Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Nr. 368/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 368/2018

Mánudaginn 10. desember 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. september 2018, um að synja umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. september 2018, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hans X 2018. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. september 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um fullt nám á vorönn 2018 væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2018. Með bréfi, dags. 15. október 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 19. október 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. október 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 6. nóvember 2018 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs samræmist ekki lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og krefst þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna. Kærandi tekur fram að hann eigi við námsörðugleika að stríða og að námsráðgjafi hafi ráðlagt honum að stunda ekki fullt nám á vorönn 2018. Afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs sé óréttlát og með kröfunni um 75-100% nám sé verið að mismuna einstaklingum sem eigi við námsörðugleika að stríða en þeir leggi jafn hart að sér og þeir nemendur sem ekki eigi við einhvers konar frávik að etja og valdi erfiðleikum í námi. Kærandi hafi talið sig vera í fullu námi samkvæmt getu, hafi lagt hart að sér og farið eftir ráðgjöf skólans. Á vorönn 2018 hafi hann álitið að um rétta ákvörðun væri að ræða, enda hafi hann náð öllum áföngum sem hann hafi verið skráður í. Á þeirri stundu hafi hann ekki vitað að hann yrði faðir X mánuðum síðar.

Kærandi telur sanngjarnt að tekið verði tillit til 19. gr. laga nr. 95/2000 þar sem fram komi að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Kærandi sé skráður í 28 feiningar á haustönn 2018 og óskar því eftir, verði hann ekki talinn uppfylla kröfu um námsframvindu á vorönn, að tekið verði tillit til ástundunar náms á haustönn 2018 í staðinn með vísan til framangreindra ástæðna.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann sé ósammála þeirri fullyrðingu sjóðsins að almennt telji heilt skólaár tvær annir og hvor önn um sig nái ekki sex mánuðum. Að mati kæranda sé því röng sú túlkun sjóðsins að námsárangur hans á þeirri skólaönn sem barnið hafi fæðst, nái ekki sex mánuðum. Skólaárið sé níu mánuðir samkvæmt skóladagatali B og þar af sé jólafrí um hálfur mánuður. Kærandi telur að hann hafi staðist fullt nám samkvæmt námsgetu og ráðleggingum skólans á vorönn 2018 og sé skráður í 28 feiningar á haustönn 2018 eða 93% nám samkvæmt skilgreiningu Fæðingarorlofssjóðs. Hann uppfylli því skilyrði um námsárangur til þess að fá fæðingarstyrk námsmanna, ellegar sé verið að mismuna námsmönnum með skerta námsgetu sem fari að ráðum sérmenntaðs starfsfólks skólans í námsráðgjöf.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst X 2018. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé því horft til tímabilsins frá X 2017 fram að fæðingardegi þess. Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá B komi fram að kærandi hafi lokið 8 einingum og 2 feiningum á haustönn 2017 sem jafngildi 15 feininga námi. Á vorönn 2018 hafi kærandi lokið 7 einingum og 5 feiningum sem jafngildi 17 feininga námi og á haustönn 2018 sé kærandi skráður í 28 feininga nám, sbr. bréf frá B, dags. 9. október 2018. Þá liggi fyrir bréf frá sama skóla, dags. 20. september 2018, þar sem fram komi að kærandi eigi við námserfiðleika að stríða. Af þeim sökum hafi honum verið ráðlagt að stunda ekki 100% nám.

Á framhaldsskólastigi jafngildi 30 feiningar á önn 100% námi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, og því teljist 22–30 feiningar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda uppfylli hann ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem kærandi hafi hvorki staðist kröfur um námsframvindu á haustönn 2017 né vorönn 2018. Þá falli haustönn 2018 undir undanþágu 5. málsl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 þar sem segi að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist en sá tími nái engu að síður ekki sex mánuðum og hafi því ekki áhrif á úrlausn þessa máls.

Í gögnum málsins liggi fyrir staðfesting þess efnis að kærandi eigi við námserfiðleika að stríða og af þeim sökum hafi honum verið ráðlagt að stunda ekki 100% nám. Þá sé að finna í kæru lýsingu á aðstæðum sem séu til þess fallnar að geta haft áhrif á námsframvindu og ástundun náms kæranda. Í lögum nr. 95/2000 og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Þar sé hins vegar ekki að finna neina undanþágu sem heimili að vikið sé frá skilyrðinu um fullt nám vegna framangreindra aðstæðna hjá kæranda. Með vísan til þess telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk, sbr. greiðsluáætlun frá 18. október 2018.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 60 framhaldsskólaeiningar á ári (feiningar)  eða 30 feiningar á önn vera 100% nám við framhaldsskóla, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, og fullt nám í skilningi laga nr. 95/2000 því 22–30 feiningar á önn.

Barn kæranda fæddist X 2018. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2017 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við B og lauk 15 feiningum á haustönn 2017 og 17 feiningum á vorönn 2018 sem telst ekki vera fullt nám, sbr. það sem að framan greinir. Kærandi er skráður í 28 feiningar á haustönn 2018 sem telur frá 20. ágúst 2018 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi var því einungis í fullu námi í tæplega einn og hálfan mánuð. Að öllu framangreindu virtu þykir ljóst að kærandi fullnægði ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Engin heimild er fyrir hendi, hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til þeirra aðstæðna kæranda sem vísað er til í kæru.

Kærandi hefur vísað til þess að synjun Fæðingarorlofssjóðs um að greiða honum fæðingarstyrk námsmanna feli í sér að námsmönnum með skerta námsgetu sé mismunað með því að gera kröfu um 75-100% námsárangur. Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Ákvæði laga nr. 95/2000 um námsframvindu eru fortakslaus og því ber Fæðingarorlofssjóði að leggja þau til grundvallar við úrlausn mála. Að mati úrskurðarnefndarinnar bendir ekkert til annars en að sambærileg mál hljóti sambærilega úrlausn hjá Fæðingarorlofssjóði. Þá fjallar úrskurðarnefndin ekki um hvort lög brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár, eins og jafnræðisreglu 65. gr. hennar, en einungis sé á færi dómstóla að skera úr um slíkt.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. september 2018, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum