fóstri væri fyrst og fremst að tryggja stúlkunni festu og öryggi. Markmiðið með umgengni í varanlegu fóstri væri á hinn bóginn að stúlkan þekkti uppruna sinn og það fyrirkomulag sem verið hafi á umgengni tryggi það. Starfsmenn barnaverndar hafi því lagt til að umgengni yrði óbreytt.

Kærandi féllst ekki á tillögur starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur en fram kemur í málinu að ákveðið hafi verið að bíða með að leggja málið fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þar til niðurstaða sálfræðimats á stúlkunni lægi fyrir. Fór matið fram í X 2016. Niðurstöður voru meðal annars þær að mikilvægt væri að viðhafa áframhaldandi reglu í lífi stúlkunnar og ýta áfram undir örugga aðlögun hennar að fósturfjölskyldu en stúlkan væri sérstaklega viðkvæm fyrir breytingum og raski á rútínu. Skoða þyrfti möguleika á að öll umgengni gæti farið fram á fósturheimilinu.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við barnið var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2016 ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði í mars, júní, október og desember og fari fram á heimili barnsins. Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 verði hrundið og að umgengni kæranda við stúlkuna verði ákveðin fjórum sinnum á ári á heimili systur kæranda. Umgengnin fari fram í mars, júní, október og desember ár hvert og verði án eftirlits. Ekki séu þó gerðar athugasemdir við að umgengni fari fram undir eftirliti til að byrja með þar til reynsla kemst á umgengnina. Kærandi krefst þess einnig að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum kæranda og stúlkunnar.

Kærandi vísar til þess að hún hafi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2012. Stúlkan hafi verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því í X 2010. Um sé að ræða varanlegt fóstur sem ætlað sé að standa til 18 ára aldurs stúlkunnar. Frá því að dómur héraðsdóms var kveðinn upp hafi umgengni í öllum tilvikum farið fram á fósturheimilinu. Af hinum kærða úrskurði megi sjá að umgengni hafi gengið verulega vel og kærandi hafi sinnt allri þeirri umgengni sem hún hafi átt kost á. Umgengni virtist hafa gengið betur eftir því sem hún hafi farið oftar fram og tengsl kæranda og stúlkunnar virtust veruleg.

Krafa kæranda um breytingu á umgengni felist fyrst og fremst í því að umgengni fari ekki eingöngu fram á fósturheimilinu heldur á heimili systur kæranda, sem búi á höfuðborgarsvæðinu, eða á öðrum hlutlausum stað utan fósturheimilis. Telur kærandi að þó að umgengni hafi gengið vel undanfarin ár sé það heftandi bæði fyrir kæranda og stúlkuna að umgengnin sé einskorðuð við heimili fósturforeldra.

Úrskurður barnaverndarnefndar byggist að mestu leyti á skýrslu sem aflað hafi verið í aðdraganda fundar barnaverndarnefndar þar sem sálfræðingi hafi verið falið að kanna stöðu stúlkunnar vegna beiðni kæranda um breytingar á umgengni. Kærandi telur að ekki eigi að byggja á niðurstöðum skýrslunnar hvað hana sjálfa varði. Röskun á líðan stúlkunnar tengdist eingöngu umgengni við kynföður sem hafi fengið heimild til þess að umgengni færi fram utan fósturheimilis, öfugt við kæranda.

Kærandi telur niðurstöðu barnaverndarnefndar brjóta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Veruleg mismunun sé fólgin í því hvernig umgengni hafi verið háttað við föður en hann hafi verið í sömu stöðu og kærandi, þ.e. forsjárlaust foreldri með umgengnisrétt. Umgengnisréttur föður hafi undantekningarlaust verið utan heimilis fósturforeldra. Faðir sé ekki í betri stöðu en kærandi að neinu leyti, enda komi fram í gögnum frá barnavernd að hann sé með neysluvanda, tali með óviðeigandi hætti við stúlkuna, vilji gefa henni dýrar gjafir sem hæfi ekki þroska hennar, skili henni í óhreinum fötum og fleira, sbr. skýrslu sálfræðings. Ekkert af þessu eigi við um kæranda. Hefði verið eðlilegra að leyfa kæranda að sýna að umgengni hennar við stúlkuna gæti verið áfallalaus fyrir barnið utan heimilis fósturforeldra í stað þess að leyfa manni sem eigi í neysluvanda að sinna umgengni með fyrrnefndum hætti. Auk þess hafi faðir ekki sinnt umgengni fyrr en á síðari árum og hafi aldrei náð að tengjast stúlkunni með sama hætti og kærandi.

Kærandi hafi verið í góðri stöðu síðustu ár en barnaverndarnefnd hafi ekki að neinu marki kannað þá stöðu. Kærandi telji það brjóta í bága við rannsóknarreglu 41. gr. bvl.

Kærandi telur hagsmuni stúlkunnar ekki skerðast að nokkru marki með því að kanna hvort hún höndli umgengni utan heimilis fósturforeldra. Auðvelt sé að kanna þetta með því að heimila umgengni með þeim hætti, til dæmis í eitt ár, áður en varanlegt fyrirkomulag um umgengni yrði staðfest. Telur kærandi enga hættu þessu meðfylgjandi fyrir hagsmuni barnsins, verði þetta reynt, enda hefði barnaverndarnefnd alla möguleika á að fylgjast náið með nýju fyrirkomulagi um umgengni. Ef það kæmi síðar í ljós að stúlkan sýndi neikvæða hegðun í tengslum við breytta umgengni hefði barnaverndarnefnd öll úrræði til þess að skerða umgengni að nýju.

Niðurstaða barnaverndarnefndar hafi verið kæranda mikil vonbrigði, enda taldi hún ekkert standa í vegi fyrir að minnsta kosti hóflegri breytingu á umgengni. Stúlkan sé með góða félagslega aðlögunarhæfni, góð tengsl við kæranda og engin gögn bendi til þess að breyting á staðsetningu umgengni gangi gegn hagsmunum hennar, enda hafi aldrei reynt á það hvað kæranda varði. Gögn málsins bendi til þess að stúlkan hafi ánægju af því að rækta umgengni við kæranda og telur kærandi það benda til þess að ástæða sé til að breyta umgengnistilhögun. Markmið kæranda sé að fá umgengni sem líklegri sé til að viðhalda tengslum við stúlkuna og gefi henni jafnframt tækifæri til þess að kynnast uppruna sínum í eðlilegra umhverfi en verið hafi.

IV. Skýrsla talsmanns C

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar frá 10. nóvember 2016. Þar kemur fram að henni þyki gaman að hitta kæranda og líði vel þegar kærandi kemur til hennar. Þegar talsmaður hafi spurt hvort stúlkan vildi hitta kæranda annars staðar svaraði hún: „Mig langar að prófa að fara inn til hennar.“ Spurð að því hvort hún vildi fara með kæranda í ísbíltúr eða sund hafi stúlkan ekki svarað beint heldur sagt: „Ég hef eiginlega ekki farið með henni í sund. Ég held að ég hafi farið með henni í bíl en ég man það ekki.“ Stúlkan hafi ekki tekið frekar undir þessar hugmyndir. Spurð hvort hún vildi fara með kæranda eitthvað annað hafi hún svarað: „Kannski upp í E“. Þegar hún hafi verið spurð að því hvernig henni litist á að umgengni yrði áfram á fósturheimilinu hafi hún sagt að sér litist vel á það.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 5. janúar 2017 er vísað til þess að markmiðið með varanlegu fóstri sé að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn fjölskyldunnar væri að ræða. Tæki umgengni mið af þessu, sbr. 65. og 74. gr. bvl. og reglugerð um fóstur nr. 804/2004. Barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hve lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri og ekki sé annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur, sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða, sé umgengni kynforeldra við barnið yfirleitt mjög takmörkuð. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð all verulega en meta þurfi hagsmuni barns í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar á fósturheimilinu hafi það verið mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt væri að skapa stúlkunni áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Það sé nauðsynlegt til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra raski í flestum tilvikum ró þeirra, jafnvel þó að sátt ríki um umgengnina.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Fyrir meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 25. maí 2016 lá fyrir afstaða fósturforeldra. Þau lögðust gegn beiðni kæranda og töldu að það kæmi of miklu róti á líf stúlkunnar en það væri aftur til þess fallið að hún upplifði vanlíðan og óöryggi.

Fósturforeldrar komu á fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 22. nóvember 2016. Töldu þau núverandi fyrirkomulag uppfylla markmið með umgengni í varanlegu fóstri. Nánar tiltekið væri slík umgengni ekki til að viðhalda tengslum heldur til að barnið þekkti uppruna sinn. Stúlkan hefði verið í mun betra jafnvægi eftir að umgengni var minnkuð frá því sem var þegar hún hafi verið í tímabundnu fóstri. Umgengni við kæranda hafi farið fram á fósturheimilinu og væri í mjög föstum skorðum. Stúlkan væri örugg á sínu heimili og hefði fósturforeldra sér til halds og trausts ef hún þyrfti styrk, aðstoð eða stuðning. Allt rask væri slæmt fyrir stúlkuna en heima hjá henni væri allt rólegt og í föstum skorðum. Það væri barninu fyrir bestu að umgengnin færi fram á heimili stúlkunnar.

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 10. febrúar 2017 kemur fram að þar sem kynforeldrar stúlkunnar hefðu slitið samvistir væri umgengni fjórum sinnum á ári hjá kynmóður og fjórum sinnum á ári hjá kynföður eða alls átta sinnum á ári. Með tilliti til markmiða fósturráðstöfunar telja þau núgildandi umgengni mjög rúma og ekki ástæðu til að rýmka hana. Umgengni við kynmóður hefði farið fram á fósturheimili og væri í mjög föstum skorðum. Það fyrirkomulagi hefði gengið vel og skapaði mun minni streitu fyrir stúlkuna en umgengni við kynföður sem, þar til fyrir stuttu, hafi farið fram utan heimilis. Stúlkan sé örugg á heimilinu og umgengni sé fyrirsjáanleg og afslöppuð. Mikilvægt sé að umgengni fari fram í umhverfi þar sem barnið sé öruggt, þrátt fyrir að það kunni að vera íþyngjandi fyrir hina fullorðnu. Stúlkan þoli illa breytingar og rót, henni líði best þegar allt sé í föstum skorðum. Í kringum umgengni verði stúlkan óörugg um sína stöðu og fjölskyldunnar. Því leggi þau ríka áherslu á mikilvægi þess að umgengni verði óbreytt og að þau fái nauðsynlegan frið til að halda áfram að styrkja sjálfsmynd og öryggi stúlkunnar.

V. Niðurstaða

C er rúmlega X ára gömul og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá því í X 2010 Xer hún var X mánaða gömul. Stúlkan var í umsjá kæranda til þess tíma en kærandi var svipt forsjá hennar með dómi árið 2012.

Frá því að stúlkan fór í fóstur hefur regluleg umgengni kæranda verið á heimili fósturforeldra. Umgengni hefur verið fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir frá X 2012. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 var ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna yrði óbreytt og færi fram á heimili fósturforeldra sem fyrr. Kærandi óskar nú eftir þeirri breytingu á umgengni að hún verði á heimili systur kæranda. Kærandi telur hagsmuni stúlkunnar ekki skerðast að nokkru marki með því að kanna hvort hún höndli umgengni utan heimilis fósturforeldra. Telur kærandi að þó að umgengni hafi gengið vel undanfarin ár sé það heftandi bæði fyrir hana og stúlkuna að umgengnin sé einskorðuð við heimili fósturforeldra.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hennar við stúlkuna verði breytt með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best með tilliti til þeirrar stöðu sem barnið er í. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni stöðugt og öruggt umhverfi hjá fósturforeldrunum til frambúðar. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 10. febrúar 2017. Þau greina frá því að umgengni við kynmóður sé í mjög föstum skorðum. Það fyrirkomulag hafi gengið vel en stúlkan sé örugg á heimilinu og sé fyrirsjáanleg og afslöppuð. Þau telja mikilvægt að umgengni fari fram í umhverfi þar sem barnið er öruggt, þrátt fyrir að það kunni að vera íþyngjandi fyrir þá fullorðnu. Stúlkan þoli illa breytingar og rót og henni líði best þegar allt sé í föstum skorðum. Í kringum umgengni verði stúlkan óörugg um sína stöðu og fjölskyldunnar. Því leggja þau ríka áherslu á að umgengni verði óbreytt.

Að beiðni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gerð sálfræðileg athugun á þroska og hegðun stúlkunnar í X 2016. Einnig var gert mat á tengslum hennar við fósturforeldra. Í niðurstöðum matsins kemur fram að stúlkan búi við góðan stuðning, reglu og umhyggju á heimili sínu. Hún sýni misstyrk í vitþroska og mállega veikleika. Hún glími við athyglisbrest og meta þurfi hvort hún þurfi stuðning í námi. Stúlkan sýni óöryggi í tengslum og kvíðaeinkenni sem beinist að óvissu og breytingum. Þá sé hegðun hennar mótþróafull og hún eigi í erfiðleikum með skapstjórn. Helstu ráð séu áframhaldandi regla og rútína ásamt því að ýta eins og kostur er undir örugga aðlögun hennar í fósturfjölskyldu. Öll samskipti og athuganir á aðlögunartíma bendi til þess að stúlkan hafi myndað góð tengsl við fósturforeldra. Það sé ljóst að vandi stúlkunnar geri hana sérstaklega viðkvæma fyrir öllum breytingum og raski á rútínu. Því gæti þurft fremur lítið til að rask kæmist á tengslamyndun við fósturforeldra. Til marks um þessa viðkvæmni sé leit hennar að staðfestingu á því að hún tilheyri fósturfjölskyldu þegar hún komi úr umgengni við kynföður. Stúlkan virtist taka það nærri sér og ekki sé hægt að útiloka að henni finnist hún ekki tilheyra fjölskyldunni til jafns við systur sína þar sem þær beri ekki sama föðurnafn. Einnig geti spilað inn í að systirin sé alltaf heima hjá foreldrunum á meðan stúlkan fari í umgengni til kynföður utan heimilis. Af þessum sökum þurfi að huga vel að þessu viðkvæma ferli og haga því á þann hátt að sem minnst röskun verði á tengslum systranna. Það gæti haft mikið vægi gegn óöryggi, kvíða og skapstjórnarvanda að skoða möguleika á að öll umgengni fari fram á heimili fósturforeldra með þeirri fjölskyldu sem hún skilgreini sem sína fjölskyldu. Í huga stúlkunnar sé þetta eina heimilið sem hún þekki, enda eigi hún ekki minningar um að hafa búið annars staðar. Þessu væri öðruvísi farið ef hún ætti minningar um að hafa búið hjá kynforeldrum. Það komi óhjákvæmilega róti og álagi á fjölskyldulífið ef endurskoða eigi umgengni árlega og vandi stúlkunnar og forsaga geri hana viðkvæmari en ella fyrir slíku. Hennar vegna sé mælt með varanlegra fyrirkomulagi þar sem endurskoðun fari sjaldnar fram. Því minna álag sem sé á fósturfjölskyldunni því betur líði stúlkunni.

Í hinum kærða úrskurði segir að það sé mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að mikilvægt sé að halda þeim stöðugleika og öryggi sem fósturforeldrar hafi náð að skapa í aðstæðum stúlkunnar. Slíkt sé talið nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Starfsmenn telja hvorki rök fyrir því að breyta umgengni út frá hagsmunum stúlkunnar né að færa umgengni frá fósturheimili á heimili móðursystur. Stúlkan sé örugg á heimili sínu en umgengni hafi farið þar fram undanfarin ár. Mikilvægt sé að stúlkan finni að hún tilheyri fósturfjölskyldunni en af gögnum málsins megi ráða að þetta sé henni mjög mikilvægt. Mestu máli skipti fyrir þroska stúlkunnar og heilbrigði til lengri tíma að hún njóti stöðugra og öruggra tengsla við fósturforeldra sem hún líti á sem foreldra sína. Taka þurfi jafnframt tillit til þess að ekki sé ætlunin að rjúfa tengsl stúlkunnar við kæranda. Umgengnina þurfi að ákveða með tilliti til þessa. Til þess að umgengnin verði farsæl þurfi að stuðla að því að hún verði í föstum skorðum þar sem öryggi og ró ríki í samskiptum þeirra sem að henni komi.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að umgengni hefur gengið vel. Þótt stúlkan sýni þess merki að umgengni íþyngi henni ekki verður það ekki haft til marks um það að breyta beri því hvar umgengnin fer fram eins og kærandi krefst. Með því að gera þá breytingu verður að telja að þar með yrði tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem barnið hefur svo mikla þörf fyrir.

Eins og málið liggur fyrir verður ekki lagt til grundvallar við úrlausn þess það sjónarmið kæranda að núverandi fyrirkomulag umgengni sé heftandi bæði fyrir kæranda og barnið. Ekki verður heldur tekið undir það með kæranda að hagsmunir stúlkunnar muni ekki skerðast að nokkru marki með því að kanna hvort hún höndli umgengni utan heimilis fósturforeldra. Hér fara hagsmunir kæranda og barnsins ekki saman. Þá liggur heldur ekki fyrir að kærandi og barnið hafi einhverja sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli.

Kærandi telur að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun var tekin í því. Kærandi kvaðst hafa verið í góðri stöðu síðustu ár en barnaverndarnefnd hafi ekki að neinu marki kannað þá stöðu. Kærandi telur það brjóta í bága við rannsóknarreglu 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Í þessu felst að stjórnvaldi ber að afla þeirra upplýsinga og gagna í máli sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Af þessu leiðir að barnaverndarnefnd er óheimilt að ganga lengra í gagnaöflun í hverju máli en nauðsynlegt er. Með vísan til þess að við ákvörðun í málinu þarf að meta stöðu stúlkunnar út frá líðan hennar og aðstæðum og taka ákvörðun miðað við hagsmuni hennar, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið efni til að afla umræddra upplýsinga.

Kærandi telur niðurstöðu barnaverndarnefndar brjóta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem umgengni föður hafi undantekningarlaust verið utan heimilis fósturforeldra. Telur kærandi að í þessu sé fólgin veruleg mismunun.

Í máli þessu er umgengni stúlkunnar við kynföður ekki til skoðunar. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl., sem áður hefur verið gerð grein fyrir, eru hagsmunir barns í öndvegi og ganga framar hagsmunum hinna fullorðnu. Þannig er hvert tilvik skoðað fyrir sig með velferð barnsins að leiðarljósi. Með vísan til þessa leggur úrskurðarnefndin ekki mat á þá umgengni sem kynföður stúlkunnar hefur verið ákveðin.

Loks telur kærandi að ekki eigi að byggja á niðurstöðum sálfræðilegrar athugunar á stúlkunni frá X 2016, hvað kæranda sjálfa varði. Kærandi telur að röskun á líðan stúlkunnar tengist eingöngu umgengni við kynföður sem hafi fengið heimild til þess að umgengni færi fram utan fósturheimilis, öfugt við kæranda. Svo sem gerð er grein fyrir hér að framan er líðan og staða stúlkunnar rakin til ýmissa þátta, svo sem misstyrks í vitþroska og athyglisbrests, en einskorðast ekki við umgengni kynforeldra. Því telur úrskurðarnefndin ekki efni til að taka undir þetta sjónarmið kæranda.

Úrskurðarnefndin telur í ljósi ofangreindra atriða nauðsynlegt að umgengnin fari fram á heimili stúlkunnar og tryggt sé að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Með því verði hagsmunir og þarfir stúlkunnar best virtir.

Í þessu máli telur barnaverndarnefnd að umgengni sé hæfileg fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarnefndin er sammála þessari niðurstöðu og telur hana þjóna hagsmunum stúlkunnar best. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró stúlkunnar verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hún nái að þroskast og dafna sem best.

Með vísan til þess er að framan greinir svo og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við stúlkuna réttilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.


Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 varðandi umgengni A við dóttur hennar, C, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum