Hoppa yfir valmynd

Neitun um skólavist í sérskóla

9. nóvember árið 2012 var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur úrskurður


Kæruefni


Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst með bréfi, dags. 15. maí sl., stjórnsýslukæra A og B (hér eftir nefnd kærendur) f.h. barns þeirra, C, nemanda við skóla Z í sveitarfélagi X.  

Kærð er sú ákvörðun skólastjóra sérskóla Y í Reykjavík að neita C um skólavist í skólanum, en ákvörðunin var tilkynnt kærendum með bréfi undirrituðu af skólastjóra, dags. 23. apríl sl. Kærendur gera þá kröfu að ráðuneytið taki málið til efnismeðferðar og ógildi hina kærðu ákvörðun og úrskurði um rétt C á skólavist í Y.

Málsatvik

Umsókn kærenda um skólavist fyrir C barst Y 2. apríl sl.  Hún var tekin fyrir á inntökufundi skólans hinn 18. apríl sl. þar sem fjallað var um hana af hálfu skólastjóra Y, aðstoðarskólastjóra, sálfræðings og félagsráðgjafa skólans auk verkefnastjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.  Á fundinum var lagt mat á umsóknina og fylgigögn hennar með hliðsjón af innritunarreglum Y. Niðurstaða inntökunefndar var sú að hafna bæri umsókninni þar sem C væri með væga þroskahömlun án viðbótarfötlunar og uppfyllti því ekki inntökuskilyrði Y,  sem kveða á um að skólinn sé fyrir nemendur með miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun eða nemendur með væga þroskahömlun og viðbótarfatlanir, t.d. einhverfu, hreyfihömlun og blindu.

Málsmeðferð

Stjórnsýslukæra kærenda var móttekin í ráðuneytinu 15. maí sl. Með bréfi, dags. 1. júní sl., leitaði ráðuneytið eftir umsögn og afstöðu kærða sem er skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar f.h. Y, um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 13. júlí sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. ágúst sl., voru athugasemdir kærða kynntar kærendum og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu 27. ágúst sl. Í ljósi þess að lögheimilissveitarfélag C er X, sem hefur þýðingu í málinu eins og nánar er rakið hér á eftir, var talið rétt að afla umsagnar skólayfirvalda í X um stjórnsýslukæruna og fylgigögn með henni, þ.m.t. umsögn borgarlögmanns og var það gert með bréfi, dags. 5. september sl. Umsögn menntasviðs X barst ráðuneytinu 17. september sl. Umsögn X var send Reykjavíkurborg til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. september sl. Athugasemdir borgarlögmanns um umsögn X bárust ráðuneytinu 24. september sl. Í athugasemdum borgarlögmanns komu fram nýjar málsástæður um takmörk á skyldu Reykjavíkurborgar til að veita börnum með lögheimili utan Reykjavíkur skólavist í grunnskólum sem reknir eru af Reykjavíkurborg. Af þeirri ástæðu þótti rétt að gefa kærendum kost á að tjá sig um umsögn X og athugasemdir, sem og nýjar málsástæður Reykjavíkurborgar og var það gert með tölvubréfum ráðuneytisins, dags. 3. og 4. október sl.  Svarbréf kærenda barst í tölvupósti, dags. 10. okt. sl., þar sem vísað var til athugasemda kærenda í bréfi, dags. 23. ágúst sl.  Að mati kærenda hafi ekkert nýtt komið fram í málinu sem gefi tilefni til frekari athugasemda. Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið aflað gagna um fyrirkomulag á rekstri sérskóla og fjármögnun þeirra af hálfu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.


Málsástæður

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kærenda:

Í bréfi kærenda, dags. 15. maí sl., kemur fram að þeir  hafi  sótt um skólavist fyrir C í Y eftir að þeim þótti fullreynt að skólaganga í almenna skólakerfinu hentaði barninu ekki.  Að sögn kærenda hefur C hrakað líkamlega, andlega og félagslega á liðnum árum. Þar af megi skýra félagslega hlutann svo að barnið eigi ekki samleið með nemendum í almennum grunnskóla.  Kærendur telji því að C eigi rétt á aðgangi að skóla við sitt hæfi, sem að þeirra mati er Y.  Að mati kærenda er hin kærða ákvörðun ólögmæt.  Máli sínu til stuðnings benda kærendur á umsagnir ýmissa sérfræðinga og fagaðila sem séu þeim sammála um að C þurfi að vera í sérskóla vegna fötlunar sinnar. Kærendur vísa til þess að í 21. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010, sé tekið skýrt fram að synjun um skólavist skuli rökstudd ítarlega þar sem afstaða sé tekin til allra þeirra sjónarmiða sem færð hafa verið fram í málinu og hvernig þau varði heildarhagsmuni barnsins.  Í svarbréfi frá Y hafi þessari reglu ekki verið fylgt, því rökstuðningur sé lítill sem enginn. Kærendur vísa til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli inntökuskilyrða sem sett hafi verið árið 2008 af skólastjórnendum Y og menntasviði Reykjavíkurborgar.  Sú regla sem þá hafi verið innleidd sé að öllum börnum með væga þroskahömlun eða greindarvísitölu milli 50-70 beri að ganga í almennan grunnskóla.  Þetta telja kærendur stangast á við 5. gr., 13. gr. og 17. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008, reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010, 3. gr., 4. gr. og 21. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, 76. gr. stjórnarskrár, nr. 33/1944 og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálans).

Í bréfi kærenda, dags. 23. ágúst sl. segir að barnið C hafi verið greint með hreyfiþroskahömlun árið 2007 en hafi ekki getað fengið endurmat eftir þann tíma þrátt fyrir að hafa hrakað verulega að þeirra mati.  Í gögnum málsins liggja m.a. fyrir læknisvottorð heila- og taugasjúkdómalæknis, dags. 20. mars sl., athugun skólasálfræðings við Z, dags. 26. maí 2011, sálfræðilegt mat frá maí 2011, auk eldri greininga frá 2007.

Málsástæður sérskólans Y:

Greinargerð borgarlögmanns f.h. Y barst ráðuneytinu 13. júlí sl. Í bréfi borgarlögmanns Reykjavíkurborgar, dags. 12. júlí 2012, er gerð almenn grein fyrir skyldum sveitarfélaga hvað varðar sérúrræði innan grunnskóla og sérskóla og færð rök fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Borgarlögmaður vísar til þess að markmið laga um grunnskóla sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og að grunnskóli skuli leitast við að haga störfum sínum í samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.  Í 17. gr. laganna sé fjallað um nemendur með sérþarfir og þar komi fram í 1. mgr. að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgerfis.  Þá komi fram í 2. mgr. sömu greinar að nemendur sem eigi erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir, eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.   Borgarlögmaður leggur áherslu á að meginmarkmið laga um grunnskóla sé að tryggja nemendum nám við hæfi innan almenns grunnskóla án aðgreiningar með eða án sérúrræða.  Nám í sérskóla sé undantekning og eigi aðeins við um þá nemendur sem ekki er unnt að veita viðunandi þjónustu með öðrum hætti.  Innan grunnskóla Reykjavíkurborgar séu starfrækt hin ýmsu sérúrræði fyrir nemendur.  Öllum þessum úrræðum sé ætlað að veita nemendum sérhæft umhverfi til náms í lengri eða skemmri tíma.  Borgarlögmaður vísar til þess að í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010, sé fjallað um skipulag sérúrræða innan grunnskóla og sérskóla.  Í 4. gr. reglugerðarinnar komi skýrt fram það meginmarkmið grunnskólalaga að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við náms- og félagsþarfir þeirra í skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgerfis.  Þá komi fram í 6. gr. reglugerðarinnar að skólastjóra beri að bregðast við og skipuleggja stuðning í námi fyrir nemendur sem hafi sérþarfir. Einnig komi fram í 8. gr. reglugerðarinnar að stuðningur við nemendur eða nemendahópa felist í sveigjanlegu og margbreytilegu námsumhverfi og kennsluháttum sem ætlað sé að mæta þörfum allra nemenda og að við skipulagningu stuðnings við einstaka nemendur eða nemendahópa skuli stuðla að því að hann fari fram innan skólans án aðgreiningar.  Í 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar komi fram að sveitarfélög sem reki sérskóla skuli setja reglur um innritun nemenda. Reykjavíkurborg starfræki þannig sérskólann Y, sem sé skóli fyrir nemendur í 1.-10. bekk með miðlungs, alvarlega eða djúpa þroskahömlun.  Þar að auki sé hann fyrir nemendur með væga þroskahömlun og viðbótarfötlun, t.d. einhverfu, hreyfihömlun og blindu.  Í 2. mgr. 21. gr. reglugerðinnar komi fram að sveitarfélög sem reki sérskóla skuli setja reglur um innritun nemenda.  Með gildistöku laga um grunnskóla, nr. 91/2008, hafi fallið úr gildi ákvæði þess efnis að starfsreglur vegna sérskóla og sérdeilda skóla þyrftu staðfestingu menntamálaráðuneytis.  Lögin staðfesti að sveitarfélög ákvarði starfsreglur sérskóla og sérdeilda  án afskipta ráðuneytisins.  Í ljósi meginreglu laganna verði það að heyra til undantekninga að einstökum nemendum sé veitt skólavist í sérskóla þegar annað nám eða kennsluhættir hæfi  þörfum eða hag nemenda.  Umsóknir um skólavist eru teknar til umfjöllunar á fundum inntökuteymis Y.  Í teyminu eigi sæti skólastjórnendur, félagsráðgjafi og sérfræðingur skólans auk fulltrúa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á sviði sérkennslumála.  Teymið sé því skipað sérfróðum einstaklingum á sviði fötlunar og skólamála. Í innritunarreglum Y sem settar hafa verið á grundvelli 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar komi fram að við mat á umsóknum skuli taka mið af eftirfarandi atriðum þegar ákveðið sé hvort barn með þroskahömlun fái inngöngu í skólann:

1. Fyrirliggjandi greiningu á fötlun nemandans frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
2. Möguleikum skólans til að veita viðkomandi nemanda námstilboð við hans hæfi.
3. Lögum um grunnskóla og reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.
4. Óskum foreldra.
5. Sýnt hafi verið fram á að viðkomandi hverfisskóla/heimaskóla sé ekki unnt að veita nemandanum viðunandi námsskilyrði.

Í máli C hafi niðurstaða inntökufundar verið sú að synja bæri barninu um skólavist í Y þar sem C væri með væga þroskahömlun án viðbótarfötlunar og uppfyllti þ.a.l. ekki inntökuskilyrði skólans.  C hafi ekki skilgreinda fötlun skv. lögum um málefni fatlaðs fólks, þótt C hafi hreyfiþroskaröskun og ofvirkniröskun umfram væga þroskahömlun.  Umræddar raskanir teljist ekki til fötlunar í skilningi laga nr. 59/1992.  Það sé afstaða þeirra sérfræðinga sem sæti eigi í inntökuteymi Y að C eigi ekki samleið með nemendum Y og því starfi sem þar sé unnið og það þjóni ekki hagsmunum barnsins, þrátt fyrir óskir kærenda, að stunda nám við Y með nemendum sem séu umtalsvert frá því hvað þroska og fötlun varði.   

Í bréfi borgarlögmanns kemur fram sú afstaða að Reykjavíkurborg leitist við að reka grunnskóla í fullu samræmi við ákvæði laga um grunnskóla og þær reglur sem settar hafi verið á grundvelli þeirra laga með það að markmiði að tryggja öllum nemendum nám við sitt hæfi án aðgreiningar, sbr. þær skyldur sem hvíla á íslenska ríkinu m.a. á grundvelli 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, um að öllum skuli tryggður með lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi og sbr. einnig 7. gr. laga um réttindi fatlaðs fólks. Það sé álit borgarlögmanns að þær reglur sem settar hafi verið um innritun nemenda í Y séu í fullu samræmi við nefnd lög og reglur.  Reykjavíkurborg starfi á grundvelli þeirra laga sem löggjafinn setji og sé það hlutverk löggjafans að tryggja að löggjöf sé í samræmi við stjórnarskrá og þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, t.a.m. með fullgildingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í viðbótargreinargerð borgarlögmanns, dags. 21. september sl., voru ítrekaðar framangreindar málsástæður en ein ný málsástæða tilgreind til viðbótar er varða skyldur sveitarfélags X sem lögheimilissveitarfélags C. Áhersla var lögð á að þar sem lögheimili C væri í X væri það skylda þess sveitarfélags að tryggja þeim nemendum sem ekki fengju skólavist í sérskóla Reykjavíkurborgar, á grundvelli samnings milli sveitarfélaganna, viðunandi úrræði innan almennra grunnskóla X með það að markmiði að koma til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis þeirra.


Rökstuðningur niðurstöðu


I.
Í máli þessu er deilt um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og þeirra forsendna sem hún byggist á. Deilt er um hvort inntökuskilyrði Y stangist á við grunnskólalög, reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, lög um málefni fatlaðs fólks, mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  

Í 1. mgr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er kveðið á um jafnan rétt barna til að njóta menntunar.  Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 1992.  Samningurinn hefur því formlegt skuldbindingargildi að þjóðarétti.

Í 1. mgr. 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um réttindi fatlaðs fólks til menntunar án mismununar og skyldu aðildarríkja samningsins til að koma á fót menntakerfi sem veitir öllum jöfn tækifæri á öllum skólastigum án aðgreiningar.  Samningurinn hefur ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu en var undirritaður af hálfu landsins þann 30. mars 2007.  Í 2. mgr. 24. gr. samningsins er í a) lið kveðið á um skyldu til að fatlað fólk sé ekki útilokað frá hinu almenna menntakerfi vegna fötlunar. Í c) lið sömu málsgreinar er mælt fyrir um skyldu til að mæta einstaklingum með aðlögun að þörfum hans. Í d) lið sömu málsgreinar er mælt fyrir um skyldu til að sjá til þess að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan hins almenna menntakerfis. Í e) lið sömu málsgreinar er mælt fyrir um skyldu aðildarríkja samningsins til að sjá til þess að fötluðum bjóðist stuðningur til framvindu í námi og félagslegrar þróunar, þannig að þeir geti lifað í samfélagi án aðgreiningar.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um grunnskóla er rekstur sérskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Ennfremur kemur fram í sama lagaákvæði að hvert sveitarfélag beri ábyrgð á heildarskipan skólahalds í þeim grunnskólum sem reknir eru innan sveitarfélagsins, þ.m.t. þróun einstakra skóla, sérúrræða grunnskóla og sérfræðiþjónustu. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna bera sveitarfélög fræðsluskyldu gagnvart þeim börnum á skólaskyldualdri sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu. Í 13. gr. grunnskólalaga er kveðið á um rétt allra grunnskólanemenda til kennslu við sitt hæfi. Eins og fram kemur í 1. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla eiga nemendur með sérþarfir rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, eru færð fram þau rök fyrir lögfestingu meginstefnu laganna að skóli sé án aðgreiningar og veiti öllum börnum þjónustu óháð uppruna, tungumáli, heilsu eða fötlun, að það sé í samræmi við Salamanca-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og stefnu sem hafi verið ríkjandi hér á landi undanfarin ár. Í frumvarpinu segir að í stefnunni felist að skóli sé með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða og að gert sé ráð fyrir að hver skóli sé fær um að sinna öllum nemendum sínum, svo sem kostur sé, og taki á sérkennsluþörfum og erfiðleikum sem upp kunni að koma í skólanum með viðeigandi stuðningi. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010, er lögð áhersla á að skólaskyld börn fái sérstakan stuðning í samræmi við metnar sérþarfir þeirra og að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í almennum skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Í því felst að nemendur eiga rétt á að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska og þeim veitt aðstoð, þar sem tekið er tillit til sérþarfa þeirra og aldurs, að nemendur geti nýtt sér viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmál, blindraletur og viðeigandi tækjabúnað, fengið aðlöguð námsgögn, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfsstyrkingu og félagsþroska. Í 4. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla kemur fram að ef foreldrar, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar telji að barn fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla geti foreldrar sótt um skólavist fyrir barnið í sérúrræði innan grunnskóla eða sérskóla, sbr. 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 585/2010. Með sérúrræði er hér átt við skólavist sem kallar á málsmeðferð skv. V. og VI. kafla reglugerðarinnar, þ.e. í sérdeildum sem reknar eru innan tiltekinna grunnskóla, skólavist í sérskóla þar sem slíkt úrræði er til staðar og sjúkrakennslu. Í 42. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sveitarfélag ákveði fyrirkomulag þjónustu við nemendur með sérþarfir og geti stofnað sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla á vegum sveitarfélagsins þegar almennt nám og kennsluhættir hæfi ekki þörfum eða hag nemenda. Í 13. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sveitarstjórn, þar sem barn á lögheimili, geti samið við annað sveitarfélag, sem reki sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla, um að það veiti barni skólavist, óski foreldrar þess. Sé slíkur samningur gerður á milli sveitarfélaga um skólavist barns utan lögheimilissveitarfélags, beri viðtökusveitarfélagið sömu skyldur um skólavist þess og ef það ætti þar lögheimili. Um skyldur Reykjavíkurborgar til að reka sérskóla á grunnskólastigi fyrir grunnskólanemendur í öðrum sveitarfélögum er fjallað í samningi Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 3. september sl. Gildistaka samningsins var miðuð við 1. janúar 2012 og eiga ákvæði samningsins því við í máli þessu.  Í 2. gr. samningsins kemur fram að grunnskólanemendur sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum skuli eiga kost á skólavist í sérskólum og sérdeildum á vegum Reykjavíkurborgar, enda greiði viðkomandi sveitarfélög allan kostnað við skólagöngu þeirra. Fram kemur að sérstakt samkomulag skuli gert um skólavist slíkra nemenda. Samningurinn er gerður á grundvelli b-liðar, 4. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 351/2002, með áorðnum breytingum og greiðir Jöfnunarsjóður árlegt framlag til Reykjavíkurborgar, alls að fjárhæð 898 m.kr., vegna rekstrar þeirra sérskóla og sérdeilda sem falla undir samninginn. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga framlag til sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri. Stuðningur Jöfnunarsjóðs samkvæmt þessari grein er skilyrtur við að nemandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu og hafi verið metinn fatlaður af Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, barna- og unglingageðdeild Landsspítalans, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eða Sjónstöð Íslands. Það er jafnframt skilyrði að fötlunin falli undir viðmiðun Jöfnunarsjóðs er kalli á verulega og langvinna sérkennslu og/eða sérúrræði. Fyrir nemendur með sérþarfir greiðist aukinn kostnaður af skólagöngu barns af lögheimilissveitarfélagi í samræmi við 18. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010.

Af gögnum málsins verður ráðið að ósk um inntöku C í Y hafi ekki verið borin fram með þeim hætti sem mælt er fyrir um í áðurnefndri 13. gr. reglugerðar nr. 585/2010.  Samkvæmt því ákvæði er það hlutverk X að leita eftir samningi við Reykjavíkurborg um skólagöngu nemanda með lögheimili í X í Y. Ekki verður séð að Reykjavíkurborg sé skuldbundin til að veita slíkum nemanda skólavist fyrr en gerður hefur verið samningur á milli sveitarfélaganna þar um. Í samræmi við ákvæði 13. gr. reglugerðarinnar hefðu kærendur átt að beina ósk sinni um skólavist í Y að X sem hefði í kjölfarið leitað eftir samningi við Reykjavíkurborg um skólagöngu barnsins í Y, væri það mat menntasviðs X að Z eða aðrir almennir grunnskólar X væru ekki færir um að veita barninu viðeigandi þjónustu og þjálfun.

Eins og rakið er hér að framan þótti ráðuneytinu ástæða til að afla umsagnar menntasviðs X um skólagöngu C og þau úrræði sem barninu stæðu til boða í almennum grunnskólum sveitarfélagsins. Í svari X, dags. 12. september sl., kemur fram að Z leitist við að sinna þörfum C eins vel og kostur er.  Barnið fái mikinn stuðning í námi og tekið sé tillit til þroskafrávika þess eins og kostur sé. C hafi sérstaka námskrá og þroskaþjálfi fylgi barninu eftir í allar námsgreinar, að undanskildum íþróttum.  Barnið hafi í framhaldi tekið framförum í íslensku og stærðfræði.  Þá sé áætlað að barnið fái þjálfun í félagsfærni í skólanum.  Í bréfinu kemur fram að á yfirstandandi skólaári standi C til boða að koma tvisvar í tvo mánuði í senn í sérúrræði á vegum X en með dvöl þar verði stefnt að því að bæta líðan barnsins, hvíla það á álagi í skóla ásamt því að viðhalda því námi sem farið hafi fram í Z. Í umsögn X er á hinn bóginn ekki tekin afstaða til þess hvort fræðsluyfirvöld telji ástæðu til þess að leita eftir samningi við Reykjavíkurborg um skólagöngu C í Y í Reykjavík, í samræmi við 13. gr. reglugerðar nr. 585/2010.

Í kærunni er á því byggt að við töku ákvörðunar um synjun skólavistar hafi ekki verið gætt að málsmeðferðarreglum 21. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.  Í 2. mgr. 21. gr. komi fram að synjun um skólavist skuli vera rökstudd ítarlega þar sem afstaða sé tekin til allra þeirra sjónarmiða sem færð hafi verið fram í málinu og hvernig þau varði heildarhagsmuni barnsins.  Í bréfi borgarlögmanns frá 12. júlí sl. er tekið undir þessi sjónarmið kærenda en tekið fram að gögn málsins hafi þó gefið skýrt til kynna forsendur hinnar kærðu ákvörðunar með óyggjandi hætti.  Þá kemur fram í bréfi borgarlögmanns að málið hafi orðið tilefni til þess að endurskoða málsmeðferðarreglur sem gildi um synjun skólavistar í sérskóla til að tryggja að þær verði í samræmi við stjórnsýslulög.

II.
Samkvæmt umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 12. júlí sl., var það niðurstaða inntökunefndar Y eins og áður segir að synja bæri C um skólavist í Y þar sem C væri með væga þroskahömlun án viðbótarfötlunar.  C uppfyllti þ.a.l. ekki inntökuskilyrði skólans um að þeir nemendur sem hafa væga þroskahömlun, þ.e. ekki miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun, þurfa einnig að hafa skilgreinda fötlun til viðbótar.  Að mati ráðuneytisins eiga innritunarreglur skólans lagastoð í 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 585/2010 og teljast málefnalegar miðað við þann fjárhags- og lagagrundvöll fyrir rekstur Reykjavíkurborgar á sérskólum á grunnskólastigi sem lýst hefur verið hér að framan.

III.
Hin kærða ákvörðun í máli þessu var í upphafi haldin ýmsum annmörkum eins og rakið er hér að framan. Ákvörðunin var ekki rökstudd með þeim hætti sem áskilið er í 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 585/2010. Úr því hefur hins vegar verið bætt með ítarlegri greinargerð borgarlögmanns, ásamt fylgigögnum.  Afgreiðsla beiðni kærenda um skólavist fyrir C var ekki með þeim hætti sem áskilið er í 13. gr. sömu reglugerðar.  Samkvæmt gögnum málsins hefur sveitarfélag X ekki leitað eftir samningi við Reykjavíkurborg um skólagöngu C í Y.

Framangreindir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun og undirbúningi hennar teljast þó ekki vera þess eðlis að þeir leiði til ógildingar hennar.  Almennt verður að líta svo á að frávik frá formreglum leiði ekki til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar ef ákvörðunin er efnislega rétt og í samræmi við lögmætisreglu.  Ákvörðunin var tekin af þar til bærum aðilum, á grundvelli þeirra gagna sem skylt er að byggja á, sem aðilar höfðu aðgang að og eftir ákvæðum laga um grunnskóla og þeim reglum sem settar hafi verið á grundvelli þeirra laga.

Þegar litið er til allra málsástæðna samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri þá ákvörðun skólastjóra Y að hafna umsókn C um skólavist í Y á þeim grundvelli að hann uppfylli ekki reglur um innritun í skólann eins og áður er rakið, sbr. úrskurðarorð.

Úrskurðarorð


Ákvörðun skólastjóra Y um synjun á umsókn skólavist C í Y er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum